02.03.1962
Neðri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eitthvað virðist hv. 1. þm. Vestf. hafa lært, en ekki er það mikið. Hann er þó a.m.k. farinn að komast inn á það, að það sé mjög nauðsynlegt að lækka vexti. Hvað verður hann lengi fylgjandi hæstv. ríkisstj. með þessu móti, ef hann fer nú að láta svona á sjá um að hverfa frá hennar okurstefnu við hverja ræðu, sem maður heldur hér yfir honum? En það, sem hann virtist vera dálitið efins í, var, hvort það mætti lækka vexti, ef það hefðu verið gerðir samningar um vextina.

Vaxtabréf, sem gefið er út og selt, er samningur á milli þess, sem selur bréfið, og þess, sem kaupir bréfið. Álítur hv. 1. þm. Vestf., að samningar, sem einn maður gerir við annan, séu ekki háðir breytingum með lögum, að það sé ekki hægt að breyta þeim með lögum? (GíslJ: Tvímælalaust.) Tvímælalaust. Má ég þá biðja hv. 1. þm. Vestf. um að taka það að sér fyrir hönd Alþýðusambands Íslands að rukka inn hjá atvinnurekendum Íslands allt það fé, sem verkamenn höfðu samninga við atvinnurekendur um, að þeir ættu að fá greitt samkvæmt vísitölu. Það voru samningar í gildi milli verkamanna og atvinnurekenda 1. febr. 1959 um, að atvinnurekandi samkvæmt þeim samningi ætti að borga verkamönnum kaupgjald með ákveðinni vísitölu. Hv. 1. þm. Vestf. ásamt fleiri þm. hér á Alþingi samþykkti lög um, að þessi vísitala skyldi felld burt, þannig að samningar, sem verkamenn og atvinnurekendur höfðu gert sín á milli, skyldu þannig rofnir af löggjafarvaldinu. Samkvæmt yfirlýsingu, sem hv. 1. þm. Vestf. nú hefur gefið, þá álítur hann, að Alþingi hafi ekki haft heimild til þess að gera þetta og að verkamenn eigi þá inni hjá atvinnurekendum allt það fé, sem tekið hefur verið af þeim með því að rjúfa þessa samninga á þennan hátt. Það er engin smáræðisfúlga. Og ef hv. 1. þm. Vestf. fengi eðlilegar lögfræðilegar prósentur af þeirri fúlgu, þá er það góður „bisness“. Það er þess vegna alveg greinilegt, að hér er hv. 1. þm. Vestf. og með honum öll ríkisstjórnarhersingin komin í mikla klípu. Samningar hljóta þó líklega að vera jafngildir, hvort sem verkamaður gerir þá við atvinnurekanda eða lántaki gerir þá við lánveitanda. Þeir hljóta þá að vera jafngildir, — ekki satt? Verkamaðurinn er ekki nein annars flokksvera í þjóðfélaginu, sem hefur annan rétt en aðrir. Samningarnir ættu þá að vera jafnhelgir. Eða álítur hv. 1. þm. Vestf., að samningar, sem gerðir hafa verið um vexti af fjármagni, séu heilagir samningar, en samningar, sem verkamaður hafi gert um kaupið sitt, séu ósköp vanheilagir samningar, sem megi breyta með lögum, en hinir séu hafnir yfir öll lög? Sér ekki hv. 1. þm. Vestf., í hvaða vandræði hann er kominn? Annaðhvort er allt ólög, sem hann hefur tekið þátt í að gera hér í sambandi við vísitölubreytingu og annað slíkt, allt saman ólög, eða þá að það er fyllilega réttmætt, sem við erum að bera þarna fram. Þessu var ég að reyna að koma inn í höfuðið á honum áðan. Þetta gekk ósköp illa, maður verður náttúrlega oft að vera þolinmóður hér á Alþingi, kemur jafnvel fyrir, að maður verður að halda sömu ræðuna, eftir því sem blöðin segja, yfir þm. aftur og aftur — og stundum jafnvel án þess að þeir skilji það.

