31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

22. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Forseti. Hæstv. landbrh. hafði haldið hér nokkra ræðu út af því, sem ég hafði verið að gagnrýna hans frv. Hann talaði eitthvað um það í byrjun sinnar ræðu, að ég hefði haft allmikil stóryrði og sum ljót. Ég er hræddur um, að ég hafi ekki haft nein stóryrði, sem ekki væri hægt að standa við utan þingsalanna, ef út í það færi. Það mál, sem hér er um að ræða, er svo ljótt, að það verður áreiðanlega seinna skoðað sem eitt af ljótustu málum þingsins, ef ekki verður hægt að koma í veg fyrir það.

Ég ætla nú fyrst að athuga þær röksemdir hæstv ráðh., sem á yfirborðinu kynnu að virðast eðlilegastar. Það er sú röksemd, þegar hann segir, að það verði að vera hægt að halda verksmiðjunni við. Bændur hljóti að ætlast til þess, að hún sé gangfær, og þess vegna sé ekki nema sjálfsagt, að hann hafi tekið þær ákvarðanir, sem gerðar hafi verið og hann hefur staðið að ásamt meiri hluta verksmiðjustjórnar og kannske sjálfur verið í henni, a.m.k. um skeið, um að reikna fyrninguna rangt, ólöglega. Það er tvennt alveg ólikt, sem hæstv. ráðh. blandar þarna saman. Það er annars vegar þetta: Er skynsamlegt að afskrifa svona og svona mikið af einu fyrirtæki og leggja það í fyrningu, eða er það löglegt? Þetta er tvennt alveg gerólíkt og þarf alls ekki að fara saman. Ég skal nefna ráðherranum dæmi. Í lögum um Sogsvirkjunina, sem er sameign Reykjavíkurbæjar og ríkisins og lætur áburðarverksmiðjunni í té rafmagn enn þá nokkur ár í viðbót á mjög lágu verði, er ákveðið, að ofan á hennar kostnaðarverð megi leggja 5%. Það er allt, sem má leggja ofan á kostnaðarverðið á rafmagninu, sem m.a. áburðarverksmiðjan fær. Sogsvirkjunin hefur ekki í lögum neina heimild til þess að safna í neina fyrningarsjóði, ekki heimild til neinna afskrifta. Það má vel halda því fram og er eðlilegast, að því sé haldið fram, að það væri mjög skynsamlegt, við skulum segja, að fyrirtæki eins og Sogsvirkjunin gæti safnað fé í að undirbúa ný mannvirki eða annað slíkt. En löggjafinn, Alþingi, mælir svo fyrir, að það skuli ekki gert. Löggjafinn ákveður, að það skuli aðeins lögð 5% ofan á það kostnaðarverð, sem á rafmagninu er á hverjum tíma. Löggjafinn segir m.ö.o.: Þessi fyrirtæki skulu ekki eiga sjóði til þess að geta endurnýjað sig, til þess að geta reist ný mannvirki eða annað slíkt. — Það má deila um, hvort þetta sé skynsamlegt, en eitt er ótvírætt, að þetta er löglegt, þetta er lagafyrirskipun. Alveg eins er það með áburðarverksmiðjuna. Löggjafinn mælir svo fyrir, að það skuli vera alveg ákveðin prósenta, sem lögð er til hliðar, það er í 10. gr. frumvarpsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Framlag áburðarverksmiðjunnar til fastasjóða hennar skal vera á hverju ári sem hér segir: Til fyrningarsjóðs 21/2 %“ o.s.frv.

Þetta er ákvörðun, lögleg ákvörðun, og eftir þessum lögum ber að fara. Ef þeir t.d., sem ættu sæti í stjórn Sogsvirkjunarinnar, ætluðu á morgun að leggja t.d. 20% á allt rafmagnið og segja: Þetta er alveg nauðsynlegt, það er nauðsynlegt, að fyrning sé fyrir endurnýjun, — þá verður hreinlega sagt við þessa menn: Heyrið þið, þið eruð með lögbrot, mínir herrar, þið verðið kærðir tafarlaust. — Og ég gæti trúað, að áburðarverksmiðjan yrði ein sú fyrsta, sem kærði. Hún fengi aldeilis að vita af því. Þarna eru ákveðin lög, og eftir þeim lögum ber að fara, og ekki sízt þegar menn eru ráðherrar, þá eiga menn að sjá um, að þau lög séu í gildi, þeim lögum sé hlýtt. Hvað sé löglegt í þessum efnum og hvað sé skynsamlegt, það getur verið tvennt alveg ólíkt. Það er ákaflega margt óskynsamlegt, sem er í lögum og sérstaklega t.d. þeim bráðabirgðalögum, sem hæstv. ráðh. hefur staðið að í sumar og hans hæstv. ríkisstj. En það er löglegt vafalaust engu að síður, meginið af því, nema það, sem brýtur í bága við stjórnarskrána.

