14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

45. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess, held ég, að við, sem stöndum að nál, minni hl., förum að deila, þó að okkur greini ofur lítið á um gildi vísitölu. Ég fyrir mitt leyti tel ekki, að það sé full verðtrygging í því að láta vísitölu ráða. Vísitalan er, eins og ég sagði áðan, meira til hliðsjónar, eins og loftvogin, heldur en hún sé öruggur mælikvarði, enda eru dæmin um það deginum ljósari, að henni hefur verið hagrætt til þess að fá með henni vissar niðurstöður. Slíkur mælikvarði, sem þannig er breytilegur eftir því, hvernig hentar, — eftir því, hvernig hentar einhverjum, sem með völd fara, — hann er ekki æskilegur mælikvarði. Hitt vildi ég segja, að ég mundi vera reiðubúinn til þess að flytja tillögur, sem mér sýndust vera raunhæfari um það, að bætur væru ekki látnar rýrna fram úr því, sem hægt er við að ráða, ekki a.m.k. fram úr því, sem kjör annarra, sem betur mega sín, rýrna.

En það, sem kom mér til þess að biðja um orðið, var sérstaklega það, að hv. frsm. meiri hl. (KJJ) taldi, að ekki væri ólíklegt, að landið yrði að tillögu þeirrar nefndar, sem er að endurskoða almannatryggingalögin, gert að einu verðlagssvæði, jafnvel á næsta ári. Og mér hefur skilizt, að fyrir því muni vera vilji.

Mér fannst það á hv. nm. í heilbr.- og félmn., að hugur þeirra stæði til þess að vilja styðja það fljótlega, að landið yrði gert að einu verðlagssvæði. En hvers vegna að vera að draga það? Hvers vegna að ganga ekki inn á þetta frv., a.m.k. að því er 3. gr. snertir? Þetta er stórt atriði, sem ég veit að fjöldi fólks úti um land, sem lifir á ellilífeyri, bíður eftir, hreint og beint bíður eftir. Hvers vegna að láta það bíða lengur í óvissu, ef mönnum á annað borð kemur saman um, að þetta sé málefni, sem eigi fram að ganga og þurfi sem fyrst að verða gildandi ákvæði? Ég skora þess vegna á þá, sem hafa þessa skoðun, en kannske að öðru leyti telja sig ekki viðbúna að ganga inn á frv., að samþykkja þessa grein. Lagaákvæði í sérstöku frv. um þetta á fullkomlega rétt á sér.