06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

171. mál, almannavarnir

Lúðvík Jósefsson [frh.] :

Hæstv. forseti. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar um þetta mál lýst því yfir, að ég teldi, að eðlilegast væri, að mál þetta yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Hvort tveggja væri, að efni frv. væri svo viðamikið og margþætt og snerti svo marga aðila í landinu, m.a. varðandi framkvæmd á efni frv., og eins hitt, að ég hef ekki komið auga á, að brýna nauðsyn beri til þess að lögfesta frv. nú á þessu þingi, en teldi hins vegar eðlilegt, að frv. gæti nú farið til þeirra aðila, sem eiga verulegan þátt í framkvæmd málsins, eins og til sveitarstjórnarmanna, til athugunar og umsagnar, og síðan yrði hægt að taka þetta mál fyrir aftur á næsta þingi og lögfesta það þá í þeim búningi, sem Alþingi vildi fallast á. Það er skoðun mín, að það sé í mesta máta óeðlilegt að lögfesta ákvæði, sem mjög varða rekstur og gang sveitarstjórnarmálefna, án þess að gefa sveitarstjórnarmönnum almennt kost á því að segja álit sitt á slíkri löggjöf, og a.m.k. eigi ekki slíkt að gera í þeim tilfellum, þar sem auðvelt ætti að vera að hafa annan hátt á um framkvæmdina. En á því leikur auðvitað enginn vafi, að samkv. þessu frv., ef að lögum yrði, eru margvíslegar kvaðir og allmikil útgjöld lögð á sveitarstjórnirnar í landinu, þeim ætluð margvísleg og mikil verkefni, sem hljóta að vera kostnaðarsöm í ýmsum greinum. En ég sé ekki, að neinar ástæður hafi komið fram því til rökstuðnings, að brýna nauðsyn beri til þess að rasa að þessari lagasetningu.

Eins og ég hafði sagt hér áður, er ekki nema gott um það að segja — og geta eflaust allir verið sammála um það — að hafa í gildi nauðsynleg lagaákvæði, til þess að hægt sé að draga úr hættum, bæði af hernaðarvöldum og öðrum þeim hættum, sem steðja að íbúum landsins, og ég ætla líka, að það séu ákvæði til í okkar lögum, sem grípa til þess, sem er nauðsynlegast í þeim efnum, þó að jafnviðtækar heimildir og stórkostlegur undirbúningur og ráð er gert fyrir í þessu frv. sé ekki lögtekinn nú í skyndi.

Það er auðvitað enginn vafi á því, eins og ég hef minnzt á í fyrri hluta minnar ræðu, að ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. flytur nú þetta frv. og óskar eftir þessum viðtæku heimildum varðandi almannavarnir, er sú, að búið er að draga okkur Íslendinga lengra inn á hættusvæðið í hugsanlegum hernaðarátökum stórveldanna en forustumönnum landsins þykir nú góðu hófi gegna. Það er sem sagt farinn að koma upp viss ótti í sambandi við þá stöðu, sem orðin er hér í okkar landi. Ég hafði rakið nokkuð þróun þessara mála og hvernig stefnt hefur í þá átt, að við drægjumst lengra og lengra inn á þetta hættusvæði, að við yrðum meira og meira bendlaðir við annan aðilann, þeirra, sem mest hætta er nú á að kunni að takast á í styrjöld. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hæstv. ríkisstj. sér, að afleiðingarnar af þessari þróun eru þær, að yfir okkur vofir nú orðið meiri hætta en áður var af hugsanlegum hernaðarátökum. Það var látið í það skína, þegar Ísland gekk í Norðuratlandshafsbandalagið og eins þegar ameríski herinn kom hingað til landsins, að þessar ráðstafanir væru gerðar eingöngu Íslandi til varnar. Í þessum efnum var rætt um varnarlið og talað um varnarsamning. En nú hins vegar er svo komið, að það er opinberlega játað af þeim, sem auðvitað ráða ferðinni í þessum málum, en það eru forustumenn Bandaríkjanna, að Ísland sé hinn þýðingarmikli varnarhlekkur í varnarkeðju Bandaríkjanna. Þessir aðilar draga auðvitað enga dul orðið á það, að þeir líta á Ísland sem herstöð sina og — eins og þeir orða það — sem einn varnarhlekkinn í sinni varnarkeðju. En þeir líta ekki fyrst og fremst á herstöðina á Keflavíkurflugvelli og herlið sitt hér á Íslandi sem nauðsynlegar varnir fyrir hið fámenna Ísland. Hitt gefur svo aftur auga leið, að þegar svo er komið, að einn af voldugustu hernaðaraðilunum í heiminum á orðið þýðingarmikla herstöð hér á Íslandi og telur þá herstöð fyrir sig mjög mikilvæga, þá er vitanlega hætt við því, að hinn aðilinn liti á það sem þýðingarmikið atriði fyrir sig að eyðileggja slíka herstöð, og þá er sem sagt staða okkar orðin sú, að við erum að nálgast þar meir og meir skotmarkið. Hættan er sú, að það kunni að verða barizt um okkar land og þá sérstaklega um þann hluta landsins, þar sem herstöðin er sett. Á því er auðvitað enginn vafi, að þessi staða öll hefur verið að leiða yfir okkur meiri og meiri hættu.

Hitt er svo annað mál, hvort leiðin út úr þessari hættu er sú, að hin fámenna íslenzka þjóð eigi nú að fara að hefjast handa um að byggja sér sprengjuheld byrgi um allar jarðir eða gera aðrar ráðstafanir hernaðarlegs eðlis, eins og að koma upp varasjúkrahúsum hér og þar, eins og rætt er um í þessu frv., þjálfa fjölda fólks með mikilli æfingastarfsemi til að vera viðbúið hernaðarlegri árás og beinum hernaði. Ég hygg, að það muni reynast svo fyrir okkar þjóð, að það verði æði erfitt fyrir hana að ætla að gera nokkrar þær ráðstafanir á þessu sviði og í þessa átt, sem hinar stærri þjóðir gera og kunna að koma þeim að einhverju gagni, að það muni verða nokkuð erfitt okkar fámennu þjóð að gera ráðstafanir á þessu sviði, sem að nokkru gagni megi koma fyrir okkur, svo kostnaðarsamar sem þær hljóta að verða.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að það, sem okkur beri að gera í þessum efnum, þegar við höfum almennt komið auga á þessa hættu, sem er því samfara að sogast inn á hættusvæðið í deilum stórveldanna, að ráðið, sem við eigum að taka, sé fyrst og fremst það að reyna að draga okkur aftur út af þessu hættusvæði, — að við eigum t.d. að reyna að losna við hinn erlenda her úr landinu, leggja niður herstöðina og draga þannig úr hinum hernaðarlegu hættum, sem vissulega vofa hér yfir okkar þjóð, ef illa tækist til í átökum stórveldanna.

En í þessu frv., sem fjallar um almannavarnir, er vitanlega ekki eitt einasta orð í þá átt, sem gæti til þess leitt, að við reyndum að draga okkur þarna meira út úr hættunni, heldur er þvert á móti farið í hina áttina, að það er ætlazt til þess, að við förum að haga okkur í ýmsum greinum eins og hernaðarþjóðirnar almennt gera, að taka sem sagt á okkur fjárhagslegar byrðar í sambandi við hvers konar óbeinan stríðsundirbúning.

Ég er líka mjög andvígur því að gera nokkuð það í þessum efnum, sem mætti verða til þess að æsa hér upp einhverja skelfingu meðal þjóðarinnar eða skapa grundvöll fyrir einhverjar örvæntingarkenndar ráðstafanir. Ég býst við því, að þegar svo væri komið í okkar landi, að á þeim tímum, sem þó væru kallaðir friðartímar, en viðsjárverðir tímar, eins og síðustu ár mörg hafa verið talin, — að þegar svo væri komið, að það væri orðið býsna algengt að kalla fjölda landsmanna til þjálfunar og æfinga og flytja heila hópa manna eftir ákveðnu skipulagi út úr byggðarlögum sínum og í einhverja geymslustaði, eða þegar það væri orðið algengt að byggja öryggisbyrgi eða jafnvel búið að setja reglur um það, eins og þetta frv. heimilar, að byggja skuli í öllum byggingum, sem reistar verða eftir gildistöku þessara laga, ákveðin herbergi eða ákveðin byrgi, sem eiga að vera hæf sem loftvarnabyrgi, — að þegar slíkt ástand væri búið að vera um nokkurn tíma, þá er ég hræddur um, að slíkt gæti leitt til þess, að auðvelt væri fyrir þá, sem hafa aðra hagsmuni en þjóðarheildin hefur, að æsa menn til þess að ljá því lið, að við jafnvel gengjum enn þá lengra inn á hættusvæðið en við höfum enn þá gengið, að við yrðum enn þá frekar aðilar í stríðsundirbúningi eða stríðsþátttöku á einn eða annan hátt.

