24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

22. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur lagt fram hér stjórnarfrv. um breyt. á lögunum um áburðarverksmiðju. Þessum hæstv. landbrh. var falið af Alþingi fyrir rúmu ári að athuga mál um áburðarverksmiðjuna, sem þá lá fyrir Alþingi. Það var þá vísað til ríkisstj. og þar með náttúrlega fyrst og fremst til hæstv. landbrh. frumvarpi, sem ég hafði lagt hér fyrir um áburðarverksmiðjuna, því var vísað til ríkisstj, af meiri hl. fjhn., fulltrúum allra flokka annarra en Alþb-., með svo hljóðandi nál., sem var að finna á þskj. 368 þá og ég leyfi mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Sams konar frv. eða svipað hefur áður verið flutt á þingi, en ekki hlotið afgreiðslu.“ Það var sem sé það frv., sem ég flutti um breyt. á lögunum. „Verður að viðurkenna, að hér er um mjög veigamikið mál að ræða, þar sem ekki er talið ótvirætt um eignarrétt áburðarverksmiðjunnar samkv. 3. og 13, gr. áburðarverksmiðjulaganna. Í 3. gr. er svo ákveðið, að verksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun. Í 13. gr. eru hins vegar ákvæði um, að ríkisstj. sé heimilt að leita eftir þátttöku félaga eða einstaklinga um hlutafjárframlög og verksmiðjan skuli þá rekin sem hlutafétag. Eftir að þessi heimild var notuð, hafa komið fram á Alþingi nokkuð skiptar skoðanir um eignarréttinn að verksmiðjunni. Meiri hluti fjhn. telur rétt, að málið fái afgreiðslu á þinginu, og leggur til, að því sé vísað til ríkisstj. til athugunar.“

Framsögu fyrir hönd meiri hl. hafði þá núv. hæstv. dómsmrh. M.ö.o.: í lok þess Alþingis, sem byrjaði 1959 í nóvember, — og þá tók núv. hæstv. ríkisstj. við, — var samþykkt, vegna þess að að áliti þessa meiri hl. í nefndinni lék vafi á um eignarrétt verksmiðjunnar, að fela sérstaklega hæstv. landbrh. að athuga þetta mál og þá náttúrlega að bera fram, þegar búið væri að athuga það, tillögur hér á Alþingi. Hvað gerir nú hæstv. landbrh.? Nú leggur hann fram frv., sem er að vísu svipað og frv., sem hann hefur lagt fram á undanförnum tveim árum, en hafði um leið tækifæri til þess að koma með í þessu frv. breytingar í samræmi við það, sem ég hafði lagt til að þyrfti að gera til þess að breyta lögunum um áburðarverksmiðjuna, og taka af öll tvímæli um eignarréttinn á henni. Hæstv. landbrh, var um nokkurt skeið hér í fjhn. þessarar hv, deildar.

