15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

25. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv, forseti. Á síðasta þingi fluttum við tveir þm. Alþb. frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar eða nánar tiltekið um dánarbætur og slysabætur sjómanna. Þetta frv. endurfluttum við í upphafi þessa þings og var því vísað til heilbr.- og félmn. Málið var tekið nokkrum sinnum fyrir í nefndinni, og síðan klofnaði hún um málið í febrúarmánuði, og gaf minni hl. þá þegar út nál. Nú er komið fram í miðjan marzmánuð, og enn þá hefur nál. meiri hl. heilbr.-og félmn. ekki séð dagsins ljós, og þykir mér illur dráttur orðinn á því. Nógu illt er við það að una, að mál stjórnarandstöðunnar verði yfirleitt kistulögð í nefnd. En þegar nefndir hafa afgreitt þau frá sér, má þó ekki minna vera en meiri hl. beiti ekki þeim ráðum að komast hjá umr. um málin og tefja framkvæmd þeirra og afgreiðslu með því að skila ekki nál. Ég vil snúa mér til hæstv. forseta deildarinnar og biðja hann að hlutast til um, að meiri hl. heilbr.- og félmn. skili áliti um þetta mál, þannig að hægt verði að taka málið til áframhaldandi meðferðar í hv. deild. En fari svo mót von minni, að ekki fáist fram nál. meiri hl., ber ég fram ósk við hæstv. forseta, að málið verði þá þrátt fyrir það tekið á dagskrá og tekið til umræðu.