21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

78. mál, almannatryggingar

Flm. (Ingi R. Helgasson):

Hæstv. forseti. Hv. þingdeildarmenn. Ég og hv. 7. landsk., Geir Gunnarsson, höfum leyft okkur að flytja hér frv. á þskj. 100, til l. um breyt. á lögunum um almannatryggingar. Efni þessara breyt, frv. okkar er raunar mjög skýrt og einfalt, og ég þarf ekki að hafa um það mörg orð. Það er í fyrsta lagi fólgið í því, að íþróttafólk, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort sem unt er að ræða æfingar, sýningar eða keppni, skuli falla undir ákvæði almannatryggingalaganna um fullkomna slysatryggingu líkt og launþegar. Annað ákvæði þessara brtt. er það, að tryggingaiðgjöldin skuli skiptast á ríkissjóð og íþróttafélögin í landinu á þann hátt, að ríkissjóður greiði 3/4 iðgjaldanna á móti íþróttafélögunum, sem greiða 1/4. Efni þessa frv. er raunar ekki nýtt af nálinni, og ég vænti þess, að það komi ekki hv. þdm. neitt á óvart. Frv. sama efnis, svipaðs eðlis var flutt af Hermanni Guðmundssyni, hv. þáv. þm., hér á Alþingi 1946 og 1947, og mál þetta hefur verið ofarlega á dagskrá íþróttasamtakanna í landinu nú um langt árabil, það er alveg óþarfi að fjölyrða um hin almennu rök, sem hníga að því að gera þessa breytingu á almannatryggingalögunum. Hér er um að ræða eitt þeirra réttlætismála, sem engin spurn er um, ef það er skoðað niður í kjölinn af sanngirni og réttsýni.

Ég veit, að hv. þm. er fullljóst, við hvaða réttarstöðu og við hvaða öryggi íþróttaiðkendur í landinu búa. Ekki alls fyrir löngu kom til mín maður, nemandi, sem hafði orðið fyrir því á íþróttaæfingu, að annar íþróttamaður hafði kastað í hann kringlu, með þeim afleiðingum, að hann meiddist mikið og var frá vinnu raunar í hálft aunað ár. Hann kom til mín og spurði mig um réttarstöðu sína. Hún var sú, að hann féll ekki undir almannatryggingalögin. Það kom til álita, að hann ætti eftir hinum almennu skaðabótareglum kröfurétt um bætur á hendur þeim, sem kastaði kringlunni, a.m.k. hálfar bætur, þar sem þeir voru að leik. En á þessar reglur hins almenna skaðabótaréttar reyndi ekki af þeim ástæðum, að drengurinn, sem kastaði kringlunni, og móðir hans, sem hann bjó hjá, voru allsendis ófær að bæta það tjón, sem orðið var. Hér á Suðurnesjum gerðist það, að ungan og efnilegan mann langaði til að ganga í íþróttafélag og taka upp íþróttaiðkanir, og hann gekk í íþróttafélagið, sem er stutt af hinu opinbera. Hann langaði til að iðka stangarstökk, og eitt sinn, er hann var í stangarstökki, brotnaði stöngin og hann datt. Hann hryggbrotnaði og er nú lamaður og spelkaður. Réttarstaða þessu manns er slík, að hann heyrir ekki undir ákvæði almannatryggingalaganna. Til álita kom að eiga bótarétt á íþróttafélagið vegna þess, að stöngin hefði verið illa úr garði gerð, en það reyndist ekki vera. Ég þarf ekki að telja upp dæmi þessa. Hér er um augljóst mál að ræða, og ég vænti þess, að þetta efni frv. komi hv. þdm. ekki á óvart.

Við íþróttaiðkanir má segja að sé uppi svipuð slysahætta og við margs konar atvinnu og ekki óeðlilegt, að íþróttamenn falli undir ákvæði almannatryggingalaganna, þau sem launþegar almennt falla undir. Það frv., sem Hermann Guðmundsson flutti hér 1947, náði ekki fram að ganga, þær breytingar hafa ekki orðið á almannatryggingalögunum, sem raun ber vitni um, og íþróttahreyfingin í landinu hefur reynt á eigin spýtur að bæta úr því öryggisleysi, sem íþróttamenn almennt eiga við að búa, en það er hið sanna í málinu, að íþróttahreyfingin hefur ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess að koma þessum tryggingum á.

