03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

171. mál, almannavarnir

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Þegar frv. það var lagt hér fram á Alþingi, sem hér er nú til 2. umr., kom mér ekki til hugar, að það væri ætlun hæstv. ríkisstj., að þetta frv. yrði afgr. á þessu þingi. Hvort tveggja var, að frv. kom seint fram á þinginu og mörg mál lágu orðið fyrir Alþingi, sem telja mátti nokkurn veginn víst, að ríkisstj. legði áherzlu á að fá afgreidd, en hins vegar nokkurn veginn gefið mál, að þingtíminn mundi verða takmarkaður að þessu sinni. Bæjarstjórnarkosningar eiga að vera, eins og öllum er kunnugt, eða sveitarstjórnarkosningar 27. maí, og ég hygg, að framboðsfrestur til þeirra kosninga sé útrunninn í kringum 21. eða 25. apríl, eða sem sagt rétt upp úr páskum. Það hefur verið föst venja hér á Alþingi um langan tíma að hafa ekki þingfundi hér á hv. Alþingi, eftir að kosningabarátta er almennt byrjuð til sveitarstjórnarkosninga, og ég taldi allar líkur benda til þess, að svo yrði nú eins að þessu sinni, enda er það kunnugt, að hæstv. ríkisstj. miðar að því að ljúka þingstörfum að þessu sinni fyrir páska. Það gefur því alveg auga leið, að það verður að vinna með býsna einkennilegum hætti að afgreiðslu mála hér á Alþingi nú, ef tök eiga að vera á því að ljúka öllum þeim stórmálum, sem hæstv. ríkisstj. og hv. þm. úr stjórnarliðinu hafa lagt hér fram til afgreiðslu, á þessum knappa tíma, sem fyrirsjáanlega er til starfa fyrir Alþingi. Og þetta viðamikla frv., sem hér liggur fyrir, það er auðvitað ómögulegt að ætlast til þess, að það verði afgreitt hér á Alþingi án allmikilla umr., svo yfirgripsmikið sem það er og svo stórkostleg breytingu sem felst í þessu frv. frá því, sem við höfum þekkt í okkar löggjöf allt fram til þessa. Þá er þess einnig að gæta, að þetta frv. grípur stórkostlega inn í meðferð sveitarstjórnarmálefna almennt séð. Það leggur á sveitarstjórnirnar í landinu margs konar skyldur og miklar byrðar, en sveitarstjórnarmenn hafa enga aðstöðu haft til þess að kynna sér efni frv. og segja átil sitt á því til Alþingis. Ég tel því fyrir mitt leyti, að það sé hvort tveggja mjög óeðlilegt að afgreiða þetta mál á þessu þingi, eins og það ber hér að, og auk þess algera móðgun við allar sveitarstjórnir á Íslandi af hæstv. ríkisstj, að fara fram á það, að málið verði afgr., án þess að sveitarstjórnarmenn fái að kynna sér efni þess.

Ég efast ekkert um það, að hæstv. ríkisstj., sem hefur undirbúið þetta mál, viðurkenni, að með þessari væntanlegu löggjöf er verið að leggja margvíslegar skyldur á herðar sveitarstjórnarmanna í landinu. Það er verið að gera ráð fyrir margvíslegum framkvæmdum á þeirra vegum og stórauknum kostnaði fyrir sveitarfélögin í landinu. Er nú réttmætt að setja lög um slíkt efni án þess að hafa samráð við forustumenn sveitarfélaganna? Maður hlýtur auðvitað að spyrja, þegar svona er staðið að mátum: Hver ósköpin hafa gerzt? Hvað liggur á bak við það, að það virðist vera lífsnauðsyn að knýja þetta frv. fram hér á Alþingi með þessum hætti nú á seinustu dögum þingsins? Veit hæstv. ríkisstj. eitthvað meira en almenningur almennt í landinu um einhverja nýja, óvænta hernaðarhættu, sem er nít aðsteðjandi, og af því þurfi hér að setja allt í gang með þessum skyndingi? Það er ómögulegt annað en hæstv. ríkisstj., sé henni full alvara að reyna að knýja þetta mál fram hér á þeim skamma stafstíma þingsins, sem nú er eftir, þá verður hún að gera grein fyrir því hér á Alþingi, svo að fullnægjandi sé, hvað það er, sem knýr á um það, að málið verði einmitt afgreitt nú, hvaða ástæður liggja til þess.