Ég hafði nokkuð bent á það í fyrri hluta minnar ræðu, að ef heimildir þessa frv. yrðu notaðar, þá mundu þær leiða til mjög verulegra útgjalda, fjárútláta, hjá sveitarfélögum landsins, því að gert er ráð fyrir því, að sveitarfélögin í mjög mörgum tilfellum eigi að greiða um helming tilkostnaðarins og í öllum tilfellum 1/3 af kostnaði við ýmiss konar framkvæmdir. Það er ekki nóg, að það eigi að koma upp í flestum byggðarlögum landsins svonefndum almannavarnanefndum, fjölmennum nefndum, sem eigi að skipuleggja almannavarnir á viðkomandi stað undir yfirstjórn forustumanns þessara almannavarna í landinu, heldur er beinlínis til þess ætlazt, að á vegum sveitarfélaganna verði ráðizt í margs konar dýrar framkvæmdir. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að komið verði upp t.d. í öllum kaupstöðum landsins allvíðtæku viðvörunarkerfi, og í öðru lagi gert ráð fyrir því að kaupa og safna saman allmiklu af hvers konar búnaði, sem ætlaður er auðvitað fyrir flýjandi fólk eða særða menn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að byggja upp á hinum ýmsu stöðum öryggisbyrgi, en bygging þeirra gæti vitanlega orðið mjög kostnaðarsöm. Þá er gert ráð fyrir því að koma upp fjarskiptakerfi og sérstökum birgðageymslum, þar sem eru geymd matvæli, sem keypt hafa verið og vitanlega þurfa að endurnýjast. Gert er ráð fyrir því, að hægt sé að skylda hin ýmsu sveitarfélög til þess að byggja sérstaklega eða koma upp varasjúkrahúsum. Auk þessa alls á svo að vera hægt að taka menn, í sumum tilfellum án endurgjalds, til þess að vera í sérstökum sveitum, sem hugsaðar eru sem þáttur í þessum almannavörnum. En augljóst er, að ýmsir aðilar í þessum þjálfuðu sveitum yrðu að vera launaðir að meira eða minna leyti.

Það fer auðvitað ekki á milli mála, að ef á að hefja einhvern undirbúning, sem heitir, á þessu sviði, þannig að að einhverju gagni kæmi í hugsanlegum hernaðarátökum, þá verður að ráðast í slíkar framkvæmdir sem þessar með allmiklum fyrirvara, og mætti þá búast við, að á slíkum tímum, sem við lifum á nú, yrði farið að ráðast í framkvæmdir sem þessar, því að vitanlega er seint að tala um það, þegar stríð er á skollið, að fara þá að byggja varasjúkrahús. Þá er vitanlega líka of seint að tala um það að fara að safna saman hvers konar matvælum og ýmsu öðru, sem ætlað er til að hafa í birgðageymslum eða birgðastöðvum, sem til eiga að vera, — að maður tali nú ekki um að fara þá að byggja öryggisbyrgin, en það yrði vitanlega nokkuð seint.

Ég álít því, að sé það meining hæstv. ríkisstj. að hefjast handa á þeim grundvelli, sem lagt er til í þessu frv., og það beri brýna nauðsyn til þess að hefja þessar framkvæmdir nú, — þetta megi t.d. ekki bíða til næsta hausts, að ganga frá lögum um þetta, — þá álít ég, að hér sé verið að leggja á sveitarfélögin í landinu svo mikil fjárhagsleg útgjöld, að það sé ekki á nokkurn hátt sæmandi að gera það, án þess að það sé gert í nánu samráði við forustumenn sveitarfélagauma. Það kemur líka greinilega fram í þessu frv., að samkvæmt því er gert ráð fyrir þeirri grundvallarskipulagsbreytingu í þessum efnum frá því, sem áður hefur verið í lögum, að nú er gert ráð fyrir því, að dómsmrh. hafi valdið í sínum höndum til þess að ákveða það í gegnum þetta heildarskipulag, hvenær á að hefjast handa og hvað skuli gera, algerlega án þess að þurfa að leita eftir nokkru samkomulagi eða samstarfi við stjórnendur sveitarstjórnarmátefna í landinu. En áður var það svo í þeim lögum, sem í gildi voru um loftvarnir o.fl., að þá var grundvöllurinn sá, að það mátti gera ráðstafanir í öllum þessum efnum, sem þetta frv. fjallar um, ef viðkomandi sveitarstjórn taldi það æskilegt og nauðsynlegt og hafði leitað eftir því til stjórnarvaldanna í landinu. Nú er þessu sem sagt snúið við. Nú er gert ráð fyrir því í þessu frv., að valdið sé hjá ráðherra til þess að setja allari þennan gífurlega undirbúning á stað.

Ég tel fyrir mitt leyti, að það séu mörg verkefni, sem standi nær sveitarstjórnum landsins nú en þessi, sem ég hef nú verið að minnast á og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég er þó ekki á neinn hátt að draga úr því, að ég veit, að það er vofandi yfir okkur Íslendingum mikil og alvarleg hætta, ef til ófriðar drægi á milli stórveldanna, vegna þeirrar hættulegu stöðu, sem við höfum verið settir í með því að hafa erlendan her hér í okkar landi og með því að annar aðilinn á hér herstöð. Mér er það alveg ljóst, að með þessu erum við nærri hinu hernaðarlega hættusvæði. En ég er á þeirri skoðun, að við fáum ekki hægt þeirri hættu frá okkur, miðað við okkar getu, ekki að neinu alvarlegu ráði, á annan hátt en þann að reyna að fjarlægja herstöðina og draga okkur út úr átökunum á milli stórveldanna. Ég álít hins vegar, að þrátt fyrir þetta, eins og ástandið er nú, séu fjölmörg verkefni, sem standi nær sveitarstjórnarmönnum á Íslandi að verja fé til heldur en til þessa, á meðan ástandið er þannig, að í fjöldamörgum bæjum landsins er ekki til nægilegt sjúkrapláss á sjúkrahúsunum fyrir hið sjúkt fólk, sem þarfnast læknisaðgerða og hjúkrunar, meðan það þarf nú að bíða við ófullkomnar aðstæður eða í heimahúsum, eins og við vitum að er staðreynd, og meðan jafnvel stærstu bæjarfélögin í landinu, eins og höfuðborgin, hafa í miklum fjárhagslegum erfiðleikum verið að fást við að hyggja sitt fyrsta sjúkrahús nú um margra, margra ára skeið, án þess þó að hafa lokið því verkefni og leyst þennan þátt þessara mjög svo aðkallandi mála, þá sé það nauðsynlegra að geta einbeitt sér að því að leysa þessi verkefni, sem menn hafa staðið við að reyna að framkvæma að undanförnu, en ekki getað, heldur en að fara að koma upp með ærnum kostnaði varasjúkrahúsum einhvers staðar fjarri mannabyggðum, sem eiga að standa þar búin sjúkrarúmum og búin alls konar gögnum, til þess að hægt sé að nota þessar stöðvar í neyðartilfellum síðar, þegar við höfum dregizt inn í styrjaldarátökin og við þurfum að reyna að flytja t.d. héðan úr höfuðborginni eða af öðrum hættusvæðum sjúka og særða menn. Ég tel, að þannig sé þetta í fjöldamörgum öðrum greinum, að það knýi á sveitarfélög landsins þörf um að leysa svo margvísleg verkefni, sem meir kalla að og eru eðlilegri en að fara að ráðast í stórútgjöld á þessum sviðum, að ég tel það alveg rangt að ætla að taka á þessu vandamáli á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv.

Við vitum það, að enn þá er t.d. hér í höfuðborginni ástandið þannig, að fjöldi fólks verður enn að hírast í braggaíbúðum eða öðrum íbúðum, sem eru dæmdar af opinberum aðilum sem heilsuspillandi húsnæði. Það hefur ekki unnizt enn þá tími til þess eða verið talið, að nægilegt fjármagn væri fyrir hendi til þess að leysa vandræði þessa fólks. En meðan ástandið er svona í þessum efnum, eiga svo bæjaryfirvöldin hér í Reykjavík t.d. að fara að eyða milljónum króna í það að byggja svonefnd öryggisbyrgi víða um bæinn eða kannske sérstök birgðahús eða varasjúkrahús hér langt fyrir utan bæinn til þess að hafa tilbúið í hugsanlegum neyðartilfellum. Ég held, að ef við brygðumst þannig við þessum vanda, sem við vissulega stöndum í, þá værum við að tefla öllum okkar fjárhags- og afkomumálum í algera tvísýnu. Ég held, að okkar fámenna þjóð fái ekki undir þessu risið. Jafnvel þó að stórþjóðirnar geti lagt í þetta milljónatugi og jafnvel hundruð milljóna króna, þá getum við það ekki.

Það eru fram undan bæjar- og sveitarstjórnarkosningar nú á næstunni, og vissulega væri fróðlegt að leggja það fyrir hv. kjósendur í þeim kosningum, í bæjar- og sveitarfélögum landsins, hvort þeir væru yfirleitt á þeirri skoðun, að við ættum nú að stöðva í bili t.d. almennar húsbyggingar og margvíslegar aðrar framkvæmdir á vegum bæjar- og sveitarfélaganna, en nota þess í stað það fjármagn, sem annars hefði gengið til þessara framkvæmda, til þess að byggja loftvarnabyrgi og koma upp einhverjum birgðageymslum úti í sveitum. Ég er ekki í neinum vafa um, að það er ekki vilji manna að taka þannig á. þessum vandamálum. Ég held líka, að það væri miklu eðlilegra, að hæstv, ríkisst. leyfði öllum almenningi í landinu að kynna sér efni þessa frv., áður en hún krefst þess, að það sé samþykkt hér á Alþingi, og að hún féllist á þær till., sem hér eru fram komnar um það að senda þetta frv. út til sveitarstjórnanna í landinu til umsagnar og bíða með endanlega afgreiðslu frv. til næsta hausts. Ég held, að það væri miklu lýðræðislegri afgreiðsla á málinu en sú, sem hæstv. ríkisstj. býður hér upp á, því að menn verða að hafa í huga, að þetta frv. var lagt fram nú á seinni hluta þessa þings og tiltölulega lítill tími hefur gefizt til þess að ræða málið eða athuga það.

