17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Flm. (Ingi R. Helgason):

Hæstv. forseti. Hv. þdm. Minni skömmu þingsetu er nú að verða lokið. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt samflokksmönnum mínum fáein frv., og hæstv. forseti hefur sýnt mér þá vinsemd að taka eitt þeirra á dagskrá þessa fundar í dag, og mig langaði til að fylgja því frv. úr hlaði með nokkrum orðum, en skal ekki vera langorður.

Þetta er frv. á þskj. 104 til laga um breyt. á 1. um húsnæðismálastofnunina, lögunum um verkamannabústaðina o.fl. Hér er um að ræða frv. um málefni, sem varðar íbúðarhúsabyggingar í landinu, en einmitt það verkefni að byggja yfir Íslendinga hefur verið framkvæmt aðallega af tveimur síðustu kynslóðum í landinu, þó einkanlega þeirri síðustu. Í sambandi við það mikla verkefni — fjárhagslega séð — hefur oltið á ýmsu, verið við mikinn vanda að etja, sem hv. þdm. er kunnugt um ekki síður en öðrum.

Vandamál íbúðarhúsabygginganna síðustu áratugi hafa einkum verið tvenns konar hér á landi. Í fyrsta lagi hefur byggingarkostnaður verið hár, ef litið er til samanburðar við nágrannalönd okkar, talsvert miklu hærri en þar gerist. Hv. þdm. eru kunnar skýrslur um þetta efni, sem ég ætla ekki að rekja eða vitna í, en af hálfu okkar hafa farið fram athuganir og rannsóknir á því, hvernig byggingarkostnaðinum yrði komið niður. Hagstofa Íslands hefur nú reynt að gera skýrslu um þennan kostnað, eins og hann er sannastur og réttastur. Á vegum hagstofunnar var byggt tvílyft hús með kjallara, tveimur hæðum og risi, og öllum kostnaðarreikningum var haldið til haga, einnig öllum vinnuseðlum, þannig að þegar húsið var fullgert, var fullljóst, hver kostnaðurinn hefði verið. Þetta var gert í október 1960, og ég hef leyft mér að leggja sundurliðaðan byggingarkostnað á þessu húsið miðað við verðlag í október 1960, fram með grg. við frv. Þar kemur fram, að fjögurra herbergja íbúð á 2, hæð þessa tvílyfta húss kostar hvorki meira né minna en 526 þús. kr., og eru vinnulaun liðlega 40% af heildarkostnaðinum eða um 240 þús. kr. Þetta hefur verið annar aðalvandinn við íbúðarhúsabyggingar í landinu, hversu mjög byggingarkostnaður hefur verið hár.

Hinn vandinn er sá, sem að hefur steðjað, að húsbyggjendur hafa ævinlega búið við lánsfjárskort, og þau lán, sem fáanleg hafa verið, annaðhvort af hálfu hins opinbera eða með stuðningi þess eða beint frá bönkum, hafa verið veitt með þeim lánskjörum bæði hvað lánstíma snertir og vexti, að má segja, að óviðunandi hafi verið.

Í samanburði við það, sem tíðkast erlendis, hafa þessi lánskjör verið raunar óheyrileg og hafa átt sinn mikla þátt í að auka á erfiðleika þeirra, sem að húsbyggingum hafa staðið, en hérlendis hafa tiltölulega fleiri einstaklingar staðið að húsbyggingum heldur en félög eða hið opinbera. Ég hef bent á í grg. minni, hvernig þessu er fyrir komið t.d. hjá Norðmönnum, þar sem um er að ræða lánastarfsemi til íbúðarhúsabygginga af opinberri hálfu. Þar lánar Norski húsbankinn allt að 77% byggingarkostnaðar, en lán húsnæðismálastofnunarinnar hér fara aldrei yfir 20%, og vaxtakjörin á þessum norsku lánum eru slík, að 20% lánsfjárhæðarinnar eru gersamlega vaxtalaus, afborganir þess hluta mjög vægar og hefjast ekki fyrr en 10 árum eftir lántöku. Sá hluti lánsfjárhæðarinnar, sem ber vexti, ber 3% vexti. Í Danmörku er þessu svipað farið, nema vextir byggingarlána eru lægri en 3%, allt niður í 11/2%, og lánstíminn þar er allt upp í 95 ár. Hjá okkur er þetta hins vegar þannig, eins og ég hef greint frá og eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, að lánsfjárhæðin er óveruleg, miðað við byggingarkostnað,en vextirnir óheyrilega háir, jafnvel vextir af svipaðri hæð og tíðkast almennt í viðskipta- og atvinnulífi. Áður en hæstv. núv. ríkisstj. hóf ráðstafanir sínar í efnahagsmálum í febrúar 1960, voru vaxtakjör á A-lánum hjá byggingarsjóði ríkisins 7%. Þegar ríkisstjórnin hækkaði almennt vexti eftir gengislækkunina, voru þessir vextir hækkaðir upp í 9%. Og það varð staðreynd, að langtímaskuldabréf, eða skuldabréf til 15 ára, voru gefin út handa húsbyggjendum á Íslandi, sem báru 9% vexti.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er gripið á þeim vanda, sem steðjar að húsbyggjendum í landinu. Í fyrsta lagi eru ákvæði um lækkun vaxtanna að miklum mun. Það er gert ráð fyrir, að vextir lækki á A-lánum húsnæðismálastofnunarinnar niður í 4%. Flutningsmönnum er ljóst, að þessi vaxtalækkun er ekki nóg, en með henni er þó stigið slíkt skref, að til verulegra hagshóta er fyrir þá, sem undir þessu vaxtaoki stynja.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að hreyft sé við vaxtakjörum B-lána hjá húsnæðismálastofnuninni, sem eru núna 51/2%. Aðallega rennur til þeirrar lánastarfsemi skyldusparnaður, sem er greiddur af húsnæðismálastofnuninni einnig með 61/2%, en það er nú svo, að skyldusparnaðurinn fer að éta sjálfan sig upp eftir eitt eða tvö ár og þýðing þessara lána minnkar mjög.

