06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

171. mál, almannavarnir

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. 4. landsk. þingmanni um það, að þetta mál hafi verið eða sé þannig undirbúið af hálfu hæstv. ríkisstj., að það sé ekki vel mögulegt að taka afstöðu til þess á þessu þingi. Ég held þvert á móti, að það séu fá mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þetta þing, sem hún hefur látið undirbúa illu betur eða lagt meiri vinnu í heldur en einmitt þetta frv. Það er búið að liggja það lengi hér frammi á Alþingi og hv. þm. getað þess vegna kynnt sér efni þess og aflað upplýsinga í því sambandi, að þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að það fengi afgreiðslu á þessu þingi. Þrátt fyrir þetta virðist þetta frv. eiga að fá einhverja þá skringilegustu málsmeðferð, sem um getur í þingsögunni, því að ég minnist þess ekki, — það kunna kannske samt að vera fordæmi fyrir því, — að stjórnarfrv. hafi verið vísað frá með dagskrártillögu frá sjálfri ríkisstj., þar sem nánast er að orði komizt eða má lesa á milli línanna, að þetta frv. sé alls ekki nauðsynlegt og það sé engin þörf á því, því að stjórnin hafi þær heimildir í öðrum lögum og samþykktum Alþingis, að málið sé alls ekki aðkallandi. Og ég held, að þetta sé enn þá óvenjulegri afgreiðsla, þegar það er haft í huga, að bæði í umr. hér á Alþingi og eins í blaðaskrifum um þetta mál í málgögnum hæstv. ríkisstj. hefur verið þannig að orði komizt, að þetta sé eitthvert hið mest aðkallandi mál til úrlausnar, sem fyrir þingið hefur verið lagt, og ég man ekki betur en að fyrir tveim dögum væri svo að orði komizt í aðalblaði hæstv. ríkisstj., Morgunblaðinu, að það væri hreinn glæpur, ef ekki væru gerðar tafartaust þær ráðstafanir, sem um er fjallað í þessu frv., og þess vegna væri afgreiðsla þess mjög aðkallandi. Nú liggur hins vegar fyrir tillaga frá hæstv. ríkisstj., dagskrártillaga, þar sem látin er í ljós alveg gagnstæð skoðun. Ég held, að það verði ekki annað sagt en að þetta sé nokkuð óvenjuleg afgreiðsla.

Annars get ég látið það í ljós sem mína skoðun, að ég held, að ef nauðsyn er á slíkum ráðstöfunum, sem þetta frv. fjallar um, þá væri þeirra kannske aldrei frekar þörf en einmitt á næstu mánuðum eða frá þeim tíma, sem næsta Alþingi kemur saman, og þar á ég við þann þátt frv., sem fjallar um ráðstafanir vegna geislavirkni. Það hefur verið almennt álit sérfræðinga, að geislavirknin af sprengjum Rússa, sem þeir sprengdu á s.1. hausti, mundi verða mest með vorinu, og það veit enginn enn þá, hve mikil hún kann að verða. Við vitum, að það er einnig á næstu grösum eða bendir allt til þess, að Bandaríkjamenn muni hefja kjarnorkusprengingar síðari hluta þessa mánaðar. M.a. í seinustu fréttum hafa þeir lýst ákveðin svæði friðuð eða varað menn við að fara inn á þessi svæði með tilliti til þess, að kjarnorkusprengingar gætu hafizt þar þá og þegar. Og Rússar hafa lýst því yfir, að ef Bandaríkjamenn byrji á þessum sprengingum, þá mundu þeir hefja sprengingar aftur á nýjan leik. Þess vegna geta þeir tímar verið fram undan nú alveg á næstunni, að það sé veruleg þörf fyrir þær ráðstafanir, sem frv. fjallar um, eða jafnvel meiri þörf en nokkurn tíma fyrr og síðar. Þar af leiðandi væri mjög varasamt, ef þessar ráðstafanir á annað borð eru metnar nauðsynlegar og taldar koma að gagni, að það yrði hafður mikill dráttur á þeim. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta að sinni.

En það, sem var aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að mér finnst, að það væri óvanalegt, ef umræðu málsins eða l. umr. væri látið lokið nú að þessu sinni, eftir að slík dagskrártillaga hefur komið fram, þar sem tiltölulega fáir þingmenn eru hér á fundi, og dagskrártillaga frá hæstv. ríkisstj. liggur þess vegna ekki fyrir prentuð, og menn hafa ekki haft aðstöðu til þess að kynna sér efni hennar. Ég mundi telja eðlilegt, úr því að svo er komið, að þessi tillaga liggur nú fyrir, að þá væri umr. frestað að þessu sinni, en ekki umr. slitið, þannig að þegar menn væru búnir að sjá tillöguna, þá gæfist þeim kostur á að ræða efni hennar, ef þeim sýnist svo. Ég er hins vegar ekki að slá neinu föstu um það, að menn létu sér ekki þessa afgreiðslu hæstv. ríkisstj. lynda, fyrst hún telur hana eðlilega og að þetta frv., sem hefur verið svo mikið auglýst, sé ekki eins nauðsynlegt og haldið hefur verið fram. En þinglegust fyndist mér samt sú aðferð vera, eftir að slík tillaga sem þessi dagskrártillaga hefur komið fram og fundurinn er jafnfámennur og raun ber vitni um, að þá væri umr. ekki slitið að þessu sinni, heldur frestað, unz þingmenn hefðu almennt átt kost á að kynna sér efni hennar.