30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hélt nú ekki, að þau fáu og ég hélt hógværu orð, sem ég sagði hér áðan, mundu gefa tilefni til þeirra ræðuhalda, sem síðan hafa átt hér stað, og einkanlega furðar mig á því, að báðir þeir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað og talað nokkuð geyst, skuli hafa séð ástæðu til þess á ýmsan hátt að rangfæra mjög mín orð, sem ég mælti áðan. Ég hneykslaðist á engan hátt á því, svo sem hv. 1. flm. frv. sagði hér í síðari ræðu sinni, að þetta frv. er flutt hér. Ég tók einmitt beinlínis fram, að ég væri ekkert að hneykslast á því. Ég sagði hins vegar, og það hefur ef til vill komið eitthvað illa við hv. þm., að það væru óvenjuleg vinnubrögð, og ég stend við það, það eru mjög óvenjuleg vinnubrögð hér í þingi. að mál, sem aðrir hv. þm. hafa flutt á síðasta þingi, séu tekin upp af öðrum strax í byrjun næsta þings. Það hefði þó óneitanlega verið viðkunnanlegra að spyrja flm. að því a.m.k. áður, hvort þeir hygðust flytja þetta mál eða ekki. Ég vil halda fram, að þetta séu óvenjuleg vinnubrögð. Ég endurtek það hins vegar, að ég er ekkert að hneykslast á því, það er fullkomlega heimilt, og það er þeirra manna, sem þetta gera, að meta það, hvort þeir telja þetta heppileg vinnubrögð eða ekki.

Það var fært fram sem rök fyrir því, að þetta mál hefði verið tekið upp af öðrum, að raunverulega væri hér á mikill eðlismunur, vegna þess að frv. væri hér í allt öðru formi en það hafði verið flutt upphaflega á síðasta þingi. Hins vegar var þó upplýst, að það hefði orðið sameiginleg niðurstaða hér í þessari hv. d., einnig af hálfu flm. og allra aðila málsins, að frv. yrði afgreitt úr deildinni í því formi, sem það nú er lagt fram í, þannig að ekki virðast það vera sterk rök í málinu.

Þá sagði hv. 1. flm., sem hlýtur að hafa byggzt á því, að hann hefur ekki tekið alveg rétt eftir mínum orðum, af því að það er ekki vandi hans að rangfæra orð manna, að ég hafi efazt um það, að við heildarendurskoðun yrði fallizt á sjónarmið frv. um tekjuöflun. Ég lét í ljós hvorki efa né fullvissu um það. Ég sagðist telja, að það væri eðlilegt og að það væri beinlínis gert ráð fyrir því í ályktun þeirri, sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi, að einnig fjárhagshlið vegamálanna yrði tekin til endurskoðunar í þeirri nefnd, og þar mundi það auðvitað koma til athugunar, að hve miklu leyti væri fært að leggja það fé til vegamála, sem nú væri hluti af tekjum ríkissjóðs. Ég vil hvorki láta í ljós efa né vissu um afstöðu til þess máls. Það er, eins og við öll vitum, mikið vandamál, vegna þess að hér er um að ræða allverulegan tel:julið fyrir ríkissjóðinn. Að vísu má segja sem svo, að það yrði létt af honum töluvert miklum bagga á móti, ef vegirnir yrðu teknir af útgjaldagrein fjárlaga sem bein útgjöld ríkissjóðs, en engu að siður yrði þó að þessu allverulegur tekjumissir fyrir ríkið, ef það a.m.k. ætti að hafa á sínum snærum áfram viðhald veganna. Með þessu er ég ekki að segja, að það sé neitt óeðlilegt, að þetta verði gert, og það sé neitt óeðlilegt, að skattar af benzíni og bílum á einn eða annan hátt renni til vegamála, því fer fjarri. En það þýðir ekkert að vera að flytja till. í þingi án þess að gera grein fyrir afleiðingum þeirra á annan hátt. T.d. er um það rætt, að hér í þessu frv. og í því formi, sem það var afgreitt á siðasta þingi, sé séð fyrir tekjuöflun til brúasjóðs. Nú er það að vísu rétt, svo langt sem það nær. En það er séð fyrir þeim á þann hátt að taka tekjurnar af ríkissjóði, og þetta er auðvitað ekki annað en beinlínis væri um að ræða till. til útgjaldaauka á fjárlögum. Og það er auðvitað tilgangslaust fyrir þm., ef þeir vilja horfa ábyrgum augum á það mát, að gera slíkar till., nema þá sé hægt að sýna fram á, að það sé hægt að taka þann tekjustofn af ríkissjóði, annaðhvort með því að spara hans útgjöld eða afla honum nýrra tekjustofna á móti. Þetta verðum við að viðurkenna, þó að við höfum auðvitað mikinn áhuga á því að koma þessu máli fram.

