02.11.1961
Efri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

45. mál, almannatryggingar

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Í þessu frv. er um að ræða þrjár breytingar frá gildandi ákvæðum almannatryggingalaga, og vildi ég gera með örfáum orðum grein fyrir þeim breytingum, sem hér eru lagðar til.

Það hlýtur að teljast óviðkunnanlegt að mismuna mönnum, sem standa á sama stigi örorku. Þetta er þó gert í lögum um almannatryggingar. Þessi mismunur ákvarðast af orsök örorkunnar. Örorka, sem slys hefur valdið, er hærra metin til lífeyrisbóta en örorka, sem er afleiðing sjúkdóms. Þessi greinarmunur finnst mér a.m.k. óeðlilegur og ranglátur og forkastanlegt að gera hann að sjónarmiði við ákvörðun bótaupphæðar. Þetta misræmi ber að mínum dómi að uppræta sem allra fyrst. Örorkulífeyrir á að vera jafnhár, hvort sem slys eða sjúkdómur er örorkuvaldurinn.

Í 2. mgr. 14. gr. laganna segir svo, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er Tryggingastofnuninni að verja allt að 10% þeirrar heildarfjárhæðar, sem árlega er greidd í örorkulífeyri samkv. 1. mgr. þessarar greinar, til greiðslu örorkustyrkja handa þeim, sem misst hafa 50—75% starfsorku sinnar. Tryggingaráð setur reglur um slíkar bótagreiðslur, sem ráðherra staðfestir.“

Hér er um að ræða örorku, 50—75%, af völdum sjúkdóma. Í þeim tilvikum er aðeins heimilað að verja takmarkaðri fjárhæð samkvæmt reglum, sem löggjafinn lætur öðrum eftir að semja. Í 37. gr. laganna, 2. mgr., er hins vegar ákvæði um 50—75% örorku af völdum slysa. Sú mgr. hljóðar svo:

„Ef örorkan er 50% eða meiri, greiðist hálfur örorkulífeyrir fyrir 50% örorku, hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig, sem við bætist, unz örorkan nemur 75%. Þá greiðist fullur lífeyrir.“

Hér skal m.ö.o. ákveðin fjárhæð greiðast bótaþegunum eftir reglum, sem löggjafinn ákveður sjálfur. Þannig mismuna lögin þessum tveim hópum öryrkja. Þeir eru jafnmiklir öryrkjar, aðeins er orsök örorkunnar ekki sú sama hjá báðum hópum. Nú mætti spyrja: En hvernig er þetta í framkvæmd? Er ekki framkvæmdin sú sama, þegar um báða þessa hópa er að ræða? Nei, engan veginn. Þar kemur mismunurinn einnig fram. Þeir öryrkjar, sem hafa orðið fyrir slysum, fá bæturnar skilyrðislaust og án skerðingar, en hinir fá bætur eða bætur ekki, og ákvarðast það af efnahag og aðstöðu. Þannig má segja, að enn í dag gildi skerðingarákvæði um vissan hóp öryrkja. Skerðingarákvæði 22. gr. laganna, sem orðin voru mjög óvinsæl, voru afnumin í fyrra með stuðningi allra flokka hér á þingi. En sú réttarbót náði því miður ekki til allra bótaþega, eins og ég hef nú þegar bent á.

Þetta þarf að leiðrétta og það sem fyrst. Það þarf að leiðrétta á þann veg, að allir 50—75% öryrkjar fái sömu bætur miðað við örorkustig og að þær bætur ákvarðist í lögum í samræmi við það, sem nú gildir um örorku af völdum slysa. Um þetta fjallar 1. gr. frv., og fer ég ekki fleiri orðum um það.

Í 2. gr. er rætt um bótahækkun. Þar er ákvæði um 13.8% hækkun frá 1. júlí s.1., eins og gert er ráð fyrir í fram komnu frv. ríkisstj. Auk þess er ráðgert, að fullar verðlagsbætur verði greiddar frá næstu áramótum, og þá miðað við gildandi vísitölu framfærslukostnaðar á hverjum tíma.