Það er kannske stundum dálítið skiljanlegt, ef hagsmunirnir eru hins vegar mikið á móti, að þegar menn gera það fyrir hönd atvinnurekenda að rjúfa samninga, til þess að atvinnurekendur geti grætt á því, þá er það sjálfsagt og heilagt, en ef maður, sem á skuldabréf, á að missa einhvers í af vöxtunum af því skuldabréfi, þá er það óleyfilegt. M.ö.o.: Auðurinn á að vera heilagur, vinnan á að vera ófriðhelg. Ég er reiðubúinn að ræða þetta spursmál um samningana og lögin við hv. 1. þm. Vestf., en ég held að hann komist ekki út úr þessu.

Ég lagði aðra spurningu fyrir áðan í minni ræðu, sem hv. þm. hefði getað íhugað líka, til þess að hann kæmi sér niður á það, hvað er í þessu. Við skulum segja, að það hafi verið gefin út svo og svo mikil skuldabréf í þjóðfélaginu með 4% vöxtum og ríkið ákveður seinna meir að leggja 4% skatt á þessi skuldabréf. Náttúrlega hefur ríkið rétt til að leggja skatta á. Getur það tekið þannig vextina aftur, gert bréfin vaxtalaus? Vissulega getur ríkisstjórnin það. Þetta er hægt með lögum. Það er hægt með lögum, vegna þess að allir þessir hlutir byggjast á lögum. Eignarrétturinn byggist á lögum, og það er hægt, eins og ég gat um áðan, að breyta honum ákaflega mikið með lögum. Ef til vill kannast hv. þm. við eina aðferð, sem brýtur ekki heldur í bága við stjórnarskrána og mikið hefur verið praktíseruð hér á Íslandi til að gera vissar eignir, eins og t.d. skuldabréf, lítils virði. Það er fyrirkomulag, sem heitir verðbólga og gengislækkun. Ef hv. þm. hefði keypt skuldabréf fyrir 30 árum fyrir 1000 kr., hvers virði er honum það skuldabréf í dag? Það er honum anzi mikils minna virði en það var fyrir 30 árum. Það er ekki búið að taka það eignarnámi eða neitt slíkt, en bara verðbólga og gengislækkanir eru búnar að rýra þess gildi, án þess að það komi nokkuð í bága við stjórnarskrána og hann geti farið og heimtað að koma nokkrum breytingum þar á.

Nei, við skulum ekki vera að ræða endalaust um svona mál. Löggjafarvaldið í þjóðfélaginu getur gert ýmsa hluti í þessum efnum, m.a. breytt vöxtum á bréfum, sem fyrir hendi eru, rétt eins og löggjafarvaldið hefur getað breytt og leyft sér að breyta samningum á milli verkamanna og atvinnurekenda. Það er sitt hvað, hvað maður álitur svo óréttiátt, hvað maður álítur ranglátt í slíku. Lög og réttlæti, það þarf ekki alltaf að fara saman. Þar getur verið gífurlegur munur á milli og er satt að segja oft. Þess vegna skulum við ekki ræða þetta mái út frá einhverri sérstakri tilfinningu fyrir t.d. bankavaxtabréfum og ekki hafa neina meiri tilfinningu fyrir þeim en öðrum samningum. Við skulum hara gera okkur ljóst, að vegna löggjafarvaldsins eru hlutir eins og bankavaxtabréf, vextir og eign og annað slíkt til, og er það löggjafarvaldsins að breyta þeim hlutum. Meira að segja hefur löggjafarvaldið á Íslandi verið alveg sérstaklega lagið í því að fara í kringum það, sem kallað er eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, svo sem t.d. stóreignaskatturinn, sem málin voru höfðuð út af, sýndi greinilegast. Ef eitthvað er kallað skattur, þá er hægt að hafa hann allt að 99% á eign. Dæmin eru þegar fyrir um það. Við skulum þess vegna ekki vera að slá neinu föstu um neinn heilagleika í þessum efnum, neinar skaðabótakröfur eða neitt slíkt.

