03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

171. mál, almannavarnir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fyrir, er, eins og þegar hefur komið fram af hálfu þeirra, sem töluðu, mjög yfirgripsmikið og fjallar um mál, sem vissulega þurfa mjög ýtarlegrar athugunar og ýtarlegra umræðna við. Ég álít, að það væri ekki rétt að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi, og mín reynsla er sú, að áður, þegar hæstv. dómsmrh. hefur lagt allstóra lagabálka fyrir Alþingi, sem hafa í för með sér allmikla breytingu á réttaröryggi og aðstöðu borgaranna í landinu, þá hefur það, a.m.k. í langflestum tilfellum, verið svo, að þegar það hefur verið lagt fyrir í lok þings, hefur hann ekki óskað eftir afgreiðslu á því á sama þingi, heldur gefið þm. tækifæri til þess að athuga málið og íhuga það og þá aftur í staðinn látið afgreiða málið venjulega á næsta þingi, kannske með þeim breytingum, sem menn höfðu komizt að niðurstöðu um við nánari athuganir að réttar væru. Og ég vildi ákaflega mikið mælast til þess, að það mætti hafa sama hátt á með þetta mál. Ég man eftir, að þetta hefur verið gert hér áður um ýmis mál, sem varða réttaröryggi borgaranna, meðferð einkamála, hæstarétt og ýmislegt fleira, refsimálalöggjöfina og slíkt. Ég held, að þetta mál, sem hérna liggur fyrir, sé líka þess eðlis, að það væri heppilegast fyrir okkur alla, hvaða afstöðu sem við annars höfum til þess, að við fengjum að athuga það betur.

Mér sýnist, að í þessu frv., það lítið sem ég hef getað athugað það, sé eiginlega alveg ruglað saman tvennum hugmyndum: annars vegar hugmyndunum um, hvað gera skuli hér á landi, við skulum segja, ef maður mætti nota það orð, ef „gamaldags“ stríð skylli á, þ.e. svipað stríð og það, sem við drógumst inn í 1940 og 1941, og líka ef t.d. geislavirkni af sprengingum úti í heimi yrði svo mikil, að almannahætta væri af. Þetta hvort tveggja mundi vera í flokki út af fyrir sig. Og mér virðist, að í þessu frv., eins og raunar í því gamla frá 1941, sé að miklu leyti gengið út frá því, að það séu þessi gamaldags fyrirmæli, 20 ára gömlu, sem við raunverulega eigum að byggja á. Hins vegar er svo spurningin um kjarnorkustríð og aðstöðu Íslands, almannavarnir og annað slíkt og alls konar ráðstafanir, sem væru gerðar með tilliti til þess, að Ísland drægist inn í kjarnorkustríð. Þetta tvennt er svo gersamlega ólíkt, að ég held, að lagalega séð verði úr því vanskapnaður hjá manni, ef maður ætlar með litlum undirbúningi að skella þessu tvennu saman.

Það er alveg rétt, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti hér á áðan, að það eru til lög í sambandi við hið fyrra, í sambandi við „gamaldags“ stríð, þar sem t.d. er gengið út frá alls konar samhjálp borgaranna og líka vissum skyldum þeirra, t.d. til þess að reyna að eyðileggja sprengjur, sem féllu niður, sjá um, að þær gerðu ekki skaða, reyna að komast að þeim, áður en þær spryngju, þ.e. sams konar loftvarnaráðstafanir og maður kynntist í London á stríðsárunum, þar sem borgararnir reyna sjálfir að hjálpa til við að slökkva elda og annað slíkt, sem af slíku stafar. Ríkisstj. hefur í sínum höndum, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, allt það vald, sem þarf viðvíkjandi „gamaldags“ stríði. Og það er náttúrlega enn þá minna vald, sem þarf til þess að gera ýmsar ráðstafanir gegn hættu af því, að geislavirkt ryk bærist hingað til Íslands, hvaðan sem það kæmi. Eins og við vitum, er það nú alllengi búið að viðgangast í heiminum, að framleitt sé geislavirkt ryk og það á ýmsum stöðum. Það var ekki fyrst í haust, að sprengdar voru 50 megatonna sprengjur, þær voru líka sprengdar 1958 um haustið suður í Kyrrahafi. Þess, sem við þyrftum að gera viðvíkjandi slíku tvennu, „gamaldags“ stríði eða geislavirkni af tilraunasprengingum, hefur þessi hæstv. ríkisstj. eða hver önnur sem væri nú þegar heimildir til. Það, sem mér sýnist hins vegar blandast saman í þessu frv., eru annars vegar ráðstafanir gagnvart slíkum fyrirbrigðum og hins vegar á vissum pörtum ráðstafanir, sem ættu að vera gegn kjarnorkustríði, en að mínu áliti eru alveg gersamlega ófullnægjandi gagnvart því og beinlínis rangar, eins og þetta er byggt upp, vegna þess að þegar við ættum að athuga þann möguleika, þá þurfum við að reyna að gera okkur miklu betri hugmyndir um þessa hluti en við höfum kannske gert okkur fram að þessu. Það er rétt, sem allir aðilar, sem hér hafa talað, hafa tekið fram, við höfum verið ókunnugir þessum málum. Fáir okkar hafa lifað það að standa í slíku stríði, horfa á það og sjá, hvernig borgir eru útleiknar eftir það eða verða útleiknar í því, og enn erfiðara er náttúrlega flestum okkar að gera sér síðan í hugarlund, hvað það muni þýða að dragast inn í kjarnorkustríð.

Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að mönnum þyki það allmikið að gefa nú máske með þessu frv. svo og svo miklar heimildir, svo og svo mikið vald til ríkisstjórna, lögreglustjóra og ýmissa slíkra aðila, sem að sumu leyti væru hugsaðar út frá almannavörnum í kjarnorkustríði, en hins vegar gera ekki ráð fyrir viðbrögðum, sem einsömul mundu geta að nokkru leyti dugað, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Þess vegna er það eðlilegt, að manni verði fyrst af öllu að athuga um þá aðstöðu, sem borgararnir eru settir í einmitt við þær breytingar, sem hér eru gerðar um aukið vald til hálfu ríkisstjórnar og lögregluyfirvalda með þessum lögum, sérstaklega ef ætti að fara að beita slíkum aðferðum, beita slíku valdi t.d. í sambandi við tilraunasprengjur.

Við skulum muna það, að gömlu lögin okkar frá 1941 eru gefin út 27. júní 1941. Þau eru gefin út á sólarhringnum eftir að Bandaríkjastjórn setti Íslandi úrslitakosti um að svara innan 24 klst., hvort Ísland gengi að því að biðja Bandaríkin, að því er kallað var af frjálsum vilja, um hervernd eða þau mundu grípa til annarra ráðstafana. Svo að segja 24 tímum eftir að gefizt hafði verið upp af þáverandi hæstv. ríkisstj. fyrir Bandaríkjunum, fyrir þessum úrslitakostum, þá voru, eins og eðlilegt var, af ríkisstj. gefin út samtímis brbl. til þess að reyna að gera vissar ráðstafanir til loftvarna hér á landi.

Nú hefur það verið sagt bæði af hv. frsm. meiri hl. heilbr:.-og félmn. og af hv. 5. þm. Reykv., að þetta vald, sem verið væri að gefa nú með þessum lögum, gæti jafnvel líka gilt, þegar væri verið að ræða um tilraunasprengingar. Nú skulum við segja, að þm. og landsmenn vildu sætta sig við það, að gömlu lögin frá 1941 og breytingar á þeim væru í gildi, ef „gamaldags“ stríð brytist út. Ég á þar með við, ef allt í einu væri komið eitthvað samkomulag milli allra stórvelda um, að þau ætluðu ekki að nota kjarnorku í styrjöld, en svo kysu þau að fara í „gamaldags“ styrjöld. Það gætu náttúrlega allir sætt sig við, að gömlu lögin giltu, þegar um slíkt væri að ræða. En segjum svo hitt. Segjum, að Bandaríkin taki upp á að sprengja miklar sprengjur í haust, segjum, að Sovétríkin taki upp á að sprengja aftur miklar sprengjur og bæði sprengi mun meira en fyrr. Það er ekki eins víst, að menn mundu með glöðu geði sætta sig við, að það væri hægt að líta svo á, að bara slíkar tilraunir með kjarnorkuvopn, jafnvel hjá stórveldunum, nægðu til þess að gefa yfirvöldunum á Íslandi allar þær heimildir, sem annars væru, þegar styrjöld væri. Í 3. gr. segir: „Á hættutímm er ríkisstj. heimilt“. Og í síðari mgr. þar segir: „Ef hætta vofir yfir, getur lögreglustjóri bannað.“ Þetta eru ákvarðanir, sem þurfa að ákveðast miklu, miklu nánar. Segjum, að þetta sé alveg eðlilegt, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, viðvíkjandi stríði upp á gamla móðinn. En segjum nú, að af ríkisstj. væri þetta skilið svo, eins og fram hefur komið að nokkru leyti hjá þessum tveim hv. stjórnarþingmönnum, að það mætti nota þetta og alla þessa heimild, ef stórveldin væru bara í tilraunum með kjarnorkusprengingar og það væri álitin hætta t.d. ef að kjarnorkuryk bærist hingað, að þá fengi sem sé hæstv. ríkisstj, og lögregluyfirvöld öll þau réttindi, sem í þessum lögum felast. Þá er gengið mjög langt á réttindi almennings. Við vitum, hvernig er orðið með hættutíma. Við höfum sjálfir, Alþingi, lent einmitt í vandræðum áður út af því orði. Í samningnum, sem gerður var undir þessum kringumstæðum hér 1941 við Bandaríkjastjórn, var það, sem orðað var á íslenzkunni um styrjöldina, ef ég man rétt, talið af Bandaríkjastjórn eiga við á enskunni um hættutíma, þannig að þegar skýra skyldi samninginn 1945 í stríðslok, þá greindi íslenzku ríkisstj. og ríkisstj. Bandaríkjanna á um skilninginn á þessu orði, og Bandaríkjastjórn hélt því fram, að hún væri ekki skyldug til að fara héðan burt, þó að stríðinu væri lokið í Evrópu, vegna þess að eftir sem áður væru hættutímar. Og eins og það gat orðið að deilumáli þá á milli þeirra tveggja ríkisstjórna, eins gæti það náttúrlega orðið að miklu deilumáli, hvernig skilja skyldi slíkt, einmitt á milli borgara landsins og ríkisstj. eða yfirvaldanna. Ég held þess vegna, að þessi atriði þurfi að athugast miklu nánar.

