19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. taldi, að ég hefði komizt í mótsögn við sjálfan mig í ræðu minni, þegar ég hefði haldið því fram, að hálaunaðir menn eins og læknar ættu að fá lagfæringu á sínum launakjörum að

samningaleiðum, — og því hélt ég sannarlega fram, — en ályktun hæstv. ráðh. af þessu var sú, að það yrðu að vera þeir fátæku, sem borguðu, það væri þess vegna mín kenning, að læknarnir ættu að fá hækkuð laun, samkv. mínum vilja, á kostnað hinna fátæku. Það er eins og hv. 7. þm. Reykv. var að enda við að segja hér áðan, þetta er sú barlómskenning, sem hæstv. ríkisstj. heldur fram í hvívetna. Hún þarf ekki aðeins að traðka á eðlilegum samningsrétti hálaunastéttanna, heldur líka að fótumtroða samningsrétt láglaunafólksins, og það hefur einmitt þessi hæstv. ráðh. gert, bæði með lagasetningunni 1959 og svo aftur með allri stjórnarstefnunni og gengislækkun á gengislækkun ofan nú að undanförnu.

Ég er alveg sannfærður um, að hinir fátæku í landinu vilja, að læknarnir fái lífvænleg kjör, þannig að þeir geti gengið óþreyttir menn eða óþjakaðir menn að sínum störfum og framfleytt sér og sínum. Og það mun vafalaust ekki hneyksla verkalýðsstéttina, þó að kjör lækna væru nokkrum sínnum hærri að krónutölu en verkamannanna. Það hefur alla tíð verið svo, og út frá því hefur verið gengið, að menn, sem hafa kostað sig til langskólanáms, gætu ekki að náminu loknu gengið að vinnu með sömu kaupkjörum og óbreyttir verkamenn.

Það er sannarlega mín skoðun, að það beri að leysa launamál, jafnt hinna lægst launuðu stétta sem hinna hæst launuðu — eða öfugt, með samningum og ekki með valdboði eða lagasetningu. Og sá eilífi útsynningur hæstv. ríkisstj., að vera með brbl. á lofti í hvert skipti, sem þeir komast í árekstur við þessa eða hina stéttina, það er útsynningur, sem á eftir að gusta um þá sjálfa.

Enn dvaldi hæstv. ráðh. mjög við það, að það hefði verið um mikinn tímaskort að ræða til að ráða fram út þessum málum. En þó varð hann að viðurkenna, að á miðju ári 1960 hefði verið tilnefnd sameiginleg nefnd af Læknafélagi Reykjavíkur og Sjúkrasamlagi Reykjavíkur til þess að fjalla um samningaviðfangsefnið, starfsskilyrði læknastéttarinnar og launakjör þeirra. Ég benti á það, að ekkert sameiginlegt starf hefði fengizt út úr þessari nefnd og að síðustu hefðu fulltrúar Læknafélags Reykjavíkur lagt fram sínar tillögur, og það staðfesti hæstv. ráðh, líka, en ekkert kom frá hinum. Samt vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að þetta hefði allt verið fulltrúum Læknafélags Reykjavíkur að kenna. Ef þessi nefnd hefði starfað eins og hún átti að starfa og þeir náðu ekki samkomulagi, þá hefði átt að koma sitt álitið frá hvorum, en það kom ekkert frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur eða þess mönnum. Staðreyndin, sem ég styðst því við, er þessi, að nefndarhluti læknanna vann verkið, skilaði tillögum um breytingar á læknaþjónustunni, en nefndarhluti Sjúkrasamlags Reykjavíkur skilaði engu áliti og hefur þannig vanrækt að vinna sitt verk. Auðvitað átti hann að koma með sína sérafstöðu í nál. líka, ef þeir hefðu unnið, en það kom ekkert frá þeim. Ég fæ ekki betur séð en að þarna hafi nefndarhluti Læknafélagsins rækt betur skyldu sína.

En hæstv. ráðh. áréttaði þessa skoðun sína um tímaskortinn enn þá einu sinni með því að segja: Það var ekki nema vika, það var ekki nema vika til samninga, til þess að leysa þetta yfirgripsmikla og vandasama mál. — Og einmitt þetta gefur mér tækifæri til þess að endurtaka enn: Það að ætla sér ekki nema viku til þess að leysa þessi mál, það var að gripa í rassinn á tímanum, og þess vegna fór sem fór. Það var mörgum tugum vikna glatað í starfsleysi, eftir að menn vissu, að þetta vandasama mál blasti við, og það blasti við ekki síðar en á miðju ári 1960, þegar samningunum var sagt upp, og það sköpuðust strax sárindi í málinu, þegar gerðardómur úrskurðaði þá samningsuppsögn ógilda, og þess vegna máttu menn vita, að þegar málið yrði tekið upp aftur, þá yrði að taka á því af sérstakri varfærni. En það var ekki gert.