Ég gerði að nokkru leyti grein fyrir þessu ákvæði frv. nýlega, þegar frv. hæstv. ríkisstj. var hér til 1. umr, á dögunum, og get því verið fáorður um það nú. Sú verulega hækkun, sem gerð var á bótagreiðslum til gamalmenna, sjúklinga og öryrkja snemma árs 1960, verður skammgóður vermir þessum olnbogabörnum, ef hún á strax að renna út í sand dýrtíðar og verðbólgu, en þetta er það, sem nú hefur gerzt. Þótt hækkunin hafi á sínum tíma verið veruleg, urðu bæturnar þó aldrei meira en rétt sómasamlegar eða tæplega það, enda skildist mér á hæstv. félmrh. um daginn, að hann viðurkenndi það atriði. Þess vegna ber nú brýna nauðsyn til að verðtryggja þessar bætur, sem aldrei máttu minni vera.

Hæstv. ríkisstj. vill lögleiða 13.8% lækkun bótanna. Þetta nær of skammt, eins og ég hef þegar bent á. Sú hækkun bætir illa upp dýrtíðarvöxtinn frá 1. marz 1960 til 1. júlí 1961, hvað þá meir. Á þessu tímabili, frá því að lögin voru sett um hækkun bóta, þar til á að fara að greiða 13.8% hækkunina, hafa flestar nauðsynjar hækkað í verði miklu meira en þessari fyrirhuguðu hækkun nemur. Sú dýrtíðaraukning, sem komin er síðan 1. júlí í sumar, er þess vegna óbætt þrátt fyrir þessa 13.8% hækkun Vísitalan, sem 1. okt. er komin upp í 114 stig og fer senn upp í 119–120 stig, segir til um það, að hækkunin á dýrtíðinni er tvöföld eða ríflega það á við hækkun, sem bótaþegunum er ætluð, 13.8% hækkun. Þess vegna er það, að við leggjum til, við sem þetta frv. flytjum, að ekki verði gengið lengra á hlut bótaþega almannatrygginganna en þegar er orðið og að þeim verði framvegis frá 1. jan. greidd full vísitala á bætur sínar.

Um 3. gr. frv. get ég verið mjög fáorður. Þar er gert ráð fyrir því, að allt landið verði eitt verðlagssvæði, að skipting landsins í tvö verðlagssvæði verði afnumin. Þetta er mál, sem ég hygg að menn í öllum flokkum hér á þingi séu sammála um að gera beri.

Ég vil aðeins minna á, að það voru menn úr Alþfl. og Sjálfstfl. hér á þingi í fyrra, sem höfðu orð á þessu og töldu sjálfsagt þá, að stefnt yrði að því, að skipting landsins í tvö verðtagssvæði yrði numin úr gildi. Þetta ákvæði er úrelt og gerir upp á milli bótaþega eftir því, hvar þeir búa á landinu. Ég veit ekki, hvort það hefur nokkurn tíma átt rétt á sér, en það á ekki rétt á sér lengur að dómi flestra. Það er svipaður kostnaður til lífsuppihalds, hvar sem er á landinu, en hins vegar er bótaþegum mismunað allverulega, eins og nú standa sakir, eftir því, hvar þeir búa í landinu. Þetta ber að afnema og afnema sem fyrst, af því að það er ranglátt.

Við fim. frv. höfum takmarkað okkur í þessu frv, við þrjár brtt. Það er fleira athugavert, sem við sjáum, við lögin um almannatryggingar, fleiri ákvæði, sem við teljum að breyta þyrfti. En þessi þrjú atriði eru mikilsverð og raunar knýjandi nauðsyn, að þeim verði breytt í það horf, sem við leggjum til. Við vildum takmarka okkur við fáar brtt. í þeirri von, að þær fengjust frekar fram, og siðar má svo taka fyrir það annað, sem breyta þarf í þessum lögum.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta frv., en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.