14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

45. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál. Frv. var lagt fram hér snemma í vetur og hefur nú fengið afgreiðslu í nefnd. Meiri hl. leggur til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj., en minni hl. leggur til, að frv, verði samþ.

Í þessu frv. felast þrjár breytingar, sem við flm. frv. töldum mikilsvert, að fengjust fram hið fyrsta.

Fyrsta tillagan var þess efnis, að dregið skyldi úr misrétti, sem nú gildir hvað öryrkja snertir, þannig að það er gerður mismunur á öryrkjum um bætur eftir því, hver orsök örorkunnar hefur verið.

„Þetta frv. var sent til umsagnar endurskoðunarnefnd almannatryggingalaganna, og sú endurskoðunarnefnd sendi álitsgerð um frv. Um þessa fyrstu till. okkar um afnám misréttisins í greiðslu bóta til öryrkja segir þessi nefnd:

Það er rétt, sem fram kemur í grg. fyrir frv., að í lögum um almannatryggingar er gerður munur á örorku, hvað bætur snertir, eftir því, hvort vinnuslys eða sjúkdómur hefur valdið henni:

Er þannig staðfest það, sem í frv. og grg. þess felst, að hér er gerður grófur munur á. En endurskoðunarnefndin bendir á, að þótt bætt sé úr þessu, þá sé ekki bætt að fullu úr misréttinu, því að enn verði eftir misrétti um bætur til öryrkja á stigunum 15–49%. Þetta mun vera rétt. En ég held þó, að vert væri að bæta nú úr misréttinu, þótt það yrði ekki gert að fullu í þetta sinn. M.ö.o.: nefndin viðurkennir misréttið, en telur með frv. ekki, að því er mér virðist, nógu langt gengið.

Önnur brtt. í frv, fjallar um, að allar greiðslufjárhæðir almannatrygginga verði verðtryggðar. Er svo ákveðið, að bótaupphæðirnar skuli breytast í samræmi við breytingu á vísitölu framfærslukostnaðar. Um þessar brtt. ræðir endurskoðunarnefnd almannatryggingalaganna stuttlega í umsögn sinni til hv. heilbr: og félmn. Þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með lögum nr. 4 1960, um efnahagsmál, var tenging kaups við vísitölu framfærslukostnaðar hins vegar numin úr gildi í því skyni að koma í veg fyrir öra verðbólguþróun af völdum víxlhækkana kaupgjalds og verðlags:

Ég verð að segja, að mér finnst þessi setning í umsögn endurskoðunarnefndarinnar vera dálítið út í hött. Hverjum dettur í hug, þótt verðtryggingu almannabóta yrði komið á, að það mundi koma af stað örri verðbólguþróun? Ég held, að það kæmi ekki til greina.

Þá segir nefndin í sinni umsögn:

„Nefndin telur, að gild rök yrðu að hníga að því, ef annan hátt ætti í þessu efni að hafa um bætur almannatrygginga en laun.“

Ég skal viðurkenna, að það þarf gild rök til. En er ekki hér um gild rök að ræða? Hér er um öryrkja að ræða, og hér er um bætur að ræða til öryrkja, sem raunverulega eru fyrir neðan þurftarlaun. Hvað er ástæða til að verðtryggja, ef ekki þegar svona stendur á?

Síðan segir þessi endurskoðunarnefnd:

„Að sjálfsögðu má bæta skert lífskjör bótaþega með öðrum hætti en vísitöluákvæðum:

Já, ég viðurkenni það, það er rétt. Og ég skyldi ekkert hafa á móti því, ef tillaga kæmi fram um það að bæta skert lífskjör bótaþega með einhverjum öðrum hætti. En sú ágæta nefnd ómakar sig ekki að benda þá á einhverja eðlilegri eða betri leið til þess að bæta þessi skertu lífskjör bótaþega en verðtryggingu miðað við vísitölu framfærslukostnaðar.

Mér finnst gæta hér þessarar hræðslu, sem orðin er nokkuð útbreidd, ekki sízt í stjórnarliðinu, hræðslu við vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta orð er að verða eins konar bannorð hjá ýmsum í landinu og er reynt að útrýma því, þar sem það er hægt. Þetta get ég ekki viðurkennt að sé rétt. Vísitala framfærslukostnaðar er öruggur mælikvarði og mjög eðlilegt, að ýmislegt sé miðað við hana, þegar um það er að ræða að verðtryggja. Enn þá er í mörgum atriðum miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, svo sem um verðtryggingu skulda, svo að dæmi sé nefnt. Ég held, að það sé mjög eðlilegt, ef menn á annað borð fallast á, að ástæða sé til að verðtryggja þessar lúsabætur, sem öryrkjar fá og aðrir bótaþegar, þá sé eðlilegast og hagkvæmast að miða við vísitölu framfærslukostnaðar.

Þriðja brtt. í þessu frv. fjallar um það, að landið skuli allt gert að einu verðlagssvæði og bætur hvarvetna hinar sömu og þær eru samkv. ákvæðum fyrsta verðlagssvæðis. Endurskoðunarnefnd almannatryggingalaganna leiðir hjá sér að úrskurða nokkuð í þessu efni, getur þess aðeins í grg. sinni, hvaða kostnað slíkt mundi hafa í för með sér, en virðist annars ekki taka afstöðu til þessa máls. Hins vegar vita það allir hv. þdm., að þessari hugmynd, að gera landið allt að einu verðlagssvæði, vex jafnt og stöðugt fylgi, jafnt innan þings sem utan, og er nú á síðustu tímum töluvert sótt á af hálfu sveitarfélaga, að þessi breyting verði gerð, enda mun hv. heilbr: og félmn, hafa verið sammála um, að þessa breytingu þyrfti að gera. Það er aðeins sá skoðanamunur, að minni hl. n. vill láta gera það hið fyrsta, en meiri hl. vili draga það og bíða enn um skeið.

Ég tók það fram, að þetta frv. var lagt fram á Alþingi snemma í vetur, löngu fyrir áramót, enda segir svo í 3. gr.: „Frá 1. janúar 1962 skal landið allt vera eitt verðlagssvæði.” Að sjálfsögðu fær það ekki staðizt í dag, og við í minni hl. leyfum okkur þess vegna að leggja fram skrifl. brtt. til leiðréttingar á þessu, þannig að 3. gr. verði breytt og í stað orðanna „Frá 1. jan. 1962“ komi: Frá 1. janúar 1963. Með þessari brtt., ef hún yrði samþykkt, ætti ekki að vera vandi fyrir alla þá, sem hafa fengið augun opin fyrir nauðsyn á að breyta í þessu efni og gera allt landið að einu verðlagssvæði, að samþykkja þetta atriði og þetta ákvæði frv.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari till.