15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Þessar umr. eru að ýmsu leyti þarflegar og gagnlegar, þó að þær fari nokkuð á víð og dreif.

Hv. 11. landsk. þm. taldi það furðulega yfirlýsingu af minni hendi, að embættismenn íslenzka ríkisins þyrftu að leita eftir aukatekjum. Um þetta þarf ekki annað að segja en: „sakleysið, sízt má án þess vera.“ Og ef mönnum kemur þetta ókunnuglega fyrir sjónir, þá finnst mér það miklu furðulegra. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það, það skiptir ekki miklu máli.

Annað er alvarlegra, að hann lét sér það um munn fara hér, að með þessu frv., að svo miklu leyti sem um þessa embættismenn, sem hér greinir, væri að ræða, þá væri verið að kalla á sérstaka spillingu. Þessu mótmæli ég alveg. Hér er engin sérstök spilling á ferðinni. Þetta er sú sama spilling sem er alls staðar í okkar þjóðfélagi, hvert sem við lítum í hinu opinbera launakerfi okkar. (Grípið fram í: Hví þá ekki að afnema hana?) Afnema hvað? (Gripið fram í: Spillinguna.) Ég var að mótmæla, að hér væri um nokkra sérstaka spillingu að ræða. Svo skal ég víkja að hinu, vilja og tillögum manna til að afnema spillinguna. Og þá komum við að því, að það er vandlifað í þjóðfélaginu, því að hv. 11. landsk. sagðist vera með þessu frv., ef till. hans væri samþ., ef það kostaði ekki ríkissjóð neitt. En hv. 3. þm. Reykv. ætlar að fylgja þessu frv. á þeirri forsendu, að það kosti einmitt ríkissjóð eitthvað töluvert.

Hv. 3. Þm. Reykv, sagði, að það væri ánægjulegt að fá þær yfirlýsingar frá mér, sem ég gaf áður um það, að þessir embættismenn og aðrir embættismenn hefðu ekki nógu há laun. Þessi yfirlýsing er ekki í fyrsta skipti fram komin af minni hálfu núna, svo að hún hefur ekki opinberazt á þessum tíma fyrir hv. þm. Ég hef margoft hér í þingsölunum einmitt vikið að því, hvað við værum á hættulegri braut staddir vegna þess, hve háu launin í embættismannakerfinu væru of lág. Það hefur ekki alltaf þótt vinsælt að hlusta á þetta, og ég hef fengið ýmsar ádrepur frá þm. úr stjórnarandstöðunni einmitt fyrir þetta viðhorf mitt. Þetta viðhorf reifaði ég seinast í útvarpsumr. hér frá Alþingi í sambandi við vantrauststillöguna á ríkisstj. í haust, og ég taldi, að jöfnuðurinn í launakerfinu væri orðinn okkur mjög hættulegur í framkvæmd. Og mér þykir vænt um, að hv. 3. þm. Reykv. er mér, eftir því sem ég skildi áðan, sammála að vissu leyti í þessu efni, þó að viðhorf hv. 11. landsk, sé allt annað, því að hv. 3. þm. Reykv. vildi einmitt taka sérstaklega fyrir launamál dómara og æðri embættismanna, sem hér er um að ræða, en ekki blanda þeim inn í endurskoðun á hinu almenna launakerfi. Þetta hlýt ég að skoða svo sem við séum að þessu leyti einmitt að verulegu leyti á sama máli. Það auðvitað hljómar alltaf miklu betur að segja: Við skulum hækka lágu launin og gera betur við þá, sem lítið bera úr býtum. — En við erum orðnir alveg, held ég, einstakir, a.m.k. skerum okkur úr öðrum þjóðum, þar sem þróun mála er miklu örari og hefur verið örari en hér að því leyti, að við höfum gert á undanförnum árum í æ ríkari mæli minni og minni launamismun hjá mönnum eftir því, hvort þeir voru með ábyrgðarmikil störf eða ábyrgðarlítil í þágu þess opinbera. Og ég hika ekki við að segja það, að ég veit, að ýmsir og margir af starfsmönnum ríkisins hafa alveg nægilega há laun, en það eru fyrst og fremst þeir, sem eru í hæstu launaflokkunum og ábyrgðarmestu stöðunum, sem hafa of lág laun. En það mál verður ekki fremur en endurskoðun á launakerfinu í heild afgreitt í sambandi við mál eins og það, sem hér er um að ræða.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, eru þessar umr. að ýmsu leyti þarfar, og ég skil þau mismunandi sjónarmið, sem fram hafa komið. En ég vil að lokum ítreka það, að mér finnst flest af því, sem fram hefur komið og menn hefur greint á um, eiga við á öðrum vettvangi en í sambandi við afgreiðslu þessara sérstöku laga, sem hér er um að ræða. En ég sagði, held ég, í minni fyrri ræðu, að það mundi ekki standa á mér að endurskoða marga þá galla, sem ég hef vikið að í okkar launakerfi og embættisskipulagi. Og ég hef verið alveg ófeiminn við að lýsa skoðun minni á þeim ágöllum, sem ég taldi á vera.