Ég vildi vekja athygli á því í þessu sambandi, að frv. gerir ekki ráð fyrir því, að lánskjör lækki aðeins á þeim lánum, sem nú verða tekin eða yrðu tekin, eftir að lög þessi öðluðust gildi, heldur er hér gert ráð fyrir því, að öllum fyrri lánssamningum, sem í gildi eru, verði breytt þannig, að í samræmi verði við ákvæði þessara breytingarlaga. Vaxtaákvæði lánsbréfa, sem gefin hafa verið út til húsnæðismálastofnunarinnar og undirrituð af lántökum eða húsbyggjendum með vaxtafæti upp á 7% eða 8% eða jafnvel 9%, vaxtaákvæði þessara lánssamninga eiga að lækka líka eftir gildistöku þessara laga niður í 4%. Einnig er í frv. hreyft við vöxtum af lánum á vegum byggingarsjóðs verkamanna, en upphaflega voru þeir 2% ársvextir, en höfðu verið með lögum frá 1955 hækkaðir upp í 31/2%. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur með heimild í efnahagslögunum hækkað þessa vexti upp í 4% og allt upp í 6% af lánum byggingarsjóðs verkamanna. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessir vextir séu lækkaðir aftur niður í það, sem þeir voru í löggjöfinni frá 1952, um byggingarsjóð verkamanna, þ.e.a.s. niður í 2%. Þetta er annað meginatriði frv., sem gerir ráð fyrir því, að vextir séu lækkaðir á þessum lánum niður í 2% og niður í 4%.

Hitt meginefni frv. er það, að á sérstakan hátt er til þess stofnað, að byggingarkostnaður verði stórlega lækkaður, — lækkaður á þann hátt, að ríkissjóður leggi niður eða afnemi raunar tolla af innfluttu byggingarefni og endurgreiði þá húsbyggjendum eftir nánari reglum, sem getið er um í frv., og reglum, sem þarf að setja nánari ákvæði um frekar í reglugerð. Það lætur nærri, ef miðað er við verðlag í október 1960, að ríkið taki í beinni skattheimtu í gegnum innflutningsgjöld og gegnum söluskatt nærri því alla þá lánsfjárhæð, sem hið opinbera lánar húsbyggjendum á grundvelli hins almenna veðlánakerfis.

Oft hafa verið uppi tillögur og hugmyndir um, hvernig auka megi lánsfé á vegum húsnæðismálastofnunarinnar. Það hefur ekki verið hægt að afla þess fjár í svo ríkum mæli, að hægt væri að bæta að miklum mun það hlutfall, sem er á milli lánanna og byggingarkostnaðarins. Ef þetta frv. yrði að lögum, kæmi svipuð upphæð og almennt gerist nú á vegum húsnæðismálastjórnarinnar, 70—100 þús. kr., til húsbyggjandans í lækkuðum byggingarkostnaði á þann hátt, að ríkissjóður sjálfur endurgreiðir alla tolla og söluskatt á byggingarefni til hússins, þegar það er upp komið. Ég held, að hér sé farið inn á braut, sem sé rétt og skynsamleg. Það er í fyllsta máta óskynsamlegt, að ríkið tolli og setji söluskatt á innfluttar vörur til þessara hluta, þegar ríkið er í miklum vandræðum með að útvega lán til þess að standa undir byggingarkostnaði og byggingarframkvæmdum á þessu sviði. Gagnvart húsbyggjendum yrði þetta mjög hagkvæmt og mundi verða til þess, að þeir, sem nú eiga erfiðast með vaxtakjör sinna lána, fái talsverðar hagsbætur og fái verulega vaxtalækkun, og að hinu leytinu, að þeir, sem hafa verið að byggja og koma til með að byggja íbúðir og þurfa að glíma við svo mikinn byggingarkostnað sem raun ber vitni um, ættu þá von á því, að ríkið endurgreiddi þeim það, sem ríkið hefur tekið sem toll og skatt á þessa byggingarstarfsemi.

Fundartími þessarar hv. þingdeildar er nú á enda. Frv. skýrir sig að öllu leyti sjálft, og er þar tekið á þeim vandamálum, sem öllum hv. þdm. eru kunn, og þarf ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil mælast til þess, að máli þessu verði vísað til 2. umr.