03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

171. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Hæstv. forseti. Allur hernaður og vopnaburður er svo fjarri skapi okkar Íslendinga, að við eigum margir hverjir erfitt með að átta okkur á því í fyrstu, að nauðsynlegt sé að gera slíkar ráðstafanir sem í þessu frv. felast. En þess er að gæta, að við getum engu ráðið um það, hvað aðrar þjóðir gera í þessu efni. Og það getur ekki farið fram hjá okkur, að mikið vantar á, að friðsamlegt sé í heiminum nú. Þvert á móti, allt logar í úlfúð og þrasi þjóða á milli, öll stórveldin keppast við að koma sem mestu af drápsvopnum í sina vörzlu. Það má því segja, að stórfelld stríðshætta vofi yfir, hvenær sem er, ef stórveldin geta ekki komið sér saman um allsherjarafvopnun og bann við notkun kjarnorkuvopna.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er nýmæli í okkar löggjöf. Að vísu voru sett lög hér 1941 um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum annarra þjóða (sbr. lög nr. 52 27. júní 1941). Þetta voru einungis heimildarlög, og Reykjavík ein notaði heimild laganna. Loftvarnanefnd borgarinnar vann mikið og gott starf, einkanlega í hjúkrunar- og líknarmálum. Hún keypti mikið af alls konar hjúkrunargögnum, sem geymd eru á öruggum stöðum hér í bænum og í nágrenni bæjarins. Má segja, að hér hafi giftusamlega til tekizt, því að þessi hjúkrunartæki hafa stórhækkað í verði, síðan þau voru keypt inn. Nú er nokkuð síðan loftvarnanefnd hætti störfum, og hefur ekkert verið aðhafzt í þessum málum síðan.

Þetta frv. er miklu víðtækara en lögin frá 1941. Það nær til alls landsins, og verða almannavarnir undir yfirstjórn dómsmrh. En með almannavörnum er stefnt að því að forða frá manntjóni og eigna, sem af hernaði eða árás kynni að leiða. M.ö.o.: almannavarnir stefna að því að bjarga mannslífum.

En það er ekki einungis tjón af völdum hernaðar, sem almannavarnir ná til. Það segir svo einnig í 2. mgr. 1. gr., að beita megi almannavörnum, ef tjón vofir yfir eða hefur orðið af náttúruhamförum eða annarri vá. Þetta er ákaflega þýðingarmikið í okkar eldfjallalandi. En það þarf ekki beinar hernaðaraðgerðir hér á landi til þess, að hætta geti steðjað að okkur Íslendingum. Hætta getur einnig steðjað að okkur, ef stórþjóðirnar fara á ný að sprengja vetnissprengjur eða atómsprengjur í lofti. Þá er það hið geislavirka úrfall, sem hættan stafar af. Það er því einn þáttur almannavarna að rannsaka og mæla geislavirkt úrfall og leiðbeina almenningi til varnar gegn þeirri hættu, sem af því getur stafað. Þessi þáttur hefur stórmikla þýðingu fyrir þjóðina alla.

Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta mál á mörgum fundum. Hún kvaddi á sinn fund lögreglustjórann í Reykjavík og borgarlækninn. Fékk nefndin hjá báðum þessum mönnum mjög mikilsverðar upplýsingar. Einnig mætti hjá nefndinni framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga. En þar sem stjórn sveitarfélaga er í þann veginn að koma saman, þá óskaði framkvæmdastjórinn eftir að mega leggja þetta mál fyrir stjórnina, og hún mundi geta komið að sínum athugasemdum, áður en málið færi út úr þinginu.

Heilbr.- og félmn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Ég skal geta þess, að nefndin hefur óbundin atkv. um brtt. á þskj. 406.