Ég skal játa, að eitt atriði gæti hér vitanlega haft nokkur áhrif á, hvernig menn vilja bregðast við máli eins og þessu, en það er, ef fyrir lægju einhverjar upplýsingar um það, að enn væri eitthvað að gerast í þessum málum hér á Íslandi, sem yki á hættuna til verulegra muna frá því, sem verið hefur. Ef það er svo, að hæstv. ríkisstj. veit um eitthvað, sem til stendur í hermálunum hér á landi, sem geti stóraukið hina hernaðarlegu hættu fyrir landsmenn, og að af þeim ástæðum telji hún nú alveg nauðsynlegt að grípa til þessara örvæntingarfullu ráðstafana, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og eru það að mínum dómi að mörgu leyti, þá á auðvitað hæstv. ríkisstj. að skýra Alþingi frá því.

Ég spurði um það í fyrri hluta ræðu minnar, hvort t.d. það gæti verið rétt, að eitt af hernaðarstórveldunum í Evrópu væri nú að knýja hér á um að fá herstöðvar eða sérstök æfingasvæði hér á landi. Um þetta hafa verið sögusagnir að undanförnu, og við vitum það mætavel, að Vestur-Þýzkaland hefur knúið á hjá mörgum þjóðum að undanförnu um það að fá slíkar æfingarstöðvar. Vestur-Þýzkaland fékk nokkrar slíkar æfingarstöðvar í Bretlandi og í Portúgal, og Vestur-Þýzkaland hefur leitað til fleiri þjóða um að fá þar hernaðarstöð. Ég efast ekkert um, að ef eitthvað slíkt stæði til, þá vitanlega kallar það á enn þá meiri hættu fyrir okkar þjóð, og þá gerir það auðvitað enn þá nauðsynlegra að hefja undirbúning fljótlega í þessum efnum, ég neita því ekki. Eða hitt: Getur það verið rétt, að sá aðili, sem ræður yfir herstöðinni hér úti og hefur her hér í landinu, sé að knýja nú fram þann vilja sinn að fá geymdar eldflaugar á Íslandi eða hafa hér sérstakar stöðvar fyrir þau allra nýjustu og hættulegustu hernaðartæki, sem við vitum um? Ef hæstv. ríkisstj. veit af einhverju slíku sem þessu, þá get ég skilið það, að hún fleygi fram þessu frv. og heimti það samþ. nú í skyndi á Alþingi. Vissulega er hægt að ganga svo langt inn á hættubrautina, að það reynist óhjákvæmilegt fyrir okkur að leggja niður hin daglegu störf, sem við höfum haldið að væru, og draga úr fjárveitingu til þeirra og nota hinn síðasta eyri landsmanna til þess að reyna að bjarga því, sem bjargað verður af þjóðinni. En sé málið ekki svona, standi ekkert. sérstakt til til viðbótar því, sem verið hefur um herstöð í okkar landi og hernaðarlegan viðbúnað stórveldanna, þá get ég ekki séð, að það sé ástæða til þess að setja lög um það efni, sem þetta frv. fjallar um, nú á yfirstandandi þingi.

Ég veit það, að sérstaklega á meðan verið er að setja lög eins og þessi, þá má búast við því, að þeir, sem að slíkri lagasetningu standa, segi, að þó að þetta sé nú ákveðið í lögum, að heimilt sé ráðh. að láta gera ráðstafanir til alls þessa undirbúnings, þá þýði það ekki það, að í þetta verði ráðizt, því að yfirleitt sé við það miðað í frv., að það verði að vera að dómi ríkisstj. ríkjandi hættutímar. En það hefur lítil skilgreining verið gefin á því hér við þessar umr. af hæstv. ríkisstj., hvað það er, sem hún kallar hættutíma. Ég man ekki betur en það kæmi fram m.a. frá þeim, sem nú sitja í ríkisstj. á Íslandi, að þeir hafi talið, að t.d. árið 1951, þegar ameríski herinn kom til landsins þvert ofan í áður gefnar yfirlýsingar um það, að hér skyldi ekki verða erlendur her á friðartímum, þá hafi það verið gert vegna þess, að þá væru hættutímar, að stjórnarvöld landsins hefðu þá fengið upplýsingar um það, að ástandið í heiminum væri svo óöruggt, að það yrðu að teljast hættutímar, og því væri ekki vogandi að hafa Ísland varnarlaust eða án þess, að hér væri nokkur her. Og því hefur verið haldið fram af núverandi valdamönnum í landinu af og til á síðastl. tíu árum, að þetta hættutímabil stæði yfir, það væru hættutímar og af því þyrftum við á hinum erlenda her að halda í okkar landi.

Ég sé því ekki, að það séu ekki fullir möguleikar á því fyrir hæstv. dómsmrh. að skýra þetta með hættutíma á sama hátt og hann hefur gert áður og skylda menn þar með til þess að taka upp allan þann viðbúnað, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þ. á m. að kalla alla menn eða fjöldann allan af fólki á aldrinum frá 18–65 ára, — og það er gert að borgaralegri skyldu, — til þess að taka þátt í sérstökum liðssveitum, sem þjálfa á til ákveðinna aðgerða í landinu í þessum varnarmálum eða til nákvæmlega sömu starfa og beinlínis er fram tekið í greinargerð frv., að víða er ætlað erlendis þeim aðilum, sem gegna skylduherþjónustu.

Ég hef sagt, og það er mín skoðun, að það væri miklu eðlilegra að búa um þessi mál á allt annan hátt en gert er ráð fyrir í þessu frv. eða um valdið til þess að setja allan þann undirbúning af stað, sem gert er ráð fyrir skv. frv. Ég tel, að þetta vald eigi ekki að vera hjá einum ráðh. og ekki heldur hjá ríkisstj. einni, þar þyrftu miklu fleiri að koma til, og ég tel reyndar miklu eðlilegri beinar framkvæmdir í þessum efnum á vegum sveitarfélaganna í landinu, og að því leyti til, sem þau eiga að taka þátt í kostnaði, sé gert ráð fyrir því, að ekki sé ráðizt í slíkan undirbúning, án þess að viðkomandi sveitarstjórn hafi samþ. það sjálf fyrir sitt leyti og síðan fengið samþykki stjórnarvaldanna til framkvæmdanna. En þetta gífurlega vald, sem lagt er í hendurnar á einum ráðh., dómsmrh., sem á að vera yfirmaður þessara mála, og svo þeim embættismanni, sem ráða á, og hans starfsliði skv. þessu frv., en það er forstöðumaður almannavarna — ég tel óeðlilegt og óæskilegt á allan hátt, að þetta gífurlega vald sé lagt í hendurnar á þessum aðilum, að ákveða það, hvenær á að ráðast í slíkar framkvæmdir og slíkan undirbúning, sem þetta frv. fjallar um.

Það er auðvitað enginn vafi á því, og það er sjálfsagt mál, að það mundi enginn Íslendingur amast neitt við því, að gert væri ráð fyrir því, að þegar algert neyðarástand hefði skapazt í landinu vegna hernaðaraðgerða, þá sé hægt að kalla svo að segja hvaða mann sem er til þess að hjálpa náunganum, aðstoða menn og reyna að bjarga verðmætum. Ég hygg enda, að það muni ekki þurfa í okkar landi að setja ýkjamikil lagaákvæði til þess að skylda menn í þeim efnum, svo vanir eru menn að gera það hér, þegar eitthvað þannig steðjar að. En hitt dreg ég meira í efa, að sé æskilegt eða heppilegt, að byggja upp heilar liðssveitir eins og þær, sem gert er ráð fyrir skv. III. kafla frv., þar sem gert er ráð fyrir allviðamiklum eða umfangsmiklum þjálfunaræfingum og þar sem það er gert að borgaralegri skyldu að taka þátt í slíkum sveitum, og ég efast um það, að það leiddi til nokkurs góðs hjá okkur að halda uppi slíkum undirbúningi um langan tíma á friðartímum.

Í grg. frv. segir m.a. orðrétt á þessa leið um þessar liðssveitir, með leyfi hæstv. forseta: „Val á liðsmönnum og þjálfun þeirra er umfangsmikið og vandasamt starf.”

Það er gert ráð fyrir því, að lögreglustjórar og aðrir starfsmenn og yfirmenn almannavarna eigi að velja og það sé vandasamt starf hjá þeim að velja menn í þessar liðssveitir. Og síðan er gert ráð fyrir sérstakri þjálfun þeirra. Ég verð að segja það, að mér finnst kenna óbragðs af þessu öllu saman. Ég er fjarri því að vera ánægður með það að hugsa til þess, að farið verði að ráðska mikið með menn á þessum grundvelli, sem mér finnst að líkist og nálgist allt of mikið beina og óbeina herskyldu, því að það skulum við fyllilega hafa í huga, að herskyldan er ekki eingöngu fólgin í því, að þeir, sem til hennar eru kvaddir, skuli berjast á vígvöllunum, vissulega er þar einnig um að ræða hvers kyns undirbúning og auðvitað varúðarráðstafanir gagnvart þeim málefnum, sem eru náskyld hernaðarlegum átökum.

