24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér hér að bera af mér sakir, og ég skal ekki tala hér langt mál, þótt vissulega hefði verið tilefni til þess í sambandi við það, sem hér er fram komið í sambandi við þetta mál. Hér eru aðeins nokkur atriði, sem ég vil fyrir mitt leyti undirstrika varðandi það, sem kom fram frá hæstv. ráðh., og það, sem ég hafði sagt um þetta mál.

Ég sé, að hæstv. ráðh. vilja í þessu máli gera aðalatriði úr frétt þeirri, sem birtist í Þjóðviljanum um þetta mál, hvort fréttin væri rétt eða röng. Sjálfir þykjast þeir þó vita það fullvel, að fréttin sé röng. Ég segi: Aðalatriði þessa máls er ekki það, hvort fréttin, sem birtist í Þjóðviljanum, er rétt eða röng. Aðalatriði málsins er það, hvað stendur til að gera í þessu mikla máli. Það er það, sem íslenzku þjóðina varðar nú miklu meira um, hvað stendur til að gera í málinu. Stendur það kannske til, að þetta verði, sem fréttin fjallaði um? Það er aðalatriði málsins. Og þegar hæstv. utanrrh. sagði hér: Þjóðin heimtar að fá frekari upplýsingar um þessa frétt, — þá segi ég: Þjóðin heimtar að fá að vita það nú í dag frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefur mótað sína stefnu varðandi það mál, sem fréttin fjallar um.

Það er með öllu ástæðulaust að vera að vefja þetta mál í einhvern orðaleik um það, að menn geti ekki gefið yfirlýsingu, sem bindi í íslenzku þjóðina um alla framtið. Það er enginn að biðja um það, að hæstv. ríkisstj. hagi yfirlýsingu sinni þannig. Ríkisstj. getur í þessu máli gefið yfirlýsingu, eins og ríkisstjórnir jafnan gera, sem táknar stefnu hennar og það vald, sem hún hefur yfir að ráða, meðan hún er ríkisstj. Ef hún núna vill lýsa yfir, að það sé tilgangslaust fyrir Vestur-Þjóðverja að biðja um þessar stöðvar á Íslandi, því að slíkt verði ekki veitt, þá getur ríkisstj. gefið slíka yfirlýsingu, hafi hún gert upp sinn hug í málinu. Hitt er vitanlega aðeins loddaraleikur í þessum efnum, að tala um, að þeir geti ekki gefið út yfirlýsingu, sem eigi að standa um aldur og ævi. En hitt getur ríkisstj. gert, sem ég hef skorað á hana að gera, en hæstv. forsrh. hefur hér algerlega vikið sér undan að gera. Hann segir, að það sé ekki hægt að binda Íslendinga. Er þá ekki hægt að binda okkur að því leyti til, að við lýsum því nú yfir, að það væri tilgangslaust að biðja um slíkar herstöðvar á Íslandi fyrir Vestur-Þjóðverja? Þykir honum það of mikil binding fyrir Íslendinga að lýsa því yfir? Vill hann hafa eitthvað opið í þessum efnum?

Fréttin í blaðinu, hvort hún er rétt eða röng, er ekki aðalatriði þessa máls, heldur er hitt aðalatriði málsins, hvað stendur til að gera í þessu máli. Það er aðalatriðið. Hitt getur heldur aldrei orðið neitt aðalatriði, þó að hæstv. forsrh. vilji gera hér mikið úr því, að því verði aldrei trúað, að við hv. 3. þm. Reykv. vitum ekki nákvæmlega um þau gögn, sem Þjóðviljinn hefur fyrir sinni frétt, þar sem liðinn sé, eins og hann segir, hálfur dagur fyrir okkur til að athuga þetta. Ég skal nú trúa hæstv. ráðh. fyrir því, að það hefur komið oftar en einu sinni fyrir, að það hefur liðið heill dagur, án þess að ég hafi lesið Þjóðviljann, og auðvitað veit ég ekki nákvæmlega um alla málavexti, sem standa að þeim fréttum, sem í blaðinu birtast. Nei, það eru vitanlega léttvæg rök frá hálfu hæstv. forsrh. að ætla að gera það að aðalatriði, að ég og hv. 3. þm. Reykv. hljótum að vita nákvæmlega um þessa frétt.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum nú að þessu sinni, fyrst hæstv. forseti leyfði mér hér að tala, en ég vil leggja áherzlu á það í sambandi við þetta mál, að eins og hæstv. forsrh. sagði, að þessi frétt gæti haft mikil áhrif á örlög annarrar þjóðar, þá mundi það ekki síður hafa mikil áhrif á örlög þessarar þjóðar, ef hún fengi nú skýlausa yfirlýsingu frá íslenzku ríkisstj. um það, að slíkar herstöðvar eins og þessar yrðu ekki leyfðar á Íslandi. Og sá, sem skorast undan því að veita Finnum þessa aðstoð, virðist ekki hafa mikla samúð með þeim.