06.04.1962
Efri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

45. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. N, hefur rætt frv., en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að málinu sé vísað til hæstv. ríkisstj.

Um einstök atriði frv. er það helzt að segja, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, upp úr bréfi, sem n. hefur borizt frá endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga um þetta mál:

„Breytingar þær, sem í frv. felast, eru þríþættar, þ.e. í fyrsta lagi breytt ákvæði um bætur lífeyristrygginga til 50—75% öryrkja, í öðru lagi ný ákvæði um vísitöluuppbætur og í þriðja lagi ákvæði um afnám verðlagssvæðaskiptingar. Um þessi atriði vill n. taka fram eftirfarandi:

Það er rétt, sem fram kemur í grg, fyrir frv., að í lögum um almannatryggingar er gerður munur orðið á örorku, hvað bætur snertir, eftir því, hvort vinnuslys eða sjúkdómur hefur valdið henni. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir, að þessi munur haldist að nokkru leyti. Að þessu leyti má skipta öryrkjum í þrjá flokka, þ.e.:a) Örorka yfir 75%, þessir öryrkjar fá fullan lífeyri, hvort sem um almenna örorku eða slysaörorku er að ræða. b) Örorka 50—75%. Heimilt er að greiða örorkustyrk, ef um almenna örorku er að ræða, en greiða skal skertan lífeyri, 50—100%, ef um slysaörorku er að ræða. e) Örorka 15—49%, engar bætur, ef um almenna örorku er að ræða, en skertur lífeyrir, 15—49%, greiddur í einu lagi, ef um slysaörorku er að ræða. Að nokkru leyti stafar framangreindur munur vafalaust af eðlismun á tryggingunum. Þótt höfuðmarkmiðið sé að sjálfsögðu að gera öryrkjann hæfan til síns fyrra starfs eða annars starfs við hans hæfi, er það sjónarmið ríkjandi hér, þegar um vinnuslys er að ræða, að hinum slasaða beri að fá bætur fyrir læknisfræðilegt örorkutap án tillits til vinnutaps og að atvinnurekstrinum beri að standa undir útgjöldum slíkra bóta. Í sumum nágrannalöndum okkar, einkum í Noregi, hafa viðhorf manna í þessu efni breytzt mjög. Í slysatryggingum er örorkustigið að mestu leyti ákvarðað eftir töflum, sem þó koma misjafnlega heim við raunverulegt orkutap. Telja verður fráleitt að miða almennan örorkulífeyri einhliða við læknisfræðilegt orkutap, vegna þess að margir hafa ef til vill há laun, þó að heilsufari þeirra sé þannig háttað, að þeir yrðu metnir öryrkjar, jafnvel á háu stigi, ef örorkan væri aðeins metin með hliðsjón af líkamsástandi þeirra. Þar eð skerðingarákvæði hafa nú verið numin úr lögum, ættu þeir rétt á örorkulífeyri í hlutfalli við matið, þrátt fyrir miklar launatekjur. Það er álit n., að endurskoða þurfi ákvæðin um örorkulífeyri og örorkustyrk, enda verði þá einkum tekið til athugunar: 1) Auknar ráðstafanir til endurhæfingar, en þær mundu geta haft í för með sér fækkun örorkulífeyrisþega. 2) Örorkulífeyrir verði greiddur varanlegum öryrkjum með sama eða svipuðum hætti og nú á sér stað. 3) Bætur til þeirra, sem hafa verulega skertar vinnutekjur eða verulegan kostnað vegna fötlunar, komi ef til vill í stað núgildandi örorkustyrks. 4) Bætur, ef til vill framhaldsdagpeningar, til þeirra, sem ekki teljast varanlegir öryrkjar, en eru óvinnufærir lengur en dagpeningatíma sjúkrasamlaga.

Í 71. gr. almannatryggingal. er kveðið svo á, að á allar bótagreiðslur skuli greiða verðlagsuppbætur samkvæmt vísitölu eftir sömu reglum og greitt er á laun til opinberra starfsmanna, sem lægst laun hafa samkvæmt launalögum. Með lögum nr. 4/1960, um efnahagsmál, var tenging kaups við vísitölu framfærslukostnaðar hins vegar numin úr gildi í því skyni að koma í veg fyrir öra verðbólguþróun af völdum víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. Nefndin telur, að gild rök yrðu að hniga að því, ef annan hátt ætti í þessu efni að hafa um bætur almannatrygginga en laun. Að sjálfsögðu má bæta skert lífskjör bótaþega með öðrum hætti en vísitöluákvæðum, enda hefur á undanförnum árum oft verið erfitt að greina á milli verðlagsbóta og raunverulegra kjarabóta:

Um þriðja atriðið, afnám verðlagssvæðaskiptingarinnar, þá er það að segja, að sá liður hefur í för með sér mjög verulegan útgjaldaauka, útgjaldaauka, sem mundi nema samtals fyrir tryggingarnar 32 millj, kr., sem mundu skiptast þannig, að ríkissjóður þyrfti að greiða 111/2 millj., hinir tryggðu 10.2 millj, og sveitarsjóðir 5.8 millj., en atvinnurekendur 4.5 millj.”

Með hliðsjón af þessu áliti og því m.a., sem hér er vísað til í nál, meiri hl., að afnám verðlagssvæðaskiptingarinnar, sem nefndin í sjálfu sér er hlynnt, mundi hafa í för með sér veruleg útgjöld fyrir sveitarsjóði, sem nú munu hafa áætlað sín gjöld fyrir það ár, sem nú er að liða, og einnig fyrir ríkissjóð, en fjárlög hafa þegar verið afgreidd, þá teljum við, sem myndum meiri hl. n., rétt að fresta þessari breytingu og væntum þess, að það verði tekið til athugunar, um leið og lögin eru endurskoðuð í heild, en það má vænta þess, að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir næsta þing.

Viðvíkjandi vísitölubreytingunni, sem lögð er til í 2. gr., þá virðist ekki liggja á því heldur, vegna þess að hækkun hefur þegar verið framkvæmd með lögum frá þessu þingi, sem nú stendur, 13,8% frá 1. júlí 1961 og 4% frá 1. júní 1962.

N. leggur því, eins og ég sagði í upphafi, til, að þessu máli sé vísað til hæstv. ríkisstj.