Þá tek ég eftir því líka, að samkv. III. kaflanum, sem er raunverulega, eftir því sem mér skildist, einn róttækasti kaflinn, á að gera harðvítugar og mestar ráðstafanir. Mér sýnist hann allur bera keim af því að vera saminn út frá hættunni í gamaldags styrjöld, kannske líka náttúrlega þeirri minni hættu, sem væri í sambandi við geislavirkt ryk. Mér sýnist hann allur bera svip af gamla stríðinu, en alls ekki sé reiknað með því að neinu leyti, að hann gæti orðið að gagni, ef Ísland drægist inn í kjarnorkustyrjöld. Mér sýnist, að við hljótum að vera sammála um það, ef við ræðum þetta mál af fullri alvöru, eins og það verðskuldar, að a.m.k. ef hér eru áfram herstöðvar og allt slíkt, þá er það eina, sem hljóti að vera einhver ofur lítil von um að geti bjargað allmiklu af því fólki, sem nú er samanþjappað hér á suðvesturhorninu, hér á Reykjanesskaganum og Seltjarnarnesinu, það eina, sem getur raunverulega eitthvað hjálpað þessu fólki, ef Ísland dregst inn í kjarnorkustyrjöld, það er skipulagning á almennum flótta. Við hljótum náttúrlega allir, hvort sem við erum með eða móti herstöðvunum, að gera okkur það ljóst, að ef Atlantshafsbandalagið lendir í styrjöld og það kjarnorkustyrjöld og farið er að skjóta á báða bóga með öllum þeim nútímavopnum, kjarnorku, eldflaugum og slíku, þá eru auðvitað þær stöðvar, sem hljóta að vera fyrst og fremst í hættu, það eru stöðvarnar, þar sem flugvellirnir og herstöðvarnar eru hér syðra, og þá fyrst og fremst Keflavíkurflugvöllur og það, sem er í grennd við hann. Hér í grennd við hann, eins og það mundi vera á hernaðarlega vísu, eru upp undir 3/4 hlutar þjóðarinnar, þannig að við hlytum að geta gengið út frá því, að í styrjöld yrði allur þorrinn af þessari byggð eyðilagður. Það, sem við hlytum fyrst og fremst að miða við, ef til svona ógæfu kæmi, væri að reyna að nota þá klukkutíma, sem við vonandi fengjum, til þess að reyna að flytja eins mikið af fólki burt og mögulegt væri. Og ég held, að það væri frá upphafi glapræði að ganga út frá því að ætla að telja fólki trú um, að það væri einhver veruleg björg í því, annaðhvort að hafast við í kjöllurum í Reykjavík eða í loftvarnabyrgjum í Reykjavík eða slíku. Ég held, að við yrðum fyrst og fremst að ganga út frá því, að þegar svo alvarlegt væri orðið ástand í veröldinni, að til kjarnorkustyrjaldar gæti komið, þá yrði fyrst og fremst að reyna að skipuleggja flutninginn á þessu fólki burt af þessu hættusvæði. Við höfum ekki svo mjög slæm tæki til þess. Við vitum það, að við höfum á þessu svæði bíla, sem í einni ferð, ef það er skipulagt frá upphafi, geta flutt svo að segja alla íbúa þessa svæðis, ef það bara frá upphafi er nægilega vel skipulagt, — geta flutt alla íbúa þessa svæðis í fjarlægð, sem er frá 50 til 200 km, eftir því, hve marga klukkutíma við höfum til að komast með fólkið. Það, sem við hlytum að undirbúa fyrst og fremst, er að reyna að sjá til þess, að hver einasti bíll sé skipulagður til þess að geta tekið ákveðið fólk úr ákveðnum húsum undireins og dreift því upp um allt Suðurlandsundirlendið, eins langt og við komumst með það, og á öllum þeim stöðum sé eins vel útbúið og hægt sé til þess að geta haldið fólki uppi, til þess að geta einhvern veginn látið það lifa. Ég held, að ef við miðum við kjarnorkustríð, þá sé það fyrst og fremst að bjarga fólkinu burt frá þessu svæði, sem við yrðum að hugsa um, og það sé fyrst og fremst skipulagsatriði.

Hins vegar sýnist mér allur III. kaflinn, 10.–14. gr., hugsaður út frá gömlu loftvarnaaðferðunum, sem maður kynntist í Bretlandi á stríðsárunum, hugsaður út frá því, að það koma litlar gamaldags sprengjur, þær detta niður, maður getur komizt að þessum sprengjum með blautan poka eða með sandpoka eða eitthvað slíkt og kæft þær, áður en þær springa, eða ef þær springa, að reyna að hindra, að eldsvoðinn breiðist út. Þetta er sú aðferð, sem þá var notuð og almenningur tók ákaflega mikinn þátt í og hjálpaði ákaflega mikið til þess að draga úr því tjóni, sem loftárásirnar ollu. En þetta er allt saman orðinn tómur barnaleikur miðað við það, sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er ekki lengur þessi hætta, sem vofir yfir okkur. Það eru ekki þessar smásprengjur. Það verða ekki flugvélar, sem koma hér inn yfir okkur, svo að maður heyri þytinn í þeim og finni nokkurn veginn á sér, hvenær þeir fara að styðja á takkann til að sleppa sprengjunum, mennirnir í flugvélunum. Það, sem verður hið ægilega, sem yfir okkur kemur, það er, að á nokkrum mínútum þjóta eldflaugarnar kannske meira eða minna sjálfvirkar á þessa staði og dyngjast niður á herstöðvastaðina í heiminum, og við vitum, að þessar stóru og voldugu hernaðarþjóðir nútímans, eins og Bandaríkin og Sovétríkin, stæra sig af því, að þær hafi hvor um sig margfaldar birgðir til þess að geta eytt öllu mannkyni, svo að það yrði vafalaust ekki sparað á þær herstöðvar, sem til eru í veröldinni, frá beggja hálfu að reyna að eyðileggja þær, eins og hægt væri.

Mér sýnist þess vegna, þegar ég lít t.d. á 12. gr., þar sem tekið er fram, að það sé óheimilt að hverfa úr starfi án leyfis, að starfsmaður megi ekki fara úr lögsagnarumdæminu nema með samþykki lögreglustjórans, viðvíkjandi hjálparliðunum, þetta er auðsjáanlega allt saman hugsað út frá þessu gamla. Það koma kannske loftárásir dag eftir dag, þar sem litlum, 1, 2, 5 eða 10 tonna sprengjum af gömlu tegundinni er kastað niður, þar sem hjálparliðið á að vera til taks til þess að reyna að slökkva þetta, þar sem hjálparliðsmaðurinn á þess vegna að vera á sinum stað og gegna sínu starfi, og þetta var skiljanlegt á þeim tíma. En nú er raunverulega það eina, sem við mundum segja hjálparliðsmönnum að gera, að skipuleggja flóttann. Við skulum segja, að einn hjálparliðsmaður er ábyrgur fyrir einu húsi og einum bíl, sem á að taka fólkið úr því, eða tveimur bílum, þremur bílum eða hvað sem það er, og reyna að koma því í burtu, þannig að það, sem hjálparliðsmaðurinn fyrst og fremst á að gera í þessum efnum, er að sjá um að koma þessu fólki út úr lögsagnarumdæminu. Það þarf ekki að spyrja neinn lögreglustjóra, það þarf ekki að hugsa um það að fá fyrirskipanir frá yfirmönnum, því að hann hefur engan tíma til þess að bíða eftir þeim, heldur aðeins að vita, að á því augnabliki, sem merkið er gefið, eigi hann að stjórna þessu og ekki að missa af neinni mínútu í það að spyrja neinn lögreglustjóra eða neinn yfirmann, heldur á hann einmitt að vita, hvað hann á að gera, og geta sagt fólkinu það og geta skipulagt þennan flótta og geta komið fólkinu burt úr lögsagnarumdæminu. Ég held þess vegna, að við eigum að athuga þetta allt saman miklu betur.

Ég tók eftir því t.d., að hv. 5. þm. Reykv. sagði hér rétt áðan, að það ætti að skipta Reykjavík niður í hverfi. Jú, það getur verið ágætt að skipta Reykjavík niður í hverfi, en fyrst og fremst til þess að skipta brottflutningi fólksins, ekki hverfi til varnanna í sjálfri Reykjavík. Við eigum ekki að hugsa um þá hluti, af því að við stöndum ekki frammi fyrir þeim tækjum, sem við stóðum frammi fyrir fyrir tuttugu árum, og getum ekki skipulagt okkar varnir miðað við það. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Já. (Forseti: Þá vil ég biðja hann um að gera svo vel og gera hlé á máli sínu, og verður fundi frestað til kl. 5. —[Fundarhlé].