Það er á það minnzt, að nú næstu daga muni byrja hér í Reykjavík þing sveitarstjórnarmanna, þar sem örfáir fulltrúar frá sveitarfélögunum koma saman, og eigi að kasta þessu frv. á þennan skyndifund þeirra og sýna þeim þar málið og það verði að vera þeim nóg. En vitanlega er allt slíkt hrein málamyndaafsökun. Þar eru aðeins til staðar á stuttum fundi örfáir fulltrúar frá sveitarfélögunum, og langflest sveitarfélögin í landinu eiga þar auðvitað enga fulltrúa og geta ekki látið sína skoðun koma þar fram um það, hvaða breytingar þau teldu æskilegt að gera á frv., eins og það liggur hér fyrir.

Ég hefði því talið langeðlilegast, að hæstv. ríkisstj, hefði sætt sig við það, eftir að hún hefur lagt þetta frv. fram hér og rætt það við 1. umr., að þá yrði málið látið liggja, eins og mörg dæmi eru til um hliðstæð stórmál, og að almenningur í landinu almennt fengi þá nokkurt tóm til þess að kynna sér efni málsins, og þeir, sem framkvæmd þessara almannavarna á að hvíla svo mjög á, eins og forustumenn sveitarfélaganna, fái þá tækifæri til þess að láta uppi sínar skoðanir á öllu þessu skipulagi, og síðan verði málið tekið upp aftur á næsta hausti og þá verði frv. lögtekið, ef meiri hl. Alþingis sýnist ástæða vera til þess.

Ég tel, að í þessu frv. séu ákvæði, sem veita einum ráðh. meira vald en dæmi eru til um í íslenzkri löggjöf áður. Mér sýnist, að dómsmrh.,sem á að vera yfirmaður þessara svonefndu almannavarna, fái hér svo til einræðisvald um ákvarðanir í þessum efnum. Ég sé ekki annað en þýðingarmikil ákvæði í frv. jafngildi svo til reglum um almenna herskyldu eða a.m.k. reglum, sem almennt gilda, þar sem lýst er yfir hernaðarástandi. Ef hæstv, dómsmrh. lýsir því yfir, að það sé hættutímabil, það séu hættutímar, þá má grípa til ákvæða þessa frv. og leggja á hina ýmsu aðila þær skyldur, sem þar eru tilgreindar. Og hvenær eru svo hættutímar? Ég veit ekki betur en því hafi verið haldið hér fram og þá alveg sérstaklega af talsmönnum hæstv. ríkisstj., að nú um nærfellt tíu ára skeið hafi verið hættutímar hér á Íslandi og vegna þess að það hafi verið hættutímar, þá hafi verið nauðsynlegt fyrir okkur að hafa erlendan her í landinu, svonefnt varnarlið, til þess að verja þjóðina fyrir yfirvofandi hættu. Við munum eftir því, að þegar hinn svonefndi herverndarsamingur var gerður við Bandaríkin árið 1951, var því sérstaklega lýst yfir, að stjórnarvöld landsins hefðu kynnt sér það, að hinir sérfróðustu menn í hernaðarmálum teldu vera slíkt hættuástand, að það væri ekki verjandi að hafa Ísland óvarið, hér þyrfti að vera her í landinu.