Ákvæði þessa frv. um, að það sé hægt að skylda menn til þess að víkja ekki út úr lögsagnarumdæminu, nema þá með beinu samþykki lögreglustjóra eða annarra yfirmanna, eru líka þannig og þetta þannig uppbyggt, að ég tel rangt að hafa þessar heimildir svona víðtækar og slíkt eigi ekki að vera, nema þar sem fullkomið neyðarástand hefur þá skapazt.

Ég vil fyrir mitt leyti vara við því, að þó að gerðar séu viturlegar ráðstafanir til þess í öllum tilfellum að reyna að vera viðbúinn hættuástandi eða hættutímum, þá sé ekki neinn slíkur undirbúningur eða ráðstafanir gerðar þannig, að þær verði til þess að bíða af sér óeðlilegt hugarfar og hættulegt ástand af þeim sökum í landinu. Það er enginn vafi á því, að það getur haft sín áhrif í hvaða landi sem er að halda mönnum nauðugum, viljugum við að byggja öryggisbyrgi eða gera aðrar slíkar hliðstæðar framkvæmdir, halda mönnum mikið í hvers konar svonefndum björgunaræfingum eða æfingum hvers konar varnareða hjálparliðs. Það er vitanlega hægt að halda þannig á þessum málefnum, að það leiði af sér hættulegt hugarfar. En það ber vitanlega ekki að skilja það á neinn hátt svo, að það geti ekki verið nauðsynlegt að hafa tiltekinn viðbúnað og að gera eðlilegar ráðstafanir. En það vil ég líka ætta, að t.d. forustumenn í hverju sveitarfélagi séu eins dómbærir um að meta það og einhver stjórnarvöld suður í Reykjavík, hvað rétt sé að ganga langt í slíku á hverjum stað um sig.

Ég hef nokkuð vikið að því, að mér finnst, að mörg ákvæði í þessu frv. séu ákaflega almenns eðlis og víðtæk, eins og t.d. þetta atriði, sem ég vék að áður, um það, hvenær eru hættutímar og hvenær ekki. Ég sé ekki, að það sé á neinn hátt til þess að spilla fyrir nauðsynlegum undirbúningi eða ráðstöfunum í þessum efnum, þó að á annan veg sé gengið frá því en gert er ráð fyrir í þessu frv., að úrskurða um það eða ákveða, hvenær slíkir tímar hafi skapazt, að rétt þyki að draga landsmenn almennt inn í viðamiklar ráðstafanir til undirbúnings gegn aðsteðjandi slysahættu.

Mér sýnist einnig, að ákvæðin, sem er að finna í 4. gr. frv. um forstöðumann almannavarna, séu þess eðlis, að það sé afar erfitt að átta sig á því, hvað þar liggur á bak við. Það er að vísu augljóst mál, að það á að setja hér upp eitt nýtt, embætti, og það virðist líka vera nokkurn veginn ljóst, að þar getur orðið um kostnaðarsamt og stórt embætti að ræða. Í þjónustu þess er líklegt, að mjög margir menn komi til með að vinna. En eins og ákvæði gr. eru, þá eru heimildirnar svo víðtækar, að mér skilst, að hægt væri að byggja upp skv. þessum heimildum eitt hið stærsta embætti, sem til er nú í okkar landi. Þetta tel ég líka óeðlilegt. Ég álít, að það eigi að hafa hér nokkurn hemil á og það eigi ekki að vera eingöngu á valdi ráðh. og þessa yfirmanns almannavarna að ráða um það, hversu víðtækt og mikið embættiskerfi þarna kann að vaxa upp.

Í 5. gr. frv. er að finna ákvæði, sem eru eins og önnur í þessu frv. afskaplega viðtæk og er satt að segja ekki gott að átta sig á, hvert kynnu að leiða. Í síðari málsgr. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið: „Forráðamönnum sjúkrahúsa ber skv. fyrirmælum landlæknis að undirbúa og framkvæma ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að geta veitt sjúkum og særðum móttöku og meðferð á hættutímum. Þeim ber og að taka þátt í undirbúningi að stofnun og rekstri varasjúkrahúsa.”

M.ö.o.: forráðamenn sjúkrahúsa nú, sem hafa allajafna átt fullt í fangi með að ráða við rekstur sinna stofnana, því að ekki hefur þar verið um mikinn tekjuafgang að ræða, ætla ég, í velflestum tilfellum, — þeim ber nú skylda til þess skv. þessu, ef bara svo er fyrir mælt af yfirmanni þeim, sem ráða á samkvæmt þessum lögum, að gera ráðstafanir til þess að koma upp varasjúkrahúsum og gera ýmsar aðrar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar, til þess að hægt sé að taka á móti sjúkum og særðum, sem að kunni að drífa á þeirra svæði. Ég álit fyrir mitt leyti, að það sé engin aðstaða í velflestum tilfellum til þess að mæta þessum skyldum vegna fjárskorts, nema þá að tekjur viðkomandi sveitarfélaga, sem ráða yfir sjúkrahúsunum, séu teknar að miklum meiri hluta til slíkra undirbúningsráðstafana, eins og raunverulega felst í ákvæðum þessarar gr. Hingað til hefur það verið svo, að svo nauðsynlegt sem það er auðvitað í hverju landi og í hverju sveitarfélagi að hafa aðstöðu til sjúkrahúsrekstrar, til þess að hlynna að þeim, sem sjúkir eru, á venjulegum tímum, þá hefur það verið skilið eftir sem vandamál og ákvörðunarefni forustumanna viðkomandi sveitarfélags, hvort ráðizt yrði í byggingu sjúkrahúss og hvort þeir teldu fært fyrir sitt leyti að reka þar sjúkrahús, og hafi forustumenn sveitarfélagsins ekki talið sér fært að ráðast í byggingu sjúkrahúss eða í það að reka sjúkrahús, þá hefur viðkomandi sveitarfélag ekki haft neitt slíkt fyrir sitt sjúka fólk, og það hefur þá orðið að leita annað. En nú í þessum tilfellum, varðandi þær hættur, sem geta skollið yfir okkur af hernaðarlegum ástæðum, þá á að koma valdbeiting að ofan, frá einum ráðh., og þá á að vera hægt að fyrirskipa, þá er það orðið svo miklu þýðingarmeira í slíkum tilfellum að sinna hinum sjúku og særðu, að þá er hægt að skylda þessa aðila til undirbúningsráðstafana, sem ekki hefur þótt fært nú í hinum almennu tilfellum. Ég hefði talið miklu eðlilegra að hafa þetta ákvæði viðvíkjandi slíkri aðsteðjandi hættu á svipaðan hátt og er í gildandi lögum, að þar hefði átt að ráða frumkvæði forustumanna sveitarfélaganna, en ekki skipunin að ofan.

Skv. 8. gr. frv. skilst mér, að til þess sé ætlazt, að í öllum kaupstöðum landsins og einnig á mörgum öðrum stöðum á landinu eigi að vera svonefndar almannavarnanefndir, og í þessum nefndum eigi að vera í fyrsta lagi bæjarstjóri eða oddviti, lögreglustjóri, héraðslæknir, bæjarverkfræðingur eða byggingarfulltrúi, eftir ákvörðun sveitarstjórnar, og slökkviliðsstjóri. Þessir menn skulu vera í þessum almannavarnanefndum, og að sjálfsögðu geta svo verið fleiri eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Ég er alls ekki viss um, að það sé á öllum stöðum það hentugasta, ef maður hugsaði sér starfsemi þessara nefnda á þeim grundvelli þó, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að ákveða, að þessir aðilar skuli vera í þessum almannavarnanefndum. Ég er alveg fullviss um það, að í sumum tilfellum þætti jafnvel eðlilegra, að sumir aðrir aðilar í viðkomandi stað væru í þessum nefndum. Ég tel því mjög vafasamt að binda það í lögum, eins og gert er ráð fyrir í þessari 8. gr., að hafa skipun nefndanna á þennan hátt. En hér eins og í öðrum tilfellum virðist það eitt aðalmarkmiðið, að dómsmrh. og þeir, sem eiga að vera með honum á toppinum í þessum efnum, eigi að fá hér alræðisvald til þess að ákveða það: Þetta skal gert og á þessum tíma og svona, og þessar nefndir skulu vera svona skipaðar í hverju sveitarfélagi og sveitarfélögin skulu borga sinn tiltekna kostnað. — Þetta skal allt saman leggja fyrir og binda í lögum, í staðinn fyrir að hafa hinn háttinn á, að heimila sveitarstjórnunum sjálfum visst sjálfstæði í þessum málum, eins og t.d. það að ákveða, hvaða aðilar eru í varnarnefndum og í hvaða ráðstafanir er ráðizt og hvað þykir fært að gera á hverjum stað, miðað við þau vandamál, sem liggja fyrir sveitarstjórnunum á hverjum stað og á hverjum tíma.

Ég tel sem sagt eldra skipulagið, sem byggt var á í þessum efnum, miklu eðlilegra og réttlátara, en það er að hafa frumkvæðið meira í höndum forustumanna sveitarfélaganna heldur en að færa allt valdið yfir til eins ráðh.

