09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

27. mál, vegalög

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að lýsa hv. 4. landsk. þm. (HV ) ósannindamann að því, að hann hafi nokkru sinni leitt tal að því við mig að halda fund í hv. samgmn. Þegar ég varð að hverfa af landi burt, bað ég varamann minn, Friðjón Þórðarson, sem tók sæti mitt á Alþingi, að halda fund í hv. samgmn. og taka fyrir þau þrjú mál, sem þar voru óafgreidd, hvað hann og gerði. Bæði talaði ég um þetta við Friðjón, og auk þess bað ég skrifstofustjóra Alþingis að sjá um, að það yrði gert.

Það er mjög leitt að þurfa að deila við hv. 4. landsk. um mál, sem virðist liggja jafnljóst fyrir og þessi mál í sambandi við opnun vegalaganna. Ég benti á það áðan, að það væri mín skoðun, þrátt fyrir það, þótt ég hafi verið meðflm. eða aðalflm. að ýmsum brtt. um opnun vegalaganna í sambandi við kjördæmi mitt á þessu þingi, að þá er ég á sömu skoðun og vegamálastjóri um það, að á meðan þeir þjóðvegir eru ekki lengra á veg komnir, sem þegar eru í tölu þjóðvega, þá er ekki rétt að bæta mörgum fleiri vegum í tölu þjóðvega, nema jafnframt sé séð fyrir stórauknu fjármagni til þeirra framkvæmda. Ég get bent á eitt dæmi, að í mínu gamla kjördæmi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, er fé veitt á fjárlögum 1962 til 7 þjóðvega. Það eru 23 vegir í tölu þjóðvega í þeirri sýslu, 16 þjóðvegir fá ekkert fjármagn ár eftir ár og hafa þó allir þörf fyrir það. Telur hv. 4. landsk. þörf á því, eins og nú er farið fram á hvað við kemur Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, að bæta við 14 nýjum þjóðvegum? Ég benti á það áðan í fyrri ræðu minni, að ég tel, að með því að taka þessa 14 vegi úr tölu sýsluvega og hreppavega,. þá er verið að gera þeim verri skil en þeir hafa í dag, ef ekki er séð um aukið fjármagn almennt til þjóðvega, þannig að þessir þjóðvegir geti fengið fjármagn, til þess að eitthvað sé gert til þess að koma þeim áleiðis.

Það er mjög leitt að þurfa að standa í orðaskaki hér við þennan hv. alþm., en hann gefur oft ríkulegt tilefni til þess.

Afstaða hv. þm. til þessa máls byggist kannske nokkuð á því, að hann er ekki nógu kunnugur þjóðvegum hér á landi, og má það þó einstakt heita, þar sem hann er forseti Alþýðusambands Íslands og ætti að hafa ferðazt mikið um byggðir landsins. Og það virðist ekki vera ofarlega í huga hans, að það þurfi aukið fjármagn til þjóðvega yfirleitt. En ég tel, að ef ekki fæst aukið fjármagn í sambandi við þær væntanlegu till., sem vegalaganefnd er að semja og verða uppistaðan í því frv., sem hæstv. samgmrh. kemur til með að leggja fyrir næsta þing, þá sé vonlaust að fjölga þjóðvegum að sinni, svo að nokkru nemi. Ef ekki verður gert ráð fyrir auknum fjárframlögum næstu ár til þjóðvega, þá er lítil von um það að taka miklu fleiri vegi í tölu þjóðvega næstu 3-4 árin.

Hv. alþm. hafa hallazt að því meira og meira s.l. tvö ár að hafa fjárveitingar til þjóðvega stærri en áður og þar af leiðandi færri í hvert kjördæmi, eða eins og ég benti á áðan, að af 23 þjóðvegum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu fá aðeins 7 fjárframlög á yfirstandandi ári. Ég tel, að hér sé stefnt í rétta átt. Það vinnst miklu meira í þessum þjóðvegum, sem er verið að snúa sér að því að vinna að með miklum krafti, en fyrir það liða aðrir vegir, sem engin fjárframlög fá, en er búið að taka í tölu þjóðvega. Ég held, að sú stefna, sem meiri hluti hv. samgmn. hefur tekið í þessum efnum, að fallast á málflutning bæði vegamálastjóra og vegalaganefndar, hafi verið rétt og ekki hægt annað að gera, eins og þessi mál lágu fyrir.