24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur engu svarað enn þá um það, sem ég fór fram á við hann áðan. Mér þykir það mjög slæmt, sérstaklega ef yrði nú farið að skera niður umræðurnar, þá hefði ég ekki neitt tækifæri til að ræða ofur lítið betur við hann um það, sem ég fór fram á við hann og sýndi honum fram á, hvaða aðstöðu hann hefði til þess að gefa þarna mjög góða yfirlýsingu. Hins vegar hefur hæstv. forsrh. nú komið honum til liðveizlu, sem ekki veitti af, og byrjar nú með því að gefa það í skyn, að vafalaust hljóti ég og hv. formaður þingflokks okkar, hv. 4 þm. Austf., að fylgjast svo vel með blaðinu, að við hlytum nú að vita um allt, sem í því kæmi, og allar þess heimildir.

Ég veit, að hæstv. forsrh. var líka einu sinni ritstjóri við aðalblað þess flokks, eins og ég var við míns flokks, en ég held nú varla, að hann fylgist alveg með því, sem gerist daglega í Morgunblaðinu, eða stjórni því, sem þar er skrifað. A.m.k. höfum við nú öðru hverju fengið að heyra það í sambandi við þær deilur, sem uppi hafa verið, að ekki hafi það allt verið skoðun Sjálfstfl., sem þar hefur komið. Hvað Þjóðviljann snertir, þá setur hann fram, eins og blaðamönnum er rétt og eins og blaðamönnum er heimilt, þær hugmyndir, sem hann veit beztar og réttastar á hverjum tíma, og þegar hann heldur, að einhver hætta sé á ferðum, og ef hann hefur einhver sambönd til að geta fengið að vita slíkar fréttir, þá setur hann þær fram. Og ég vil minna hæstv. forsrh. á, að þegar hann var dómsmrh., þá kom alllengi fyrir, að það voru settar fram fréttir í Þjóðviljanum, sem var básúnað út að væru álygar og allt hvað eina, það voru afhjúpuð hér hvers konar ill verk, sem framin höfðu verið á fjármálalegu sviði. Það gekk svo meira að segja vikum og mánuðum saman, og þessu var alltaf þverneitað. Og hvað gerist svo á endanum? Á endanum gerist það, að sjálfur hæstv. núv. forsrh. verður sjálfur að láta höfða rannsóknir út af þessum málum. Ég hafði satt að segja ekki heldur þá hugmynd um, hvaða uppsprettur Þjóðviljinn hafði fyrir því, sem hann kom fram með. En það hefur verið svo, bæði þegar ég hafði sjálfur með hann að gera sem ritstjóri og siðan, að hann hefur verið fundvís á, hvað hafi verið að gerast, og það er nú einu sinni réttur blaðamannanna og raunverulega skylda þeirra að reyna að segja frá slíku. Og það er ekki heldur hægt að heimta af þeim, enda ekki þeirra siður, að þeir gefi upp aliar þær heimildir, sem þeir hafa í slíku sambandi. Það er eitt af því, sem fylgir með blaðafrelsinu. Þess vegna vil ég segja það, að það skyldi engum þykja vænna um það en mér, að þetta væri allt saman ósatt, ekki vegna Finna endilega, þó að það kynni að vera gott fyrir þá, eins og hæstv. forsrh. segir, heldur fyrst og fremst vegna okkar Íslendinga, að við ættum ekki þetta yfir höfði okkar. Og það erum fyrst og fremst við, sem ég er að hugsa um, og þess vegna höfum við gefið hæstv. ríkisstj. þetta tækifæri nú til að gefa slíka yfirlýsingu, að ekkert slíkt þyrftum við að óttast, og ef þeim finnst, að þeir flokkar, sem nú fari með völd, hafi ekki vald til þessa og það þýði lítið gagnvart Krúsjeff, eins og þeir segja, til að hjálpa Finnum, að þeir væru að gera slíka yfirlýsingu, þá held ég, að hinir flokkarnir, sem þeir eru alltaf að kenna við kommúnismann og Krúsjeff, Framsfl. og Alþb., ég held, að það mundi varla standa á þeim flokkum að gefa yfirlýsingu með þeim, svo að það væri ein allsherjar samfylking um, að Krúsjeff þyrfti ekkert að vera hræddur. (Forsrh.: Hefur hv. þm. umboðið frá Framsókn upp á vasann?) Nei, en ég var að segja, að mér fyndist það ekki ólíklegt, eins mikið og hún er kennd við Krúsjeff og kommúnisma nú af Morgunblaðinu, að hún mundi fást til að gefa þá yfirlýsingu, að hún mundi ekki heldur, þó að hún ætti eftir að taka völd hér á Íslandi, ljá máls á því, að Vestur-Þjóðverjar fengju hér herstöðvar. Hæstv. forsrh, getur spurt formann þingflokks Framsfl. að því, hvort hann mundi ekki vera fáanlegur til að gefa slíka yfirlýsingu, þannig að þótt hæstv. stjórnarflokkar óttist, að þeirra völd mundu ekki duga lengur en til næstu kosninga og þeir yrðu þá komnir í hverfandi minni hluta á Íslandi og hefðu Þess vegna ekkert lengur að segja, þá eru það þó líklega hinir flokkarnir, sem væru í meiri hluta, og þeir væru þá skuldbundnir til þess að standa við þá yfirlýsingu, svo að Krúsjeff og vinir vorir, Finnar, gætu þá verið alveg öruggir.