Samkvæmt þessu frv. fær ríkisstj., eða hæstv. dómsmrh., og sá yfirforingi, sem skipa á samkv. þessu frv., eða yfirmaður þessara almannavarna, vald til þess að kalla hina almennu borgara til ýmiss konar starfa og ýmiss konar athafna, og það er borgaraleg skylda að hlýða þar kalli. Hér er rætt um að þjálfa lið og halda uppi margs konar æfingum. Það er rætt um það að gera vissum aðilum í landinu skylt að byggju hús sín með sérstökum hætti, þannig að sérstök öryggisaðstaða sé í þessum húsum. Bæjar- og sveitarfélögum er hægt að gera að skyldu að koma upp ákveðnum varasjúkrahúsum, fjarskiptakerfi, aðvörunarkerfi. Það er hægt að gefa út ákveðnar fyrirskipanir um ferðir manna og banna mönnum t.d. að fara út úr lögsagnarumdæminu eða skipa þeim að halda sér á tilteknum stöðum, eftir því sem fyrir er mælt. Og eins og ég sagði, það er hægt að kalla menn til æfinga og þjálfunar, og verða menn að hlýða þeim reglum, sem settar eru af þeim valdamiklu mönnum, sem verða skv. þessu frv. Það er því enginn vafi á því, að ef dómsmrh, og yfirmaður almannavarna telja, að ástæða sé til að grípa til sérstakra ráðstafana, þá fá þeir skv. þessu frv. meira vald, eins og ég sagði, heldur en við höfum þekkt í okkar löggjöf áður.

Það er mín skoðun, að slíkt sem þetta eigi ekki að lögbinda hér hjá okkur jafnundirbúningslítið og gert yrði, ef þetta frv. yrði gert að lögum nú. Ég álít, að þessi ákvæði öll eigi að íhugast miklu betur, það eigi hér fleiri aðilar um að fjalla og slík almenn ákvæði, eins og er að finna í þessu frv., eigi þar ekki að vera eða a.m.k. ekki eins víðtæk og þarna er um að ræða, nema þá komið sé algert neyðarástand og stríð beinlínis skollið á. Það er alveg augljóst mál, að það væri hægt að notfæra sér þessi ákvæði, og allar líkur eru auðvitað til, að þau mundu verða notuð þannig, að farið yrði að eyða miklum fjármunum í hvers kyns undirbúning skv. þessum lögum og að farið yrði að þjálfa fjölda manns til starfa, sem langalgengast er í öllum löndum að séu á vegum þeirra, sem eru í beinni herskyldu, enda kemur það fram í grg. frv., að það er beinlínis sagt, að víða erlendis sé einmitt um það að ræða, að þeir, sem séu þar í herskyldu, séu á herskyldutímanum látnir þjálfast í því, sem gert er ráð fyrir að hægt sé að kalla hinn almenna borgara hér á Íslandi til að þjálfa í samkv. þessu frv.

Það er því ekki nema eðlilegt, að um það sé spurt, hvernig standi á öllu þessu umstangi, hvaða ástæður liggja til þess, að það þarf einmitt að reka í gegn lög um þetta efni nú í lok þingsins og að lítt athuguðu máli og hleypa af stað ötlum þessum undirbúningi nú í skyndi. Hvaða ástæður liggja til þessa? Er eitthvað á seyði í þessum málum? Stendur eitthvað nýtt til í hermálunum hér á Íslandi? Veit ríkisstj. eitthvað sérstakt? Eða er kannske ætlunin með þessum ráðstöfunum að magna ótta meðal landsmanna, æsa upp, skapa skelfingu og undirbúa á þann hátt jarðveginn að einhvers konar nýju hernámi eða einhvers konar nýjum framkvæmdum á vegum hernaðaryfirvalda í þessu landi?

Það fer ekki hjá því, að þegar þessi mál eru rædd, komi mönnum í hug, hvernig þessi mál almennt séð hefur borið að hér hjá okkur á undanförnum árum.