Ég hafði minnzt á það hér áður, að í III. kafla frv., um svonefnd hjálparlið, væri gert ráð fyrir því, að ráðh. gæti kallað menn eða látið kalla menn á aldrinum frá 18 ára til 65 ára í þessar liðssveitir, sem eiga að gegna allþýðingarmiklu starfi og gert er ráð fyrir að þjálfa þurfi allmikið til síns starfs, og að þetta nálgaðist í ýmsum efnum allmikið venjulega herskyldu, þó að hér væri ekki gert ráð fyrir því, að þeir, sem í liðinu eru, þurfi að taka þátt í beinum hernaðaraðgerðum sem neinir hermenn. Þetta kemur greinilega fram í síðustu grein þessa III. kafla, en það er 14. gr. frv. Hún hljóðar einmitt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Dómsmrh. setur reglur um starfsskyldu skv. 10. gr.“ — en þar er einmitt kveðið á um þessi starfslið, og þar eru allir skyldugir til þess að taka þátt í þessum starfsliðum á aldrinum frá 18 –65 ára. — „Dómsmrh. setur reglur um starfsskyldu skv. 10. gr. Skal að því stefnt, að starfskvöð komi sem réttlátast niður á borgarana. Ráðh. ákveður hámarkstíma fyrir skyldunám og æfingar í þágu almannavarna.”

Eins og þessi gr. ber alveg augljóslega með sér, þá er það í fyrsta lagi borgaraleg skylda skv. frv. fyrir þá, sem eru á aldrinum 18—65 ára, að taka þátt í starfsemi þessara liðssveita og sinna þar þjálfun og ýmsum verkum. Þarna er rætt um beina starfskvöð, sem hægt er að leggja á menn á þessum aldri. Þeir eru skyldugir til þess, og það má skylda menn endurgjaldslaust að vissu marki. En síðan er rætt um það, að ráðh. á að láta þetta koma sem réttlátast niður á borgarana, og eins og segir í gr., þá getur ráðh. ákveðið hámarkstíma fyrir skyldunám. Það er sem sagt gert ráð fyrir ákveðnum námskeiðum eða námstíma fyrir þá, sem í þessum liðssveitum eiga að vera, að það sé hægt að skylda þá til slíks náms eftir reglum, sem ráðh. hefur ákveðið, og ráðh. getur enn fremur ákveðið æfingatíma þessara aðila í þágu almannavarna.

Á því leikur auðvitað enginn vafi, að samkvæmt þessu hefur ráðherra svo víðtækar heimildir, að hann gæti framkvæmt það hér á Íslandi á þeim tímum, sem við almennt köllum friðartíma, sem nálgast mjög það, sem hjá öðrum þjóðum er nefnd herskylda, þar sem það er borgaraleg skylda manna á ákveðnum aldri að gegna þjónustu í tilteknum undirbúnings- og varnarsveitum eða ákveðnum liðssveitum.

Ég tel, að þessar heimildir séu allt of víðtækar og nái engri átt að hafa þær eins og þær eru upp settar í þessu frv. Allt öðru máli gegnir að sjálfsögðu um hjálparlið, sem komið er upp meira og minna af frjálsum vilja borgaranna, þar sem slíkt hefði verið ákveðið á eðlilegan hátt í hverju sveitarfélagi um sig, og borgararnir viðurkenna og skilja að er nauðsynlegt og þeir vilja nokkuð á sig leggja fyrir og er samkvæmt óbeinni samþykkt þeirra sjálfra, þar sem forustumenn í þeirra sveitarfélagi hafa gert till. um slíkt. En slíkt höfum við í lögum, og við höfum alla möguleika til að hafa þann hátt á um þessi mál. En nú á að steypa þessu um, ákveða þetta á annan hátt. hað er lagt á vald dómsmrh., sem mér sýnist nú að í mjög mörgum tilfellum gæti alveg eins heitið hernaðarmálaráðherra, eftir að þessi ákvæði öll væru komin í gildi og farið að framkvæma þau. Þar sé ég ekki mikinn skilsmun á annan en þann, að menn verða kannske ekki kallaðir til beins vopnaburðar eða þátttöku í heinum styrjöldum, en hægt er að láta þá gera svo að segja allt annað, sem venjulegri herskyldu fylgir meðal annarra þjóða. Og allt er sem sagt byggt upp á þá lund, að ráðherrann einn fær þetta gífurlega vald, að ákveða þetta, setja um þetta reglur og skylda borgarana til þátttöku í þessu, jafnvel til þess að vera á skólum eða námskeiðum og taka þátt í æfingum, eftir því sem hann leggur þar fyrir, eða kannske hinn raunverulegi herforingi, sem á að vera, hinn nýi embættismaður, forstöðumaður almannavarna.

Það er auðvitað alveg augljóst, að það er ekkert dregið undan valdi ráðherrans yfir borgurunum í þessum efnum, því að svo er fyrir mælt í 78. gr., að skylda þessara starfsmanna í þessu sérstaka liði er svo mikil, að þeir mega ekki hreyfa sig út úr lögsagnarumdæminu, nema þeir hafi fengið sérstakt leyfi til þess frá sínum yfirmanni, sem þá er lögreglustjórinn í viðkomandi umdæmi, sem sagt alveg hliðstætt því, sem gegnir um almenna herskyldu.

Það er tekið mjög skýrt og greinilega fram í 12. gr. frv., að allir þessir aðilar, sem eru á aldrinum frá 18 til 65 ára, eiga að vera borgaralega skyldugir til þess að vera í þessum liðssveitum. Þeir eru skyldugir til þess að taka jöfnum höndum þátt í námskeiðum og æfingum, séu þeir til þess hvaddir, varðandi starfsemi þessara liða. 1. málsgr. 12. gr. frv. hljóðar einmitt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þeir, sem starfa eiga í hjálparliðum, skulu taka þátt í námskeiðtam og æfingum, sem þeir hafa verið kvaddir til. Þeim ber að hlýða fyrirmælum og fara eftir starfsreglum. Óheimilt er að hverfa úr starfi án leyfis.“ Það er sem sagt alveg augljóst, að á þeim, sem hafa verið kvaddir í þessar liðssveitir samkvæmt þessu frv., hvílir mikil skylda um það að þjálfa sig, læra þar til settar reglur, taka þátt í námskeiðum, vera viðstaddir þar, sem lagt er fyrir þá, og vera undir algerri stjórn síns yfirmanns.

Ég vek athygli á þessum kafla frv., vegna þess að mér finnst, að í honum felist svo víðtækar heimildir til ráðherra og um þannig málefni, að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að þessum kafla verði hreytt.

Það hefur verið svo í okkar landi, að það hefur þótt alveg sjálfsagt að binda þau ákvæði í sjálfri stjórnarskránni, að í okkar landi mætti ekki leiða í lög neins konar herskyldu. En eins og ég hef sagt hér, þá er rétt að gera sér grein fyrir, að herskyldan, eins og hún er framkvæmd í hinum ýmsu löndum, er ekki einvörðungu fólgin í því að kalla menn til beinnar þátttöku. Hún er líka fólgin í því að hafa stjórnlagalega aðstöðu til þess að kalla borgarana undir ákveðin skylduákvæði, þar sem þeir verða að hlýða fyrirmælum sinna yfirmanna um það að taka þátt í hvers konar æfingastarfsemi, hvers konar þjálfunarstarfsemi og hlýða þar algerlega tilsettum heragareglum. En þau ákvæði, sem felast í 10.–14. gr. frv., heimila raunverulega dómsmrh. allt vald yfir borgurunum, séu þeir aðeins á aldrinum frá 18-65 ára.

En þessu er líkt varið með margar aðrar gr. frv. Heimildir þær, sem dómsmrh. fær og yfirmaður almannavarna, eru svo víðtækar, að ég kannast ekki við það, að slíkar heimildir sé að finna jafnvíðtækar í öðrum lögum.

Í 17. gr. frv. er það m.a. ákveðið, að eftir gildistöku þessara laga geta yfirmaður almannavarna og dómsmrh. ákveðið, að hverjum þeim, er byggir hús í landinu, sé skylt að byggja í því húsi tiltekið öryggisbyrgi eða annað það rúm í húsinu, sem nota mætti í sambandi við almannavarnir á hernaðartímum. Það er auðvitað engum vafa bundið, að hér er um mjög víðtæka heimild að ræða, ef hægt er að setja ákvæði um þetta, sem ná sem sagt til allra þeirra, sem standa í mannvirkjagerð eða húsbyggingum. Þetta tel ég líka mjög óeðlilegt ákvæði, og það ætti að koma þessu fyrir á allt annan veg. Ég álít, að það hefði líka farið betur í þessum tilfellum að hafa frumkvæði í þessum efnum hjá sveitarstjórnendunum sjálfum, þannig að ef viðkomandi sveitarstjórn telur það rétt og mögulegt að skylda húsbyggjendur til þess að útbúa hús sín, sem byggð verða eftir gildistöku þessara laga, með sérstökum hætti, þannig að veita mætti stuðning almannavörnum síðar, þá væri miklu réttara að hafa í hendi sveitarstjórnanna að setja um þetta reglur, en þó þannig, að það ættu að vera stjórnarvöld landsins, sem síðan yrðu þó að samþykkja það, til þess að slík ákvæði yrðu bindandi. En að veita einum ráðherra og yfirmanni almannavarna svona víðtækt vald, það tel ég óeðlilegt og óæskilegt.

Í 19. gr. frv. er líka að finna nokkuð svipað ákvæði þessu, og það er mjög táknrænt einmitt um það, hvað allar heimildir í þessu frv. eru viðtækar. Í 19. gr. segir orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um einkavarnir, þar sem m a. verða ákveðnar hámarkskvaðir, sem leggja má á atvinnufyrirtæki og húseigendur.”