Herra forseti. Ég hafði komið þar ræðu minni, að ég hafði rætt nokkuð um, hvernig það tvennt blandast alveg saman í þessu frv., annars vegar raunverulega úreltar hugmyndir frá gamaldags styrjaldarháttum, og meginið af þeim ráðstöfunum, sem ég hef þegar gert að umtalsefni, eins og t.d. í III. kafla frv., ber alveg svip af þeim, og svo hins vegar þær ráðstafanir, sem þarf að gera í sambandi við kjarnorkustyrjöld. Og það er alveg greinilegt á þessu frv., að þeir, sem það hafa samið, hafa ekki gert þessa hluti upp við sig. Í V. kaflanum, t.d. 20. gr., stendur:

„Ef brýna nauðsyn ber til, að fólk flytji af hættusvæði, getur ríkisstj. ákveðið brottflutning.“

Eins og ég talaði um áðan, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur og Ísland dregst inn í hana, þá er brottflutningur, áður en sprengjurnar byrja að falla, eina vonin, einmitt fyrir það fólk, sem hér býr, hér í þessu nágrenni, þannig að þarna er ekki um að ræða: „ef brýna nauðsyn ber til“, þá geti ríkisstj. tekið ákvörðun. Það þarf að vera ákvörðun tekin fyrir fram, að þessir hlutir skuli gerðir og að allir séu viðbúnir að framkvæma þessa hluti, um leið og eitt merki er gefið um það. Það er enginn tími til þess að gefa út einhverjar reglugerðir eða hafa þess háttar gamaldags hátt á, ef um slíkt er að ræða.

Og svo segir í 21. gr., þegar tekið er fram, að ríkisstj. hafi fyrirskipað mönnum að flytja sig til einhvers ákveðins staðar: „Engum er heimilt án sérstaks leyfis að flytja frá þeim stað, sem honum hefur verið vísað á.” Þessar hugmyndir um, að hlutirnir komi til með að ganga svona, að svona nákvæmt eftirlit sé haft með einstaklingunum, þetta sýnir, að menn gera sér ekki neina hugmynd um, hvers konar styrjöld það væri, sem Ísland væri þarna að dragast inn í.

Það má kannske segja út af fyrir sig um það, sem segir í 22. gr., hvernig kostnaðurinn eigi að skiptast á eftir, að þetta er svo sem allt gott og blessað, en vafalaust er vissara að gera ráð fyrir því, að þau sveitarfélög, sem þarna er um að ræða og ættu að bera svo og svo mikið af þeim kostnaði, yrðu ekki til, þegar þetta væri búið.

Við skulum ekki hugsa um þessa hluti eins og einhverja, — ja, mér liggur við að segja hreppaflutninga í gamla daga. Það eru ekki svipaðir hlutir, sem þarna er um að ræða. Það eru miklu, miklu alvarlegri hlutir og alvarlegri hlutir en þeir, sem við höfum kynnzt í sambandi við fyrri umr. um styrjaldarráðstafanir, eins og þær, sem gerðar voru 1941.

Og það gegnir raunverulega sama máli, ef maður blaðar í þessum grg, hérna, og hef ég þó ekki getað lesið þær allar eins í gegn og mér bæri skylda til. Ég sé, að það er talað um það hér, t.d. á bls. 16, með leyfi hæstvirts forseta: „Að áliti lækna mun vera unnt, ef í nauðir rekur, að koma fyrir um 200 særðum mönnum í sjúkrahúsum hér í bænum“. Það eru ekki sjúkrahús í Reykjavík, sem verður fyrst og fremst það nauðsynlega í þessu sambandi. Það verða kannske sjúkrahús, sem væru uppi hjá Laugarvatni eða einhvers staðar þar sem lengst, lengst í burtu frá þessu mesta hættusvæði, sem hérna er, sem þá hefðu verulegt gildi. Ég býst við, að öll þessi stóru sjúkrahús, sem við erum að byggja í Reykjavík núna, það mundi ekkert af þeim hafa raunverulegt gildi fyrir okkur, ef Ísland dregst inn í kjarnorkustyrjöld.

Eins er þegar talað er í 19. gr. um loftvarnabyrgi á Arnarhóli. Við töluðum um í síðasta stríði, hvort þetta kæmi kannske til mála þá gagnvart þeim smásprengjum, sem búizt var við að Þjóðverjar mundu kasta hérna og köstuðu einstaka sinnum. En til hvers er fyrir okkur að hugsa um raunverulegt byrgi í Arnarhóli, eins og núna standa sakir, þegar við gætum búizt við kjarnorkusprengjum yfir Reykjavík? Það er eins og það ægi þarna saman alls staðar þeim gamla hugsunarhætti miðað við það gamla stríð, og samt er talað um nauðsynina á að búa sig undir kjarnorkustyrjöld.

Hins vegar segir á bls. 21, með leyfi hæstv. forseta: „N. hefur einnig rætt töluvert um möguleika til brottflutnings fólks skyndilega, ef til loftárása kæmi. Eins og aðstæður eru hér í nágrenni Reykjavíkur, er að vísu hugsanlegt að flytja töluverðan fjölda fólks af bæjarsvæðinu á skömmum tíma, svo fremi að vegir teppist ekki, en hins vegar ógerlegt að koma fjölda manns, tugum þúsunda, fyrir til dvalar í dreifbýli, svo að viðhlítandi sé, nema með ærnum kostnaði, margfalt meiri kostnaði en fjárveitingarvaldið hefur ætlað til loftvarnaráðstafana.”

Mér finnst þessi litla setning sýna barnaskapinn, sem þessi n. er haldin af. Hún hefur rætt um möguleika til brottflutnings fólks, rætt töluvert þennan möguleika. Þetta er raunverulega eini möguleikinn í sambandi við kjarnorkustyrjöld, sem nokkuð getur bjargað Reykvíkingum, og þá er einmitt um það að ræða að flytja tugi þúsunda fólks í burtu. Ég man ekki nákvæmlega um bílaeignina. Það er réttilega gert ráð fyrir, að ríkisstj. geti tekið öll skip og alla báta og allt saman slíkt, og það getur orðið að nokkru gagni, en ég býst við, að það yrðu þó bílarnir, sem menn fyrst og fremst mundu treysta á, og mig minnir, að bílaeignin hér sé svo mikil, að það skipti áreiðanlega tugum þúsunda, sem við höfum yfirráð yfir af bílum hér á þessu þéttbýlissvæði, þannig að þótt að meðaltali megi koma 4–5 mönnum í bíl og allmiklu meira í marga, þá er áreiðanlega hægt að flytja yfir hundrað þúsund manns með einni bílaferð 50–100–150 km veg, ef það gefast 1–2–3 klukkutímar og ef þeir menn, sem ræða þetta, hafa gert sér þetta ljóst fyrir fram, ef þeim n., sem um þetta fjalla, er það ljóst, að þetta er möguleiki. En í staðinn kemur það í ljós, að þessi n., sem þarna er um að ræða, jú, hún er að ræða um þennan möguleika til brottflutnings fólks og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé hægt að flytja töluverðan fjölda, en það sé ógerlegt að koma tugum þúsunda fyrir til dvalar í dreifbýlinu. Auðvitað er hægt að koma því fyrir til dvalar í dreifbýli. Um hvað er að ræða þarna viðvíkjandi dvöl í dreifbýli? Það er það, að á einum sveitabæ, þar sem núna eru kannske fimm manns eða tíu manns, eða ef það væri stórbýli upp á gamla móðinn, kannske tuttugu manns, auðvitað komast þarna fyrir 30–40–50 manns í viðbót. Það er ekkert verið að spyrja, hvernig fari um fólkið, það getur legið þarna á gólfinu. Það eina, sem það þarf, er matur, svo að það deyi ekki úr hungri, kannske einhverjar ráðstafanir, sem hér var verið að tala um áðan, viðvíkjandi geislunarhættu eða slíku, ef hægt væri að gera þær, en þó fyrst og fremst, að þá daga, sem slíkt stríð stendur, deyi þetta fólk ekki úr hungri. En spurningin stendur ekki að öðru leyti um einhvern aðbúnað og slíkt. Það er um að gera að forða lífi þess, meðan mesta hryðjan stendur yfir, koma því burt af því svæði, þar sem því er dauðinn vís. Og ef búið væri að útbúa alla sveitabæi í Árnes- og Rangárvallasýslum með alls konar niðursuðuvörum og öðru slíku og gömlum íslenzkum matvörum, sem hægt er að geyma, þá er hægt alllangan tíma með góðri skömmtun að halda lífi í slíku fólki, ef þetta er hugsað fyrir fram af einhverju viti. Það er ekki til neins að fara að grípa til þess, um það leyti sem kjarnorkustyrjöld væri hafin. En þetta sýnir bara, hvernig þessi n., sem þetta hefur undirbúið, tekur alveg óraunsætt á þessum hlutum. Hins vegar sé ég það strax, að t.d. í álitsgerð Holtermanns, á bls. 25, í d-liðnum þar, er rætt um eitt höfuðatriðið, brottflutning fólks úr Reykjavík á ófriðartímum, og talað um þann stutta tíma, sem sé til umráða, en maðurinn hefur auðsjáanlega ekki neina staðarlega þekkingu á þessu hérna, hvað sé hægt, og tekur þetta bara sem almennt dæmi, en alveg rétt dæmi. Þetta er atriðið. Hann talar um brottflutning úr sjúkrahúsunum í Reykjavík. N. hins vegar talar um, hvað sé hægt að koma fyrir af fólki í sjúkrahúsunum í Reykjavík, og þess vegna er það alveg gefið, að þarna stangast allar þessar skoðanir á. Það er talað um í þessari skýrslu Holtermanns hershöfðingja, að í Reykjavík mætti útbúa almenn varnarbyrgi fyrir um 10% af íbúunum, og væri það mikið, ef það væri hægt og kæmi að gagni, en hitt er alveg gefið, að brottflutningurinn hlýtur að verða þarna aðalatriðið og skipulagningin öll viðvíkjandi flutningi fólks og dvöl í dreifbýli.

