19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. En mig langaði til þess í tilefni af því, sem hér hefur nú komið fram í þessum umr., að leggja fyrir hæstv. félmrh, eina fyrirspurn.

Ég veitti því athygli, um það leyti sem brbl. voru sett, þau sem hér liggja nú fyrir til umr., að þá gaf Læknafélag Reykjavíkur út nokkra grg. um þetta mál, þar sem kom fram rökstuðningur læknanna á sjónarmiðum þeirra í þessari deilu. Þá tók ég eftir því, að fyrsta atriðið, sem læknarnir færðu fram gegn setningu þessara brbl., var það, að félmrh, hefði aldrei rætt við forsvarsmenn læknanna um þetta mál, en hins vegar hefði hann samt sem áður sett þessi brbl., sem læknarnir teldu að tvímælalaust yrðu til þess að torvelda lausn þess máls síðar. Nú vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Er þetta rétt? Er hér réttilega frá skýrt? Er það svo í jafnalvarlegu máli eins og þessu og eins og kaupgjaldsmál eru allajafna, að hann sem ráðh. og ríkisstj. grípi til þess að setja brbl, á þann hátt, sem hér hefur verið gert, án þess að ræða við báða deiluaðila og kynna sér málið ofan í kjölinn? Læknarnir halda því líka fram í sinni skýrslu um málið, að það sé augljóst, að ríkisstj. styðjist einvörðungu við málstúlkun annars aðilans í deilunni, forstöðumanna Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins, og því fari ríkisstj. í stórum atriðum með rangt mál, þegar hún flytur fram rök sín fyrir þessum brbl. Ég veitti því líka athygli í þessum umr., að hæstv. félmrh, sagði mjög oft: stjórn sjúkrasamlagsins heldur því fram, stjórn sjúkrasamlagsins túlkar þetta svona. En ég heyrði hann aldrei vitna í það, hver hefðu svo aftur verið andsvör læknanna í sambandi við þessar fullyrðingar hins aðilans.

Ég er á þeirri skoðun, að það sé ekki hægt að setja brbl. um slík mál sem þetta eða kjaramál almennt nema þá í algerum úrtökutilfellum. Ég get ekki séð, að neitt það hafi legið fyrir í þessu tilfelli, að það hafi gefið ástæðu til þess að grípa inn í málið á þann hátt, sem gert var. Mér finnst hins vegar mjög margt benda til þess, þó að ég skuli ekki gerast hér neinn dómari á milli þessara tveggja aðila, sjúkrasamlagsstjórnarinnar annars vegar og forustumanna læknanna hins vegar, að forustumenn sjúkrasamlagsins hafi verið verulega tregir til þess að ganga til samninga við læknana um það atriði þessarar deilu, sem þeir lögðu mesta áherzlu á, því að það hefur verið viðurkennt af hæstv. félmrh. í þessum umr., að læknarnir hafi lagt fram sínar tillögur og kröfur um breytingar á starfsskipulagi með 11/2 mánaðar fyrirvara. Og ég trúi því ekki, að það hafi ekki mátt nota 11/2 mánuð til samninga um slík atriði, og það því fremur sem allir aðilar áttu að vita það af langri reynslu, að þessi mál voru orðin þannig, að aðilar vildu ekki við þau una að öllu óbreyttu. Við höfum nokkrum sínnum heyrt það hér á Alþ., og við vitum það mætavel, að kjör lækna og starfsskilyrði þeirra hafa verið að færast í það horf, að stórkostlegt vandamál er í þjóðarbúinu sem heild, og það mál er því á margan hátt sérstaklega viðkvæmt. Læknarnir hafa mjög greiða aðstöðu til þess að fara úr landi og leita sér vinnu annars staðar. Það virðist víða vera möguleiki fyrir þá að fá sér störf erlendis, þar sem þeim er launað miklu betur en hér, og þeir, eins og við vitum, hafa slíka alþjóðalega menntun, að það er á margan hátt greiðara fyrir þá að komast t störf annars staðar, en við mjög knapplega settir með lækna hér innanlands. Ég álít því, að allar stjórnarráðstafanir, sem eru í þá átt að torvelda, að samkomulag geti orðið á milli læknanna og sjúkrasamlagsstjórnanna eða Tryggingastofnunarinnar, með því að gripa inn í að þarfiausu með setningu brbl., slíkar ráðstafanir séu stórvítaverðar. Ég hef líka veitt því athygli í þessum umr., að það stendur hér ómótmælt, að af hálfu forustumanna sjúkrasamlagsins og Tryggingastofnunar ríkisins hafi ekki komið fram neinar formlegar tillögur, eins og læknarnir hafa haldið fram, — það hafi ekki komið fram neinar formlegar tillögur eða tilboð um launakjör og breytingar á starfsskilyrðum þeirra. Þetta sýnist mér að bendi tvímælalaust til þess, að þessir opinberu aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafi staðið mjög illa í stöðu sinni, og ríkisstj. hefði átt að ýta á þá að sinna sinni sjálfsögðu skyldu um að ganga til samninga í tæka tíð.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, því að það er langt liðið á fundartímann, en ég vænti þess fastlega, að hæstv. ráðh. svari þessari fsp. minni, því að mér finnst, að svar hans við þessari spurningu segi allmikið um það, hvernig líta ber á þessi brbl. frá hans hálfu. Er það rétt, sem læknarnir halda fram, að hann hafi sett þessi brbl. án þess að ræða við forustumenn læknanna um þetta vandamál, sem þarna lá fyrir?