Þegar fyrstu lögin varðandi nokkuð hliðstæðar varnir þessum voru sett hér, en það voru loftvarnalögin frá 2. ágúst 1940, sem þá voru sett með brbl., þá voru þau lög sett vegna þess, að þá var ríkjandi hernaðarástand í Evrópu og við höfðum orðið fyllilega varir við þann hernað hér í okkar landi, og þá þótti orðið ástæða til þess að setja sérstök lög um loftvarnir. Þá var sem sagt stríðshættan alveg á næsta leiti. Það var sannarlega ekki ástæðulaust, að þá voru sett lög um þetta og gerðar þær litlu undirbúningsráðstafanir, sem þá voru gerðar í miðri styrjöld.

Í næsta skiptið, þegar veruleg breyting var gerð á lögum um þessi efni, en það var árið 1951, þá var loftvarnanefnd Reykjavíkur sett á fót og byrjaðar ýmsar framkvæmdir á hennar vegum, þá stóð líka mikið til í þessum efnum. Þá var einmitt verið að gera herverndarsamninginn við Bandaríkin, og þá var verið að senda her til Íslands. Það er skiljanlegt, að þegar mikið herbrauk er á ferðinni, þurfi gjarnan að fylgja á eftir einhver löggjöf eða einhverjar reglur varðandi allt braukið.

Nú er lagt fram frv. að miklum lagabálki um almannavarnir og um víðtækara og meira vaki dómsmrh. til handa og yfirmanni almannavarna en við höfum þekkt áður í okkar löggjöf, og þá hlýtur maður að spyrja: Hvað stendur nú til? Er nú eitthvað nýtt á ferðinni varðandi hermálin hér á Íslandi? Eru kannske einhverjir nýir aðilar að óska eftir því að senda hingað her til landsins? Er kannske eitthvað til í því, að Vestur-Þjóðverjar séu að leita eftir því að fá herbækistöðvar fyrir her sinn hér á Íslandi? Þykir þá þurfa að gera hér eitthvað meira í þessum málum? Við vitum það, að Vestur-Þjóðverjar hafa að undanförnu leitað eftir því hjá mörgum Atlantshafsbandalagsríkjum að fá slíkar æfingastöðvar. Þeir hafa talið sig búa svo þröngt í sínu landi, að þeir þyrftu að fá að athafna sig í löndum annarra þjóða. Þannig hafa þeir fengið nokkra aðstöðu til heræfinga á sjálfu Bretlandi. Þeir hafa einnig fengið sérstaka aðstöðu í Portúgal. Og við vitum, að þeir hafa verið að teygja sig eftir aukinni aðstöðu í hernaðarmálum, bæði til Danmerkur og eins til Noregs. Það hefur verið uppi orðrómur um, að þeir hefðu augastað á æfingasvæðum einmitt hér á landi.

Eins og ég sagði, er ekki nema von, þegar hæstv. ríkisstj. heldur því fram, að það beri brýna nauðsyn til að reka í gegnum þingið lagasetningu sem þessa að óundirbúnu máli, þó að mönnum komi þá til hugar að fenginni reynslu, að nú standi eitthvað mikið til í þessum hermálum. Er kannske eitthvað að gerast í því, að þeir, sem hafa hér herstöðvar í landinu, vilji fá stöðvar á fleiri stöðum? Eru þeir kannske að gera kröfu um að fá að hafa hér eldflaugastöðvar, koma hér upp kafbátalægi? Á sem sagt að auka á stríðshættuna í okkar landi enn til muna frá því, sem er? Er ástæðan sú til þess, að ríkisstj. telur nauðsynlegt að fá þetta frv. lögfest á þessu þingi?