Samkvæmt þessari heimild má ráðherra með reglugerð ákveða svo að segja hvaða kvaðir sem honum þykir rétt að setja á alla almenna húseigendur í landinu, öll atvinnufyrirtæki. Ég tel, að svona ákvæði eigi yfirleitt ekki að hafa í lögum, jafnalmenns eðlis og þetta er, nema svo að segja þar sem er ríkjandi hernaðarástand, hreint neyðarástand. Þá kannske neyðast menn til þess að færa slíkt ofurvald sem þetta yfir í hendur eins manns. En á venjulegum tímum, þó að menn séu að ræða um undirbúning gegn hernaðarhættu eða öðrum slíkum hættum, þá á að miða svona ákvæði við það, að fleiri en einn maður ákveði slíkar reglur, sem varða einstaklingana jafnmikið og t.d. þetta ákvæði.

Ég tel líka, að þarna hefði farið miklu betur á að hafa hinn háttinn á, að segja, að þar sem viðkomandi sveitarstjórnir teldu nauðsynlegt að setja sérstakar reglur um gerð mannvirkja eða húsa til þess að veita aukna aðstöðu fyrir almannavarnir, ef til hættutíma kæmi, þá gætu þeir aðilar gert till. um sérstakar reglur í þessum efnum. Það komi sem sagt frá þeim aðilum, sem eiga að hafa að verulegu leyti með framkvæmdina að gera, og siðan ætti það að vera á valdi ráðherra eða ríkisstj. eða jafnvel sérstakrar allfjölmennrar yfirnefndar að úrskurða um það, hvort rétt þætti að setja slíkar kvaðir á menn og fyrirtæki í þágu almannavarna. En þetta atriði er eins og önnur, sem ég hef vikið hér að, þetta er sem sagt allt í þá áttina, að mér sýnist, að vald dómsmrh. er gert svo til ótakmarkað. Hann fær hér svipað vald samkvæmt þessum lögum og dæmi munn vera til á beinum stríðstímum að ráðherrar fái stundum, til þess að hægt sé að bregða þar fljótt og skjótt við, vegna algers neyðarástands.

Ég tel einnig, að það hefði verið nauðsynlegt í lagasetningu sem þessari að búa miklu betur og á miklu breiðari grundvelli um ákvörðunarvald um það, hvenær má gripa til þeirra neyðarráðstafana, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er t.d. gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að ef dómsmrh. og yfirmaður almannavarna ákveði það, þá megi grípa til þeirra neyðarráðstafana, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er t.d. gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að ef dómsmrh. ag yfirmaður almannavarna ákveði það, þá megi grípa til þess ráðs að flytja fólk í hópum út af tilteknu svæði og á milli sveitarfélaga eða héraða. Ég tel, að það eigi ekki að vera á valdi eins ráðherra eða yfirmanns almannavarna að gripa til slíkra stórákvarðana eins og það er, nema þá það ástand sé, að stríð sé skollið á og við stöndum sem sagt í miðju stríði, en ekki aðeins vegna þess, að einhverjir segja, að það kunni að vera hætta á ferðum, af því að menn seg,ja, að það séu hættutímar, eins og orðað er í frv., — hættutímar, sem okkur hefur verið sagt að væru hér á landi allt síðan 1951, að herinn kom. Þá var lýst yfir, að ástæðurnar til þess, að brotin voru þau fyrirheit, sem áður höfðu verið gefin um það, að erlendur her skyldi ekki vera á Íslandi á friðartímum, — því að um það gáfu íslenzk stjórnarvöld alveg ótvíræðar yfirlýsingar, — ástæðurnar til þess, að þessi fyrirheit voru brotin, voru taldar þær, að 1951 væru hættutímar og þá hefði þurft að kalla erlendan her til Íslands í varúðar- og varnarskyni, og þessir hættutímar hafa verið að dómi valdamanna þjóðarinnar síðan 1951. En það þýðir þá aftur á móti, að nú í dag eru hættutímar, það þýðir þá aftur, að dómsmrh. fengi skv. þessum lögum t.d. að taka nú í dag vald til þess að fyrirskipa framkvæmdir skv. þessum lögum, af því að það væru hættutímar. Hann á að geta metið það einn og svo þá þessi yfirmaður almannavarna. En þetta tel ég allt of víðtækt vald, sem fengið er hér í hendur dómsmrh., og að það eigi að búa um þessi ákvæði í löggjöfinni á allt annan hátt og svona vald eigi ekki að vera í hendi ráðh, nema á algerum neyðartímum eða þegar stríð er á skollið. Fram að slíkum tíma á að byggja þetta upp á öðrum grundvelli og miklu breiðari grundvelli, þar sem miklu fleiri aðilar koma til með að taka ákvarðanir. Og alveg sérstaklega tel ég hina leiðina eðlilegasta, að frumkvæðið sé einmitt hjá forustumönnum sveitarfélaganna um það, í hvað skuli ráðast af undirbúningi á hverjum tíma, en svo geti það aftur verið ákvörðunarvald ríkisstj. og ráðh. að samþykkja eða hafna tillögum sveitarstjórnarmanna.

Í 22. gr. frv., síðustu mgr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Sveitarfélag, sem flutt er frá, greiðir kostnað vegna húsnæðis og fæðis, sem látið er í té samkvæmt þessari grein, en á kröfu um endurheimt á hendur þeim, sem fyrirgreiðslunnar hafa notið.“ M.ö.o.: sé til þess gripið að flytja menn úr heilu byggðarlagi flutningum, vegna þess að það sé talið um hættutíma að ræða eða hættuástand, þá er sagt, að sveitarfélagið skuli greiða kostnaðinn vegna húsnæðis og fæðis, sem látið er í té, en svo á það aftur endurkröfurétt á hendur þeim, sem fyrirgreiðslunnar hafa notið. Mundi þetta nú yfirleitt hafa mikla þýðingu í framkvæmd? Er líklegt, að mörg sveitarfélög á Íslandi séu við því búin eða geti gert stóra hluti í þessum efnum fram yfir það, sem hin daglegu efni segja til um og ég ætla að allir mundu gera við þá, sem lent hafa í sérstöku neyðarástandi, og þyrftu þá ekki að vera um það nein sérstök lagafyrirmæli. En séu slíkar ráðstafanir sem þessar gerðar í varúðarskyni eða jafnvel æfingarskyni eða vegna þess, að stjórnarvöld hafa metið ástandið á sérstakan hátt, án þess að bein hætta hafi orðið, þá ætla ég nú samt, að slíkar aðgerðir sem þessar yrðu trauðlega framkvæmdar samkv. þessari grein, og þá teldi ég miklu eðlilegra, að ákveðið væri, að kostnað af slíku ætti ríkið sjálft að greiða, það yrði að taka á almannaherðar í landinu, það yrði þjóðfélagið sem heild að bera, en að ekki væri réttmætt né framkvæmanlegt að ætla að leggja byrðarnar á herðar þess sveitarfélags, sem orðið hefði fyrir því að lenda í meiri hættu en önnur í landinu eða að dómi stjórnaryfirvalda þurft að verða fyrir því, að menn þaðan væru fluttir í aðra sveit, jafnvel án þess að það hafi verið gert í varúðarskyni.

Ég held, að allar slíkar framkvæmdir sem þessar verði að borgast úr ríkissjóði, enda er það líka skv. eðli málsins réttlátast, að ef eitt sveitarfélag lendir hér í meiri hættu af hernaðaraðgerðum, þá er langeðlilegast, að það sé ríkisheildin, sem hlaupi þar fjárhagslega undir bagga, en öll ákvæði um það, að viðkomandi sveitarfélag eigi að standa undir greiðslum í samhandi við slíkt, tel ég í mesta máta óeðlileg og litt framkvæmanleg.

Í frv. þessu eru fjöldamörg ákvæði, sem full ástæða væri til þess að ræða hér um, en ég mun ekki gera það að þessu sinni. Ég endurtek það, sem ég hef sagt hér áður, ég teldi miklu eðlilegra, að afgreiðslu málsins yrði frestað nú á þessu þingi og réttir aðilar fengju að kynna sér efni frv. og láta uppi skoðun sína á því, koma fram með þær brtt. við frv., sem þeir teldu æskilegar og nauðsynlegar. Ég get ekki séð, að neitt það reki svo á eftir hjá okkur, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að samþ. lög um þetta efni nú. Hitt er svo annað mál, að ég er ekki á móti því á neinn hátt að taka til endurskoðunar okkar töggjöf um þessi efni, gera hana fullkomnari en hún er nú og setja þar inn þau ákvæði, sem telja verður eðlileg og í samræmi við getu okkar og aðstöðu til varúðar í þessum efnum og til þess að vera viðbúnir hinu illa. En á því er auðvitað enginn vafi, að sjálfsagðasta ráðstöfunin fyrir okkar þjóð til þess að bægja frá okkur þessari hættu væri sú einmitt að losa okkur við hinn erlenda her, sem er í landinu.