Það er svo alveg rétt, sem hér var sagt áðan af hv. 7. þm. Reykv., að þumalfingratök hæstv. ríkisstj. á kaupgjaldsmálum eru alveg einstæð, ef það hefur vakað fyrir hæstv. ríkisstj. að halda öltum launabreytingum í skefjum, því að það að neita hinum lægst launuðu um lagfæringu var á móti gervöllum þjóðarviljanum. Það var viðurkennt af öllum, að lægst launuðu stéttirnar yrðu að fá launabætur vegna þeirrar dýrtíðar, sem stjórnarstefnan hafði hvolft yfir þjóðina. En það var sagt: Nei, skal ekki gert. — Og svo þegar búið er að knýja fram 10–13%, kauphækkun, þá gerist hæstv. ríkisstj. beint aðili að samningum um 27% hækkun til hálaunaðra manna, því að laun yfirmanna á varðskipunum og vélstjóra og slikra, sem samið var um síðar, geta ekki hafa farið fram hjá hæstv. ríkisstj. Og svo er látið gott heita að semja við aðrar hálaunaðar stéttir um 33%, en haldið áfram að berja hausnum við steininn gagnvart læknunum um lagfæringu á þeirra kaupi. Í þessu er ekkert samhengi, enginn rökréttur þráður. Ég er þeirrar sömu skoðunar og hv. 7. þm. Reykv., að það væri ekkert óeðlilegt, þó að þessi óleysta samningaþræta læknastéttarinnar við Sjúkrasamlag Reykjavíkur yrði til þess, að fram kæmu rökstuddar óskir og kröfur á Alþingi um það að rannsaka, hvort ekki sé hægt að beita bættum vinnubrögðum, sparnaðaraðgerðum í sambandi við rekstur almannatrygginga og sjúkrasamlagsins. Ég minnist þess, að þegar um það var talað, — og um það var talað árum saman — að sameina rekstur áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu, var því lengstum haldið fram, að það mundi ekki spara neitt. Nú hefur þetta hins vegar verið gert, og af því er a.m.k. látið mikið, að það hafi sparað laun margra manna, og minna húsnæði er nú komizt af með. Og það ætti a.m.k. að liggja í augum uppi, að tvö stór bákn ríkisstofnana, eins og Tryggingastofnunin og Sjúkrasamlag Reykjavíkur, sem er orðin mjög fjölmenn stofnun líka, ættu eftir þessari reynslu, og fyrir henni hefur hæstv. fjmrh. nýlega gert grein, að spara verulegt fé. Og ef því fé væri svo varið til þess að bæta starfsaðstöðu læknastéttarinnar og lagfæra laun þeirra nokkuð, þá væri því vel varið og þyrfti þá ekki að bitna á þeim fátæku. En e.t.v. er þetta nú allt saman í athugun hjá hæstv. ríkisstj., því að hún hefur rasjónaliseringu mjög í huga, og einhverja útlenda sérfræðinga hefur hún meira að segja í viðbót við þá innlendu í þjónustu sinni til þess að athuga hagkvæmni í rekstri og framleiðni í fyrirtækjum og sparnað á öllum sviðum.

Það er áreiðanlegt, að þær ógöngur, sem hæstv. ríkisstj. er komin í í launamálum, launamálum allra stétta, ekki bara láglaunastéttanna, heldur líka hæst launuðu stéttanna, er afleiðing af samdráttar- og dýrtíðarstefnunni. Laun eru komin í algert ósamræmi hjá öllum launastéttum við það, sem er í nágrannalöndum okkar, og það þýðir jafnt hjá þeim hæst launuðu sem hinum lægst launuðu samdrátt, þannig að menn geta ekki leyft sér að lifa á þann hátt, sem menn gátu leyft sér fyrir t.d. 2–21/2 ári. Það er orðinn samdráttur, kjaraskerðing hjá öllum launastéttum, og engar þeirra vilja una því, ekki einu sinni þær hæst launuðu. En aðferðin, sem hæstv. ríkisstj. hefur, þegar hún lendir svona í stríði við allar launastéttir, að setja bara lög, brbl., það er haldlaus aðgerð. Verkfallið heldur áfram hjá verkfræðingunum, og nú vill einmitt svo vel til, að hæstv. félmrh. er verkfræðingur sjálfur og ætti þannig að hafa öðrum betri skilyrði til þess að styðja þeirra mál. Þeir fara úr landi, þeir flýja land tugum saman. Og þeir gera annað, þeir eru áfram í verkfalli við hið opinbera. En þeir, sem fara ekki úr landi, setja upp eigin fyrirtæki eða ráða sig í þjónustu einkafyrirtækja, og afleiðingin af verkfallinu virðist vera eingöngu sú, að hið opinbera situr uppi verkfræðingalaust, hvernig sem menn eiga nú að hugsa sér byggðar hafnir, vegi og brýr án verkfræðinga, — ég á a.m.k. erfitt með að ímynda mér, að það sé fært, — og að því rekur, ef ekki er ætlunin að stöðva allar þessar opinberu framkvæmdir, að ríkið verður að kaupa verkfræðiþjónustuna af verkfræðingum í þjónustu annarra fyrirtækja eða hjá fyrirtækjum, sem þeir hafa sett upp, eftir töxtum, og það þættu mér tíðindi, ef það yrði ódýrara ríkinu.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti, ef hún hefur afskipti af kaupgjaldsmáli þeirrar stéttar, verkfræðinganna, að stuðla heldur að því, að það mál væri fyrr en seinna leyst með samningum, því að hlutur ríkisvaldsins í því máli verður því verri sem þeir eru látnir standa lengur í verkfalli, og þá verður ríkið og þess fyrirtæki, sem má ekki án verkfræðinga vera, verkfræðingalaust.

Læknavandamálið er á engan hátt leyst, enginn þáttur hess er leystur með brbl. Málið er að öllu leyti jafnóleyst og þann 30. sept., nema að því leyti, hvað aðstaða stjórnarvaldanna er verri, það að samningaviljinn er auðvitað stórum minni eftir þessi harðræði en áður var. Þetta er jafntónýt aðferð og hjá Münchhausen barón, þegar hann ætlaði að draga sjálfan sig upp úr feninu á hárinu, en það er íþrótt, sem ég held að hæstv, ríkisstj. takist ekki eins og baróninum.