Lög og skynsemi fara ekki alltaf saman. Þess vegna þýðir ekki að vera með þessar röksemdir. hað, að menn hafi eitthvað að finna að því, sem er í lögum, það þýðir, að menn verða að reyna að gera svo vel að breyta því. Í tvö ár er þessi hæstv. ráðh. búinn að reyna að fá breytt þessum lögum um áburðarverksmiðjuna, en hefur ekki fengið það, Alþingi hefur ekki viljað fallast á það. Engu að síður lætur hann það viðgangast, að stjórn áburðarverksmiðjunnar haldi áfram að brjóta lögin. Þetta eru hlutir, sem ekki eiga að eiga sér stað. Mér er sem ég sjái, ef það væru einhverjir aðrir, ekki eins háttsettir í þjóðfélaginu, sem brytu lögin þannig. Hvað yrði gert við þá? Ég er hræddur um, að dómsmrh. verði nú að fara að láta þessi mál til sín taka, ef þetta á að halda svona áfram. Þess vegna er þetta, sem er í raun og veru eina röksemdin, sem hæstv. ráðh. hefur reynt að koma fram með, þess vegna er hún alveg haldlaus. Það eina, sem hann sannar með því, er, að hann hefur tekið þátt í að brjóta lögin og látið það viðgangast undir sinni stjórn, að þessi lög hafa verið brotin.

Svo segir hæstv. ráðh. út af minni ræðu, sem ég hélt hér, að hann hafi heyrt hana áður. Það er vafalaust alveg rétt hjá honum. Það er anzi hart, að hann skuli ekki hafa lært neitt af þessari ræðu, þegar hann er búinn að heyra hana máske oftar en einu sinni, og er alveg makalaust, að ráðh. skuli vera svona tornæmur, og auðséð, að það veitir ekki af að þylja þetta nokkuð oft yfir þeim enn þá og jafnvel fleiri en ég, ef það á að komast inn í þeirra ferkantaða koll.

Svo segir hæstv. ráðh., að ég sé með tillögur á Alþ. um að gera áburðarverksmiðjuna að ríkiseign. Bara þetta orðatiltæki sýnir, hvað hæstv. ráðh. skilur lítið í þessu öllu saman. Ég hef aldrei verið með neina tillögu hér á Alþingi um að gera áburðarverksmiðjuna að ríkiseign. Áburðarverksmiðjan er ríkiseign og hefur alltaf verið ríkiseign. Það eina, sem ég er að koma í veg fyrir, er, að henni sé stolið, að henni sé stolið með nokkrum yfirlýsingum, bæði núv. hæstv. ráðh, og fyrri landbrh., að ráðh., sem ekki skilja þetta mál, séu að gefa yfirlýsingar um það, að þessi áburðarverksmiðja sé eign hlutafélags, sem alls ekki á hana. Það er alveg ótvírætt í l., að mínu áliti alveg ótvíræður skilningur laganna í þessum efnum. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi:

Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, eins og Landsbanki Íslands er sjálfseignarstofnun og annað slíkt. Þetta er alveg ótvírætt. Hæstv. ráðh. er að reyna að færa þetta í þann búning, eins og þetta sé eitthvað sérstök skoðun, aðeins mín og kannske okkar, sem í Alþb. erum. Því fer fjarri. Sá maður, sem var forsrh., þegar þessi lög voru samþykkt, Stefán Jóh. Stefánsson, núv. sendiherra í Kaupmannahöfn, hafði tækifæri til þess hér á Alþingi að láta í ljós sína skoðun á þessu máli, eftír að það glopraðist einu sinni út úr einum hæstv. landbrh., að það væri hlutafélagið, sem ætti verksmiðjuna. Hann lýsti því alveg ótvírætt, ekki bara sem sinni skoðun, heldur ótvíræðri túlkun laganna, að verksmiðjan væri auðvitað ríkiseign. Og hæstv. forsrh. þeirrar ríkisstj., sem stóð að því að samþykkja þessi lög, ætti að hafa nokkra hugmynd um það. Hann er þar að auki lögfræðingur líka, fyrst hæstv. ráðh. er farinn að vitna svona mikið í lögfræðinga. Annar málsmetandi maður, sem líka hefur átt sæti með mér í fjhn., þegar þetta mál hefur verið rætt, hefur látið skoðun þar í ljós um þetta og líka í nál. og ræðum. Það er núverandi herra forseti landsins, Ásgeir Ásgeirsson. Hann er alveg ótvírætt þeirrar skoðunar, að þessi verksmiðja sé ríkiseign, alveg ótvíræð ríkiseign. Þegar síðast var kosið í stjórn þessarar verksmiðju, var þar stungið upp á þeim manni, sem mun nú vera formaður hennar, Vilhjálmi Þór bankastjóra. Það kom fram aths. við það, eins og eðlilegt var, að hann væri í stjórn þess banka, sem með lögum væri bannað að sæti í stjórn atvinnufyrirtækis. Forseti sameinaðs Alþingis gaf úrskurð um það, hve þessi maður væri hæfur, hvort hann mætti vegna þessara ákvæða l. sitja í stjórn áburðarverksmiðjunnar. Og hver var úrskurður forseta Sþ.? Úrskurðurinn var sá, að af því að þetta fyrirtæki væri ríkiseign, mætti maðurinn sitja þar. Ef það væri eitthvert venjulegt hlutafélag, sem ætti þetta, þá hefði það ekki gengið.

