28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. sjútvmrh. sagði, að það er ekkert nýtt, að til vinnudeilu dragi milli vinnustéttanna og atvinnurekenda, og þannig er hér ekki um neitt einsdæmi að ræða um þessa deilu. Það er og rétt hjá honum, að mikill halli hefur verið á rekstri togaraflotans að undanförnu, svo að það mun rétt vera, að það er ekki alveg auðvelt að leysa þessa deilu, þegar útgerðarmennirnir sjálfir eru svo lítils megnugir. En einmitt af því, að útgerðarmennirnir eru lítt megnugir þess að leysa deiluna, hefði ég látið mér detta í hug, að það væri augljóst mál, að deilan væri ekki svo líkleg til að leysast af sjálfu sér, nema einhver afskipti ríkisvaldsins kæmu til. Þess vegna fannst mér málið sérstaklega eiga hingað erindi, því að ég þóttist þess fullviss, að hæstv. ríkisstj. hefði horfzt í augu við þennan mikla vanda og gjörhugsað málið og væri e.t.v. búin að komast að einhverri niðurstöðu um úrlausn, sem þá væri sjálfsagt, að hv. Alþingi fengi vitneskju um.

Hæstv. ráðh. minnti á tillögu, sem liggur hér fyrir þinginu um að skattleggja bátaflotann til að bæta úr vanda togaranna og þó aðallega til að leysa skuldamál þeirra frá liðnum tíma. En ég segi: Hugsanlegt er, að mennirnir sætti sig við þetta, að bátaflotinn verði skattlagður til hjálpar togurunum, ef þeir væru í gangi. En að ætla sér að skattleggja bátaflotann vegna bundins togaraflota, það held ég að sé ekki líklegt til þess, að þingheimur vilji sætta sig við sem úrlausn, þegar það er þá eingöngu til að leysa skuldamát hins liðna tíma, en ekki til að bæta kjör togarahásetanna, sem geta ekki farið um borð í skipin aftur án þess að fá sín lífskjör bætt. Ég vona enn fremur, að það sé þó a.m.k. orðið ljóst í þessu máli, að tilraunin, sem gerð hefur verið af hendi togaraútgerðarmanna til að hnekkja eða afnema vökulögin, sé ófær leið og menn hljóti að beina huga sínum að öðrum í eiðum. En það hryggir mig sem sagt, að hæstv. ráðh. gat ekki gefið þingheimi neinar vonir um, að nein úrræði væru enn þá í augsýn í þessu mikla vandamáli.