Það þarf ekki að segja mér það, að hæstv. ríkisstj. gæti ekki hæglega beðið með það að fá þetta frv. lögfest þangað til á næsta hausti, ef ekkert annað er að gerast í þessum málum öllum en það sem þjóðin almennt veit. Það er ekkert, sem bendir til þess, að hættan sé út af fyrir sig meiri nú fyrir okkar þjóð heldur en hún var fyrir t.d. hálfu ári, eða það sé meiri hætta en hefur verið nú um langan tíma fyrir okkur að búa við það kerfi, sem við höfum búið við., nú næstu fimm eða sex mánuði. Ég held sem sagt, að hæstv. ríkisstj. verði að gefa á því einhverja nýja skýringu til viðbótar við það, sem fram hefur komið, hvað það raunverulega er, sem knýr á eftir henni um að vilja fá þetta frv. lögfest nú.

Ég fyrir mitt leyti tel ekkert athugavert við það, að löggjöf sé sett um það efni, sem þetta frv. fjallar um. Það má vel vera, að það sé ástæða til þess að skipa ýmsum málum varðandi öryggismál þjóðarinnar á annan veg í beinni lagasetningu en nú er gert, út frá því hættuástandi, sem við öll vitum að er í okkar landi vegna þeirrar ógæfu, sem hefur verið yfir okkur leidd með því að hafa herstöð í landinu. En ég sé ekki, að nein ákvæði séu í þessu frv., sem séu líkleg til þess að draga úr þeirri hættu, sem er af herstöðinni í Keflavík, og sé því ekki, að það sé nein nauðsyn á að samþ. frv. nú að þessu sinni af þeim ástæðum.

Það er auðvitað ekkert um það að villast, að ástæðan til þess, að um það er rætt, að það sé hættuástand í okkar landi af völdum hernaðar, er sú, að við höfum lánað erlendri þjóð hluta af okkar landi undir herstöð. Það er auðvitað enginn vafi á því, að ef enginn erlendur her væri á Íslandi nú og hér væri engin herstöð, þá væri engin teljandi hætta af hernaðarvöldum hér fyrir íslenzku þjóðina. Okkar land liggur ekki þannig, að það séu neinar líkur til þess, að þeir aðilar, sem líklegast væri að kynnu að eigast við í væntanlegri styrjöld, færu að eyða sprengjum sínum eða flugskeytum á okkar fámenna land, ef hér væru engar herstöðvar og ef hér væri enginn erlendur her. Til þess eru engar líkur. Hættan, sem rætt er um, stafar því öll af því, að við höfum erlendan her í landinu, að við höfum hér herstöð, sem vitanlega getur orðið sóknarstöð fyrir annan aðilann, og þá auðvitað um leið kemur sú hætta, að hinn aðilinn vilji eyðileggja slíka sóknarstöð. Ég er því á þeirri skoðun, að þegar rætt er um almannavarnir og ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón og aðrar hættur af hernaðarvöldum, þá ætti alveg skilyrðislaust að taka inn ákvæði einmitt í 1. gr. slíkrar lagasetningar um það, að engin herstöð skuli vera í landinu og sá erlendi her, sem er í landinu, skuli víkja þaðan, og jafnframt ætti að lýsa yfir hlutleysi landsins í öllum hernaðarátökum. Slík ákvörðun mundi meir og betur en allt annað, sem er í þessu frv., bægja frá landsmönnum hernaðarlegri hættu og það væri því sjálfsagðasta ráðstöfunin af öllum, sem hugsanlegar eru. En ákvæði um slíkt finnast nú auðvitað ekki í þessu frv., og befur ekki margt komið fram frá hæstv. ríkisstj., sem bendir til þess, að hún sé á þeim buxunum að gera ráðstafanir til þess að fjarlægja herinn úr landinu og leggja niður herstöðina og minnka þannig þær hættur, sem þjóðin býr við vegna þess ástands, sem er nú í þessum málum í okkar landi.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. segir, að það sé ekkert öryggi í því að friðlýsa landið og lýsa yfir hlutleysi, hlutleysi tryggi ekki varnir neins. En það mætti hæstv. ríkisstj. samt hugleiða, að þær þjóðir eru æði margar í veröldinni, sem telja einmitt hagsmunum sínum bezt borgið á þann hátt að lýsa yfir hlutleysi sínu í öllum hernaðarátökum stórveldanna. Við yrðum ekki þar einir. Þar er um fjöldamargar þjóðir að ræða, og nú er svo komið, að þær þjóðir einmitt, sem hafa lýst yfir hlutleysi í átökum stórveldanna, eru langfjölmennasti hópurinn af þjóðahópunum í heiminum. Við vitum, að Svíþjóð hefur skipað sér sess meðal þeirra þjóða, hinna hlutlausu þjóða, Finnland hefur gert það, Austurríki, Sviss og Júgóslavía, svo að nokkur af Evrópulöndunum séu talin, — land eins og Indland og fjölmargar þjóðir í Afríku og víða annars staðar í heiminum. Við Íslendingar stæðum því sannarlega ekki einir, þó að við skipuðum okkur í hóp hlutlausu þjóðanna, og það er enginn vafi, að það væri okkur meiri vörn en allt það kerfi, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að hyggja upp skv. þessu frv.