Ég sé ekki betur en gagnvart Þjóðviljanum í fyrsta lagi, til þess að reka allt ofan í hann, gagnvart í öðru lagi að hjálpa Finnum, gagnvart í þriðja lagi því að róa taugar Krúsjeffs, ef hann er svona hræddur við æfingastöðvar á Íslandi, eins og þeir segja, þá sé ég ekki annað en við höfum einmitt núna tækifærið, allir fjórir flokkarnir, að gefa yfirlýsingu um, að það muni ekki koma til neinna mála, að við ljáum æfingastöðvar né herstöðvar fyrir Vestur-Þjóðverja hér á Íslandi. Þá erum við búnir að hrekja þetta. (Forsrh.: En er Krúsjeff kannske ekkert hræddur?) Ég veit það ekki.

Ég skal nú reyna að setja mig í fótspor Krúsjeffs og hugsa ofur lítið skynsamlega um þetta. Ef ég væri í fótsporum Krúsjeffs og sæi herstöðvar bæði í Frakklandi og Skotlandi, sem Vestur-Þjóðverjar hefðu, Þá mundi ég, þótt ekki sé ég nú mikill herfræðingur, þó vera ofur lítið hræddari við þær herstöðvar en þær, sem Vestur-Þjóðverjar kynnu að fara fram á, t.d. æfingastöðvar á Íslandi, eða hvað finnst mönnum frá almennu landfræðilegu og hernaðarlegu sjónarmiði séð? Ef Krúsjeff hefur ekkert að óttast frá öllum fallbyssum Bandaríkjanna, hvar sem þær eru hringinn í kringum öll Sovétríkin á jörðinni, ef þær eru allar orðnar svona saklausar og allar þeirra eldflaugar og annað slíkt og Það eru bara Vestur-Þjóðverjar, sem þeir óttast, er þá ekki Skotland a.m.k. eitthvað nær honum og Frakkland heldur en Ísland? Ætli það bæti nokkuð á ótta hans?

Ég fæ ekki skilið annað en hæstv, ríkisstj. sé með þessu, sem þeir hafa verið að tala hérna, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., þeir séu að reyna að blása ofur lítið upp þá mjög alvarlegu viðvörunarfrétt, sem komið hefur í Þjóðviljanum, en fást ómögulega til að neita henni, neita henni algerlega með því einu, sem eitthvert mark er takandi á, yfirlýsingu ríkisstj. og hennar flokka, jafnvel studdri af flokkum stjórnarandstöðunnar, um, að það komi yfirleitt aldrei til mála, að við förum að ljá Vestur-Þjóðverjum hér æfingastöðvar á Íslandi. Ég verð að minna hæstv. ráðh. á það, að ég er búinn að standa í því hérna að fá yfirlýsingar, hverja á fætur annarri, að hér verði engar herstöðvar veittar, yfirlýsingar 1946 um, að aldrei verði veittar hér herstöðvar, þegar við göngum inn í Sameinuðu þjóðirnar, yfirlýsingar 1949, þegar gengið er í Atlantshafsbandalagið, um, að það þyrfti ekki að ræða um þetta bandalag, ef það væri verið að tala um að setja upp herstöðvar hér á Íslandi. Ég verð að biðja þessa hv. þm. að athuga, að menn eru orðnir nokkuð varkárir, þegar slíkar yfirlýsingar liggja fyrir og eru svo sviknar rétt á eftir. Og ég verð að segja það, að ég gerði ekkert voðalega mikið með þessa fregn Þjóðviljans í morgun. Mér fannst mjög skynsamlegt af honum, ef hann hefði einhvern grun um þetta, að slá þessu upp, þannig að það yrði tekið eftir því. En ég fer fyrst að verða alvarlega hræddur, þegar ég hlusta á hæstv. forsrh. og utanrrh:, að þeir skuli ekki fást til að gefa yfirlýsingar um þetta, því að það verð ég að segja, sérstaklega hvað hæstv. forsrh. snertir, að ef hann gæfi yfirlýsingu hérna — (Forsrh.: Hv. þm., er þá einhver grunur sama og örugg vitneskja?) Ég veit ekki, á hverju Þjóðviljinn byggir þetta. Er. eftir allri reynslu 24 ára að dæma um þessi mál, þá hefur sá grunur, sem Þjóðviljinn hefur haft, alltaf reynzt vera örugg vitneskja á eftir. Það veit hæstv. forsrh. En sem sé, ef hæstv. forsrh. sérstaklega vill gefa svona yfirlýsingu, og ég tala nú ekki um, ef stjórnarandstöðuflokkarnir taka síðan undir hana, þá held ég, að það væri brott numinn þessi ótti, sem skapazt hefur á vissum stöðum með frétt Þjóðviljans í morgun.

Viðvíkjandi æfingastöðvunum og því, sem hæstv. forsrh. minntist á, þá er alveg rétt, að Sovétríkin höfðu í stríðslok herstöðvar bæði í Finnlandi og Noregi og Danmörku og yfirgáfu allar þær herstöðvar. Bandaríkin höfðu hersetuaðstöðu hér og héldu þeim herstöðvum, neituðu að fara burt. Ef við eigum að fara út í almennar umr. um öll þessi mál, þá lítur það þess vegna ekkert vel út. Jæja, ég vil ekki vera að reyna á þolgæði hæstv. forseta, en ég vil segja það, að þegar mál eins og þessi koma til umr. hér á Alþingi, þá vil ég mælast til þess af hæstv. ríkisstj., að nú útbúi hún yfirlýsingu og leggi hana fyrir Alþingi og allir flokkarnir hér fái síðan aðstöðu til að taka afstöðu til þess. Þá hjálpum við vinum vorum, Finnum, svo að ég taki sérstaklega undir með hæstv. forsrh., en sérstaklega hjálpum við þó okkur sjálfum, og á því er fyrst og fremst nauðsyn.