06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

171. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið alllangar umr. um þetta frv., og væri ýmislegt hægt að segja um sitt hvað, sem í þeim hefur komið fram. Ég skal þó leiða hest minn hjá því, en einungis lýsa þeirri skoðun, að margt af því, sem mælt hefur verið á móti þessu frv., hvílir á fullkomnum misskilningi um eðli málsins og ákvæði frv. og tilgang þess. Mér er hins vegar ljóst, að þar sem komið er að þinglokum, þá muni verða erfitt að afgreiða þetta mál, úr því að um það er verulegur ágreiningur, þó að hann hvíli að mestu leyti á misskilningi. Það er einnig svo, að þó að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, þá er samþykkt frv. á þessu þingi að því leyti ekki aðkallandi, að ríkisstj. hefur nú þegar bæði nægar heimildir til aðgerða og fyrirmæli Alþingis um aðgerðir, þannig að framkvæmdir þurfa ekki að tefjast, þó að málið verði látið bíða hausts, vegna þess að framkvæmdir samkv. frv. þarfnast verulegs undirbúnings, sem fyrirsjáanlega hlýtur að taka marga mánuði, áður en til sjálfra framkvæmdanna kemur. Og hvað sem líður samþykkt þessa frv. á þessu þingi, mun ég þegar í stað gera ráðstafanir til þess, að þetta undirbúningsstarf verði hafið og því haldið áfram, þannig að framkvæmdirnar sjálfar geti hafizt strax eftir að málið hefur fengið meðferð og samþykkt á næsta reglulegu Alþingi. Með tilvísun til þessa leyfi ég mér að leggja til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Með samþykkt fjárlaga fyrir 1962 lýsti Alþingi vilja sínum til þess, að almannavarnir skyldu upp teknar, og treystir deildin ríkisstj. til að hefja nú þegar undirbúning þeirra í samræmi við meginreglur þessa frv., m.a. um þátttöku sveitarfélaga í kostnaði, og afla sér með brbl. heimilda til skyndiráðstafana, ef brýna nauðsyn ber til og heimildir gildandi laga um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðarráðstöfunum verða ekki taldar fullnægjandi. Þar sem nú er orðið áliðið þings og sýnt er, að afgreiðsla frv. muni taka verulegan tíma, en frestun samþykktar þess nú mun samkv. því, sem fyrr greinir, ekki valda töfum á framkvæmdum, tekur deildin fyrir næsta mái á dagskrá, enda verði frv. lagt fyrir næsta þing strax og það kemur saman.”

Ég vonast til þess, að þessi till. geti hlotið einróma samþykki deildarinnar, þannig að þetta þurfi ekki að verða að frekari ásteytingarsteini nú.

Ég afhendi forseta tillöguna.