Mér er ósköp vel kunnugt um, að hæstv. núv. landbrh., alveg eins og núv. hæstv. dómsmrh., hafa báðir, eins og líka fram gekk af áliti meiri hl. fjhn., sem ég las upp áðan, verið í vafa um, hvernig ætti að líta á eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni, En hvað gerir nú hæstv. landbrh. í þeirri ræðu, sem hann flytur hér áðan? Hæstv. landbrh, segir orðrétt, að ríkið eigi þessa verksmiðju að 3/5 hlutum, en einstakir hluthafar eigi hana að 2/5 hlutum. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Segir hann þetta að yfirlögðu ráði og að athuguðu máli, eða skrapp þetta út úr honum? Hefur hann athugað, hvernig þessu máli er varið, og komizt að þeirri niðurstöðu, sem þessi orð báru vitni um? Eða sagði hann þetta óvart? Það er orðið alveg óhjákvæmilegt, að úr þessu máli verði skorið. Það er enn svo hér í þjóðfélaginu, að það er verið að refsa mönnum fyrir ýmsa smáþjófnaði, svipta þá frelsi, svipta þá jafnvel kosningarrétti. En ef það á að stela úr eigu ríkisins stærsta stóriðjufyrirtæki, sem til er á Íslandi, sem nú er áreiðanlega yfir 300 millj. kr. virði, með aðstoð ráðherra í ríkisstj. Íslands, þá er skörin farin að færast upp í bekkinn. Þegar Alþingi og meiri hlutinn á Alþingi er orðinn svo múlbundinn, að hann þorir ekki að hreyfa sig eða láta sínar skoðanir í ljós, þegar þannig er verið að fara með eigur ríkisins, þá er komið illa fyrir meiri hluta Alþingis. Lögin eru ótvíræð. Lögin mæla svo fyrir um, að þetta fyrirtæki er sjálfseignarstofnun, rétt eins og t.d. Landsbankinn. Og allt, sem þannig hefur verið lögfest sem sjálfseignarstofnun, er eign þjóðarinnar. Það vita allir, hvernig það er til orðið, 13. gr. og orðalagið þar, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag. Útlend áhrif komu til við síðustu umr. málsins í síðari deild. Ég ætla ekki að rekja það mál, það hefur verið rakið hér áður. En það, sem er ósvífið, er að ætla nú smátt og smátt með yfirlýsingum ráðh. á Alþingi, meira eða minna máske lítt athuguðum, að gera þessa ríkisstofnun að hlutafélagi, að einkafyrirtæki og að svipta ríkið eignarhaldinu á henni. Og ég vil vekja athygli á því, að haldist ráðamönnum þjóðarinnar uppi að framkvæma svona hluti með þeim aðferðum, sem nú er verið að reyna að framkvæma þetta viðvíkjandi áburðarverksmiðju ríkisins, þá er hægur eftirleikurinn. Það er jafnauðvelt að gefa út, þegar þetta Alþingi væri sent heim, bráðabirgðalög um að gera Landsbanka Íslands að hlutafélagi með 10 millj. kr. kapítali, úthluta þeim hlutabréfum kannske á nafnverði til réttra manna. Það eru engin takmörk fyrir. hverju hægt er að stela af ríkinn, ef farið er inn á þetta. Þess vegna þykir mér það hart, að nú skuli vera komið fram hér frv., sem fjallar um breyt. á l. um áburðarverksmiðju, en að fram hjá þessu máli skuli gengið og að hæstv. landbrh. skuli um leið hafa þau ummæli, sem hér eru höfð. Ég skal ég nú víkja nokkuð að þessu frv. og því, sem er aðalatriðið í því.

Fyrsta aðalatriðið í þessu frv. er að afhenda áburðarverksmiðjunni það vald og það starf, sem Áburðarsala ríkisins hefur nú. Áburðarsala ríkisins er ríkisfyrirtæki, sem starfað hefur í 32 ár. Samkvæmt þeirri skoðun, sem hæstv. landbrh. virðist hafa, á að leggja þetta ríkisfyrirtæki niður, en afhenda verkefni þess hlutafélagi. M.ö.o.: það, sem hefði verið rétt að gera, var að taka af allan vafa um það, sem til er í hegðun sumra manna, að áburðarverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki, slá því föstu, að þetta væri eign ríkisins. En í staðinn fyrir að taka þann vafa af, er nú lagt til af hálfu hæstv. ráðh. að leggja niður eitt ríkisfyrirtæki, áburðarsöluna, og fá verkefni þess ríkisfyrirtækis í hendur því, sem ráðh, álítur vera hlutafélag. M.