20.02.1962
Neðri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., kveður svo á um fyrst, að A-lán skuli verða veitt sem jafngreiðslulán með 4% ársvöxtum til allt að 25 ára, en lán þessi eru nú með 7% ársvöxtum. Þá er ákvæði í frv. þess efnis, að ákvæði í lánasamningum um A-lán milli veðdeildar Landsbankans og íbúðaeigenda skuli breytast í samræmi við 1. gr., þ.e. að ársvextir lánanna færist úr 7% í 4%, eða lækki um 3%. Þessi breyting verði einnig gerð á þeim bréfum, er eigi hafa enn verið gefin út. Þá er enn svo ákveðið, að fella skuli niður heimild ríkisstj. til þess að ákveða um vaxtakjör og lánstíma, hvað snertir lán þau, sem veitt eru til íbúðabygginga úr byggingarsjóði ríkisins. Þykir mér rétt að benda hér á, hvaða afleiðingar það mundi hafa í för með sér að lögfesta nú slík ákvæði.

Hvað snertir þau bréf, sem þegar hafa verið seld, er sýnilegt, að löggjafinn getur ekki gripið hér inn í gerða samninga á milli banka og þegna þjóðfélagsins, nema samtímis að bæta þegnunum að fullu það tjón, sem þeir yrðu fyrir vegna þessara aðgerða. Þegar bréfin voru seld á sinum tíma, báru þau með sér, að vaxtatekjur af þeim væru 7% á ári. Söluverð bréfanna fór þá að sjálfsögðu eftir því tvennu, hve langur lánstíminn var og hve háa ársvexti skyldi greiða af lánunum. Þeir kaupendur, sem bíða eftir útdrætti bréfa sinna í 25 ár, en það er hámark lánstíma, mundu tapa um 30 kr. af hverju þúsund króna bréfi árlega, eða um 3000 kr. af hverjum 100 þús., auk taps á vöxtum og vaxtavöxtum af þeim upphæðum allan lánstímann. Það er óþarft að hafa um það mörg orð, að löggjafinn getur ekki lögfest slíkt ákvæði, nema um leið að tryggja viðkomandi eigendum fullar bætur. Hér eiga þegnarnir fulla vernd í ákvæðum stjórnarskrárinnar, og því er það, að þótt samþykkt verði frv. þetta, þá yrði þó tvímælalaust að breyta þessum ákvæðum frv. En sýnilegt er, að það er til önnur leið til þess að leysa þennan vanda, ef samkomulag fengist um það á annað borð að lækka vextina af þessum bréfum, sem þegar eru seld, og það er að innkalla öll bréfin og greiða eigendum þau með nafnverði, eins og gert er, þegar þau eru dregin út. Með því væri ekkert gengið á rétt eigenda bréfanna og engin ákvæði stjórnarskrárinnar brotin. En dettur nokkrum manni í hug, að slík ráðstöfun yrði til þess að bæta hag mannanna, sem vegna fjárskorts geta ekki fullgert íbúðir sinar eða hafið nýjar, nauðsynlegar byggingar? Þeir menn, sem láta sér detta slíkt í hug, hafa sannarlega of litla þekkingu á viðskiptamálum yfirleitt til þess að taka að sér forustu um umbætur í efnahagskerfi þjóðarinnar. Ef til væri fé í einhverjum sjóði til þess að geta gert slíkar ráðstafanir, fullyrði ég, að því fé væri miklu betur varið til þess að lána byggjendum til áframhaldandi bygginga með þeim lánskjörum, sem nú eru, heldur en að nota það fé til innköllunar á bréfum, sem þegar hafa verið seld, því að það mundi skjótt koma í ljós, að þau bréf seldust ekki aftur á sama verði, þegar búið væri að lækka ársvextina af lánunum um 3%. Hér mundi áreiðanlega óhjákvæmilegt að fjárfesta milljónir, sem betur hefði verið varið til nýrra lána. Þessar aðgerðir yrðu fullkomlega neikvæðar og einskis virði fyrir févana byggjendur. Meðferð þeirra bréfa, sem eigi hafa verið gefin út, er allt annað mál og auðveldara að fara með þau. Um þau hafa engir samningar verið gerðir, og því ekki um nein samningsrof að ræða eða skaðabótaskyldu. Hitt er svo ljóst, að með því að breyta vöxtum á þeim lánum, mundu þau óseljanleg nema fyrir upphæðir, sem lántakendur hvorki gætu né vildu sætta sig við. Þær ráðstafanir væru þá og fullkomlega neikvæðar og mundu á engan hátt leysa þann vanda, sem hér er verið að glíma við. Það væri raunverulega sama og að loka allri lánastarfsemi hjá stofnuninni, nema jafnframt komi til, að ríkissjóði eða húsnæðismálastofnuninni eða byggingarsjóði ríkisins sé ætlað að bera hallann af slíkum viðskiptum, en það mundi hins vegar hafa í för með sér, að þær upphæðir allar yrðu þá að leggjast sem nýr skattur á þjóðina sérstaklega í þessu skyni.