Ég held, að það sé kominn tími til þess, að hæstv. ríkisstj, leiði hugann að því, hve óheillavænleg sú þróun hefur verið fyrir okkur, sem dregið hefur okkur meira og meira inn í eina hernaðarblokkina í heiminum. Við vitum, að sú þróun hefur gerzt þannig, að í upphafi var um það talað, að við mundum ekki verða miklir stríðsaðilar, við mundum allan tímann halda okkur utan við átökin og værum nánast hlutlausir þrátt fyrir allt, enda mundi hér ekki verða neinn erlendur her á friðartímum og við ekki taka á einn eða neinn hátt þátt í neinum herkostnaði. Við munum það, að það var árið 1945, sem Bandaríki N-Ameríku fóru þess á leit við ríkisstj. Íslands og Alþ. að fá herstöðvar til 99 ára hér á landi, og þá var hér full samstaða um það að vísa frá slíkri beiðni og synja henni. En strax á næsta ári, 1946, var herstöðvasamningurinn, Keflavíkursamningurinn, gerður, og hann var þá gerður undir því kjörorði, að við værum að losna við úr okkar landi þann erlenda her, sem þá hafði verið í landinu um skeið. Því var haldið fram, að Keflavíkurstöðin ætti í rauninni ekki að vera nein herstöð, heldur væri hér um allmikinn greiða að ræða við Bandaríkin, þar sem þau þyrftu nauðsynlega á slíkri millistöð að halda fyrir sig vegna nauðsynlegra flutninga frá Bandaríkjunum til Evrópu, þar sem Bandaríkin höfðu nokkurn her. Á þessu voru gefnar allýtarlegar skýringar, á nauðsyn þess fyrir bandarískar flutningaflugvélar að hafa þessa millistöð og að hér væri því ekki fyrst og fremst um herstöð að ræða, heldur beinlínis um aðstöðu þeim til handa, sem höfðu þó verið hér á stríðstímanum og við höfðum á ýmsan hátt átt góð skipti við; — hér væri aðeins um það að ræða að veita Bandaríkjunum þessa aðstöðu, sem þeim væri nauðsynleg vegna hersetu sinnar í Vestur-Evrópu. En þetta auðvitað breyttist allt saman. Það kom í ljós, að Bandaríkin voru á þennan hátt að seilast hér eftir hernaðaraðstöðu, sem var fyrir miklu meira en þessa milliflutninga þeirra. Þau voru þarna að reyna að ná því, sem þau höfðu beðið um með skýrum orðum árið áður, þar sem þau vildu fá tiltekin svæði á Íslandi sem herstöðvar, en þau fengu Keflavíkurstöðina með samningnum 1946 meira og minna undir fölskum forsendum. Og þá var það svo, að stjórnmálamenn hér á Íslandi, þeir sem þó stóðu að gerð Keflavíkursamningsins, vildu ekki við það kannast, að þeir væru með þessu á neinn hátt að dragast sem aðilar inn í hernaðarleg átök eða skipa sér í vígstöðu þeirra aðila, sem líklegastir voru til þess að deila með vopnum. En auðvitað var þessi samningur upphaf að því að flækja Íslandi inn í átök stórveldanna.