Hins vegar, ef við tökum þessi mál raunhæft, þá vitum við ósköp vel, hvernig ástandið er í okkar þjóðfélagi almennt viðvíkjandi að selja svona bréf. Við vitum, að það er hverfandi litill prívatmarkaður fyrir þessi bréf. Þar er allt öðruvísi háttað í okkar þjóðfélagi en ýmsum öðrum. Við vitum hins vegar, að ákaflega mikið af alls konar bréfum, sem eru gefin út, selst með gífurlegum afföllum, ef þau eru seld, og eina vitið, ef maður ætlar að gefa út svona bréf og láta fólk fá að njóta þess, það er bókstaflega að skylda bankastofnanir til að kaupa þau án affalla. Það eru því miður allt of margir, sem hafa neyðzt til þess að halla sér að þessum svarta markaði hér í Reykjavík og selja sín bréf stundum jafnvel með gífurlegum afföllum, sem kannske menn, sem eiga að greiða stóreignaskatt, kaupa til þess að geta borgað það aftur á fullu verði upp í stóreignaskatt og græða þannig á því og fá afslátt af stóreignaskattinum. Það er það, sem er ríkt í hugleiðingum hv. 1. þm. Vestf., og það þyrfti vafalaust gjarnan að gera ráðstafanir til þess að forða mönnum frá slíku, frá þessum prívatmarkaði, með því t.d. almennt að skylda banka til þess að kaupa svona bréf.

Þá var hv. 1. þm. Vestf. að biðja mig um að fara að taka eitthvað aftur af því, sem ég hefði sagt. Ég held, að ég láti það nú standa, ég held, að meginið af því standi nokkuð óbrotgjarnt. En hræddur er ég um hins vegar, að meiri hl. heilbr.- og félmn. hafi reist sjálfum sér niðstöng með þessum orðum, sem ég las upp áðan, og nefndaráliti sínu, þar sem þeir segja, að það að lækka vaxtatekjurnar af bréfunum bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Svo fór hv. l. þm. Vestf. að ræða um, hve ósvífnir vissir verkamenn í þjóðfélaginu væru og hvernig fólkið fengi ekki að njóta þeirra framfara, sem yrðu í ýmsum greinum, t.d. þar sem praktískara skipulag kæmist á ýmsa vinnu.

Ég er hræddur um, að hv. 1. þm. Vestf. sé ekki nógu kunnugur þessum málum. Hann fór að taka dæmi af málningarkostnaðinum. Á ég að segja hv. þm. Vestf., hvernig ég held að meginið af því unga fólki, sem nú er að byggja, fari að viðvíkjandi málningu á sinni íbúð? Það er alveg rétt, að það eru komin ný tæki og praktískari aðferð til að mála, og meginið af öllu því unga fólki, sem er að byggja, kaupir sér þessa hluti og málar sjálft. Maðurinn og konan fara á kvöldin, þegar þau kannske bæði eru búin að vinna úti allan daginn, og mála á kvöldin íbúðina sina og spara sér á því kannske 30 þús. kr. eða 20 þús. kr., — ég veit ekki, hve mikið, ég skal ekkert fullyrða um það. Þau spara sér a.m.k. þó nokkuð mikla peninga. Þetta er það, sem meginið af fólkinu gerir, sem er að berjast við að koma upp íbúðum núna. En hvað gerir svo ríkisstj., ef þetta fólk getur sparað sér kannske 10–20 þús. kr., — hvað gerir þá ríkisstj. gagnvart þessu fólki? Ríkisstj. kemur og hækkar kannske upp undir 100 þús. kr. kostnaðinn, sem þetta fólk verður að borga af sementinu, af byggingarefninu og af öllu öðru, líka vöxtunum, eins og hv. 4. þm. Reykn. las hér upp áðan. Á tveimur árum hefur íbúð, sem kostaði 350 þús. kr., hækkað upp í 466 þús. fyrir aðgerðir fyrst og fremst ríkisstj. Þó að ung hjón spari sér með því að nota nýtízkuaðferðir við málningu, þá kemur ríkisstj. og tekur ekki bara það, sem þessi ungu hjón spara sér, heldur miklu, miklu meira, bindur það á skuldaklafa. Þetta er hjálpin. Svona er ástandið. Það er anzi hart, að fólk skuli ekki geta fengið að njóta þess í friði, sem ný tækni gefur mönnum í því að geta ódýrt byggt íbúðir, vegna afskipta ríkisstj., vegna þess að hún þarf að sletta sér fram í þessa hluti, að hún þarf að lækka gengið, hún þarf að hækka vexti, hún þarf að okra á öllu, er snertir byggingar. Og svo ætlar kannske ríkisstj. að koma og segja, þegar hún er búin að hækka íbúðirnar um 100 þús. kr.: Nú skal ég koma og hjálpa ykkur, ég skal hækka lánin um 50 þús., — svo að það sé auðveldara að borga tollana, sem ríkisstj. tekur. Nei, ég er hræddur um, að hv. 1. þm. Vestf. verði að kynna sér þessi mál ofur lítið betur.