ö.o.: í staðinn fyrir að bæta úr ranglæti, sem framið hefur verið undanfarin ár í praxis, þá á nú að bæta ofan á þetta ranglæti með því að taka úr höndum þjóðarinnar og fá í hendur hlutafélags verkefni, sem ríkið hefur verið látið annast fram að þessu. Hverjir eru það, sem hafa óskað eftir því, að þetta væri gert? Hafa bændur landsins verið að krefjast þess, að áburðarsalan væri fengin einhverjum öðrum í hendur? Hafa komið fram kröfur frá kaupfélögunum eða öðrum samtökum almennings í landinu um, að áburðarsalan væri lögð niður? Ekki svo að mér sé kunnugt. Ég hef það fyrir satt, að það séu aðeins fjórir menn á Íslandi, sem hafi lagt til, að áhurðarsalan væri lögð niður, þessir fjórir menn eiga sæti í stjórn áburðarverksmiðju ríkisins og það hafi verið gert að frumkvæði stjórnarformannsins, Vilhjálms Þórs. Og þegar þessi tillaga stjórnarformannsins, Vilhjálms Þórs, var til umræðu í stjórn áburðarverksmiðjunar, var borin fram svo hljóðandi rökstudd dagskrá af hálfu eins af stjórnarmeðlimum verksmiðjunnar, — sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að núgildandi lög um áburðarverksmiðju ákveða hlutverk hennar það eitt að framleiða áburðarefni og félagssamþykktir Áburðarverksmiðjunar h/f skilgreina einnig markmið félagsins hið sama og lögin gera og með því að Alþingi hefur ekki fallizt á frumvarp landbúnaðarráðherra um, að áburðarverksmiðjan annist innflutning og verzlun með áburð, sem tvívegis hefur verið lagt þar fram án árangurs, og með því enn fremur, að hluthafafundur Áburðarverksmiðjunnar h/f hefur ekki fjallað um neinar breytingar á félagssamþykktunum og að enginn aðili, hvorki einstakir menn né félög hafa samkvæmt yfirlýsingu stjórnarformanns á síðasta stjórnarfundi mælzt til né óskað þeirrar breytingar á starfsemi verksmiðjunnar, sem hér liggur fyrir, telur fundurinn sér ekki fært, eins og sakir standa, að gjalda jákvæði við fram kominni tillögu og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Svona leit einn af stjórnarmeðlimunum á þessa till., sem þarna var flutt og svona var rökstudd, að hvergi hafi komið fram neinar óskir um, að þessi breyting væri gerð, nema frá stjórnarformanninum, Vilhjálmi Þór, og þeim stjórnarfulltrúum, sem tóku undir við hann. Alþ. hefur tekið þannig í þetta mál, að tvivegis er búið að leggja þetta hér fyrir, án þess að það hafi nokkurn tíma verið afgr. úr nefnd, og var þó stjórnarfrv. í bæði skiptin. M.ö.o.: þessi till. virðist eiga formælendur fá. Það virðist vera úr innsta hring í stjórn áburðarverksmiðjunnar, sem þessar óskir koma um að fá að sölsa undir sig eitt ríkisfyrirtæki í viðbót og fá í sínar hendur innflutninginn á áburði.

Hæstv. landbrh. sagði, að þetta ætti að vera sparnaðarráðstöfun. Hvernig er það nú um innflutning til landsins á áburði þeim, sem áburðarverksmiðjan ekki framleiðir? Ég hef það fyrir satt, að um 80% af þeim áburði sé flutt beint frá útlöndum til þeirra staða, þar sem honum er skipað upp og liggja í þeim héruðum, sem eiga að nota hann. Hvað mun vera fyrirhugað af hálfu stjórnar áburðarverksmiðjunnar, þegar meiri hluti hennar hefur óskað eftir að fá að leggja niður Áburðarsölu ríkisins? Ég hygg, að það hafi verið fyrirhugað af hálfu meiri hlutans í stjórn áburðarverksmiðjunnar að flytja útlenda áburðinn inn ósekkjaðan í skipum, skipa honum á land í Gufunesi, láta sekkja hann þar, skipa honum síðan fram aftur eða a.m.k. þeim 80% af honum, sem ættu að fara til annarra staða á landinu, og flytja hann síðan með íslenzkum skipum á hinar ýmsu hafnir landsins. Það þekkir hver, sem veit, hver umskipunarkostnaðurinn er hér í Reykjavík og grennd og sekkjunarkostnaðurinn, hvað þetta mundi þýða viðvíkjandi þeim hluta áburðar, sem bændur nota og aðrir, sem fluttur er inn erlendis frá. Ég er hræddur um, að þetta mundi síður en svo þýða nokkurn sparnað. Ég held, að það sé ekki það, sem vakir þarna fyrir. Það virðist vera allt annað. Það virðist vera sá fjandskapur við allt, sem heitir ríkisfyrirtæki, sem virðist vera að magnast svo, að það er ekki einu sinni farið að skirrast við það að taka ríkisfyrirtæki eins og sjálfa áburðarverksmiðjuna, verðmætasta verksmiðjubákn landsins, úr eigu ríkisins með ófrjálsri hendi og reyna að afhenda það hluthöfum. Ég held, að það þýði þess vegna ekki að koma hér fram fyrir okkur í þessari hv. d. og ætla að fara að veifa framan í okkur einhverjum sparnaði í sambandi við þetta. Ég held, að það sé ekki byggt á neinum rökum í því sambandi.

