30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér finnst það alveg ástæðulaust af hv. 6. þm. Norðurl. e. að vera með nokkra hneykslan eða hálfgerð ónot út af því, að þetta mál sé flutt inn á þingið af nokkrum öðrum en þeim, sem báru frv. um jarðgöng á þjóðvegum fram í fyrra, því að það er nú svo, eins og ég gerði reyndar rækilega grein fyrir í minni frumræðu og öllum hv. þdm. hér er kunnugt, að þetta frv., sem nú liggur fyrir, er gersamlega ólíkt því frv., sem þeir fluttu á síðasta þingi, vegna þess að eins og ég gerði grein fyrir áðan, þá var í því frv. ekki séð fyrir neinum tekjum til jarðgangagerðar og ekkert af fé brúasjóðs sérstaklega ætlað til þeirra framkvæmda. Ef það frv. hefði verið samþykkt í þeim búningi, sem það var upphaflega lagt fram, þá hefði það frv. því ekkert getað orðið annað en eintómt pappírsgagn. En það var einmitt samgmn. Ed., sem breytti frv. í það form, sem það nú er í, og gerði það að því frv., sem það nú er, og flm. þessa frv. eru að meiri hl. til úr samgmn. Þetta frv. flytja þrír af nm. í samgmn. ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e., þannig að þeir eru vissulega ekki að gera þar annað en að bera það mál fram, sem þeir voru á sínum tíma í samgmn. upphafsmenn að.

Ég geri fastlega ráð fyrir því, að afstaða efrideildarmanna til þessa frv. sé algerlega óbreytt frá því á þinginu í fyrra. Það var því í sjálfu sér ekki og er væntanlega ekki ástæða til þess að kanna hug þeirra til málsins sérstaklega. Ég geri ráð fyrir því, að það fari fljótlega í gegnum þessa hv. deild. En frv. er fyrst og fremst borið fram til þess að kanna, hvort hv. Nd. situr enn fast við sinn keip í þessu máti.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. var með nokkrar efasemdir um það, að sú heildarendurskoðun samgöngumála á landi, sem yfir stendur að hans sögn, mundi leiða til þess, að fallizt yrði á það sjónarmið, sem í þessu frv. greinir. Hann dró það í efa eða hann hreyfði a.m.k. efasemdum um, að það yrði fallizt á að verja sérstaklega hluta af benzínfé til jarðgangagerðar. Ef það er virkilega svo, þá er að mínum dómi því meiri ástæða nú þegar á þessu stigi að samþykkja þetta frv. til þess að undirstrika þá nauðsyn, sem á er í þessu efni, og þá er ástæða til þess fyrir þingmenn að staðfesta enn á ný þann vilja, sem kom fram í samþykkt þessa frv. hér í þessari hv. deild í fyrra.

Þetta er mál, sem er ekki pólitískt og getur ekki verið og á ekki að vera pólitískt. Það er auðvitað, t.d. í því kjördæmi, sem ég er fyrir, öllum jafnmikið áhugamál, hvar í flokki sem þeir standa, að þessi framkvæmd verði gerð, og ég er sannfærður um, að það er okkur öllum þingmönnunum úr því kjördæmi alveg jafnmikið áhugamál að reyna að koma þessari framkvæmd áfram. En það hefur ekki verið bent á aðra hagkvæmari leið í þessu skyni en gert er með þessu frv. Ég vænti þess því fastlega, að þetta frv. nú fái jafngóðar undirtektir hér í þessari hv. deild og það fékk í fyrra og það fái betri undirtektir í neðri deild.