30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Svo sem hv. 1. flm. þessa frv. gerði hér grein fyrir í ræðu sinni, er hér um að ræða frv., sem á síðasta þingi var flutt af okkur hv. 3. þm. Vestf. Það er raunar fremur sjaldgæft, held ég, að mát beri að á þann veg, sem er um þetta frv. nú, að tekið er upp frv., sem aðrir hafa flutt, áður en séð er fyrir, að málið verði ekki endurflutt. Ekki skal ég þó vera að hneykslast yfir þessu. Þetta er að sjálfsögðu hverjum þingmanni leyfilegt, meðan málið er ekki fram komið, og væri sennilega nær að þakka, að það hefði komið fram þessi áhugi á að koma málinu heilu í höfn. Skal ég því ekki fara um þá hlið málsins fleiri orðum.

Ég ætla ekki heldur að fara að rökstyðja nauðsyn málsins. Aðild mín að þessu frv. áður gefur ótvírætt í ljós, hvaða skoðun ég hafi haft á þýðingu þessara ráðstafana til þess að skapa skilyrði til að gera jarðgöng á þjóðvegum, þar sem þess er nauðsyn og samgöngumálin verða ekki leyst á landi á annan hátt. En þar sem hv. l. flm. vék að því í ræðu sinni áðan, að okkur fyrri flm. frv. hefði auðvitað verið gefinn kostur á að standa að þessu máli, sem sennilega er einnig ástæða til að þakka að hafi verið gert, en við höfum ekki kosið að gera það, þá er rétt, að hér komi fram ástæðan til þess, að það varð ekki og við stöndum ekki að málinu, eins og það liggur hér fyrir.

Við erum að sjálfsögðu efnislega alveg sammála því, svo sem fyrri aðild okkar að þessu máli og upphafið að flutningi þess ótvirætt sannar, að þetta vandamál sé leyst. Hins vegar var sú ályktun gerð hér á siðasta Alþingi, einmitt með hliðsjón af fjölda mála, sem lágu fyrir í sambandi við vegagerðir, bæði lántökur til vegagerða, frv. það, sem þá lá fyrir um jarðgöng á þjóðvegum, ótal vegalagabreytingar og ýmis önnur atriði snertandi vegamál, að þá var það talið skynsamlegt og enda byggt á áliti og umsögn vegamálastjóra, að það væru svo margir þættir vegamálanna, sem þyrftu endurskoðunar við, að rétt væri að framkvæma heildarendurskoðun á öllum gildandi lögum um vegi, bar sem öli þessi atriði kæmu til athugunar. Og ástæðan til þess, að frv. um jarðgöng á þjóðvegum var þá vísað til ríkisstj., svo sem öðrum slíkum málum, sem þá lágu fyrir, var byggð á þessari ályktun Alþingis. Nú stendur yfir athugun á vegamálum í samræmi við þessa ályktun Alþingis, og verður að vænta þess, að þeirri athugun verði hraðað sem mest. Þar hlýtur að koma til greina það atriði einnig, sem hv. flm. minntist hér á síðast í ræðu sinni, að gera sér grein fyrir, hvernig fjár verði aflað til vegagerðanna, því að það er rétt, sem hann sagði, að það er á því hin mesta nauðsyn að tryggja aukið fjármagn til vegalagningar. Þær framkvæmdir, sem hér um greinir, t.d. í þessu frv. um jarðgöng, eru mjög kostnaðarsamar, og það verður ekki að þeim unnið nema í stórum áföngum. Það verður ekki leyst eftir sömu aðferðum og hingað til hefur gerzt með vegi, að vinna í smááföngum. Til jarðgangagerðar þarf stórvirk tæki, og það er vitanlega útilokað með öllu, að hægt sé að vinna að þeim nokkurn hluta af ári í fjölda ára. Það verður að gerast í einu átaki. Einnig kemur hið sama til greina, þar sem um er að ræða steinsteypta eða malbikaða vegi, sem hlýtur að verða mikilvægt atriði í náinni framtíð, og er raunar hafin ein framkvæmd á því sviði. Þetta ásamt mörgu öðru bendir ótvírætt til þess, að tímabært sé að athuga, hvort ekki þarf að vinna að vegamálum með nokkuð öðrum hætti en gert hefur verið, og aðstæðurnar hafa breytzt svo mjög, að nauðsynlegt er, bæði varðandi fjármagn og framkvæmd alla, að taka það mál til heildarathugunar.

Meðan svo standa sakir, að þessi mál eru í rannsókn, og meðan ekki er hægt að segja, að óeðlilegur dráttur hafi orðið á þeirri athugun, þá tel ég ekki eðlilegt, að verið sé að taka einstaka liði út úr og fara að gera um þá sérstakar samþykktir hér á Atþingi, hvorki í laga- né í þingsályktunarformi, því að það verður að sjálfsögðu að koma á þessi mál heildarskipulagi og allar framkvæmdirnar verða að rúmast innan þess ramma, sem þar verður settur.

Þetta er ástæðan til þess, að ég gerðist ekki aðili að flutningi þessa frv. nú. Stuðningur minn við málið er að sjálfsögðu hinn sami og verið hefur, en ég tel það ekki eðlileg vinnubrögð, meðan málið er í heildarathugun og meðan ekki hefur verið hægt að segja, að á því hafi orðið neinn óeðlilegur dráttur, að þá sé farið að taka einstaka þætti heildarvandamálsins upp og lögfesta ákvæði þar að lútandi, sem ekki er víst að falli svo endanlega inn í þann ramma um fjáröflun og tilhögun framkvæmda, sem að lokum verður niðurstaðan að samþykkt verði, þegar heildarathugun málsins liggur fyrir.