En hæstv. landbrh. hafði lítið fyrir að ræða 2. gr. þessa máls, og var hún þó upphaflega, þegar hann lagði þetta frv. fyrir þingið, eitt höfuðatriðið í því, sem hann ræddi um. Af hverju kinokar hæstv. landbrh. sér við að ræða 2. gr. þessa máls? Með 2. gr. er verið að breyta ákvæðunum í l. um fyrninguna. Af hverju er verið að hreyta þessum ákvæðum í l. um fyrningu? Það er verið að leggja til að breyta þeim vegna þess, að í tvö ár er stjórn áburðarverksmiðjunnar búin að brjóta lögin. Í reikningum áburðarverksmiðjunnar 1959 og reikningum áburðarverksmiðjunnar 1960 eru fyrningar af áburðarverksmiðjunni ekki reiknaðar samkvæmt lögum, heldur eru brotin lögin. Í reikningunum 1959, sem ég hef látið birta hér á Alþingi áður, eru fyrningarafskriftir settar upp í 14.9 millj., tæpar 15 millj., en ef farið hefði verið eftir lögunum,hefðu þessar fyrningarafskriftir verið helmingi minni eða um 8 millj. M.ö.o.: það eru teknar 7 millj. kr. af hreinum tekjum áburðarverksmiðjunnar á árinu 1959 og settar inn í fyrningarafskriftir. Á því ári voru tekjur áburðarverksmiðjunnar um 4 millj. kr., þannig að hefðu reikningarnir verið færðir rétt á því ári og samkv. lögum, þá voru hreinar tekjur áburðarverksmiðjunnar 11 millj. kr. Á því ári var öll vaktavinna og dagvinna í verksmiðjunni 4.9 millj. kr., tæpar 5 millj., en allir vextir hins vegar, sem verksmiðjan borgaði, 4.7 millj, kr. Þetta gefur ofur litla hugmynd um afkomu verksmiðjunnar, gróða verksmiðjunnar og hvað það er, sem er verið að reyna að dylja. Það er verið með reikningunum 1959 að brjóta lögin, að stela undan 7 millj. kr., sem færðar eru á afskriftir, en áttu að færast á hreinar tekjur. Þetta endurtekur sig 1960. Þá voru fyrningarafskriftir 18.7 millj. kr. Framleiðslugreinin er þá uppfærð 4.9 millj. kr., vextir eru uppfærðir 5.9 millj. kr. Hefði verið reiknað samkvæmt lagafyrirmælum, hefðu fyrningarafskriftirnar átt, held ég, að vera ca. 10 millj. kr., þær eru 8 millj. kr. meiri en vera bæri. Hreinar tekjur voru 1960 2.2 millj. kr. Ef 8 millj. hefðu bætzt við þær, sem ranglega voru færðar á fyrningarafskriftir, hefðu hreinar tekjur verið 10 millj. kr. Öll vinnulaun eru 5 millj, tæpar, vextirnir tæpar 6 millj. Það er góð mynd, sem þetta gefur af, hvað skatturinn til fjármagnsins á Íslandi er mikill og hvað vinnulaunin eru lág, og eru þó vinnulaun í áburðarverksmiðjunni með betri vinnulaunum, sem verkamenn fá á Íslandi. En það sýnir hins vegar, hvað þessi stóriðjufyrirtæki gefa af sér, og það sýnir líka, hvað verið er að reyna að dylja af hálfu hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. Hann er að reyna að dylja, hvílíkur ofsagróði er af ýmsum fyrirtækjum hér á Íslandi, vegna þess að það er verið að ljúga því að alþýðu manna, að hér sé allt rekið með tapi, að atvinnureksturinn þoli ekki hátt kaup, og mundi þó rekstur áburðarverksmiðjunnar þola þrefalt það kaup, sem mönnum var borgað þar, svo að ég tali ekki um það, sem væri það eðlilega í þessu, að kaup verkamanna væri hækkað