Þetta segi eg bara til þess að benda á, hvernig þetta frv. er hrærigrautur af þeim hugmyndum, sem menn gerðu sér út af gamaldags styrjöld og aðferðum við hjálp, þegar litlar sprengjur eru að falla. En frv. er samið á tíma, þegar ljóst er, að ef til styrjaldar kemur, þá verður það því miður vafalaust kjarnorkustyrjöld.

Það var eftirtektarvert, að 5. þm. Reykv., sem hefur einmitt átt nokkurn þátt í að undirbúa þetta frv., talaði um gildi þess út frá því, hvort þetta gæti orðið til þess að bjarga kannske lífi 10 þús. manna, kannske fleiri, sem ella hefðu farizt í slíkri styrjöld, og var greinilegt, að hann átti þarna við kjarnorkustyrjöld. Það er greinilegt, að hann, sem hefur átt nokkurn þátt einmitt í undirbúningi málsins, hefur hugsað sér, að þetta frv. ætti að einhverju leyti að vera til varna í Kjarnorkustyrjöld. Hins vegar er alveg greinilegt, að frv. sjálft er ekki hugsað út frá því, og hv. 5. þm. Reykv. spurði þess vegna, hvers virði væri líf þjóðarinnar, hvers virði væri líf tíu þúsunda, hvers virði væri líf tuga þúsunda, og út frá því yrðum við að ræða þessi mál. Ég skal gjarnan verða við því að ræða þessi mál út frá því sjónarmiði, sem hann lagði hér fram, á hvern hátt við getum gert ráðstafanir hér á Íslandi til þess að reyna að bjarga því, sem dýrmætast er, lífi svo og svo mikils hluta af þjóðinni. Þótt það sé rétt, að geislavirk ský af kjarnorkusprengju geti náttúrlega lent niður hvar sem er og jafnt Akureyri sem Langanes eða Snæfellsnes væru þar í sömu hættu og Reykjavík eða Vestfirðirnir, þá er gefið, að stóra hættan, sem um er að ræða og hv. 5. þm. Reykv. lagði líka mesta áherzlu á, það er sjálf hættan af kjarnorkustyrjöld og sú gereyðing, sem hætta væri á að hún hefði í för með sér.

Ég skal nú eftir þennan stutta inngang um frumvarpið um almannavarnir sjálft og þær gömlu hugmyndir, sem enn þá eru á víð og dreif í því og setja sinn svip á það, koma inn á, hvað okkur ber að gera út frá því sjónarmiði, að líf þjóðarinnar eða mikils hluta hennar og kannske allrar sé í veði, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur. Og þar verðum við náttúrlega að kryfja hlutina til mergjar, þegar við förum að taka það mál fyrir, þegar málin eru lögð þannig fyrir mann: Hvers virði er líf þjóðarinnar, hvað eigum við að gera til að vernda líf þjóðarinnar í kjarnorkustyrjöld? Þá verðum við að taka málið róttækt fyrir, og þá er auðvitað fyrsta spursmálið það, hvað við getum gert til þess að skapa íslenzku þjóðinni öryggi. Það er það, sem hv. 5. þm. Reykv. lagði ríka áherzlu á sem frumskyldu hverrar ríkisstj., að búa þegnum sinum öryggi.

Það, sem okkur ber fyrst og fremst að gera til þess að skapa slíkt öryggi, er að afnema allar herstöðvar hér á Íslandi og að láta Ísland ganga út úr Atlantshafsbandalaginu. Þetta frv., sem hér er komið fram, og sú viðurkenning, sem m.a. hv. 5. þm. Reykv, nú hefur gefið á þeirri hættu, sem yfir vofir, er fyrsta stóra og almenna viðurkenningin frá hálfu hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna á því, að okkur er ekki vörn í þeim her, sem hér er, né heldur vörn í því að vera í Atlantshafsbandalaginu. Það er ekkert, hvorki herstöðvarnar, sem hér eru, né veran í Atlantshafsbandalaginu, sem tryggir líf eins einasta Íslendings, heldur þvert á móti. Ef okkur er einhvers virði líf þjóðarinnar og líf þeirra tuga þúsunda, sem hér búa, eða svo og svo mikils af þeim tugum þúsunda, sem hér búa, þá ber okkur að gera það sem okkar fyrstu ráðstafanir að halda okkur utan við öll hernaðarbandalög og sjá um, að hér séu engar herstöðvar. Þetta var stefna okkar Íslendinga, og ég vil vekja athygli á því, að við höfum aðeins horfið frá þeirri stefnu nauðugir, eins og ég mun koma að síðar. Við mótmæltum því, þegar Bretar hernámu okkar land og skertu okkar hlutleysi. Það var ein af þeim röksemdum, sem beitt var, þegar gengið var inn á úrslitakosti, nauðungarsamninginn við Bandaríkin 7. júlí 1941, að það væri þó a.m.k. vernd hlutlauss lands, sem við fengjum í staðinn fyrir stríðsaðila, og því var ljóst yfir, þegar við gengum inn í Sameinuðu þjóðirnar 1946, að við mundum ekki fá herstöðvar hér á landi, ekki einu sinni her Sameinuðu þjóðanna. Og það er engum efa bundið og er alltaf hægt að rekja það, að vilji þjóðarinnar var sá, að hér væru engar herstöðvar. Þegar gengið var í Atlantshafsbandalagið, var því beinlínis lýst yfir af hálfu þáv. hæstv. ríkisstj. og stuðzt meira að segja við yfirlýsingu frá þáv. utanrrh. Bandaríkjanna, Deau Acheson, að það yrði ekki um það að ræða, að farið yrði fram á herstöðvar á Íslandi á friðartímum, þannig að það hefur verið stefna þjóðarinnar að hafa hér engar herstöðvar. Við höfum verið dregnir með hernámi inn í það að hafa hér herstöðvar og vera í hernaðarbandalagi, að þjóðinni fornspurðri og að mestu leyti henni að óvörum. Og það, sem nú kemur í ljós, þegar við förum að ræða þetta mál, er, að þessi vera okkar í hernaðarbandalagi og þetta að hafa herstöðvar hér á Íslandi, það skapar okkur aðeins aukna hættu. Þegar við verðum nú að fara að ræða önnur eins mál og hæstv. ríkisstj. nú hefur lagt fyrir um almannavarnir í landinu, varnir vegna kjarnorkusprengna, sem hér kynnu að falla, þá er það fyrst og fremst vegna þess, að Ísland er orðið herstöð, sem dregur að sér sprengjurnar. Ef við þess vegna viljum ræða um okkar ráðstafanir til þess að reyna að vernda líf okkar þegna, þá er fyrsta og höfuðráðstöfunin að ganga úr Atlantshafsbandalaginu og segja upp þeim herstöðvum, sem hér eru, gera þannig ekki leik að því að gera Ísland að skotmarki. Ég held, að þetta sé fyrsta og þýðingarmesta málið, sem við eigum að taka afstöðu til, þegar okkur er boðið upp á það að fara að ræða almannavarnir á Íslandi í kjarnorkustríði. Við verðum að fjarlægja þau skotmörk, sem við höfum sjálfir skapað akkur. Við eigum ekki að gera okkur sjálfa að skotmarki að óþörfu. Það er sú mikla fásinna, sem við höfum gert nú, og frá því þurfum við að hverfa. Sú fyrsta hætta, sem við þurfum að bægja frá okkur, eru herstöðvarnar, sem hér eru.