Svo fór hv. 1. þm. Vestf. að minnast á, að við höfum haft hér 48 vinnustunda viku lengi. Við höfum frá 1942 haft samninga um, að þegar búið væri að vinna 8 tíma, þá skyldi greitt hærra kaup, en við höfum ekki búið við 48 stunda vinnuviku. Það er undantekning, að unnin sé eftirvinna, við skulum segja t.d. í Englandi, — það er undantekning. Hér er það ekki aðeins regla, að unnin sé eftirvinna, hér er ástandið þannig, að það er auglýst í útvarpinu mikil næturvinna, þegar verið er að reyna að fá menn í vinnu, af því að atvinnurekendur vita, að verkamenn eru það þjáðir af skorti á peningum til þess að geta borgað m.a. af sínum íbúðum, sem ríkisstj. er búin að sprengja upp, að þeir verða að sækjast eftir ekki bara eftirvinnu, heldur næturvinnu, þeir verða að þræla eins og hægt er, orlofin sín og sunnudagana líka, til þess að reyna að geta staðið í skilum með að borga af sínum íbúðum m.a. Svona er ástandið. Verkalýður Norðurlanda hefur yfirleitt sem reglu 8 tíma vinnudag, getur hvílt sig, helgað það, sem eftir er af deginum, sínum áhugamálum og öðru slíku. En íslenzkur verkalýður hefur ekki búið við það.

