17.04.1962
Neðri deild: 98. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

149. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. heilbr.- og félmn. hefur haft mál þetta til meðferðar. Hún hefur leitað álits um frv. á þskj. 293 m, a. frá Tryggingastofnun ríkisins, og þar sem svo langt er liðið á þingtímann, læt ég mér nægja að vísa til nál. nefndarinnar á þskj. 681. Þar koma fram ýtarleg rök fyrir því, hvers vegna n. leggur til, að frv. verði ekki samþykkt, heldur verði það afgr. með rökst. dagskrá, sem hljóðar svo:

„Í trausti þess, að ríkisstj. feli nefnd þeirri, sem nú vinnur að endurskoðun almannatryggingalaganna, að endursemja gildandi ákvæði um greiðslu fjölskyldubóta með það fyrir augum, að tryggt sé, að greiddar verði fjölskyldubætur eða aðrar sambærilegar bætur með öllum börnum innan 16 ára aldurs, og þær breytingar á lögunum verði lagðar fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Mér þykir þó rétt að geta þess, að þetta frv. eða frv. til þessu hafa verið borin fram á mörgum undanförnum þingum og nokkuð fyrir misskilning, sem leiðréttur er hér í nái., en þar hefur því jafnan verið haldið fram, að það bæri að greiða fjölskyldubætur með börnum, sem fráskilin hjón ættu, og einkum og sér í lagi, að þær bætur ættu að ganga til móðurinnar. Eins og sést í þeim skjölum, sem hér liggja fyrir, er þetta greitt í öðru formi, því annaðhvort fá þær mæður fullt framtag með aðstoð Tryggingastofnunarinnar og það framlag er jafnhátt og ekkjur fá með börnum, sem hafa misst feður sína, eða mæður þessar fá jafnhátt eða hærra framlag beint frá föður barnanna og njóta því að fullu fjölskyldubóta eins og aðrar mæður, sem misst hafa framfærsluaðila. Hins vegar kemur vel til greina að greiða fjölskyldubætur með slíkum börnum, en þá að sjálfsögðu eiga þær að greiðast til þess aðila, sem framfleytir börnunum, þ.e. til föðurins, sem undir venjulegum kringumstæðum greiðir hærra framlag en greitt er frá Tryggingastofnuninni. En hér er aðeins um örfá börn að ræða. Auk þess ætti að greiða fjölskyldubætur til þeirra mæðra, sem vilja ekki gefa upp föður að barni, en sjá að öllu leyti um framfærsluna, og leggur nefndin alveg sérstaka áherzlu á, að þessi atriði verði lagfærð við endurskoðun laganna, þannig að slíkar mæður fái fullar fjölskyldubætur með börnum sínum. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja meira um frv. og legg til fyrir hönd n., að það verði afgreitt svo sem hin rökstudda dagskrá segir.