15.03.1962
Sameinað þing: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Af hálfu ríkisstj. hafa verið lögð fram allmörg frv. að undanförnu, og er það góðra gjalda vert, þótt hins vegar megi deila um efni a.m.k. sumra þeirra. Ég sakna þó enn eins máls, sem ég hef talið líklegt að hæstv. ríkisstj. mundi leggja fyrir þingið.

Í ágústmánuði s.l. gaf hæstv. ríkisstj., að því er ég bezt veit, bandalagi opinberra starfsmanna fyrirheit um, að hún og stuðningsflokkar hennar mundu taka til athugunar, þegar Alþ. kæmi saman, hvort ekki bæri að leggja fyrir þingið frv. um samningsrétt opinberra starfsmanna. Ég vil í tilefni af þessu beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort þessi athugun hafi ekki farið fram og hvort eigi megi vænta þess, að frv. um samningsrétt opinberra starfsmanna verði lagt fyrir þetta þing.

Ég tel mig ekki þurfa að lýsa því fyrir hæstv. ríkisstj., hvernig ástatt er með launakjör opinberra starfsmanna. Útreikningar sýna, að síðan 1943 hefur hagur þeirra versnað um 20%, ef miðað er við aðrar stéttir. Horfur eru á, að stórar stéttir opinberra starfsmanna neyðist til að leggja niður störf sín og leita sér atvinnu á öðrum vettvangi. Slíkri óheillaþróun verður að afstýra. Hið æskilegasta væri, að hægt yrði að leysa þetta vandamál með góðu samkomulagi milli ríkisvaldsins og samtaka opinberra starfsmanna. Ég endurnýja þess vegna þá spurningu mína til hæstv. fjmrh., hvort eigi megi vænta á þessu þingi frv. frá ríkisstj. um samningsrétt opinberra starfsmanna.