Svo segir hv. 1. þm. Vestf., að ég hafi sagt: Það ætti bara í sambandi við húsnæðismálin að hækka launin og fækka vinnutímunum, þá væri hægt að minnka byggingarkostnaðinn. — Ég sagði þetta að vísu, ég var að tala um þetta út af hans ummælum um allt of miklar launakröfur hér á Íslandi. En hins vegar má þetta náttúrlega til sanns vegar færa, eins og margt, sem hv. 1. þm. Vestf. segir og heldur að sé firra, en reynist aftur á móti satt, rétt eins og margt af því, sem hann segir og heldur að sé einhver mikil speki, reynist mesta firra, þegar farið er að kryfja það til mergjar. Það má mjög hæglega stytta vinnutímann, hækka launin og hafa byggingarkostnaðinn minni. Ég skal nefna hv. þm. t.d. eitt dæmi. Hér í Reykjavík þurfti fyrir 15 árum að byggja eftir útreikningi bæjarstjórnar Reykjavíkur 600 íbúðir á ári til þess að hafa rétt við, og þyrfti vafalaust að byggja meira á ári núna, við skulum segja 800—900 íbúðir á ári. Það er það mikið, að til þess að byggja slíkar íbúðir væri hægt að koma við mjög nýtízkuaðferðum við húsbyggingar, m.a. með því að búa til húsapartana svo að segja í heilu lagi og skella þeim niður. En það mundi gera það nauðsynlegt, svo að ég noti ljótt orð, að það væri eins konar einokun á þessu. M.ö.o.:, ef við ætluðum að koma upp einni verksmiðju til þess að framleiða svona húsaparta, þá yrði það að vera hægt í svo stórum stíl, að hún yrði faktískt að geta framleitt meginið af húsunum, sem byggð væru í Reykjavík. En það er ekki nokkurt spursmál um það, að það væri hægt að stórlækka byggingarkostnað með því að gerbylta þannig um tækninni í þessu. En sú tækni heimtar, ef ég nota ljóta orðið, — þá þarf einokun. Hún heimtar, að að mestu leyti sé það einn aðili, sem gerir þetta. E.t.v. ætti eftir kokkabókum hv. 1. þm. Vestf. eitt prívatfyrirtæki að fá þetta og græða stórkostlega á því. Eftir okkar kenningu ætti að koma upp svona fyrirtæki og reka það með almenningsheill fyrir augum, þannig að þetta yrði til þess að lækka byggingarkostnaðinn eins og hægt væri. Nútímatæknin heimtar svona einbeitingu. Hún heimtar framleiðslu í þetta stórum stíl. Og henni þarf að koma við. Ég efast ekki um, að við Íslendingar hefðum getað byggt þau hús, sem við höfum byggt á undanförnum árum, fyrir svo sem 2/3 af því fé, sem í húsin hefur farið. Við höfum byggt svo ópraktískt, að það nær ekki nokkurri átt. Það kemur svo fram í því, að menn verða að þræla miklu, miklu meira við þetta, þetta verður miklu, miklu dýrara en það þyrfti að vera. Við skulum bara hugsa okkur sem dæmi, að við tækjum heilar götur, 2–3 götur, og byggðum öll húsin, sem við ætluðum að byggja þar við, og hefðum þau hús kannske að miklu leyti eins, sömu teikningarnar og þær væru verulega praktískar. Við gætum komið upp ódýrum húsum með þessu móti. Og það er eitt af því, sem við þurfum fremst af öllu hér í Reykjavík núna, 2–3–4 herbergja íbúðir. Næstum helmingurinn af öllu, sem við höfum byggt undanfarið, hefur verið jafnvel 5 herbergja íbúðir og þar yfir jafnvel stundum. Við þurfum að byggja þarna miklu, miklu praktískar, en það heimtar skipulagningu. En þá efast ég ekki um, að það væri hægt bæði að stytta vinnutímann, hækka launin og lækka byggingarkostnaðinn, þannig að það er engan veginn eins mikil firra og hv. 1. þm. Vestf. heldur.