Þó að ekki hefði verið að finna í þessu frv. nema eins og fyrsta skrefið, sem stigið væri í þá átt að draga úr stríðshættunni í okkar landi á þann hátt að stefna að því að gera herstöðina þýðingarminni, þannig að hún skapaði okkur minni hættu, og að stefnt væri að því að draga úr erlendum her hér í landinu, — ef einhver góð yfirlýsing kæmi um, að það væri stefna íslenzkra stjórnarvalda að vinna að slíku og reyna þannig að draga úr hernaðarhættunni, ef eitthvað slíkt væri í frv. að finna, þá væri það sannarlega þess virði að samþykkja það. Það mundi að mínum dómi hafa miklu meira að segja til að bægja frá hernaðarhættu heldur en það, þó að rokið sé í það að byggja nokkuð af öryggisbyrgjum eða þó að komið yrði fyrir úti um sveitir einhverju af varasjúkrahúsum eða safnað sé nokkru af teppum og rúmum og öðru slíku í birgðageymslur, eins og gert er ráð fyrir samkv. þessu frv.

Við vitum það, að stærsta bæjarfélagið í okkar landi, höfuðborgin, hefur nú um nokkurt árabil, eða síðan 1951, einmitt verið með ýmiss konar undirbúning á svipuðum nótum og þetta frv. fjallar um. Það er búið að kaupa hinn mesta haug af hvers konar teppum, líklega fyrir milljónir kr., það er búið að kaupa heilmikið af sjúkrarúmum, og það hefur verið keypt talsvert mikið magn af niðursoðnum matvælum, og þetta hefur allt verið geymt og auðvitað er búið að borga út nokkur hundruð þúsundir króna í allálitlegar launafúlgur til ýmissa manna, sem kringum þetta hafa verið að snúast á undanförnum árum. Þetta allt hefur vorið gert. Reykjavík á þetta. En hvað svo? Halda menn nú t.d., að í dag séu Reykvíkingar vegna þessa í miklu minni hættu eða þeir séu betur búnir til þess að taka á móti hættunni en t.d. íbúar víða annars staðar á landinu, þar sem svona sjúkrarúm hafa ekki verið keypt og slíkum fjárhæðum hefur ekki verið eytt, eins og hér í Reykjavík? Nei, ætli að niðurstaða flestra sé ekki sú, að þeir hér í Reykjavík standi litlu betur en aðrir landsmenn þrátt fyrir þetta?

Þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv., eru í eðli sínu sáralítils megnugar, þegar til sjálfrar aðalhættunnar kemur. Þær gera tiltölulega lítið gagn miðað við það, sem við getum í þetta lagt, borið saman við hitt, að bægja frá höfuðhættunni sjálfri, en það er einmitt herliðið, sem er í okkar landi, sem dregur einkum að sér hugsanlega árás. Ég held, að stjórnarvöld landsins verði að gera sér alveg fulla grein fyrir því, að svona liggur einmitt í þessum málum. Hættan er vissulega fyrir hendi vegna þeirrar ógæfustefnu, sem hér hefur verið framkvæmd á undanförnum árum með inngöngu okkar í Atlantshafshandalagið og með því að ljá land okkar undir erlendan her. Það er einmitt frá því, sem öll hættan kemur fyrir okkur Íslendinga, og því þurfum við að reyna að draga okkur út úr hættusvæðinu með því að vera ekki beinir aðilar á einn eða neinn hátt í átökum stórvelda. Það er enginn vafi á því, að yfirlýsing frá okkar hálfu um það, að við óskuðum eftir því að vera hlutlausir í átökum stórveldanna og lausir þar við öll hernaðarátök, og að við lýstum yfir hlutleysi landsins, það yrði okkur margfalt meiri vörn en þúsund öryggisbyrgi og ótalmörg varasjúkrahús úti um sveitir eða heilmiklar birgðir af teppum og rúmum og matvælum, sem er verið að gera ráð fyrir að safna og byggja, samkvæmt þessu frv.

Í grg. frv. segir á bls. 7, að á s.l. hausti, haustið 1961, hafi ríkisstj. alveg sérstaklega orðið ljóst, hve það væri óverjandi að gera ekki gangskör að því að efla almannavarnir hér á Íslandi. En þetta varð ríkisstj. sérstaklega ljóst, þegar kjarnorkusprengingar hófust þá hjá Sovétríkjunum, og segir í grg. frv., að þegar ríkisstj. skynjaði þetta, þá hafi hún farið að ræða málið í sinn hóp og kallað fyrir sig ýmsa sérfræðinga, m.a. úr loftvarnanefndinni í Reykjavík, og farið að ræða um það, hvaða ráðstafanir væri réttast að gera í þessum efnum hér á landi. Síðan leiddi þetta til þess, að tveir erlendir sérfræðingar í slíkum málum sem þessum voru fengnir hingað til skrafs og ráðagerða, var annar norskur hershöfðingi og hitt var danskur læknir, og í grg. þessa frv. er nokkuð sagt frá undirbúningi þessara manna eða ráðleggingum þeirra varðandi þessi mál. Þessi frásögn í grg. frv. bendir til þess, að þegar það gerðist á s.l. hausti, að Sovétríkin hófu sínar kjarnorkusprengingar, sem mikið var um rætt, þá hafi íslenzka ríkisstj. skyndilega orðið hrædd og gert sér nokkra grein fyrir því, hver staða Íslands er, þá hafi ráðherrarnir fyrst áttað sig á því, að þeir höfðu haldið þannig á málum, að Íslandi gat stafað allveruleg hætta af hernaðarátökum á milli stórveldanna í heiminum.

Nú þurfti enginn út af fyrir sig að verða hissa á því, að það kynni að heyrast eitthvað vopnahrak hjá stórveldunum, svo mjög sem þau hafa haft hjá sér alls konar undirbúning í þeim efnum og heyrzt hafa frá þeim á víxl hvers konar hótanir, eins og við þekkjum. En sem sagt, þegar það gerðist, að annar aðilinn var að gera allviðtækar tilraunir með kjarnorkusprengingar, þá varð íslenzka ríkisstj. skyndilega óttaslegin og vildi fara að gera hér sérstakar ráðstafanir til þess að taka á móti stríðsafleiðingunum. Nú er það auðvitað í sjálfu sér aðeins yfirlýsing um það, hve sljó hæstv. ríkisstj. hefur verið í þessum efnum, að veita fyrst athygli þeirri hættu, sem yfir íslenzku þjóðinni vofir auðvitað af hugsanlegum hernaðarátökum vegna þeirrar stöðu, sem við erum komin í hér, við það eitt, að eitt af stórveldunum fer að sprengja sínar kjarnorkusprengjur. Nú vitum við, að einmitt um þetta leyti eru þessi stórveldi óðum að tilkynna það, að þau ætli að fara að sprengja aftur. Allar fréttir benda til þess, að það sé aðeins skammt að bíða þess, að Bandaríkin byrji að sprengja sínar kjarnorkusprengjur í Kyrrahafi. Og forustumenn Sovétríkjanna segja, að þegar Bandaríkin byrji á sínum sprengjuæfingum, þá muni þeir byrja líka. Það er auðvitað enginn vafi á því, að slíkt ástand, sem verið hefur í heimsmálum að undanförnu og kemur m.a. fram í þessum sprengingaræfingum öllum hjá stórveldunum, að slíkt ástand hefur í för með sér hættu fyrir alla, hvar sem er í heiminum, en einkum og sérstaklega auðvitað ef til beinna styrjaldarátaka kæmi, þá hefur þetta hættu í för með sér fyrir þá, sem hafa verið að skipa sér í liðssveitir öðru hvorum megin. Og af því er það, sem ég hef sagt hér áður í minni ræðu, að ég tel, að það hyggilegasta, sem við gerðum, væri það, að við skipuðum okkur einmitt í hóp þeirra þjóða, sem lýsa yfir hlutleysi í átökum stórveldanna. Við værum þar sannarlega ekki einangraðir, því að þar værum við í fjölmennasta þjóðahópnum í heiminum nú, því að einmitt þær þjóðir, sem lýst hafa yfir hlutleysi, eru fjölmennastar. Hinar þjóðirnar, sem ákveðið hafa skipað sér í annað hvort liðið, í lið austurs eða vesturs, eru mun færri. Við ættum ekki að þurfa að bíða lengur eftir því, að frekari kjarnorkuátök verði á milli stórveldanna, til að sjá og skilja, að það vofir auðvitað yfir okkur viss hætta. En við þurfum að átta okkur á því, að þessi hætta vofir alveg sérstaklega yfir okkur af því, að við höfum skipað okkur í liðssveit með öðrum aðilanum, að við höfum lánað hluta af okkar landi undir herstöð annars aðilans. Og á því er auðvitað enginn vafi, að ef til hernaðarátaka kæmi, þá mundi þessi aðili nota okkar land bæði til varnar og sóknar. En allt slíkt vitanlega felur í sér stórkostlega auknar hættur, hættur, sem ekki er auðvelt að reikna út fyrir fram, hve víðtækar geta orðíð fyrir okkur. Það er alger molbúaháttur að búast við því, að hægt sé að umflýja þessar hættur, sem væru af styrjöld, sem háð yrði nú eftir miðja 20. öld, með því að ætla að grafa sig niður í jörðina og fela sig í einhverjum byrgjum. Það er enginn vafi á því, að þeir aðilar, sem á beinan hátt dragast inn í styrjaldarátökin, viljandi eða óviljandi, — það er enginn vafi á því, að þeir fá ekki borgið sínu fólki með því að byggja eitthvað af varnarbyrgjum eða jafnvel þó að þeir komi upp nokkru af varasjúkrahúsum og kaupi talsvert mikið af teppum og rúmum, eins og rætt er um hér. Til þess þarf miklu meira. Maður þarf að reyna að koma í veg fyrir orsakirnar í þessum efnum, sem sagt að bægja frá aðalhættunni — hættusvæðinu — frá okkar dyrum, og það getum við auðveldlega gert.