verulega og áburðarverðið lækkað verulega til bænda. En því rifja ég upp þessa hluti hér um fyrningarafskriftirnar og hina raunverulegu reikninga áburðarverksmiðjunnar, að 2. gr. þessa frv., sem hæstv. landbrh. kaus að þegja um, á að slá því föstu, að það megi að lögum falsa reikningana svona framvegis, eins og þeir hafa verið falsaðir í þessi tvö ár. Það á að löggilda fölsunina, það á að breyta lögunum í samræmi við það, sem falsað hefur verið. Það verður kannske það, sem verður endirinn á stuldinum á áburðarverksmiðjunni úr eigu ríkisins, að það verði seinna meir sett lög um það, að enn fremur skuli allt, sem stolið hefur verið til þessa, skoðast löglega tekið. A.m.k. 2. gr. í þessu frv. miðar að því að reyna að gera löglegt það, sem fært hefur verið ólöglega fram að þessu.

Mér finnst það satt að segja hart, að það skuli geta viðgengizt ár eftir ár með stærsta fyrirtæki landsins, að gefnir séu út reikningar, sem eru í andstöðu við lög, sem brjóta lög, og að menn finni ekki ástæðu hér á Alþingi til þess að gera meiri athugasemdir við það en þær, sem ég hef gert, þó að ég hins vegar verði að viðurkenna, að nokkur áminning er það, þótt þegjandi sé, sem Alþingi hefur gefið hæstv. landbrh. með því tvö ár að hafa ekki afgreitt þetta fyrningarafskriftafrv. hans.

Hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að hluthafarnir, sem hann í ræðu sinni vildi gefa , 2/5 hluta áburðarverksmiðjunnar, hefðu nú í fyrsta skipti fengið 6% af sínu fé, það væri allur sá hagnaður, sem hluthafarnir hafi fengið, enda hefði þetta verið lagt fram í góðu skyni til að styðja að því að koma upp miklu stóriðjufyrirtæki, en ekki fyrst og fremst í hagnaðarskyni. Ég hef aldrei borið neinar brigður á, að það hafi verið í góðu skyni gert af hálfu þeirra, sem lögðu fram þetta hlutafé, enda í því frv., sem ég hef flutt hér, viljað endurgreiða þeim það fé, sem þeir hafa lagt fram, mjög riflega. En ég vil minna hæstv. ráðh. á, um hvað er þarna að ræða. Hlutafé þessa rekstrarhlutafélags, Áburðarverksmiðjunnar h/f, er 10 millj. kr. Af þessu hlutafé eiga aðrir aðilar en ríkið 4 millj. kr., og mikið má nú vera, ef meginið af þessum 4 millj. kr. eða a.m.k. verulegur hluti af þeim var ekki lánaður úr ríkisbönkunum, til þess að þeir gætu keypt það. Látum það nú vera. 4 millj. kr. hafa þeir lagt þarna fram. Og ef allt gengur sinn gang um áburðarverksmiðjuna, ef hún er skrifuð niður samkv. lögum, meira að segja líka þó að hún væri skrifuð niður samkvæmt þeim ólögum, sem hæstv, landbrh. leggur til að leiða í lög, þá verður endirinn sá, að þetta fyrirtæki, sem gefur mjög vel af sér, verður skuldiaust. Það líða kannske ekki nema ein 10–15—20 ár þangað til. Þegar þetta fyrirtæki er skuldlaust og ef sú skoðun yrði ofan á seinna meir, að hlutafélagið ætti þetta fyrirtæki, hvers virði verða þá þessar 4 millj. kr., sem hluthafarnir lögðu fram? Ég verð nú að segja, því miður, að ég hef ekki við að breyta þeim tölum, í hvert skipti sem um þetta er rætt á Alþingi, af