15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég tel rétt að fara örfáum orðum um frv. Það, sem hér er verið að ræða, ekki kannske sízt fyrir það, að ég hygg, að ég muni vera eini þm. í þessari hv. d., sem er starfandi lögmaður, og frv. Þetta varðar þá stétt talsvert.

Ég vil strax í upphafi mótmæla því, sem mér fannst koma fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að frv. sem þetta varðaði Lögmannafélag Íslands ekkert umfram önnur félög í landinu. Þetta er að sjálfsögðu mikill misskilningur, því að einmitt þau aukastörf, sem þeir aðilar, er frv. Þetta tekur til, hafa unnið á undanförnum árum, ganga beint inn á verksvið starfandi lögmanna. Ég vil líka, að það komi hér fram, fyrst ég á annað borð fór í ræðustólinn, að um afstöðu lögmanna til þessa frv. er alger einhugur, og kom það vel fram á seinasta aðalfundi Lögmannafélagsins, sem ég hygg að hv. 11. landsk. þm. hafi lítillega komið inn á í ræðu sinni áðan.

Mér sýnist, að það sé aðallega tvennt, sem menn verða að gera upp við sig, þegar þeir taka afstöðu til þessa frv. Það er í fyrra lagi, hvort rétt sé að taka þann hóp opinberra starfsmanna, sem frv. þetta tekur til, út úr, banna þeim að sinna þessum aukastörfum umfram aðra opinbera starfsmenn, sem engin launung er á að hafa drýgt tekjur sínar á undanförnum árum með allverulegri aukavinnu. Það hefur komið hér fram í ræðum m.a. hæstv. dómsmrh. og raunar frsm. meiri hl. hv. allshn., að það væri óeðlilegt að taka út úr nokkra aðila og banna þeim að sinna aukastörfum. Ég tel hins vegar, að það sé tvennt, sem geri það eðlilegt, að þetta sé gert nú. Í fyrra lagi er, eins og hv. 3. Þm. Reykv. kom inn á, að dómarar hafa nokkra sérstöðu í starfsmannahóp ríkisins, og að það er mikilvægara, að þeir þurfi ekki að vera fjárhagslega háðir aukastörfum í sambandi við störf sín. Þetta atriði, að losa þá undan fjárhagsáhyggjum, á að tryggja almennt réttaröryggi í landinu, sem við að sjálfsögðu getum ekki verið ósammála um að æskilegt sé að gera. En svo er önnur ástæða, sem kemur til. Þetta frv. er flutt fyrst og fremst, að því er mér sýnist, til þess að gera mögulega nokkra launahækkun hjá umgetnum mönnum, þ.e.a.s. fulltrúum hjá borgardómara, hjá sakadómara og hjá borgarfógetanum í Reykjavík. Ef ástæða er til þess að taka þennan hóp fulltrúa út úr og hækka við þá laun umfram aðra opinbera starfsmenn, tel ég ekki óeðlilegt að auka jafnframt nokkuð á skyldur þeirra. Ég tel ekki óeðlilegt, að þar sem með frv. þessu er verið að hækka við þessa menn föst laun, að þá sé það réttlætanlegt að banna þeim að gegna aukastörfum jafnframt sínu fasta starfi. Ég fyrir mitt leyti tel því brtt. þá, sem hv. 11. landsk. þm. hefur flutt, sanngjarna og eðlilega, miðað við það, hvernig málið liggur fyrir. Ræðumenn, sem hér hafa talað, virðast allir vera sammála um, að mjög sé óæskilegt, að opinberir starfsmenn, sérstaklega þeir, sem langskólanám hafa stundað, þurfi að vera sér mjög úti um alls kyns aukatekjur fyrir utan aðalembættisstörf sin. Þetta er rétt og þyrfti að laga og það sem fyrst. Ég er ekki alveg viss um, að talsverð launahækkun hjá opinberum starfsmönnum, a.m.k. nokkrum hóp þeirra, þyrfti að kosta ríkissjóðinn svo mjög mikið, ef jafnframt væri ekki verið að borga þessum mönnum laun fyrir alls kyns aukastörf, sem þeir gegna jafnframt sínum föstu störfum.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en ég tel, og það er það aðallega, sem ég vildi láta hér fram koma, úr því að á sérstaklega að taka þessa dómarafulltrúa út úr og hækka við þá laun umfram aðra opinbera starfsmenn, að þá sé ekki óeðlilegt að binda þessa launahækkun því skilyrði, að þeim sé óheimilt að stunda aukastörf framvegis jafnframt sínum aðalstörfum.