Svo fór hv. þm. að tala um ábyrgðarleysi, og hann hélt, að hann væri mjög ábyrgur. Hann er vissulega ábyrgur fyrir vissum hlutum. Hann er ábyrgur fyrir því að hafa tekið þátt í því að lækka tölu nýbyrjaðra húsa á Íslandi úr 1775 1956 niður í 770 á síðasta ári, eins og hv. 4. þm. Reykn. (JSk) var að skýra frá hérna áðan. Það er ráðstöfun, sem hann er ábyrgur fyrir. En slíkt er ábyrgðarleysi, að gera svona hlut, ábyrgðarleysi gagnvart almenningi. Og það er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem svona er farið að. Ég man eftir því, og það man kannske hv. 1. þm. Vestf. líka, að það eru hafðar stundum dálítið mismunandi aðferðir í því að þjarma þannig að almenningi. 1950 var höfð sú aðferð, um leið og gengið var lækkað, að mönnum var bannað að byggja hús á Íslandi nema með leyfi einnar nefndar í Reykjavík. Það hafði aldrei skeð allan þann tíma, sem Danir réðu Íslandi, að Íslendingum hefði verið bannað að byggja hús, aldrei, og þjörmuðu þeir þó að okkur. Það hefur aldrei skeð. Það gerðist í fyrsta skipti, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. mynduðu sameiginlega ríkisstj. og amerískur banki tók að sér að stjórna Íslandi á bak við tjöldin. Og þá voru m.a. sett þau skilyrði að það yrði að vera nefnd í Reykjavík, sem réði því, hvort Íslendingar fengju að byggja sér íbúðarhús. Mér er þetta alltaf minnisstætt, vegna þess að einu sinni tókst okkur í fjhn. þessarar hv. d. á þeim árum, — ég held, að það hafi verið 1952 eða 1953, — að fá nefndina sameinaða um það að létta þessu banni af Íslendingum, því að vissulega voru margir í stjórnarliðinu líka óánægðir með þetta bann. Okkur tókst að koma þessu gegnum Nd., að nú skyldi gefa íbúðarhúsabyggingarnar frjálsar, og komst frv. í Ed. alla leið. Og þá uppgötvaði Framkvæmdabankinn, hvernig komið var, að sú geigvænlega hætta vofði yfir, að Íslendingar fengju leyfi til að byggja íbúðarhús af sjálfu sér, væru frjálsir til að hyggja íbúðarhús. Og þá var allt í hættu. Benjamín Eiríksson tilkynnti viðkomandi fjhn. Ed., sem var búin að ákveða að mæla með frv., að svo framarlega sem þetta frv. yrði samþykkt, þá mundu leyfi Ameríkumanna til að nota mótvirðissjóðinn ekki fást. Stóri bróðir þar vestanhafs tók á sínum stóra, tilkynnti, hver það væri, sem réði. Það væri ekki Alþingi Íslendinga sem ætti að ákveða annað eins og það, að Íslendingar mættu byggja, væru frjálsir að því að byggja íbúðarhús. Nei, þá skyldi tekið á honum stóra sínum, þá skyldu þeir fá að kenna á því, ef þeir ætluðu að fara að taka sér svona frelsi, og frv. var drepið. Ég man ósköp vel eftir þessu, af því að ég hitti Benjamín hérna frammi og hafði náð í bréfið, sem hann hafði skrifað, og birt það. Og Benjamín sagði svona hlæjandi: Ja, þar náðirðu aldeilis í eitthvað af okkur.

Svona var farið að þá til þess að stöðva byggingar hjá Íslendingum. Það voru sett lög, sem voru verri lög en nokkur lög, sem Danir nokkurn tíma höfðu sett gagnvart okkur, hvað snertir íbúðarhúsabyggingar. Núna á að fara öðruvísi að. Nú á sjálft frelsið að vera svo algert, að með frelsinu sé hægt að hindra okkur í að hyggja. Það á að vera frelsi, sem kemur fram í því, að gengið á okkar krónu sé svo lágt, verðið á öllum vörum svo hátt, kjör almennings það slæm, vextirnir af fjármagninu það háir, að menn geti ekki byggt. M.ö.o.: í staðinn fyrir, að einhver nefnd eigi að vera skömmtunarstjóri, eins og þá var, þá á fátæktin að vera skömmtunarstjórinn að nýju. Fjármagnið á að vera svo dýrt og fólkíð svo útþrælað, að það geti ekki byggt. Að því er verið að stefna, þegar verið er að koma tölu nýbyrjaðra íbúða á Íslandi niður í 770.

Á þessum árum hins ameríska banns á íbúðabyggingum Íslendinga fór, ef ég man rétt, árið 1951 tala fullgerðra íbúða í Reykjavík niður í eitthvað 250–260, milli 200 og 300 var hún, helmingi minna en þurfti til þess að viðhalda sæmilegum byggingum hérna. Og í sömu átt er stefnt núna.

