23.10.1961
Efri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

39. mál, kornrækt

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. hetta frv. er nú orðið gamall kunningi hér á hv. Alþingi og þess vegna ekki þörf á því að vera að skýra það sérstaklega. En hitt er aftur augljóst mál, og á það vil ég nokkuð minnast, að með hverju árinu, sem hefur liðið, frá því að frv. var flutt um kornrækt fyrst á Alþingi, þá hefur kornræktin farið vaxandi. Það hefur fullkomlega sýnt sig, að kornyrkjan hefur rétt á sér, að hér er ekki um neitt hégómamál að ræða. Áratugastarf tilraunastjórans á Sámsstöðum er nú sem óðast að rætast og á vafalaust eftir að rætast enn betur á komandi árum.

Það eru allmargir aðilar, sem hafa byrjað á kornrækt síðustu árin og þó einkum í ár og það í mjög stórum stíl, og mun hafa verið sáð korni í samfellt land í því sem næst 80 hektara alls, og er það allstór og víðáttumikill akur. Og margir einstaklingar hafa sáð í marga hektara á jörðum sínum, svo að hér virðist vera að glæðast allmikið áhuginn fyrir kornræktinni. Og kornræktin nýtur líka miklu meiri tækni en vitað var um fyrir nokkrum árum, svo að á þann hátt er hægt að auðvelda kornyrkjuna. T.d. þurrkun kornsins, sem hefur verið eitt af mestu vandamálum kornyrkjunnar, virðist mega takast á fremur auðveldan hátt með súgþurrkun, en hún kostar mikið, hvort heldur um er að ræða korn- eða heyþurrkun. Það er því ekki að ástæðulausu, þótt við flm. þessa frv, förum fram á það, að sú tækni, sem til kornyrkjunnar þarf, njóti stuðnings hins opinbera. Og mun það líka verða þess valdandi, að það innlenda korn, sem verður á boðstólum, kemur til með að verða á miklu viðráðanlegra verði en ella yrði.

Það er talið, að við Íslendingar notum bygg sem svarar 3000 lestum í fóðurblöndur árlega. Og til þess að afla þessa korns innanlands þurfum við að auka kornræktina allverulega frá því, sem nú er, á komandi árum. Og það er enginn vafi, að þegar menn hafa betur lært kornyrkju en nú er almennt, þá verður uppskerumagnið af hverjum hektara meira en nú er. Það er talið, að á þessu hausti hafi uppskeran verið nálægt 2 lestum af hektara, en þegar tímar líða og allt er komið í fullan gang og menn orðnir nokkuð vanir kornyrkjunni, megi rúmlega tvöfalda þessa uppskeru í meðalári. En árið í ár mun vera frekar óhagstætt kornyrkju, að því er kunnugir menn telja.

Ég veit, að þeir, sem unna íslenzkum landbúnaði og vilja honum vel og vilja, að íslenzka þjóðin verði sjálfri sér nóg með þær framleiðslugreinar, sem kostur er að stunda hér á landi, munu styðja þetta frv, heils hugar. Þess vegna geri ég mér vonir um, að það verði auðsóttara mál að fá samþykkt þess nú en verið hefur á undanförnum árum. Ég vil leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. landbn. og til 2, umr.