12.03.1962
Efri deild: 62. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

39. mál, kornrækt

Fram, meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um kornrækt á þskj. 44 var lagt fyrir þessa deild snemma á þingi í vetur og er sannast að segja allgamall kunningi hér á hv. Alþingi, því að mér er sagt af fróðum mönnum, að það hafi verið samið af milliþn. fyrir 9 eða 10 árum, og er þess vegna allt að því áratugs gamalt. Að vísu hefur það tekið smávægilegum breytingum á þessu tímabili, en í aðalatriðum er það þó eins. Hér frá þessari hv. deild hefur það verið afgreitt tvisvar sinnum jákvætt á síðustu þingum, en strandað í Nd.

Við, sem skipum landbn., höfum mælt með þessu frv. tvisvar sinnum áður, öll nefndin, að vísu ekki að öllu leyti sammála í smáatriðum eða minni háttar atriðum.

En nú hefur sú breyting orðið á, að n. hefur klofnað um frv., og afstaða mín til frv. fyrst og fremst og meiri hl. n. hefur breytzt fyrir það, að af viðtölum við ýmsa kornræktarmenn, sem þessum málum eru kunnugir, höfum við sannfærzt um, að stuðningur við kornrækt væri að vísu nauðsynlegur í einhverju formi, en það mundi vera a.m.k. vafamál, að eðlilegt væri, að hann væri í því formi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. a. s. styrkur til vélakaupa.

Þegar þetta frv. var samið upphaflega, var kornrækt hér a.m.k. mjög á bernskuskeiði eða tilraunastigi, þótt að vísu væri ræktað korn hér á Íslandi fyrir mörgum öldum, og frv. var fyrst og fremst ætlað að létta undir og koma mönnum af stað með kornrækt, sem áhuga hefðu á málinu, og fá þannig reynslu á það, hvort tiltækilegt mundi vera að rækta korn hér á landi með því að styrkja kornræktarmenn allverulega til vélakaupa. Nú hafa þessi mál þróazt þannig, að kornræktin er raunar búin að sanna gildi sitt hér á landi, því að nú er ræktað korn í allstórum stíl, bæði á Suðurlandi og Austurlandi og hefur gefið mjög álitlega raun, miðað við það, sem álitið var, áður en hinir framtakssömu menn hófu sínar tilraunir, sem nú eru komnar á það stig, að þetta er komið yfir mestu byrjunaróvissuna.

Eins og að er vikið í nál. okkar meirihlutamanna í landbn. á þskj. 359, teljum við, að kornrækt sé mikils stuðnings verð af hinu opinbera og að nánari athugun á því máli þurfi að leiða í ljós, hvernig heppilegast mundi vera að forma þann stuðning. Við bendum þar á, að stuðningurinn við kornrækt eigi eðlilega að koma í gegnum jarðræktarstyrk eins og við aðra jarðrækt, enda eru í gildi ákvæði um það, að kornræktarmenn fái jarðræktarstyrk eins og túnræktarmenn fyrir frumvinnslu lands. Ég er þó alls ekki viss um, að það sé nógur stuðningur við kornræktina, heldur muni einnig þurfa stuðning í formi þess, að endurvinnsla lands verði styrkt að einhverju leyti, að hluta til a.m.k. á móti frumvinnslunni. Við vikjum einnig að því, að eins og nú hefur verið hagað í ein tvö ár niðurgreiðslu á erlendu korni til fóðurbætis, þá væri mjög eðlilegt, að kornyrkja innanlands nyti a.m.k. sams konar stuðnings í því formi.

Þó að ekki sé á fleira drepið í nál., vil ég aðeins víkja að því, að nú er fyrir þessari hv. d. frv. um lánasjóði landbúnaðarins, og ég held, að megi reikna með því, að ef það frv. verður samþykkt, þá verði lán veitt út á landbúnaðarvélar úr ræktunarsjóði eða þeirri deild Búnaðarbankans, sem ræktunarsjóður er nú í. Það er náttúrlega öldungis sjálfsagt, að ef hægt verður að fara út á þessa braut, þá verður einnig lánað út á kornræktarvélar eins og aðrar landbúnaðarvélar. Einnig vil ég geta þess, að nú er í endurskoðun tollskrá, og ég vænti þess, að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir næsta haust og hún komi fram á næsta þingi í frumvarpsformi, og ég vil vænta þess, að þar verði gerðar verulegar breytingar á tollum á landbúnaðarvélum, og þá kæmu þær vélar, sem til kornyrkju eru notaðar, að sjálfsögðu undir það.

Þetta eru nú aðeins hugleiðingar í kringum þetta mál, en af þeirri ástæðu, sem ég nefndi áðan, að tímarnir eru mjög breyttir frá því, að frv. var samið upphaflega, og þá var gert ráð fyrir því, að því er mig minnir, í nál. þeirrar nefndar, sem samdi það, að ákvæði laganna yrðu endurskoðuð á 10 ára fresti. g öðru lagi virðist það vera sýnt af þeim undirtektum, sem þetta frv. í því formi, sem það nú er, hefur fengið hér á hv. Alþ. nú hvað eftir annað að undanförnu, að það mundi ekki hjálpa því mikið, jafnvel þó að þessi deild hefði nú afgreitt það enn til Nd. eins og í fyrra og hittiðfyrra.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég tel þetta stórt mál fyrir landbúnaðinn og þjóðina í heild og að það sé nauðsynlegt að styðja kornræktarmenn í einhverju formi og að fullnaðarákvörðun um það, í hvaða formi það verði gert, megi ekki dragast lengi. En í trausti þess og þar sem ég veit, að landbrh. hefur áhuga á þessu máli, höfum við í meiri hl. n. lagt til, að málinu verði vísað til ríkisstj.