23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði talað tvisvar í þessu máli, svo að ég á víst aðeins rétt á athugasemd og ætla að nota mér það,

Hæstv. félmrh. sagði hér áðan, að hann væri mér sammála um, að þetta mál væri þess eðlis, að það bæri að leysa það að samningaleiðum. Ekki þurfum við þá að deila um það. Hann viðurkenndi einnig, hæstv. ráðherra, að málið væri ekki leyst, þ.e.a.s. hann viðurkennir, að setning brbl. í svona máli sé engin lausn, og um það erum við þá einnig sammála. En það, sem ég held fram í viðbót við þetta, er það, að með setningu brbl. á þann hátt, sem hér var gert, hafi lausn málsins verið torvelduð og sé að öllu leyti erfiðari viðfangs en ef ekki hefði verið gripið til slíks óyndisúrræðis.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að till. hefði að vísu komið frá læknunum og það hefði átt svo að vera, og þannig stæði ekkert upp á Sjúkrasamlag Reykjavíkur, þó að ekkert kæmi frá þeim nefndarhlutanum. En ég tel sannarlega, að sá nefndarhluti hefði átt að starfa og gera grein fyrir sínu áliti með öðru nál. En slíku var ekki til að dreifa, og þannig tel ég, að upp á samninganefnd Sjúkrasamlags Reykjavíkur hafi staðið í þessu máli.

Þá var það þetta, að ég hefði haldið því fram, að það þyrfti ekki að taka neitt af fátækum fyrir það, þó að kjör hinna tekjuháu lækna væru löguð, og þetta hefði því litið þannig út, eins og ætlazt væri til þess, að þarna rigndi manna af himnum ofan, Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég skýrði frá því, að læknarnir teldu, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur fylgdi mjög slælega fram lagalegri aðstöðu sinni til innheimtu á samlagsiðgjöldum, og skýrði enn fremur frá því, að þeir teldu, að ef þar væri farið að réttum lögum um innheimtuaðferðir, þá gæti Sjúkrasamlag Reykjavíkur ef til vill fengið tekjur, sem hrykkju langt til þess að verða við meginkröfum læknanna. Þannig hafði ég sannarlega gert grein fyrir því, að uppi væru skoðanir um, að ef til vill væri án breyttra laga og án þess að íþyngja neinum hægt að verða að verulegum hluta af kröfum læknanna.

Þá fannst hæstv. ráðherra það fjarstæða, sem ég gat um, að læknarnir, eftir að þeim hefðu verið skömmtuð laun af löggjafarvaldinu með brbl., teldu sig vera í eins konar galeiðuþrældómi hjá hæstv. félmrh. og hann væri þannig orðinn þeirra virðulegi galeiðustjóri. En það er ekkert furðulegt, þó að þeir líti svo á. Menn líta á það sem mikilsverð mannréttindi að mega setjast að samningaborði með gagnaðila um sín laun og þar með sín lífskjör, og þess vegna finnst þeim frelsi þeirra stórlega skert, þegar gripið er til þess að setja brbl. um að svipta læknastéttina þessum rétti. Og það var þessi réttur, sem læknastéttin var svipt með setningu brbl., og þar með er skert þeirra frelsi, og það hafa þeir leyft sér að kalla galeiðuþrældóm hjá hæstv. ráðherra.