30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) vildi enn halda því fram, að það hefðu verið eitthvað óvenjuleg vinnubrögð, sem við hefðu verið höfð við flutning þessa máls. Út af því vil ég taka fram, að ég ræddi þetta mál fyrst við 1. flm. í fyrra, — hann er nú því miður ekki hér viðstaddur, en hann mundi sjálfsagt staðfesta mitt mál, — hann fékk tveggja sólarhringa umhugsunarfrest um það, hvort hann vildi gerast flm. að þessu frv., og ef hann hefði farið fram á annan tveggja sólarhringa frest eða fjögurra sólarhringa frest, þá hefði ég vissulega veitt honum það. En hann þurfti ekki að hugsa sig um lengur. Eftir þessa tvo sólarhringa sagðist hann ekki óska eftir að gerast flm. að þessu. Og það skal jafnframt tekið fram, að fús hefði ég verið til þess, að annaðhvort hann eða hv. 6. þm. Norðurl. e. hefði verið 1. flm., ef það hefði þótt skipta máli í þessu sambandi, en á það var ekki minnzt. Hitt skal játað, að ég ræddi ekki við hv. 6. þm. Norðurl. e., fyrr en eftir að 1. flm. frv. í fyrra hafði látið það uppi, að hann vildi ekki gerast flm. að málinu.

Ég fæ þess vegna ekki séð, að sú aths. þm. sé á rökum reist, að það sé eitthvað óvenjulegt í sambandi við þetta mál og að það hefði verið eðlilegra að bíða eftir því, hvort flm. frá í fyrra hreyfðu málinu. Þeir fengu sitt tækifæri og það ekkert af skornum skammti til þess að ákveða, hvort þeir vildu vera með flutningi þess eða ekki, og það er alveg þýðingarlaust fyrir hv, þm. að vera að ræða um þetta frekar.

Hv. þm. blandaði enn í sinni ræðu mjög saman vegagerð og þessu máli hér. Ég vil þó minna hann á, að í því frv., sem hann ásamt 3. þm. Vestf. flutti á síðasta þingi, þá var það einmitt aðalefni þess frv. að taka jarðgöngin út úr vegunum og setja þau á brúasjóð, af því að þeir töldu, samkvæmt því sem segir í aths. við það frv., að jarðgöngin væru hliðstæð brúargerðum. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég mega lesa upp úr grg., sem með því frv, var sett. Þar segir: „Hér er stungið upp á, að með þau, þ.e. jarðgöngin, „skuli fara eins og um algengustu torfæruna á þjóðvegum, óbrúaðar ár. Virðist í alla staði eðlilegt að fara eins að um þessar torfærur, hamra eða fjallseggjar, sem eru óbrúanlegar nema með því að gera jarðgöng í gegnum þær: Og síðan segir í lokin, með leyfi hæstv. forseta: „En um lengri jarðgöng er jafneðlilegt að greiða kostnað við þau úr brúasjóði: Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur því einmitt með flutningi þessa máls á þinginu í fyrra sýnt það svo rækilega sem verða má, að hann vildi ekki setja jarðgöngin á sama bekk og þjóðvegi, heldur setja þau á bekk með brúm.

En hv. þm. var mjög tamt að tala um þjóðvegi, og hann sagði að efni til, að það væri sín skoðun, að það hefði ekki neina þýðingu að fjölga þjóðvegum, meðan ekki fengist meira fé til þeirra og fjárveitingar í lögum væru ekki nægar til þess að sinna þörfinni á lagningu þeirra þjóðvega, sem pegar eru fyrir. Það er mjög mikið til í þessu hjá hv. þm. En í því frv., sem hann flutti á síðasta þingi ásamt hv. 3. þm. Vestf., gerði hann ráð fyrir því að bæta á brúasjóð nýju verkefni, sem sé því að standa undir jarðgöngum, án þess að sjá brúasjóði fyrir nokkru auknu fé, enda þótt það sé vitanlegt, að það er alveg jafnt á komið með brúasjóð að því leyti til eins og þjóðvegaféð, að hans fé hrekkur engan veginn til þess að standa undir þeim stóru brúargerðum, sem aðkallandi eru. En hv. þm. vildi opna brúasjóðinn að þessu leyti, þótt hann vilji ekki opna þjóðvegina. Hann vildi leggja á brúasjóð nýtt verkefni, þó að honum væri ekki séð fyrir neinu nýju fé til viðbótar. Ég verð að segja það alveg eins og það er, að mér finnst ekki mikið samræmi í þessu.

Það, sem á milli ber, er þá orðið þetta, að hv. þm., sem vill ekki bæta nýjum þjóðvegum við, af því að ekki sé hægt að veita til þeirra neitt meira fé, hann vill leggja á brúasjóð að sjá um lengri jarðgöng en 35 metra, án þess að aukið sé nokkru við fé brúasjóðs. En þegar farin er sú leið, sem hann taldi eðlilega, þegar um þjóðvegi er að ræða, að það ætti að útvega meira fé til þeirra, þegar farin er sú leið, sem í þessu frv. greinir, að sjá brúasjóði fyrir sérstöku fé til þess að standa undir þessum auknu framkvæmdum, sem hann á að hafa með höndum, jarðgöngunum, þá kemur hv. 6. þm. Norðurl. v. hér upp og slær úr og í og á ákaflega erfitt með, að því er virðist, að taka hreina afstöðu til þess, hvort hann er með þessu frv. eða á móti því.