Það var rætt um það hér af öðrum hv. þm., hv. 4. þm. Vestf. (SE), að ég hefði raunar andmælt frv. Það fer að verða nokkuð erfitt að koma orðum sínum fram, án þess að þau verði misskilin, ef það var hægt að misskilja mín orð áðan á þann veg, að ég væri að andmæla frv. Ég held, að ég hafi nokkrum sínnum tekið það fram í minni ræðu, að að sjálfsögðu væri skoðun mín óbreytt um nauðsyn þessa máls, þó að ég stæði ekki að þessu frv., af þeim ástæðum, sem ég greindi áðan. Það að fara svo að slá því fram, að þessi orð mín sýndu, að ég væri andvígur málinu, af því að ég leyfði mér að horfa á allar hliðar þess, finnst mér ekki vera alls kostar heiðarlegur málflutningur.

Það var að því vikið af þessum sama hv. þm., að það sýndi síg bezt, að menn hefðu ekki mikla trú á þessum umbótum í vegamálum, sem um væri rætt, eða endurskoðun þeirra, að það væru bæði nú og hefðu verið mörg undanfarin þing fluttar ótal till. til breytinga á vegalögum, bæði af þm. stjórnarfiokkanna og stjórnarandstöðunni. Þetta er vissulega rétt. Menn hafa hreyft þar þeim umbótum, sem þeir hafa talið þörf að gera í sambandi við vegina. En hvernig stendur á því, að þetta hefur ekki verið samþykkt? Það stendur einfaldlega á því þannig, að það er ekki nóg að hafa þennan góða vilja, heldur verður einnig að horfa á málið frá breiðari sjónarhóli eða hærri, vegna þess að ástæðan til þess, að þetta hefur ekki verið gert, er sú, að það hefur ekki verið talið auðið að hækka fjárveitingar til vega. Það kann vel að vera, að það verði talinn af þessum hv. þm. einhver fjandskapur frá minni hálfu að segja það, að ég tel ekki hafa neina þýðingu að vera að opna vegalög og auka fjölda vega nema fá aukið fjármagn til veganna. En það verður þá að ráðast, hvernig þau orð verða skilin og hvernig þau verða túlkuð, því að þetta er mín ákveðna skoðun. Það er hreinn skrípaleikur að vera að fjölga stöðugt vegum, þegar ljóst er og vitað af öllum hv. þm., að fjöldi núverandi þjóðvega er í algerlega óviðunandi ástandi og margir þeirra beinlínis alls ekki lagðir enn, — að þá sé það eitthvert sáluhjálparatriði að fara að opna vegalög. Nei, sannleikurinn er sá, að bæði um það mál, sem hér er um að ræða, og einnig með vegalögin, þá er það atriði málsins, sem þýðir ekkert fram hjá að ganga, hvernig eigi að leysa vandann, hvernig eigi að vera hægt að leggja þessa vegi með viðunandi hætti, afla nauðsynlegs fjármagns til þess, og það er einmitt með hliðsjón af því, að sú till., sem ég gat um hér áðan, var samþ. á siðasta þingi. Það virðist svo sem hv. þm., a.m.k. hv. 4. þm. Vestf., sé næsta ókunnugt um þessa ályktun, tír því að hann veit ekki eða sýnist ekki vita, að það var beinlínis tekið fram, að í þessari athugun ætti einmitt að felast heildarendurskoðun á öllum lögum um vegi og brýr og að það yrði reynt við þessa endurskoðun ekki aðeins að gera sér grein fyrir flokkun þjóðvega og hvað eðlilegt væri að auka þjóðvegakerfið, heldur einnig og ekki síður að gera sér grein fyrir því, hvernig væri á næstu árum hægt að vinna þannig að framkvæmd vegagerða og brúargerða, að það væri hægt að þoka þeim málum meira áleiðis en nú er gert, og það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með því móti að sjá fyrir auknu fé til þeirra framkvæmda.

