12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég held, þó að hv. frsm. meiri hl. sé að halda því fram, að till. þeirra sé ekki fram borin með það fyrir augum að slá málinu á frest, að það sé ekki hægt að taka það alvarlega. Vitanlega er það svo. Og það er búið að tala um þennan veg í hvað mörg ár? Áki Jakobsson, meðan hann var þm. Siglfirðinga, flutti frv. um þetta. Það er búið að tala og tala um þennan veg sí og æ, og fólkið þráir þennan veg. Þessi vegur er samgönguæð m.a. milli Skagafjarðar og Siglufjarðar. Hann gerir auðveldara að flytja búsafurðir þangað og skapar mikla mjólkursölu t.d. úr Fljótum. Fólkið á Siglufirði hefur haft meiri og minni óþægindi af því, að samgöngur hefur vantað á landi.

Hvað kostar þessi vegur? Það er líklegt, að hann kosti með öllu í kringum 20 millj., jarðgöngin og vegarlagning út hlíðina. Og hversu mikill peningur eru þessar 20 millj.? Það er eins og hálfur nýsköpunartogari. Það er svipað og tveir 250 tonna togararnir, sem ríkið er að borga nú. Það þarf enginn að halda því fram, ef Alþ. hefði haft eða hefur áhuga á að gera þetta, að það sé ekki hægt. Það hefur verið eytt álíka fjárhæðum og þetta í ónauðsynlegri hluti.

Það eru milli 2 og 3 þús. manns, sem þurfa þessarar vegarlagningar með. Það er af skilningsleysi gagnvart þessu fólki, að ekki er gert meira og fyrr í þessu máli. Ég vil ekki væna hv. frsm. um það, að út af fyrir sig vilji hann persónulega ekki vel í þessu efni. En það er áhuginn, sem skortir. Það er ekki eingöngu getuleysi. Og eins og ég tók fram áðan, þá er það ekkert atriði, hvorki fyrir fólkið á Siglufirði né okkur í minni hl., hvernig peninganna er aflað, en peningana þarf að fá. Ef þetta frv. væri samþ., skapaðist þar greiðslugrundvöllur, þannig að það væri vegur að fá lán til að gera framkvæmdina. Ef ríkisstj. og þingmeirihl. vill vinna að því að afla fjárins á annan hátt, þá er ekkert um það að segja. Aðalatriðið er, að fólkið þarf að fá þennan veg, og það borgar sig að láta það hafa veginn, því að undirstaða undir öllu heilbrigðu atvinnulífi og afkomu fólks yfirleitt er, að samgöngur geti verið í lagi.

Ég vona nú, að þetta lagist allt og þetta komi. Fólkið er farið að lengja eftir að fá veginn. það er mikils virði, að eitthvað sé gert í málinu, svo að fólkið viti, hvers það má vænta.