Um hitt meginatriði frv., hvort ákveða skuli með lögum að endurgreiða þessum sérstöku íbúðareigendum aðflutningstolla og söluskatt af því byggingarefni, sem þurft hefur, er allt öðru máli að gegna. Slík aðgerð skapar enga skaðabótaskyldu á hendur ríkissjóði og torveldar ekki heldur sölu verðbréfa, eins og hin önnur ákvæði frv. tvímælalaust gera. Samkv. ákvæði 5. gr. frv. verður ekki annað skilið en þessi sérstöku fríðindi skuli aðeins ná til þeirra, sem byrja á byggingu eftir 18. febr. 1960, og þó aðeins til þeirra eigenda, sem byggt hafa íbúðir innan takmarkaðrar stærðar. Verður ekki séð, að til þess sé ætlazt, að þetta ákvæði verði varanlegt framvegis, en sé svo, þyrfti að ákveða nánar og skýrar um það í frv. En hvort sem væri, þá mundi með þessu ákvæði, ef lögfest yrði, skapast ærið misjafn réttur þjóðfélagsborgara, þar sem nokkrum þegnum yrðu veitt allmikil fríðindi, sem öðrum þegnum er neitað um. Og slík lagasetning er hvorki æskileg né til fyrirmyndar, og þurfa að liggja til slíkra aðgerða miklu sterkari rök en fram hafa verið færð í grg. eða fram hafa komið í umr. um málið.

Í þessu sambandi skal bent á, að tillögur, sem fram hafa verið bornar á þessu þingi um undanþágu frá greiðslu á söluskatti á mjög nauðsynlegum framleiðslutækjum fyrir landbúnaðinn, hafa ekki náð fram að ganga. Og þar sem hér var ekki um að ræða gjöld, sem þegar höfðu verið greidd í ríkissjóð og þeim varið til að mæta nauðsynlegum, áætluðum rekstrargjöldum, gagnstætt því, sem hér er lagt til, þar sem þær upphæðir hafa verið greiddar í ríkissjóð og notaðar til nauðsynlegra gjalda, er ekki líklegt, að skoðun þeirra hv. þm., sem synjuðu um samþykkt þeirrar tillögu, hafi breytzt svo, að líklegt sé, að þetta ákvæði frv. nái fram að ganga, enda þyrftu þá að liggja fyrir miklu þyngri rök en færð hafa verið fram fyrir málinu.

Það skal að fullu viðurkennt, að það er miklum vanda bundið að leysa þá erfiðleika, sem tekjulágar stéttir og févana eiga við að stríða í sambandi við byggingu eigin íbúða. En vandinn er miklu meiri en svo, að hann verði allur leystur á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv. Ekki hvað sízt ber að hafa það hugfast, að leiðir, sem í fljótu bragði virðast leysa vanda að einhverju leyti, skapi ekki jafnframt annan og meiri vanda, sem enn erfiðara yrði við að glíma. En það sýnist einmitt sú leið gera, sem lagt er til í frv. að farin skuli. Með þeim aðferðum, sem þar er lagt til að gerðar verði, mundi skapast margvíslegt ósamræmi í aðstoð ríkisvaldsins til þegnanna, sem engu minni vandi yrði að leysa síðar, þegar afleiðingar þeirra aðgerða yrðu kunnar, og það er ekki hvað sízt vegna þess, að sérstakri nefnd manna hefur verið falið að athuga þessi mál og gera um þau tiltögur til ríkisstj. og Alþingis. Það væri engan veginn æskilegt að gera svo róttækar breytingar á lögunum sem frv. gerir ráð fyrir, áður en nefndin, sem starfar nú að þessum málum, hefur skilað áliti sínu og tillögum. Meiri hl. n. leggur því til, með tilvísun til þess, sem hér hefur veríð sagt, og með tilvísun til nál. á þskj. 297, að frv. verði fellt.