Þegar almannatryggingalögin voru endurskoðuð 1956, fékkst inn í þau breyting þess efnis, að undir ákvæðin um almennar og frjálsar tryggingar á vegum ríkistrygginganna var bætt inn ákvæði um, að íþróttamenn gætu fallið þar undir, og íþróttahreyfingin hefur farið fram á það við Tryggingastofnun ríkisins, að hún gerði sér tilboð um, hvaða iðgjöld þyrfti til þess, að um 3000 íþróttamenn gætu verið í hinum frjálsu tryggingum Tryggingastofnunarinnar. En kjörin, sem Tryggingastofnunin bauð, voru þannig, að íþróttahreyfingin treysti sér ekki til að ganga að þeim og hefur þess í stað haft á prjónunum að koma upp sérstökum sjóði, slysatryggingasjóði, hjá sér, sem gæti því miður aðeins veitt takmarkaðar bætur, sjúkrakostnað og dagpeninga, en hvergi nærri örorkubætur eða dánarbætur.

Mér sýnist einsýnt, ef af réttsýni er litið á málið, að löggjafarvaldið, sem með sínu fjárveitingavaldi styður að íþróttahreyfingunni í landinu og hennar starfsemi af opinberu fé, geti ekki boðið því íþróttafólki, sem á þeim vettvangi stundar íþróttaiðkanir, upp á það öryggisleysi, sem þetta fólk á við að búa og ljóst er af dæmum, sem ég veit að hv. þdm. er öllum kunnugt um. Það kann að vera seinna meir, þegar lengra er komið um byggingu íþróttamannvirkja í landinu, að íþróttafélögin verði þess megnug fjárhagslega að standa undir fullkomnum slysabótum fyrir íþróttafólk, og það færi vel, ef svo yrði, og mætti þá, eins og segir í grg. þessa frv., endurskoða þessi breytingarákvæði til samræmis við þau breyttu viðhorf. En eins og nú er, sýnist ekki mögulegt að koma fullkomnum slysabótum og slysatryggingum á fyrir íþróttafólk á vettvangi eða innan vébanda íþróttasamtakanna með öðrum ráðum en þeim, að Alþingi og fjárveitingavaldið hlaupi þar undir bagga og greiði þrjá fjórðu af tryggingaiðgjöldunum á móti íþróttafélögunum.

Það segir enn fremur í þessum brtt. okkar, að kveða skuli nánar á um efnið í reglugerð um almennar slysatryggingar íþróttamanna, þ.e.a.s. um víðfeðmi trygginganna og takmörk þeirra, og ég veit, að Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands munu reiðubúin til þess að ræða og semja um þá hluti við löggjafarvaldið eða við þann ráðherra, sem gæfi út reglugerð á grundvelli þessara breytinga, ef að lögum yrðu, svo að þessum málum yrði komið í farsælt horf.

Ég vil rétt aðeins að lokum geta þess, að það eru að vísu fleiri en launþegar í þröngum skilningi, sem falla undir ákvæðin um slysatryggingar. Sú grein, sem við flytjum okkar brtt. við, er 32. gr. í núverandi lögum um almannatryggingar frá 1956. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Um eftirtalda menn gilda sömu reglur og um launþega: a. Nemendur við iðnnám samkv. lögum nr. 46 1949. b. Útgerðarmenn, sem sjálfir eru skipverjar. c. Ökumenn á eigin ökutækjum og stjórnendur aflvéla. d. Þá, sem vinna að björgun manna úr lífsháska.“

Brtt. okkar er fólgin í því að bæta þarna við e-lið, sem hljóðar þannig: „Íþróttafólk, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni, og orðið er 16 ára.

Ég tel svo óþarft að fjölyrða frekar um málið og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.