04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

27. mál, vegalög

Flm. (Hannibal Valdimarason):

Herra forseti. Það hefur einhvern veginn atvikazt svo, að þetta mál, sem borið var fram í fyrstu vikunni, sem þingið starfaði, er nú fyrst rétt undir jól að koma til 1. umr. Veit ég ekki, hvaða orsakir valda slíkum drætti með mál, sem borið er fram í upphafi þings. Vera má, að það verði borið fyrir, að ég hef verið fjarverandi frá þinginu í hálfan mánuð, en allt fram að þeim tíma kom málið ekki á dagskrá, en hefur síðan verið einu sinni á dagskrá, að ég hygg, en ekki rætt. En látum það vera, þetta hefur ekki orðið að stórmeini enn, en ber þó að minni hyggju ekki vott alveg hlutlausri þingstjórn.

Ég vík þá örfáum orðum að málinu.

Það er langt síðan vegalögum var breytt, og þarf því ekki ýtarlegs rökstuðnings við, að full þörf sé orðin á því að opna vegalögin og gera á þeim nokkrar breytingar, taka nýja vegi í þjóðvegatölu. Þetta er almenn röksemd. Það mun nálega öllum héruðum landsins vera full þörf á því, að vegalögin séu opnuð, en alveg sérstaklega á þetta við um Vestfjarðakjördæmið, sem hefur dregizt aftur úr í vegamálum og er verr statt á vegi í þeim efnum en flest önnur héruð eða landshlutar. Þar er altviða svo ástatt enn, að til eru heil sveitarfélög, sem enn þá eru ekki komin í samband við vegakerfi landsins, og má öllum vera það ljóst, að við slíka einangrun er þungt að búa og þröngur stakkur skorinn atvinnuvegunum í viðkomandi héruðum til þess að notfæra sér nauðsynlega véltækni. En það er hvorki ein né tvær sveitir á Vestfjörðum, sem þannig er ástatt um, þær eru margar, því miður. Það má því öllum vera ljóst, að það er a.m.k. að því er Vestfjarðakjördæmi snertir full þörf á því, að vegalögin verði opnuð á þessu þingi og nýir vegir teknir þar í þjóðvegatölu.

Það hefur oft verið talið, að heppilegast væri að opna vegalög á miðju eða síðari hluta kjörtímabils, en þó fyrst og fremst bæri að forðast að opna þau næsta þing fyrir kosningar, þá væri erfiðara um vik að hafa fulla stjórn á þeim breytingum, sem kynnu að verða á vegalögunum. Ég taldi því rétt, þar sem við erum nú nokkurn veginn á miðju kjörtímabili, að bera fram frv. um það, að vegalögin yrðu opnuð.

Í þessu frv. er nálega eingöngu um að ræða vegi í Vestfjarðakjördæmi og með brtt., sem í frv. felast á vegalögunum, er í fyrsta lagi stefnt að því, að það þurfi að bæta samgönguleiðir milli Strandasýslu og annarra hluta Vestfjarðakjördæmis. Að þessu lúta einkum tillögurnar í öðrum tölulið um Krossárdalsveg af Strandavegi, um Krossárdal á Vesturlandsveg hjá Kleifum í Gilsfirði, tengja þannig Reykhólasveitina og Barðaströndina við Strandasýslu um eiðið milli Gilsfjarðar og Bitru, og í annan stað að tengja Breiðafjarðarbyggðirnar við Hólmavíkursvæðið í Strandasýslu með þjóðvegi um Tröllatunguheiði. Aðrar tiltögur hér eru um það að koma ýmist heilum sveitum í vegasamband eða innansveitar að gera akvegakerfið samfelldara en það enn er.

Í þriðja lagi eru svo í þessu frv. till. um það að gera nokkra sýsluvegi að þjóðvegum, en það er kunnugt, að sýslusjóðirnir eru févana til þess að sinna vegamálum innanhéraðs sem skyldi, og liggur því eftir hlutur sýslusjóðanna mjög oft vegna fjárskorts. Hefur það þá verið venja um tanga hríð, að smátt og smátt væru teknir sýsluvegir og færðir inn á vegalögin, teknir í þjóðvegatölu. Þetta er því í samræmi við þá venju, sem ríkt hefur og hefur verið talin sjálfsögð til þessa til þess að þoka vegamálunum jafnar og betur áfram.

Ég sé það, að síðan frv. var flutt, hafa komið fram margar brtt., eins og vænta mátti, og sýnir það, að fleiri þm. en ég líta svo á, að ærin sé þörf á því, að vegalögin verði opnuð á þessu þingi og allmikill fjöldi nýrra akvega tekinn í þjóðvegatölu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, óska, að málinu verði vísað til hv, samgmn. og 2, umr.