Svo munum við, hvað gerðist aftur árið 1949, þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Þá hét þetta enn þá svo, að þó að við værum að ganga þarna greinilega í hernaðarbandalag annars aðilans og auka þannig allt hættuástand hjá okkur, þá var því hátíðlega lýst yfir, að þó að við gengjum í þetta bandalag, skyldi það ekki leiða til þess, að erlendur her yrði á Íslandi á friðartímum. Um þetta voru gefnar hátíðlegar yfirlýsingar, sem standa þannig, að frá þeim verður ekki hlaupið. Þær voru gefnar alveg óumdeilanlega, þó að frá þeim hafi verið hlaupið í reynd og þau loforð hafi að engu orðið.

Það var líka mikið gert úr því þá, að með inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið værum við ekki á neinn hátt að ganga inn í hernaðarbandalag, Ísland væri jafnfriðelskandi land og það hafði verið áður og það vildi ekki á nokkurn hátt skipa sér í sveitir hinna stríðandi aðila. En auðvitað var þessu öðruvísi farið. Þeir erlendu aðilar, sem þá réðu mestu um það, hvað íslenzk stjórnarvöld gerðu, vissu mætavel, hvað var verið að undirbúa, að hverju var verið að leggja grundvöll, og þeir hafa notfært sér það síðan alveg miskunnarlaust.

Eftir að þetta allt var gert, virtist það vera svo, að íslenzk stjórnarvöld dönsuðu meira og minna nauðug eða a.m.k. ýmsir aðilar þar, eða á þann hátt, að þeir fengu ekki við neitt ráðið. Þeir urðu að standa frammi fyrir því, að hátíðleg loforð þeirra voru að engu gerð, og grundvellinum hafði raunverulega verið kippt undan þeim samningum, sem þeir gerðu.

Það leið ekki nema stuttur tími, eins og við öll vitum, frá því að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið og yfirlýsing var gefin um, að það skyldi enginn her vera á Íslandi á friðartímum, þangað til á það var knúið, að erlendur her á vegum Atlantshafsbandalagsins kæmi til landsins. Það var 5. maí 1951, sem svo varð. Auðvitað var með þessu öllu verið að stórauka á hernaðarlega áhættu fyrir íbúa landsins. Og eins og ég minntist á áður, leiddi þetta til þess, að þá þótti nauðsynlegt að aðhafast hér meira í hervarnarmálum eða þeim málum, sem nú eru kölluð almannavarnir. Þá þótti nauðsynlegt að gera ýmsar viðbótarráðstafanir frá því, sem áður hafði verið, vegna þess að menn viðurkenndu með því, að hernaðarhættan færi vaxandi, um leið og við drógumst lengra og lengra inn í aðra hernaðarblokkina. Auðvitað þýðir heldur ekkert að neita því, að þar sem her annars aðilans er fyrir, þar er meiri hætta en þar, sem enginn her er fyrir. Það gefur alveg auga leið, að það eru miklu meiri líkur til þess. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á, að ætlunin var að fresta fundi nú kl. 7, þannig að ef hann telur sig þurfa meira en örfáar mínútur til að ljúka máli sínu, þá vil ég biðja hann að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni.) Já, hæstv. forseti. Ég á eftir talsvert af minni ræðu enn, svo að ég vildi þá gera hlé á minni ræðu. [Frh.]