Við skulum vera þess minnug, að þegar við drógumst inn í þessi hernaðarátök stórveldanna, var okkur ekki sagt rétt til. Þegar Keflavíkursamningurinn var gerður árið 1946, var því lýst yfir, að hér væri ekki um að ræða að veita Bandaríkjum Norður-Ameríku herbækistöð, heldur væri fyrst og fremst hér um það að ræða að veita þeim aðstöðu, sem þau þyrftu nauðsynlega á að halda vegna flutninga frá Norður-Ameríku til meginlands Evrópu, þar sem Bandaríkin höfðu enn nokkurt herlið. Á þessum löngu flutningaleiðum sögðu Bandaríkin að þau þyrftu gjarnan að hafa hér millistöð og Keflavíkurflugvöllur væri einkar hentugur fyrir þau í þessum efnum. Þessu var mjög stíft haldið að íslenzku þjóðinni, þegar þessi samningur var gerður, að hér væri ekki um herstöð að ræða og að leigan á flugvellinum til Bandaríkjanna þýddi ekki á neinn hátt það, að við værum að leiða yfir okkur erlendan her eða þátttöku í hugsanlegum átökum stórveldanna. En við vitum nú, að þróunin varð önnur en íslenzku þjóðinni var sagt að hún mundi verða. Við vitum, að það var líka svo, að þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið 1949, þá var því hátíðlega lýst yfir, að á Íslandi yrði ekki her á friðartímum, þó að við gengjum í það bandalag. Og það var reynt að halda því mjög að Íslendingum þá, að Atlantshafsbandalagið væri ekki hernaðarbandalag, þetta væru fyrst og fremst varnarsamtök vestrænna þjóða, sem vildu standa saman um hin margvíslegustu málefni. En nú er auðvitað ekki reynt að neita því lengur, að auðvitað er Atlantshafsbandalagið hernaðarbandalag, er skartar með sína herforingja og feiknalegan vígbúnað. Og auðvitað leiddi þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu 1949 til þess, þrátt fyrir yfirlýsingarnar um það, að hér skyldi ekki verða her á friðartímum, að erlendur her kom á vegum þessa bandalags hingað til landsins, og það var það, sem gerðist árið 1951, og síðan höfum við haft í okkar landi erlendan her og Keflavíkurflugvöllur hefur orðið að erlendri herstöð á okkar landi. Það er sem sagt þessi þróun málanna, sem hefur verið að auka á stríðshættuna hér hjá okkur, og auðvitað hefur sú hætta aukizt jafnt og þétt með því, að ástandið á milli stórveldanna í heiminum hefur jafnvel farið versnandi.

Það er þetta, sem menn verða að gera sér fyllilega ljóst, að það er frá þessu, sem hættan stafar, og að eina leiðin til þess að draga verulega úr þessari hættu er einmitt að reyna að stiga hér skrefið til baka aftur, losa okkur út úr þessu ástandi, reyna að losa okkur við hinn erlenda her, reyna að umbreyta þessari herstöð á Keflavíkurflugvelli í friðsamlegan flugvöll, sem væri undir stjórn landsmanna sjálfra. Ef unnið væri að þessu á viturlegan hátt og því lýst yfir, að þjóðin vildi vera hlutlaus í átökum stórvelda og lýsti yfir hlutleysi sínu, þá er enginn vafi á því, að þá yrði ekki hægt að telja, miðað við stöðu Íslands í heiminum, neina verulega stríðshættu hér fyrir okkur Íslendinga. Og svo álít ég, að það sé óhjákvæmilegt að átta sig á því, að þó að menn vilji reyna þær leiðir, sem þetta frv. aðallega fjallar um, til varnar, þó að menn vilji reyna þá leið til þess að hægja frá hættunni að ausa út peningum í byggingu öryggisbyrgja, breytingar á öllum nýjum húsum, sem verða byggð hér eftir, í söfnun alls konar lyfja og matvæla og annars slíks, sem eitthvað mætti lina kvalir þeirra, sem orðið hafa fyrir beinum hernaði eða afleiðingum hernaðar, — jafnvel þó að farið yrði inn á þessa braut, þá getum við Íslendingar, svo fáir sem við erum og vanmegnugir fjárhagslega, sáralitlu áorkað til varnar fyrir þjóðina í nútímahernaði eftir þessari leið. Það er dregið í efa af hinum færustu mönnum, að stórveldin í heiminum, að hinar ríku þjóðir úti í heimi geti nokkuð teljandi gert sér til gagns með því að fara þessar leiðir til að bægja hættunni frá í t.d. kjarnorkustyrjöld, en það er enginn vafi á því, að miðað við alta okkar stöðu, Íslendinga, þá eru möguleikar okkar til þess að hafa eitthvert gagn af slíkum ráðstöfunum eins og þessum margfalt miklu minni en meðal hinna stóru þjóða.

Það er því mín skoðun, að það sé alla vega nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. fallist á það, að þetta mál fái betri undirbúning en það hefur fengið og að það verði ekki afgr. nú á þessu þingi, heldur verði það eftir umr. um málið hér nú látið liggja til næsta hausts, það verði sent til allra sveitarstjórna í landinu og til annarra aðila í landinu, sem ætlað er samkvæmt frv. að hafa með efni þess að gera í framkvæmd, það verði sent þessum aðilum til umsagnar, svo að umsagnir þeirra geti síðan legið á næsta hausti fyrir Alþingi, en þá verði hins vegar lög sett um þetta efni, sem ég tel fyllilega eðlilegt að gert sé. En þá væri líka hægt að bæta það form, sem ákveðið yrði, stórlega frá því, sem er í þessu frv.

Ég sé, að afgreiðsla þeirrar n. í þinginu, sem haft hefur með mál þetta að gera, hv. heilbr.- og félmn., er þannig, að meiri hl., stuðningsmenn ríkisstj., mælir með frv. óbreyttu, og virðist það vera þannig, að ég hlýt að álíta, að það sé svo, að meiri hl. hafi tiltölulega lítið athugað efni þess, því að ég trúi því varla að óreyndu, að hann viðurkenni ekki, að ýmis ákvæði frv. eru þannig, að þau þarfnast breytinga. En tveir nm., sem skipa minni hl., fulltrúi Alþb, og fulltrúi Framsfl., benda báðir á, að það væri eðlilegt að afgr. frv. þannig, að það yrði lagt fyrir sveitarstjórnarmenn í landinu til umsagnar, og þeir sjá ekki, að það sé nein ástæða til þess, að afgreiðslu þess sé lokið nú á þessu þingi. Fulltrúi Framsfl. hefur einnig lagt hér fram nokkrar brtt. við frv., og í brtt. hans kemur m.a. fram, að hann er í meginatriðum á sömu skoðun og ég hef túlkað, að það á að breyta einmitt grundvallaruppbyggingu þessa frv., þannig að gert sé ráð fyrir því, að frumkvæðið sé hjá sveitarstjórnunum í landinu, en ekki að öllu leyti hjá ráðh., og það er greinilegt, að hann vill einnig miða að því að draga nokkuð úr því gífurlega valdi, sem dómsmrh. yrði fengið samkvæmt þessum lögum. Auðvitað má segja, að næstum öll ákvæði, sem er að finna í frv., geti út af fyrir sig átt rétt á sér undir vissum kringumstæðum. Það geta komið fyrir þau tilvik, að það sé nauðsynlegt að grípa til slíkra ákvæða. En ég álít, að það eigi ekki að vera svo almennar heimildir um þessi atriði, að ráðherra geti, þegar honum býður svo við að horfa, notað þessar heimildir, á þeim tímum, sem við mundum almennt telja venjulega tíma, þó að dómsmrh. ef til vill vildi kalla það hættutíma.

Fulltrúi Alþb. í n. hefur lagt til á þskj. 693, í sínu nál., að frv. verði nú afgr. með rökstuddri dagskrá. Það teldi ég út af fyrir sig líka hið eðlilegasta. Ég vil fyrir mitt leyti undirstrika það, sem kemur líka fram í þeirri rökstuddu dagskrá og afstöðu fulltrúa okkar í n., að við erum ekkí á móti því, að löggjöf sé sett um þetta efni og gildandi löggjöf varðandi það víkkuð nokkuð út og taki eðlilegum breytingum. En við teljum, að það liggi ekki á, eins og nú standa sakir, að setja lög í þá átt, sem þetta frv. fjallar um, það megi vel bíða fram á næsta haust. Við teljum einnig, að það sé alveg óhjákvæmilegt að breyta til í verulegum atriðum um ákvæði í frv. og að það sé eðlilegast að byggja þá lagasetningu, sem sett yrði um þetta efni, einmitt á till. og áliti þeirra aðila í landinu, sem eiga að standa að því að framkvæma lögin og greiða kostnað af þeim að meira eða minna leyti, sem sagt frá fulltrúum sveitarstjórnanna í landinu og ýmsum öðrum aðilum, sem frv. gerir annars ráð fyrir. Þetta teljum við lágmarksatriði, sem eigi að fullnægja, áður en horfið verði að því að setja löggjöf sem þessa.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt frekar, enda mun nú fundartíma vera lokið að þessu sinni. En ég endurtek, að ég tel, að æskilegast væri, að hæstv. ríkisstj. féllist á það að fresta afgreiðslu þessa máls nú á þessu þingi.