Þetta, sem ég nú hef sagt, var almennt viðvíkjandi því, hver hætta stafar af verunni í Atlantshafsbandalaginu og því að hafa hér herstöðvar. Þá held ég sé í öðru lagi nauðsynlegt, þegar við ætlum að ræða þessi mál, — og hv. 5. þm. Reykv. lagði einmitt áherzlu á það, að við ræddum þetta mál hér af alvöru, og ég er alveg reiðubúinn til þess, — þá held ég, að við verðum, þó að það kunni að vera erfitt, að reyna að gera okkur sjálfum og þjóðinni ofur litla grein fyrir, hvað kjarnorkustyrjöld er.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, frv. sjálft, hvað sem annars kemur fram í sumum atriðum í grg. þess, sérstaklega grg. útlendinga, þá ber frv. sjálft alls ekki með sér, að hæstv. ríkisstj. eða n., sem hefur undirbúið það, sé ljóst, hvað kjarnorkustyrjöld er. Ég undrast það ekkert. Það er vafalaust nógu erfitt fyrir hv. þm. allflesta að gera sér bara ljóst, hvað venjuleg styrjöld er. Það er sitt hvað að lesa um slíkt eða sjá það á filmu eða standa í því miðju. Og þó er það allt saman barnaleikur móts við það, sem kjarnorkustyrjöld er. En við þurfum að reyna að gera þjóðinni það ljóst, hvaða ógnir þetta eru, og gagnvart þeim ógnum duga ekki neinar af þeim gamaldags aðferðum, sem þetta frv. gengur út frá. Auk ógnanna er okkur nauðsynlegt að gera okkur ljóst varnarleysi manna í kjarnorkustyrjöld. Stórþjóðirnar sjálfar draga ekki neina dul á það, þó að það sé, eins og var minnzt á hér áðan, máske reynt að gera með óskaplegum kostnaði ráðstafanir til þess að varðveita líf ríkisstj., herforingjaráðs og annarra slíkra með því að grafa þá óhemjulangt niður í jörð, og vafalaust gera stórþjóðirnar ýmsar fleiri ráðstafanir í sambandi við slíkt. Ég á bágt með að hugsa mér annað en það séu hafðar þrennar eða fernar vararíkisstj. til í þessum stóru löndum og þrenn eða fern varaherforingjaráð, ef hin yrðu upprætt, og þar er náttúrlega allt önnur aðstaða til þess fyrir slíka, sem vanir eru að standa í stórstyrjöldum, að sjá um að geta haft samband við einhvern vissan hluta af sínum þegnum eða halda uppi einhverju vissu af ríkiskerfi, og mun þeim samt öllum veitast það allerfitt, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur. Þeir eiga vafalaust allir, líka þeir, sem þessu eru kunnugastir og mest hugsa um það, erfitt með að reikna það sjálfir út, hvað verða muni. En við skulum ekki vera með neinar blekkingar gagnvart almenningi um það, að kjallarar eða eitthvað annað slíkt sé einhver veruleg vörn í þessum efnum, hað er að vísu til, að slíkt geti verið dálítil hjálp gagnvart geislavirku ryki. En gagnvart þeim voða, sem af kjarnorkusprengjunum sjálfum stafar, er engin slík vörn til. En ef menn hafa séð, hvernig ýmsar borgir voru útleiknar eftir styrjöldina, borgir eins og t.d. Varsjá, þá gátu menn gert sér dálitla hugmynd um, hvernig þetta var, og flestir höfum við vafalaust séð einhverjar myndir frá Hirósíma, þar sem kjarnorkusprengju var kastað og 220 þús. manns eða upp undir það fórust. En við vitum, að þær sprengjur, sem kastað var á Hirósíma og Nagasaki eru ekki nema barnaleikföng á móts við þær sprengjur, sem nú eru notaðar, þannig að þær sprengjur, sem nú tíðkast eða eru tilbúnar, eyðileggja margfalt meira en þar var eyðilagt. Við þurfum þess vegna að gera okkur það ljóst, að það er spurningin um, hvort hægt sé að bjarga einhverju af fólki, forða því burt frá þeim stað, þar sem hætta er á, að slíkar kjarnorkusprengjur falli, þannig að það sé ekki innan þess radíusar, sem það sé líklegast, og við getum alveg vitað það, ef við eigum að hafa þær herstöðvar áfram, sem hér eru, ég tala nú ekki um, ef það ætti að fara að bæta við t.d. uppi í Hvalfirðinum. Þá er það nokkurn veginn línan, sem liggur sunnan af Keflavíkurflugvelli yfir Reykjavík og upp í Hvalfjörð, sem verður mesta hættusvæðið hér á Íslandi, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi, þannig að fólkið, sem á öllu þessu svæði býr, er það, sem við þurfum að reyna að koma í burtu.

Ef það væri vitað í dag, að þeir flokkar, sem yrði í meiri hl. á Íslandi næstu t.d. tvo áratugi, ætluðu að viðhalda áfram herstöðvum hér þennan tíma, þeir væru ráðnir í því, þá held ég, að ein af þeim ráðstöfunum, sem ætti að gera nú þegar, væri að skipuleggja byggðina á Íslandi öðruvísi en nú er gert. Ef við vissum það fyrir fram í dag, að það væri ráðið, að næstu 10–12 ár ætti að halda áfram að hafa herstöðvar hér, kannske með vaxandi hættu á kjarnorkustyrjöld í veröldinni, þá skulum við fara að gerbreyta byggðinni hérna. Þá skulum við fara að hætta að byggja fyrst og fremst á þessu svæði, þar sem við hrönnum öllu fólkinu núna, beinlínis með tilliti til þess að láta eitthvað verulegt af þjóðinni lifa, skipuleggja byggð annars staðar, dreifa henni meira út frá þessari hættu. Ef við ætlum að gera ráðstafanir og ef við trúum því, að svona ægilega geti farið, að til kjarnorkustyrjaldar komi, og okkur beri skylda til þess að reyna að vernda þegna þjóðarinnar þá eigum við að gera slíkar róttækar ráðstafanir. Ég veit að vísu, að allar slíkar ráðstafanir eru langt frá því að vera öruggar. Þó að hægt væri þannig að dreifa byggðinni alimikið, er náttúrlega áframhaldandi hætta á því, meðan herstöðvar eru, að það geislavirka ryk, sem félli á þessu mesta hættusvæði, gæti valdið svo og svo miklu tjóni og óskunda og dauða á öðrum sviðum. En þó eru, eins og kunnugt er, meiri varnir gegn því geislavirka ryki en gegn kjarnorkusprengjunum sjálfum.

Við vitum, að þegar Englendingar tala um sína þátttöku í kjarnorkustyrjöld, þá ganga þeir út frá því, að England verði óbyggilegt um mjög langan tíma eftir slíka kjarnorkustyrjöld og megininu af þjóðinni útrýmt. Þar er að vísu um miklu þéttbýlli svæði að ræða en hér er yfirleitt, og við vitum líka, að það, sem Englendingar óttast mest í þessu, er einmitt skyndieyðilegging þannig á þeirra þjóð og landi. Ég held þess vegna, að við eigum ekki að skapa neinar tálvonir um, að það verði mjög miklu bjargað hér á suðvesturhorninu, svæðinu á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, með því að fólkið sé þar áfram í einhverjum byrgjum, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur, heldur sé björgunin að reyna að koma því í burtu. Og ef við hefðum síðan gert þær ráðstafanir, sem ég gat um áðan, og sagt okkur úr Atlantshafsbandalaginu og látið herstöðvarnar fara héðan í burtu, þá bæri okkur að mínu áliti, eins og ég hef raunar minnzt á hér áður, að lýsa því yfir í alþjóðaáheyrn, að hvenær sem við óttumst, að styrjöld væri að brjótast út, þá mundum við sprengja í loft upp alla flugvelli hér á Íslandi og gera ráðstafanir til þess að geta gert það, þannig að þær þjóðir, sem ættu í styrjöld, mættu vita það, að við mundum eyðileggja strax í upphafi slíkrar styrjaldar þau mannvirki, sem gætu orðið styrjaldarþjóðum hér að gagni.

Það er þess vegna alveg gefið mál, að helzta björgunin fyrir okkur og vonin um að geta bjargað tugum þúsunda af okkar þjóð úr slíkri ógn sem kjarnorkustyrjöld væri, er að reyna að vera búinn að gera landið hlutlaust, vera búinn að gera það sem allra minnst virði sem herstöðvar fyrir nokkurn styrjaldaraðila. Ef við á sama augnabliki sem við byggjumst við, að kjarnorkustyrjöld væri að brjótast út, létum keyra burt allt það fólk, sem við gætum náð til, á þann hátt, sem ég gat um áðan, ef við á sama augnabliki sprengdum upp flugvellina hér í Keflavík og Reykjavík, þá mundu þær þjóðir, sem ættu í styrjöld, vita það, að hér væri ekki, a.m.k. í því skyndistríði, sem byrjaði með, vera eftir neinu að sækjast.