þeirri einföldu ástæðu, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur tekið upp þann sið eða réttara sagt þann ósið að fella gengið á Íslandi á hverju ári, sem áður tíðkaðist aðeins á tíu ára fresti. Áburðarverksmiðjan var, seinast, þegar við ræddum þetta mál metin líklega upp á einar 250–300 millj. kr. Ég býst við, að nú eftir nýjustu gengislækkun ríkisstj. muni hún vera metin þó nokkuð mikið yfir 300 millj., eða a.m.k. ef ætti að byggja hana nú upp, mundi hún kosta jafnvel upp undir einar 340 millj., og ef við reiknum með því, að það verði ekki haldið áfram að lækka gengið á næstu árum eins ört og núv. ríkisstj. hefur gert, heldur að það kynni að fá að standa, hvað miklu jafngilda þá þessar 4 millj. kr., sem þessir hluthafar lögðu fram 1951? Það mundi jafngilda nú í dag um 140 millj. M.ö.o.: hæstv. landbrh., sem talaði um það ósköp fallega hér áðan, að þessir vesalings hluthafar, sem af mikilli brjóstgæzku hafi lagt fram þessa aura sína og ekkert fengið aftur, séu ekki öfundsverðir, — en í sömu ræðunni og hann segir þetta réttir hann að þeim með því að segja: Þið eigið 2/5 hluta áburðarverksmiðjunnar, — þá réttir hann að þeim 140 millj. kr. Heldur hæstv. ráðh., að þetta sé ekki sæmilega gott, að ávaxta 4 millj. kr. þannig, að þær verði að 140 millj., eða er hann vanur enn þá gróðavænlegri fjárfestingu? Ég held, að ef þetta á að vera fordæmið um, hvernig Sjálfstfl. ætlar sér að fara með eigur ríkisins og innleiða hér frjálst framtak á Íslandi, líka framtak í því að taka úr eigu ríkisins og fá einstaklingum í hendur, þá væri það ekkert undarlegt, þó að ýmsir dugandi fésýslumenn hyggi gott til glóðarinnar að fylgja þeim flokki.

Nú segir máske hæstv. landbrh. við mig: Já, en ríkið á 6 millj. kr. þarna, ríkið á meiri hlutann. — Heldur hæstv. landbrh., að ég álíti, að Sjálfstfl. yrði í nokkrum vandræðum með, hvernig ætti að fara með þann hluta, sem ríkið á? Sjálfstfl. kærir sig kannske ekkert um að hampa því nú, en einum af hans þm. og ekki þeim minnst metna varð þó á í fyrra á Alþ. að sýna þessari hv. d., hvað Sjálfstfl. hygði að gera í framtíðinni í þessum efnum. Það var, ef ég man rétt, lagt hér fram af hálfu eins elzta þm. og reyndasta í Sjálfstfl. í þessari hv, d. till. um að selja öll hlutabréf ríkisins, þessar 6 millj., ef ég man rétt, á nafnverði, og ég efast ekki um, að það hefur átt að tryggja um leið, að það lenti í góðum höndum, réttum höndum, — svo að það eru hæg heimatökin að láta framtakssama dugnaðarmenn, kannske með réttum pólitískum lit, eignast þessar 6 millj. hlutabréfa, sem ríkið á, fyrir hóflega borgun, svo að það verði ekki bara þeir, sem keyptu hlutabréf fyrir 4 millj, kr. 1951, sem sitji að því að eignast áburðarverksmiðjuna fyrir litinn pening, heldur fái réttir menn líka tækifæri seinna meir til þess að kaupa — á nafnverði — hlutabréf ríkisins í fyrirtækinu. Og þá væri fyrir 10 millj. kr. búið að afhenda einstökum aðilum í landinu fyrirtæki, sem nú í dag er varla undir 340 millj. kr. virði.

