23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ýkjamargt í ræðum þeirra hv. þingmanna, sem siðast töluðu hér í þessu máli, sem ég þarf að svara, en nokkur atriði vildi ég þó mega minnast á.

Rauði þráðurinn í ræðu hv. 4. landsk. þm. var, í hans síðari ræðu, eins og raunar einnig í hinni fyrri, að afgreiðsla þessa máls ætti að vera samningsatriði á milli aðilanna, og ég er honum sammála um það, því að eðlilegast er, að það sé samið og samningar takist á milli aðilanna, eins í þessari deilu og öðrum tilsvarandi. Frv. miðar líka að því að sjá til þess, að tími sé til, að aðilarnir geti haldið viðræðum sínum áfram, og málið er ekki leyst og var fjarri því, að það ætti að leysast á þennan hátt til fulls, heldur var meiningin, að samningum yrði haldið áfram og freistað yrði til hins ýtrasta, að samkomulagi yrði náð á þann hátt.

Hv. þm. vildi raunar telja, að dráttur sá, sem hefði orðið á samningunum, væri að verulegu leyti Sjúkrasamlagi Reykjavíkur að kenna, þar sem engar tillögur hefðu frá því komið um lausn málsins. Hv. 4. þm. Austf. gekk raunar feti lengra, því að hann fullyrti, að það væri vegna tregðu Sjúkrasamlags Reykjavíkur, að ekki hefðu tekizt samningar, sem er alveg fráleitt, því að það var Sjúkrasamlag Reykjavíkur, sem gekk eftir því, að samningar yrðu upp teknir, og þeir voru ekki upp teknir fyrr en raun bar vitni vegna þess einmitt, að Læknafélagið tregðaðist við að taka upp þessa samninga. Hins vegar er það náttúrlega öllum vitað, að þeim, sem samningum segja upp, ef tveir aðilar eigast við, ber að leggja fram sínar tillögur fyrst. Það er ekki eðlilegi, þegar launþegi, ef ég má orða það svo, segir upp samningum, að þá byrji atvinnurekandinn að gera tillögur um lausn deilunnar. Launþeginn á að setja fram sínar kröfur fyrst, og síðan á að tala um þær og reyna að ná um þær eða aðrar samkomulagi. Þess vegna er alveg fráleitt, að ég tel, að það sé hægt að finna Sjúkrasamlagi Reykjavíkur það til foráttu, að það hafi ekki borið fram tillögur í málinu, vegna þess að því bar ekki að bera fram tillögur, heldur þeim, sem samningunum sagði upp.

Annars skal ég ekki rekja gang málsins að nýju. Ég gerði það ýtarlega í minni frumræðu og skýrði þar frá, hvernig þetta hefði gengið fyrir sig og hversu naumur hefði verið tíminn, þegar kaupkröfurnar komu ekki fram fyrr en viku áður en samningurinn gekk úr gildi.

Þá er annað atriði, sem mig langaði til að minnast á. Það kom fram, bæði hjá hv. 4. landsk. þm. og einnig hjá hv. 4. þm. Austf., eiginlega mjög nýstárleg kenning, nefnilega sú, að það að hækka laun hátekjumanna, eins og ég held að hv. 4. landsk. hafi orðað það, það þyrfti ekki að ganga út yfir láglaunafólkið, það eiginlega gæti komið af sjálfu sér, eins og nokkurs konar manna af himnum, þessi launaaukning læknanna, og þyrfti ekki frá neinum að takast. Þetta er kenning, sem ég held að fái aldeilis ekki staðizt, því að það á sér stað hér eins og annars staðar, að það er ekki hægt að kreditera einn án þess að debetera annan, og þegar einum eru veitt einhver fríðindi, þá er það gert á kostnað einhvers eða einhverra annarra. Við skulum bara hugsa okkur, að laun læknanna hefðu verið tvöfölduð, eins og krafa þeirra hljóðaði um. Þá er alveg gefið, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefði orðið að hækka sín gjöld og meðlimir sjúkrasamlagsins hefðu þess vegna orðið að greiða sinn hlut beint af þessum kostnaði. Með hækkuðum sjúkrasamlagsgjöldum hefðu svo fylgt aukin framlög af hálfu hins opinbera, sem einnig hefði verið frá almenningi tekið, þannig að í einu formi og öðru hefði þetta náttúrlega lent á öðrum þjóðfélagsþegnum. Ég held, að um þetta verði ekki deilt og þess vegna sé fráleitt, að hægt sé að hækka laun þessara manna, án þess að það sé nokkurs staðar tekið af.

Það má vel vera, og um það skal ég ekkert fullyrða, að laun lækna séu hér eitthvað lægri en þekkist í nágrannalöndum okkar, og hygg ég þó, að ekki liggi fyrir neinar tæmandi upplýsingar á því sviði, því að það þarf að taka tillit til fleira en launaupphæðarinnar sjálfrar. hað þarf einnig að taka tillit til framfærslukostnaðar og ýmislegs annars, sem verður ekki skilið að, þegar afkoma þessara manna hér og afkoma þeirra erlendis er borin saman.

Hv. 4. þm. Austf. innti mig eftir því, hvort ég hefði aflað mér upplýsinga um gang deilunnar hjá báðum deiluaðilum og þó sérstaklega hjá læknunum. Ég get upplýst hann um það, að ég aflaði mér þeirra upplýsinga. Að vísu hafði ég við hvorugan aðilann beint samband, en ég, fylgdist með gangi deilunnar eigi að síður, eins grannt og ég taldi nauðsynlegt að gera, og vissi á hverju stigi nokkurn veginn, hvernig þeir hlutir stóðu.

Hv. 7. þm. Reykv. taldi, að ríkisstj. hefði borið að hafa frumkvæði um lausn deilunnar. Ég er nú, eins og ég sagði áðan, sammála hv. 4. landsk. þm. að því leytinu, að ég tel, að aðilarnir sjálfir eigi að semja um þetta án íhlutunar ríkisins, ef hægt er að komast hjá því, enda er það svo, að sá eini hlutur, sem stjórnin hefur átt að þessari lausn, er að gefa út þessi brbl, til þess að vinna tíma, svo að aðilarnir sjálfir geti haldið áfram samningum beint sín á milli.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að rekja þessar ræður öllu lengra. Mér fannst sannast sagna, að málflutningur þeirra hv. 4. landsk, og 4. þm. Austf., og tók ég nú sérstaklega eftir því hjá hv. 4. landsk. þm., að hann fylgdi ekki þessu máli sínu eftir af sama sannfæringarkrafti og hann hefur stundum gert í öðrum málum, og fannst mér eins og hann gera þetta hálfutangátta, sem ljósast kom fram, þegar hann fór að tala um galeiðuþrælana, því að ég get ekki ímyndað mér neinn óheppilegri samanburð en að líkja þessum mönnum og þeirra afkomu við galeiðuþrælana gömlu.