Hv. þm. hafa margir hverjir vakið hér máls á því, að það væri nauðsynlegt að taka lán til vegagerða. Þetta er eitt atriði, sem þarf að gera sér grein fyrir, að hve miklu leyti rétt er að taka lán til vegagerða og á hvaða hátt það verði gert. Hér er ekki um að' ræða arðhærar framkvæmdir á þann hátt, að þær beinlínis skili sjálfar því fjármagni eða geti staðið undir því fjármagni, sem í þær er lagt. Hér yrði um að ræða lántöku ríkissjóðs til þessara framkvæmda, sem að vísu hafa hina mestu þjóðfélagslega þýðingu, en geta ekki einar út af fyrir sig skilað arði af því fé, sem er um að ræða, nema á þann hátt, eins og stundum hefur verið imprað á varðandi einstaka vegi t.d., sem yrðu steinsteyptir, að af þeim yrði tekinn vegaskattur.

Ég fæ því ekki séð, að það geti af nokkurri sanngirni verið talinn fjandskapur við mát sem þetta, sem vissulega er hið þarfasta og ágætasta mál, að ég leyfi mér að benda á hér, hvaða vinnubrögð muni heppilegust til þess að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma. Það er ekkert sérstaklega málinu til framdráttar að gera það að einhverju kappsefni milli deilda þingsins og að ætla sér að fara að knýja aðra hvora deildina til þess að standa andspænis því að þurfa að taka einhverja ákvörðun í málinu, sem kunni að teljast óvinsæl, það tel ég alls ekki sæmandi virðingu og sóma Alþingis. Ég tel það eitt hæfa í þessu máli að gera sér grein fyrir því, hvernig því verði fljótast komið í höfn, en ekki að reyna að nota það af einum né öðrum í áróðurstilgangi.

Ég veit, að það, sem bæði hv. 1. flm, og einnig hv. 4. þm. Vestf. sögðu um ákveðna vegi í þeirra kjördæmum, er hárrétt. Þar er um að ræða vegaframkvæmdir, sem hvorar tveggja eru hinar brýnustu, og það er þess vegna eðlilegt, að þeir líti á þetta mál af meiri áhuga en aðrir, vegna þess að þeir finna, að þarna kreppir skórinn að. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að það muni ekki auðvelda á neinn hátt lausn þeirra vandamála, sem þeir eiga við að glíma, að horfa á þetta mál óraunsæjum augum, heldur verðum við sameiginlega að gera okkur grein fyrir því, hvernig málinu verði bezt þokað áleiðis, þannig að það komist heilt í höfn og verði leyst á raunhæfan hátt, en ekki að það verði gert að neinu kappsefni eða þrefi milli deilda eða flokka. Ég vil halda því fram, og það er í samræmi við það, sem vegamálastjóri lagði til í rækilegri umsögn um þessi mál í fyrra, að eins og þessi vogamál og brúamál ern orðin fjölþætt og eins og hér er um stórt vandamál að ræða, að hægt verði að gera hér ný átök, þá sé málið þess eðlis, að það verði ekki hægt að vænta þess, að að því verði hægt að vinna á heppilegan hátt, nema einmitt með því að gera á því heildathugun og heildartillögur um það, hvernig þennan vanda skuli leysa. Og þar sem þetta hefur nú ekki verið í athugun nema örfáa mánuði, frá því að ályktunin var gerð á siðasta þingi, þá fæ ég ekki séð, að Alþingi geti með neinum rétti haldið því fram, að það hafi verið með óeðlilegum seinagangi að því unnið af hæstv. ríkisstj. Mér er kunnugt um, að þessi athugun er hafin, og ég hef fulla ástæðu til að halda, að það sé eindreginn vilji ríkisstj. og hæstv. samgmrh., að þessu máli verði flýtt svo sem verða má. Ef sýnir sig, að það gerist ekki í því neitt með eðlilegum hraða, þá skal ekki standa á mér að taka undir aðfinnslur í því efni. En á meðan svo er ekki og á meðan að málinu er unnið á þann hátt, sem ég álít að sé öllum aðilum til hags, þá tel ég ekki eðlilegt að viðhafa nein óeðlileg vinnubrögð í sambandi við málið.