Með því alræði peninganna, sem nú er verið að koma á á Íslandi, með þeim okurfjötrum, sem nú er verið að spenna atvinnulíf og framkvæmdir Íslendinga í, er verið að vinna sama verkið og var unnið með skömmtunarfarganinu hjá fjárhagsráði fyrir 10 árum, nákvæmlega sama útkoman, enda nákvæmlega sama ameríska alræðið, sem stendur á bak við hvort tveggja. Það eru þessir hlutir, sem við viljum ekki bera ábyrgð á, vegna þess að við álítum þetta ábyrgðarleysi gagnvart fólkinu í landinu, gagnvart Íslendingum, að koma svona fram, að þjarma svona að fólki. Við álítum það ábyrgðarleysi að koma á svona alræði auðs og peninga, að leiða yfir almenning svona böl og svona vandræði og gera þeim, sem þræla, eins og þeir geta, svona erfitt með að eignast þak yfir höfuðið.

Sjálfstfl. hefur lýst því yfir sem sinni stefnu, að hver maður skyldi eignast sína íbúð, og þetta eru efndirnar á þeim loforðum. Svona er verið að fara að. Það er verið að neita mönnum um að geta eignazt íbúðir. Og svo virðist hæstv. ríkisstj. halda, að þegar búið sé að þjarma svona að mönnum og menn eru alveg að drepast undir þessu, þá muni þeir falla fram og tilbiðja hana, ef hún bæti nú einum 50 þús. kr. við það, sem menn geta fengið að láni, hafandi svo hækkað verðlagið á íbúðunum um 100 þús. kr. í sinni stjórnartíð.

Svona er ekki hægt að fara að. Þetta er ábyrgðarleysi gagnvart almenningi. Þar fyrir er ég ekki að segja, að það sé ekki gott út af fyrir sig, að það séu hækkuð lán um 50 þús. Það er bara of lítið. Það þarf að gera stærri hluti í þessum efnum. Ástandið hjá fólkinu fer hraðversnandi. Lögbirtingablaðið er e.t.v. einn tíðasti votturinn með öllum sínum nauðungaruppboðsauglýsingum. Ef það er hugsjónin, sem ríkisstj. stefnir að, að fjölga gjaldþrotum á Íslandi og sérstaklega gjaldþrotum hjá þeim, sem mest hafa þrælað í því að reyna að framkvæma það, sem Sjálfstfl. lýsti yfir að væri hans hugsjón, að hver maður ætti sína íbúð, og það á að eyðileggja að gera þann draum að veruleika, á sama tíma sem hins vegar er hlynnt að bröskurunum í landinu alveg eins og hægt er, þá er illa farið. Þess vegna situr sízt á hv. 1. þm. Vestf. að saka okkur um ábyrgðarleysi. Ef hann lítur á tölurnar um íbúðarhúsabyggingar t.d. hér í Reykjavík, — og sama býst ég við, að verði upp á teningnum úti um allt land, — og athugaði tölu íbúðarhúsabygginga síðustu 20 ár, þá mun hv. þm. sjá, að það eru tvö tímabil, þar sem íbúðarhúsabyggingar eru mestar. Annað er tímabilið 1944–47, og hitt er tímabilið 1956–58. Það eru þau ár, þegar Sósfl. og Alþb. hafa verið í ríkisstj. og hafa getað komið því fram, að stórir hlutir væru gerðir til þess að gera mönnum mögulegt að geta eignazt þak yfir höfuðið. Og það er engin tilviljun einmitt, að bezta löggjöfin í þessum efnum, löggjöfin um lága vexti og sæmileg lán, er einmitt frá slíkum stjórnarárum, meðan áhrifa verkalýðshreyfingarinnar á ríkisstj. naut við og sú ábyrgðartilfinning, sem einmitt þessir flokkar verkalýðsins hafa gagnvart velferð almennings í landinu, hefur fengið að njóta sín. Það var ábyrgðartilfinning, sem þar kom í ljós. Það er ábyrgðarleysi, sem kemur í ljós í þeirri pólitík, sem nú er rekin.