Við vitum, að almennt er búizt við því, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur, að þær styrjaldir byrji með því, að aðilarnir skjóti hver á annan þeim langdrægu eldflaugum, sem þeir hafa, til þess að reyna að hitta þær stöðvar, þar sem þeir búast við að hinn aðilinn geymi sín flugskeyti, og að öðru leyti hernaðarlega mikilvæga staði. Hernaðarlega mikilvægur staður, hvort heldur er í Sovétríkjunum eða Bandaríkjunum, er sá staður, sem dregur að sér skeyti óvinaþjóðarinnar. Ef við höfum þess vegna hernaðarlega mikilvæga staði hér, þá draga þeir að sér skeyti þeirra þjóða, sem í styrjöldinni eru. Er við höfum útrýmt slíkum herstöðvum og ef við höfum þar að auki eyðilagt flugvelli í upphafi slíks stríðs, þannig að þessar þjóðir vita um leið, að það þýðir ekkert fyrir hvoruga þeirra að ætla að fara að taka þessa velli til þess að fara að hagnýta þá á eftir, þá hefðum við þó a.m.k. gert allt, sem í okkar valdi stæði, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að í upphafi slíkrar kjarnorkustyrjaldar yrði byrjað á því að skjóta slíkum skotum á Ísland, og það mundi þá gefa okkur kannske þessa fyrstu klukkutíma eða fyrstu daga, sem við þyrftum, til þess að reyna að bjarga sem mestu fólki burt frá þessum svæðum. Það er náttúrlegu hvorki á mínu valdi né kannske annarra að segja neitt um það, hvernig mundi verða um svona styrjöld, og maður veit, að hernaðarsérfræðinga greinir þegar á um það, hvort hún mundi kannske bara taka nokkra klukkutíma, nokkra daga eða annað slíkt. En sumir segja, að það muni nú verða eins og var í síðustu styrjöld. Það var haldið, að það yrði eins konar skyndi stríð, en stóð eins lengi og allir vita um, og eins gæti náttúrlega farið, ef kjarnorkustyrjöld brytist út. Þó að fyrstu sólarhringarnir yrðu ægilegastir í henni, þá tæki við á eftir stríð, sem kannske yrði líkara gömlu styrjöldunum, nema hvað ákveðin svæði í veröldinni yrðu ófær til þess að fara einu sinni í gegnum þau fyrir neina heri eða neitt slíkt vegna þess, hve geislavirk þau væru. Við vitum, að það voru ráðagerðir uppi um það og hafa verið birtar, t.d. í sambandi við stríð í Asíu af hálfu herstjórnar Bandaríkjanna, að gera meginið af Íran og Mesópótamíu svo geislavirkt, að það væri ekki hægt að fara í gegnum það um langan tíma á eftir. Það er svo margt nýtt, sem kemur til greina í sambandi við þessa hluti, sem við höfum ekki hugmynd um, nema einstaka sinnum lesið um þetta. En það, sem okkur bæri fyrst og fremst að hugsa um í þessu efni, er ekki, hvernig fer á milli þeirra aðila, sem þarna færu að berjast, heldur hvað getum við, svona lítil þjóð, sem liggur á svæði mitt á milli þeirra, gert, til þess að reyna að sjá um, að eitthvað lifði af okkar þjóð. Ég held, að ef við í alvöru eigum að ræða um kjarnorkustyrjöld, þá voðalegu ógæfu, sem það væri, ekki bara fyrir okkur Íslendinga, heldur fyrir allt mannkyn, þá sé það þetta, sem við eigum fyrst og fremst að athuga, úrsögnin úr Atlantshafsbandalaginu, afnám herstöðvanna, ákvörðun um það, yfirlýst til allra þjóða, að sprengja og eyðileggja alla flugvellina hérna og síðan að vera alltaf viðbúnir, ef við engu að síður yrðum fyrir skeyti, að geta flutt burt okkar fólk hér og dreift því út um allt, þannig að einhvern veginn gæti það tórt af.

Þegar ég hef nú gert þetta að umtalsefni, einmitt meðfram vegna þess, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, hvað við vildum gera og hver skylda Alþingis og ríkisstj. væri til þess að reyna að vernda líf sem flestra þegnanna, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi, þá er rétt fyrir okkur að athuga, hve mikil hætta er á þessu. Er sérstök ástæða fyrir okkur núna, einmitt nú í marz 1962, í apríl 1962, að búast við svona stríði? Við vitum, að það er alvarlegur hlutur að ræða mikið um það við fólk, að svona styrjöld sé yfirvofandi og við verðum að vera við henni búnir. Sérstaklega ættum við, þessir, sem gamlir erum orðnir, að reyna að setja okkur ofur lítið meira í spor unga fólksins í þessu sambandi. Við höfum ekki alizt upp við það á viðkvæmasta tíma okkar ævi, að sá möguleiki væri til, að okkur væri yfirleitt útrýmt. Við höfum vitað, að það væru styrjaldir úti í heimi og allmargir menn féllu, og þetta skipti jafnvel stundum milljónum eða tugum milljóna, þegar heimsstyrjöld væri. En það hugtak var ekki til, þegar við vorum að alast upp, að það væri hugsanlegt, að mannkynið gæti afnumið sjálft sig, gæti gereytt sjálfu sér, og bara sú hugsun, að þetta skuli vera komið upp sem tæknilegur möguleiki, hlýtur að hvíla sem slíkt farg á huga þess fólks, sem er ungt. að það er ekki óeðlilegt, þó að það setji sitt mark á þá kynslóð og það alveg hræðilegt. Það hlýtur að íþyngja svo hennar huga, að öll hennar vandamál hljóta að mótast af þessu. Við eigum kannske oft erfitt með að skilja þessa ungu kynslóð, ekki sízt þegar við sjáum stundum á leiksviðinu sett allharðvituglega fram hennar vandamál, þegar hún horfir reið um öxl eða annað slíkt. En það er ekki undarlegt. Ég skal ekki segja, hvernig við hefðum orðið, ef við hefðum alizt upp við það, að eldri kynslóðin hjá okkur hefði verið þannig, að hún væri búin að búa þannig að mannkyninu, að það væri hægt að þurrka það út, svo að segja hvenær sem væri, og það þyrfti ekki nema tilviljun til, þyrfti ekki nema óhapp til, það þyrfti ekki nema einn flugmaður yrði vitlaus í einni vél, sem sífellt væri á sveimi með kjarnorkusprengjur eða annað slíkt. Við vitum, að jafnvel grágæsaflokkar hafa sett á stað flugsveitir með kjarnorkuvopnum, en til allrar hamingju verið snúið til baka, þannig að það má heita, að líf mannanna hangi þannig á bláþræði. Við vitum, að þetta hefur að vísu oft verið tæpt undanfarinn áratug. Sérstaklega var það þó alltæpt fyrir 10 árum, þegar einmitt einn af hershöfðingjum Bandaríkjanna vildi fá að beita kjarnorkusprengjum í Kóreustyrjöldinni og þegar einn forseti Bandaríkjanna þá einmitt lét hann fara frá af þeim ástæðum. En mér virðist nú þrátt fyrir allt, að styrjaldarhættan sé minni nú en t.d. hún var þá, — mun minni. Og ég held, að ef við viljum vinna að því að reyna að tryggja frið í veröldinni, þá beri okkur einmitt að móta okkar utanríkispólitík frá því sjónarmiði.

Við Íslendingar höfum að mörgu leyti sérstaka aðstöðu í veröldinni. Við erum þjóð, sem aldrei hefur átt í stríði, aldrei borið vopn, aldrei farið með her á hendur annarri þjóð í allri sinni sögu. Það er vart nokkur þjóð í veröldinni, sem hefur svona aðstöðu. Við höfum líka þá aðstöðu, að innanlands hjá okkur hefur sú barátta, sem við höfum átt í, stéttabarátta, flokkabarátta og slíkt, yfirleitt verið svo friðsamleg, að það hefur aldrei flotið þar blóð, það hafa aldrei verið menn drepnir. Það hefur verið sú gæfa yfir okkur í þessum efnum, að við eigum betra með að umgangast hverjir aðra en oft vilt verða á milli þeirra stóru þjóða, og það á að þýða um leið, að Ísland hafi sem slíkt og fulltrúar Íslendinga meiri möguleika en aðrar þjóðir að bera friðarorð á milli stórveldanna. Við getum talað miklu meira út frá mannlegu sjónarmiði heldur en stórveldin oft geta, sem fyrst og fremst eru vön, að reiknað sé með valdi þeirra hvers um sig. Við ættum að geta stuðlað að því, ekki sízt með því að geta viðhaldið sæmilegum friði hjá okkur sjálfum, að sýna öðrum þjóðum fram á, að það sé hægt að búa við frið í veröldinni.

Sannleikurinn er sá, að efnahagsleg vandamál mannkynsins er orðið svo auðvelt að leysa, að út af þeim ætti sannarlega ekki að vera þörf að fara í stríð. Tækniþróunin hjá mannkyninu er svo gífurleg, að það er enginn vandi að framleiða allar þær allsnægtir, sem mannkynið óskar sér, með þeirri tækni, sem þjóðirnar ráða yfir nú á dögum, þannig að það ætti ekki að þurfa, ef skynsamlegt skipulag væri tekið upp um hagnýtingu þeirrar tækni, að deila um það, hvor hafi meira eða minna, það ættu allir að geta haft nóg. Styrjaldarhættan stafar, ef við vildum reyna að orða það mjög hlutlaust, kannske fyrst og fremst af tortryggni þeirra stærstu og voldugustu í heiminum, hvors gagnvart öðrum. Þá reynir kannske hvað mest á, að það sé hægt að tala þannig við þá, að þeirri tortryggni mætti Eyða. Ég álít, að við Íslendingar höfum sérstaka aðstöðu í þessum efnum. Einmitt vegna þess, að við tilheyrum nú Atlantshafsbandalaginu, höfum við sérstaka aðstöðu til þess að geta talað með þó nokkru áhrifavaldi við þá aðila, sem að mínu áliti eru þeir, sem mest hætta stafar af í þessum efnum.