Ég verð að segja það, að mér finnst það hart ár eftir ár að þurfa að koma hér fram og rekja þessa sögu. Mér finnst það hart að finna ekki innan ríkisstj. í þessu efni það mikinn heiðarleika í meðferð á eignum ríkisins, að menn kippist ofur litið við, þegar menn sjá fram á, hvernig eigi að fara með stærstu fyrirtækin, sem til eru á Íslandi. Ég veit, að það var ekki upphaflega meiningin, þegar frv. um áburðarverksmiðju ríkisins var lagt hér fyrir 1949, að það yrði neitt annað en ríkiseign, ótvíræð ríkiseign. Það var aðeins vegna harðvítugra áhrifa frá Marshallstofnuninni, sem það var þvingað í gegn á síðustu dögum þingsins, í síðustu umræðunum í Ed., að hreyta þessum lögum. Og ég veit, að það var reynt að þvinga það sama fram viðvíkjandi sementsverksmiðjunni, að gera hana að hlutafélagi, og ég veit, að sú ríkisstj., sem þá sat. að völdum, stjórn Sjálfstæðisfl. og Framsfl., stóð á móti því, að slík breyting væri gerð, og þverskallaðist, gott ef það var ekki eitt til tvö ár, og hafði það í gegn á endanum, lét ekki undan þeim ameríska þrýstingi, þannig að sementsverksmiðjan er enn ríkiseign eins og áburðarverksmiðjan á að vera og er samkvæmt lögum. Mér finnst það þess vegna hart, ef á að nota þennan þrýsting erlends valds, sem fram kom og látið var undan í Ed. í maí 1949, til þess að farga úr eigu ríkisins með þessu þokkalega móti, sem nú er reynt að gera, þessu mikla fyrirtæki. Þess vegna segi ég það viðvíkjandi þessum Fyrningarafskriftum, sem hér er lagt til að taka upp: Það er engin ástæða til þess að breyta þessu, ekki nokkur ástæða, og það er sízt af öllu ástæða til að breyta þessu, á meðan menn hafa ekki komið sér niður á endanlega, að Alþingi taki af öll tvímæli um það, að þetta fyrirtæki er eign ríkisins. Ef ætti að fara að safna saman þeim auði í fyrningarsjóðinn, sem lagt er til með 2, gr. þessa frv., ef ætti að afskrifa á ári 10–11 millj., upp í 18 millj, kr. af þessu fyrirtæki, þá er sannarlega ekki að undra, þótt menn spyrji: Handa hverjum er verið að safna þessum auði? Hverjir eiga að eiga hann? Það er þess vegna ekki undarlegt, þó að maður vilji fá gengið úr skugga um það alveg ótvírætt, að það sé ríkið sjálft, þjóðin sjáif, sem er að eignast þetta, en að það sé ekki verið að safna þessu handa hluthöfum, sem eigi að gefa þetta fyrirtæki seinna meir.

Hitt er svo annað mál, en ekki undarlegt, þó að hugur manns hvarfli að því, um leið og lagt er til að löggilda 18 millj. kr. fyrningarafskriftir á ári af þessu fyrirtæki, — að hugurinn hvarfli til þess áróðurs, sem hæstv. ríkisstj. hefur rekið í sambandi við launagreiðslur og fjársöfnun, auðsöfnun á Íslandi. Það er reynt að berja inn í þjóðina, að hún hafi lifað yfir efni fram, þeirri mestu haugalygi, sem fram hefur verið haldið nokkurn tíma í íslenzkum stjórnmálum. Það hefur verið reynt að berja það inn í þjóðina, að verkamenn á Íslandi hefðu of hátt kaup og atvinnureksturinn þyldi ekki kauphækkun, og á sama tíma liggur það fyrir, að öll verkalaun í þessu fyrirtæki, sem við hér erum að ræða um, eru um 5 millj. kr., en gróðinn á því, ef afskriftir eru réttar, um 10–11 millj. kr. tvö síðustu árin, og þá eru samt greiddar 5–6 millj. kr. í vexti, skatturinn til fjármagnsins, fyrir utan um 10 millj, kr. í fyrningarafskriftir, ef rétt er afskrifað. Reikningar áburðarverksmiðjunnar sýna það ef til vill bezt, hve gersamlega ekki aðeins óþarfar, heldur vítaverðar þær ráðstafanir hafa verið, sem gerðar hafa verið á tveim undanförnum árum, í fyrsta tagi að skera niður vísitöluna og banna hana, í öðru lagi að lækka gengið í marz 1960, í þriðja lagi að lækka gengið í ágúst 1961.

