30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 6,, þm. Norðurl. e. (MJ) hefur nú svarað þeim fáu orðum, sem við tveir flm. höfum sagt hér áður, og telur hann sérstaklega, að ég hafi rangfært ummæli sín, er ég nefndi það, að hann hefði andmælt frv. Ef ég hef átt að skilja ræðu hans áðan sem meðmæli með frv., þá er ég hættur að skilja ræðurnar hans, ég verð að segja það eins og það er. Og ég held, að þessi seinni ræða hans hafi þó tekið af allan vafa um það, hvað hann vill í þessu frv. Hann telur, að það séu mjög óheppileg vinnubrögð, eins og hann orðaði það, að taka upp annarra frv., sem hafi verið flutt áður, og flytja það nú, og hann sagði í fyrri ræðunni, að það væru sjaldgæf vinnubrögð, meðan menn vissu ekki, nema það frv. yrði endurflutt. Hvernig getur maðurinn búizt við því, að alþm. bíði og bíði eftir því að vita, hvort einhverjum dettur í hug að endurflytja frv. sitt frá því í fyrra eða hittiðfyrra? Og í þessu tilfelli bar nú málið þannig að, að óskað var eftir, að þeir yrðu meðflm., sem fluttu frv. í fyrra, og þeir neituðu. Áttum við hinir að bíða? Eftir hverju? Þetta held ég, að sé ein sönnun þess, að hann kærir sig ekkert um, að þetta frv. gangi fram, ef ég skil mælt mál. Og hann hefur rökstutt það með nokkru, hann hefur talið, að ekki sé séð fyrir fjáröflun á viðeigandi hátt til þessara framkvæmda. Samt er það nú svo í frv., eins og það líka var afgr. frá n. í fyrra, að það var séð fyrir því á ákveðinn hátt, hvernig brúasjóður ætti að fá fé til þessara jarðganga, en það telur hann ekki að sjá fyrir fjáröflun, af því að það sé tekið af benzínfé. Hvernig á þá að hafa frv., ef það má ekki sjá fyrir tekjuöflun með hluta af einhverjum skatti, sem kann að hafa runnið í ríkissjóð eða til annarra þarfa? Ég sé ekki, að þetta sé nokkur röksemd, eða þykir honum betra að flytja frv. um jarðgöng og sjá ekki fyrir einum einasta eyri til þeirra, eins og hann og hans meðflm. gerðu í fyrra? Er það eitthvað raunhæfari aðferð til þess að flytja mál? Mér kemur það ákaflega ókunnuglega fyrir sjónir, að slíku sé hægt að halda fram, að það sé betra að flytja frv. eins og þeir fluttu í fyrra, þar sem ekki var séð fyrir neinum eyri til framkvæmdanna, heldur en að flytja það eins og við gerum nú, með því að sjá fyrir fjáröflun.

Hv. þm. segist hafa áhuga á þessu máli, en vilji ekki afgreiða það, fyrr en hinni væntanlegu endurskoðun er lokið, sem hér var rætt um. Ég vil segja það alveg hreint út, að ég get alveg eins búizt við, að þessi endurskoðun taki mörg ár, og ég sætti mig ekki við það, að vegalög séu óbreytt allan þann tíma, í viðbót við þau sex ár, sem liðin eru frá síðustu breytingu á þeim. Ég sætti mig ekki heldur við það, að ekkert sé gert í þessu máli, þangað til slíku er lokið. Og ég hef nefnt það og endurtek það, að alþm. munu vera þeirrar skoðunar, að slík endurskoðun réttiæti alls ekki neina frestun á því að flytja mál um endurbætur á þjóðvegum eða um jarðgöng, þrátt fyrir þessa endurskoðun. En ef það er misskilningur hjá mér, að hv. þm. sé andvígur þessu frv., þá er ekkert við því að segja. Það kemur í ljós við atkvgr., hvor hefur á réttu að standa, og það er hægt að bíða eftir henni.

Nei, þetta er eitt af þeim framfaramálum, sem þarf að koma áfram og skerðir ekki hitt, þótt endurskoða þurfi vegalög,alveg eins og það þarf að koma nýjum vegum í þjóðvegatölu, þótt ekki sé lokið endurskoðun vegalaganna.

Hv. þm. sagði áðan, að hann sæi ekkert vit í því að vera að bæta við nýjum vegum í þjóðvegakerfið, þegar mikið af þjóðvegum væri ólagt. Ég er á annarri skoðun um þetta og nefndi það í framsöguræðu fyrir því frv., sem ég er meðflm. að um vegalögin. Það er sannarlega full þörf á því að taka veg eða vegi í þjóðvegatölu, þótt aðrir vegir séu ólagðir. Svo breytast aðstæður í landinu, atvinnuhættir og byggðirnar, að það er full þörf á því. Eða hvaða vit er í því að láta slíkt bíða, þar sem mjög kallar að að fá veg í þjóðvegatölu, — bíða eftir því, að lagður sé þjóðvegur á eitthvert eyðibýli, af því að hann er í þjóðvegatölu? Þarna er einmitt dæmi um það, að það þarf ekki að leggja suma þjóðvegina, sem nú eru, en aðkallandi nauðsyn að leggja vegi, sem eru ekki í þjóðvegatölu. Þess vegna er þörf á þessu, enda þótt ekki sé komin á heildarendurskoðun um vegakerfi landsins.