Að mínu áliti er það svo, — ég veit náttúrlega, að við erum ekki sammála, — að mesta hættan í þessum efnum stafi af þeim miklu auðhringum Bandaríkjanna, sem eru búnir að festa svo mikið af sínu fé í hergagnaframleiðslu og ekki sízt í framleiðslu á atómvopnum, að þessir auðhringar eiga erfitt með að hugsa sér það ástand, að þeir yrðu allt í einu að hætta að framleiða öll þessi kjarnorkuvopn og jafnvel eyðileggja þau. Þar kemur til greina það mikla vandamál, sem hergagnaframleiðslan er fyrir auðvaldsskipulag. Í auðvaldsskipulagi er hergagnaframleiðslan tvímælalaust gróðavænlegasti atvinnuvegurinn, sem til er, — gróðavænlegastur vegna þess, að hann er svo að segja utan við markaðslögmát þess kapítalíska skipulags. Það er ríkisstjórnin í viðkomandi landi, sem kaupir öll hergögnin, þannig að það er fyrir fram markaður fyrir öll þau hergögn, sem framleidd eru. Þeir auðhringar, sem eiga hinar miklu hergagnaverksmiðjur, þar með þær verksmiðjur, sem framleiða nú í Bandaríkjunum kjarnorkuskeytin, það eru auðhringar, sem sitja þess vegna með bezta og öruggasta markaði, sem nokkrir kapítalískir hringar geta setið að. Þess vegna eru það þessir voldugu hringar, sem vilja halda í þennan gróða og ekki sleppa þessari hergagnaframleiðslu. Þetta er að mínu áliti undirrótin undir þeirri gífurlegu íhaldssemi, sem maður verður var við af hálfu amerísku auðmannastéttarinnar í þessum efnum. Fyrir sósíalistískt skipulag er hins vegar hergagnaframleiðslan ekkert annað en byrði, hergagnaframleiðslan þýðir beinlínis, að það er verið að taka bitann frá munninum á börnunum, það er verið að taka af því, sem fólkið þarf að hafa, til þess að útbúa hergögn, eins og þeir mundu segja þar, til þess að verjast. Hins vegar veit ég ósköp vel, að hugmyndirnar, sem skapazt hafa t.d. í Bandaríkjunum og víðar, eru, að hjá þeim sósíalistísku þjóðum sé uppi slíkur draumur um að útbreiða t.d. sósíalismann með vopnavaldi um atla veröld, að gegn því verði hinn frjálsi heimur, sem stundum er kallaður svo, að vera viðbúinn, þess vegna verður hann að verjast. Það er engin ástæða til að bera brigður á, að þetta sé þeirra skoðun og engin uppgerð. Þannig trúa þessir aðilar hvor um sig, að árásarhættan stafi frá hinum, og það væri máske eitt hið gagnlegasta, sem hægt væri að gera, fyrir þá aðila, sem við þessa menn gætu talað, að reyna að sýna fram á þau rök, sem gætu hjálpað til að fjartægja þennan ótta. Og mér er spurn, ef á morgun öll hergagnaframleiðsla í Bandaríkjunum væri þjóðnýtt, ef það væri ríkisstjórn Bandaríkjanna á morgun, sem ætti allar hergagnaverksmiðjur Bandaríkjanna, og enginn amerískur auðmaður ætti eitt einasta hlutabréf í allri þeirra hergagnaframleiðslu, og ef Kennedy Bandaríkjaforseti yrði á fjárlögunum aðeins að reikna með því, að þetta færi til ríkisverksmiðjanna sjálfra, skyldi þá ekki vera þægilegra að tala meira að segja við auðmannastétt Bandaríkjanna um þessi mál, — ef búið væri að kippa burt öllum hagsmunum einstakra auðhringa af því að framleiða vopn, þannig að þeir litu á það, þegar þeir voldugu auðhringar væru að framleiða sína olíu, sitt stál, sína vefnaðarvöru og annað slíkt, þá litu þeir á það, sem bara væri verið að íþyngja þeim með sköttum, þegar verið væri að taka fé til handa ríkinu til þess að framleiða í ríkisverksmiðjunum kjarnorkuvopn. Og ég bið menn, sem hafa mikla trú á fyrirkomulaginu í Bandaríkjunum, á friðarvilja þeirra, sem þar ráða, að athuga það aðeins eitt augnablik, hvort slíkt mundi ekki breyta allmikið aðstöðunni um, að hægt væri að ræða við auðmannastétt Bandaríkjanna um afvopnun, þegar hún hefði ekki lengur neina hagsmuni af vopnaframleiðslunni. Við verðum að muna það, að það eru fimm milljónir atvinnuleysingja í Bandaríkjunum, eins og stendur, og bandarískt fjármagn flýr í vaxandi mæli til Vestur-Evrópu til þess að setjast þar að, vegna þess að fjárfesting gefur þar miklu meiri gróða, er miklu ódýrari vegna þess, hve hátt dollarinn er skráður, hann er skráður tvöfalt hærri en hann ætti að vera gagnvart almennri mynt í Evrópu.

Ég held þess vegna, að stríðshættan í dag stafi fyrst og fremst af þessum voldugu hergagnahringum Bandaríkjanna, það séu þeir, sem séu, alveg eins og var 1913 með Krupp og fleiri, mestur þröskuldur í vegi fyrir afvopnun. En upp á síðkastið höfum við orðið varir við það, eða urðu menn a.m.k. varir við það í Bandaríkjunum, — að það var ekki nóg með, að þessir auðhringar vildu græða á framleiðslu hergagna, það var líka gert að gífurlegum „business“, eins og þeir orða það nú, að miklu fésýslufyrirtæki nú fyrir nokkru, að fara að framleiða í Bandaríkjunum það, sem áttu að vera held byrgi, neðanjarðarbyrgi, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Og það hefur verið gert ákaflega mikið að því í blöðum að gagnrýna þetta út um allan heim og sýna fram á, að raunverulega væri þarna bara verið að búa til eins konar líkkistur fyrir lifandi fólk. En þessir voldugu auðhringar, sem þykir ekki nóg að vilja græða á drápstækjunum, vilja líka græða á því, sem þeir kalla almannavarnir eða vilja reyna að telja fólki trú um að séu einhverjar almannavarnir.

Við skulum muna það, einmitt vegna þess, að það er stundum hafður svo mikil áróður í frammi hér heima á Íslandi um þessi mál, og þegar við þar að auki liggjum undir farginu frá Keflavíkurútvarpi, Keflavíkursjónvarpi og íslenzku ríkisútvarpi, sem er eins og endurhljómur af því brezka, þá hættir mönnum stundum við að gleyma, hvernig stendur á, að svo er komið í veröldinni sem nú er. En staðreyndirnar sýna, að það, sem hefur gerzt á síðustu 15 árum, er það, að auðvald Bandaríkjanna hefur verið að ná á sitt vald herstöðvum, svo að segja hálfhring um heim allan, frá Grænlandi og Íslandi suður og austur yfir til Japans, þannig að þarna er stór hálfhringur myndaður í kringum Sovétríkin og þau sósíalistísku lönd af amerískum herstöðvum. Það er vitanlegt, að slíkum herstöðvum í nágrenni Sovétríkjanna koma menn ekki upp með annað fyrir augum en að vera viðbúnir að geta ráðizt á þau. Við Íslendingar vorum gerðir að einum lið í slíkri herstöð.

Þeir okkar, sem fylgdust með á stríðstímanum og í stríðslokin, muna, hvernig þá var ástatt. Í stríðslokin var sovézkur her í Danmörku, Borgundarhólmi, sovézkur her í Norður-Noregi, sem hafði farið inn í þessi lönd til þess að reka nazista þaðan burt. Hér var amerískur her, sem hafði komið hingað inn samkvæmt þeim sérstaka samningi, sem um það var gerður. Ef til vill muna menn líka, að einn af helztu íslenzkum stjórnmálamönnum þá, löngum formaður Framsfl. og einn áhrifamestur stjórnmálamaður á Íslandi á fyrri hluta þessarar aldar, Jónas Jónsson frá Hriflu, skrifaði þá grein eða réttara sagt bækling, sem hann gaf út, sem hét Ísland og Borgundarhólmur, þar sem þessi stjórnmálamaður var að sýna fram á, að það væri alveg óhjákvæmilegt, að Bandaríkjamenn fengju að halda herstöðvum á Íslandi, og Íslendingar ættu helzt sjálfir að fara fram á það, að Bandaríkjamenn yrðu hér þeim til verndar, því að það væri alveg gefið mál, að Sovétríkin mundu halda herstöðvum á Borgundarhólmi. Þessi maður var sá eini í kosningunum 1946 af þeim, sem þá buðu sig fram, sem lýsti því skýrt og skorinort yfir, að hann væri því fylgjandi, að Íslendingar ættu að biðja Bandaríkin um að hafa hér herstöðvar áfram. Það vildi svo til, að ég var staddur í Moskvu í erindum þáv. ríkisstj. ásamt Pétri Benediktssyni, sem varð sendiherra Íslendinga í Moskvu, og norski sendiherrann, þegar við komum í heimsókn til hans einn dag, sagði okkur frá því, að hann hefði þá um morguninn fengið þá tilkynningu frá Sovétstjórninni, að nú drægi Sovétstjórnin sinn her í Norður-Noregi til baka: Og nokkru seinna fékk danska stjórnin þá tilkynningu, að Sovétstjórnin kallaði sinn her burt frá Borgundarhólmi. En á sama tíma fengum við frétt hér frá Íslandi, — þetta var í októberbyrjun 1945, — að hér á Íslandi hefðu Bandaríkin krafizt þess, að hér fengju þau þrennar herstöðvar, Keflavík, Skerjafirði og Hvalfjörð, til 99 ára, undir sína algeru stjórn og undan íslenzku fullveldi.

Það sýndi sig þá, hver stefnan var hjá Bandaríkjastjórn, eftir að Roosevelt var dáinn og Truman hafði komizt þar til valda, og þeir menn, sem voru byrjaðir með áróður eins og þann, sem ég gat um áðan hjá Jónasi frá Hriflu, þeir urðu sér til skammar. Það sýndi sig, að hættan fyrir Ísland stafaði einmitt af þeirri ágengni frá hálfu ameríska auðvaldsins, sem síðan hefur orðið sorgarsaga íslenzks sjálfstæðis síðustu 15 ár. Við höfum reynsluna af þeim viðskiptum. Það er sagan af ofbeldi, svikum, nauðung, spillingu og blekkingum. Það var byrjað með 24. júní 1941 að setja íslenzku ríkisstj. úrslitakosti. Og þeir úrslitakostir voru settir þannig, að á 24 klukkutímum átti að segja til, hvort menn féllust á samning við Bandaríkin, og í þeim samningi var meira að segja látið standa, að Ísland af fúsum og frjálsum vilja óskaái eftir hervernd Bandaríkjanna. Og þeir, sem þá voru hér á þingi, þegar þessi samningur síðan var samþykktur á Alþingi, eftir að hann hafði verið gerður, eftir að ameríski herinn var kominn hér á land, þeir muna, hvernig t.d. einn þm. Sjálfstfl. gerði þannig grein fyrir sinu atkv., að hann sagðist hafa ætlað áð greiða atkvæði á móti þessum samningi, en hnífurinn væri á hálsi okkar og það gæti þess vegna vel svo farið, að hann greiddi atkv. með honum, eins og aðstæðurnar nú væru orðnar.