Það er máske skiljanlegt, að hæstv. landbrh., þegar þessi ríkisstj. stendur að þessu, kinoki sér við að ræða 18 millj. kr. fyrningarafskriftirnar, sem hann leggur til að staðfestar séu eftir á svo að segja með svona lögum, og ef vill mætti athuga þessar vítaverðu ráðstafanir ríkisstj. frá hagsmunasjónarmiði áburðarverksmiðjunnar, hvernig þær líta þá út. Það hefur verið sagt hér stundum undanfarið, að gengislækkunin hafi verið gerð fyrir atvinnureksturinn í landinu. Hvernig skyldi gengislækkunin hafa komið við áburðarverksmiðjuna? Skyldi hún hafa hjálpað henni mikið? Ég held, að ég fari ekki rangt með það, að skuldir áburðarverksmiðjunnar hafi bara við gengislækkunina fyrri, sem fór fram í marz 1960, hækkað um 26 millj. kr. Það er hjálpin, sem atvinnureksturinn, áburðarverksmiðjan, fær með gengislækkuninni. Það er nokkurn veginn sama, hvar drepið er niður, það er sama vitleysan og sömu óheilindin, sama óréttiætið gagnvart verkamönnunum, sama vitleysan gagnvart atvinnurekendunum. Ég held þess vegna, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, eigi að fara til nefndar. En ég vil leyfa mér að vona, að hv. fjhn. taki þetta frv. til mjög gaumgæfilegrar athugunar, mjög krítískrar rannsóknar, þegar til hennar kemur. Það er það margt ljótt og varasamt, sem fram kemur, þegar þetta frv. og það, sem það stefnir að, er athugað, að það veitti ekki af, að sú hv. þingnefnd léti þetta frv. fá þá meðferð, sem það verðskuldar. Hins vegar hef ég lagt hér fram frv., sem ég hef flutt nokkrum sinnum undanfarið, það er 32. mál þessa þings, á þskj. 33, sem mun vafalaust bráðlega verða hér á dagskrá, og þá verður tækifæri til þess að ræða um þetta. Það mun vafalaust, eins og vant er, ganga sinn gang til hv. fjhn. líka. Og ég vil leyfa mér að vona, að þegar bæði þessi frv, eru komin til þeirrar hv. nefndar, þá verði loks þessu máli ráðið til lykta, þannig að Alþingi kinoki sér ekki lengur við að kveða á um, hvað sé ríkisins og þjóðarinnar og hvað sé einstaklinganna, og við þurfum ekki lengur að standa í óvissu um það og meiri hl. í þingnefnd eins og fjhn. að afgreiða frv. með því að vísa til ríkisstj. hlutum eins og því, að það sé vafamál, hver kynni að eiga 340 millj. kr., sem séu í einu fyrirtæki í landinu.

Ég vona svo, að hv. fjhn. beri gæfu til þess að tryggja rétt þjóðarinnar og ríkisins í sambandi við þetta mál og að lokum fari svo, að þau frv. um áburðarverksmiðju, sem afgreidd verði frá þessu þingi, slái því föstu, að það sé ríkið, að það sé þjóðin, sem eigi þetta fyrirtæki, en þeim hluthöfum, sem lagt hafa fram til þess fé, verði sýnd full sanngirni í allan máta. Og þegar slíkt væri gert, mætti líka taka til athugunar ýmsa aðra hluti, sem felast í því frv., sem hér liggur fyrir, en að afgreiða það án þess að hafa hreint borð um hitt, það nær að mínu áliti ekki nokkurri átt.