Þannig náðu Bandaríkin þeim tökum á Íslandi, sem þau síðan raunverulega hafa ekki sleppt. Með þessu ofbeldi, með þessum úrslitakostum, eru þeirra hernaðarlegu tök á Íslandi til komin. 1945, 1. okt., þegar þeir heimtuðu hér herstöðvarnar til 39 ára, þá var alveg greinilegt, hvað um var að ræða. Það var ekki um neitt annað að ræða en það, að Bandaríki Norður-Ameríku vildu fá hér á Íslandi samsvarandi herstöðvar og þau höfðu fengið í nýlendum Breta í Vesturheimi. Það er kunnugt, hvernig Bretar höfðu til þess að fá 50 tundurspilla á styrjaldarárunum orðið að fallast á að afhenda Bandarfkjunum herstöðvarnar í sínum nýlendum í Vesturheimi til 99 ára, hvernig erfið aðstaða Breta var hagnýtt af hálfu Bandaríkjanna til þess að knýja þessar herstöðvar fram sér til handa. En hins vegar gátu þeir þá ekki knúið Breta til þess að láta herstöðvar hér á Íslandi til 99 ára, vegna þess að Bretarnir höfðu engan rétt og ekkert vald til þess og voru máske ófúsir á það, en gengu hins vegar inn á það að hóta því að fara með sinn her hér á Íslandi í burtu og hjálpa til að hóta íslenzku ríkisstj. þannig, að hún bæði um vörn Bandaríkjanna. Síðan var ætlunin 1. okt. 1945 að fá Íslendinga til að fallast á 99 ára hersetu hérna. Það var vissulega ekki komin til nein heimshætta af kommúnismanum eða neinu öðru slíku, þegar það var, enda ekki reynt að skella neinu fram þess háttar sem rökstuðningi af hálfu Bandaríkjanna. Þar var eingöngu bein, opinská tilraun heimsvaldasinna til þess að ná sér herstöðvum á góðum stað. Sú tilraun mistókst. En það, sem síðan hefur gerzt í 17 ár, er, að Bandaríkin hafa verið að reyna að tryggja sér þessa aðstöðu.

Við munum eftir því, sem sátum hér á Alþingi haustið 1946, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður, að rök þáverandi hæstv. forsrh., sem nú er einnig forsætisráðherra, fyrir því að gera þann samning, voru þessi: Samningurinn héti opinberlega: „Samningur um brottflutning hers af Íslandi“. Rökin voru þessi: Eini möguleikinn til þess að losna við herinn af Íslandi, af því að Bandaríkjamenn vilja ekki fara, standa við sinn samning, er að ganga inn á þennan Keflavíkursamning. — M.ö.o.: hótunin, sem lá fyrir, var þessi: Keflavíkurflugvöllur verður hersetinn af einkennisklæddum her áfram í trássi við Íslendinga, svo framarlega sem ekki verður gengið inn á þennan Keflavíkursamning þannig var Keflavíkursamningurinn knúinn fram með ofbeldi, og rétt áður en hann rennur út, þegar hann var að verða fimm ára, þá er settur hnífurinn á hálsinn á ríkisstj. einu sinni enn. Atlantshafssamningurinn hafði verið gerður undir þeirri yfirlýsingu að það kæmi ekki til greina, að hér yrðu herstöðvar á friðartímum, alveg sérstaklega yfir lýst, ekki bara af þeim, sem gerðu hann af Íslands hálfu, heldur líka af þeirra hálfu, sem gerðu hann af Bandaríkjanna hálfu. En 1951 er sagt: Nú verðum við að fá herstöðvar tafarlaust, — og knúið fram. Og fyrir okkur, sem höfum þessa reynslu raunverulega nú í rúm 20 ár af afskiptum ameríska auðvaldsins af Íslandi, harðfylgi þess í því að afla sér herstöðva hér, hvernig það svífst einskis, hvorki blekkinga, svika né ofbeldis, til þess að koma þessum málum fram, — fyrir okkur, sem þekkjum þessa sögu, er alveg greinilegt, hvaða afl það er í heiminum, sem er hið ágenga afl og stríðshættan fyrst og fremst stafar nú af.

Þess vegna væri það vafalaust líka gagnvart ameríska auðvaldinu pólitískt og sálfræðilega rétt fyrir Ísland að láta Bandaríkin vita það, að við hefðum þegar tekið þátt nógu lengi í þessum ljóta leik þeirra, við vildum reyna að tryggja líf okkar, þegna okkar þjóðar, með því að losa okkur við herstöðvar, losa okkur úr hernaðarbandalagi og eyðileggja hér alla flugvelli, sem hér gætu orðið hættulegir eða gagnlegir öðrum hvorum aðilanum, ef til styrjaldar kæmi.

Það er gefið, að ef við eigum að fara að ræða svona mál, eins og almannavarnir á Íslandi í kjarnorkustyrjöld, þá koma öll þessi mál okkar til umræðu, og það verður nauðsynlegt fyrir okkur að athuga allan okkar gang í þessum málum, ef það er skoðun hæstv. ríkisstj., að það liggi svona mikið á, með hliðsjón þó af því valdi, sem hún þegar hefur með lögum frá 1941 og breytingum á þeim lögum síðar, að knýja þetta frv. um almannavarnir í gegnum þingið. Ég er dálítið hræddur um það, að ef svona frv. er samþykkt, þá yrðu máske ýmsir til þess að reyna að hagnýta það til þess, sem kannske mundi vera kallað nú á tímum sálfræðilegur hernaður, hagnýta það til þess að fara hér í einhverja herferð óttans og reyna að skapa hjá almenningi þær hugmyndir, að styrjöld væri yfirvofandi og hér yrði að gera ráðstafanir. Ég held því, að áður en við förum að láta ræða slíkt hjá almenningi, áður en við förum að láta blöðin skrifa um þess háttar, —og við vitum, hvers konar áhrif það hefur á ekki sízt konur og börn, þegar farið er að skrifa mikið og gera ráðstafanir í slíkum málum, — þá ættum við sjálfir að koma okkur niður á það hér á Alþingi, hvort við álítum þessa hættu svona yfirvofandi og hvort það séu ekki ýmsar aðrar skynsamlegri ráðstafanir, sem nær liggja, sem við ættum að gera fyrst, áður en við förum út í að reyna að búa á Ísland út í kjarnorkustyrjöld með hær varnir, sem kynnu að vera í henni, eins og hér var talað um aðan og eins og ég hef áður getið um. Ef við ættum ekki að gera það, þá er ég hræddur um, að þetta frv. væri ákaflega ófullnægjandi.

Ég held þess vegna, að það sé misráðið að leggja miklu áherzlu á að fá þetta frv. í gegnum Alþingi núna. Ég veit að vísu, að þetta frv. getur orðið til þess að koma af stað alls konar sálfræðilegum hernaði, og það gerir líka ákaflega mikið að því að auka það vald, sem þó ríkisstj. hefur allmikið fyrir í núverandi lögum, en án þess samt að gera nokkrar verulega skynsamlegar ráðstafanir, sem væru miðaðar við kjarnorkuhernað. Ég held þess vegna, að ef við eigum að reyna að sameinast um þá alvöru, sem er í þessu máli, þá beri okkur í fyrsta lagi að gera allar þær ráðstafanir, sem hugsanlegar eru, til að firra þjóðina hættu í kjarnorkustyrjöld, og þar er númer eitt að losa okkur við herstöðvar og úr hernaðarbandalögum, en í öðru lagi að reyna að koma á sameiginlegu átaki þjóðarinnar — allra flokka og allra stétta — um að hjálpast að, ef svo voðalega skyldi fara, að Ísland þrátt fyrir allt, sem það annars hefði gert án þess að hindra, að það drægist inn í kjarnorkustyrjöld, drægist inn í þá miklu ógæfu. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, frá því að okkar land fór að dragast inn í þessar miklu deilur á milli stórvelda í heiminum í síðustu styrjöld, að það væri aðeins eitt stórt verkefni, sem hver ríkisstj. á Íslandi hefði í þeim efnum. Það væri ekki að skipa Íslandi einhvers staðar í flokk eða fylkingu hernaðarbandataga eða slíkt til þess að leggja þess lóð á vogarskátina í átökum í stríði, heldur ætti aðeins eitt að vera verkefni Alþingis og ríkisstj., verkefni íslenzkra yfirvalda, og það væri að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem hugsanlegar væru til þess að reyna að láta þjóðina lifa af. Það þykir vafalaust ekki hetjulegt takmark, en það er eina verkefnið, sem við, sem kjörnir höfum verið til þess að reyna að vera forsjá þjóðarinnar á erfiðum tímum, eigum að skoða sem okkar skyldu að vinna að.