Það er ákaflega leitt, að hæstv. landbrh. skuli sýna þessa vanþekkingu á l., eins og er þó búið að reyna að koma honum í skilning um lögin. Það er ákaflega leitt og dugir náttúrlega ekki að gefast upp við það, því að þessi vanþekking hæstv. ráðh. á l. getur orðið þjóðinni ákaflega dýr.

Svo minntist hæstv. ráðh. á, að ég virtist álíta, að þessir hluthafar ættu einhvern rétt, fyrst ég vildi í því frv., sem ég hafði flutt, gera vel við þá. Ég hef alltaf viljað gera vel við þessa hluthafa, vegna þess að ég álít, að á vissan hátt hafi tveir landbúnaðarráðherrar verið að blekkja þá með yfirlýsingum, sem þeir hafi gefið á Alþingi á síðustu 7 árum. Þegar því var fyrst yfir lýst af einum landbrh. hér, að hann skoðaði áburðarverksmiðjuna sem eign hlutafélagsins, þá var verið að gefa þessum hluthöfum undir fótinn um, að þeir ættu þarna fé, sem þeir alls ekki eiga. Og þeir hafa kannske verið eitthvað tregir á það, a.m.k. hafa þeir í álitum til hv. fjhn, lagzt á móti því, að mitt frv. væri samþykkt, m.a. vegna þess, að þeir hafa talið sig eiga þarna eitthvað í þessu út frá yfirlýsingum landbrh. Þessum hluthöfum hefur kannske ekki verið það ljóst, að strax og 13. gr. væri brott fallin, er yfirleitt enginn réttur, sem þeir eiga, þeirra hlutabréf ábyggilega einskis virði. Hlutabréfin fjalla bara um rekstur áburðarverksmiðjunnar, og það, sem þeir hefðu ekki haft upp úr þeim, á meðan þeir hefðu séð um reksturinn, þá gætu þeir yfirleitt ekki haft neitt upp úr þeim hlutabréfum eftir á. Hins vegar hef ég aldrei viljað á neinn hátt níðast á þessum mönnum. Ég álít, að það hafi verið vitleysa strax frá upphafi, þegar Ed. samþykkti að stofna þetta hlutafélag til rekstrar áburðarverksmiðjunnar, og menn hafi verið fengnir í þetta meira eða minna undir fölskum forsendum, þess vegna eigi að tofa mönnum að losa sig út úr þessu og fara vel að þeim þannig og gera vel við þá. Og það er eingöngu þess vegna, sem ég hef lagt til, að þeim væri greitt þarna til og tillit tekið til þess, að m.a. fyrir aðgerðir hæstv. núv. ríkisstj. er þeirra fé orðið miklu minna virði en það var, þegar þeir lögðu það fram.

Svo talar hæstv. ráðh. um, að hann hafi talað við lagaprófessora. Ég ber náttúrlega mjög mikla virðingu fyrir lagaprófessorum. En ég gæti trúað, að það væru ekki allir lagaprófessorar á sömu skoðun, frekar en allir lögfræðingar séu á sömu skoðun. Ég held, að það þýði ekkert að vera að vitna í neina lagaprófessora eða lögfræðinga um skilning á þessum hlutum. Það er aðeins einn aðili, sem þarna á að taka af öll tvímæli um, og það er sjálfur löggjafinn, það er Alþingi. Og Alþingi hefur tekið af öll tvímæli um þetta í 1.—12. gr. laganna, sem eru eins og frv. var, þegar þetta var lagt fyrir og fór í gegnum fimm umr. í deildunum. 13. gr., sem er skellt inn í við síðustu umr. í Ed., á síðustu annadögum þess umrótasama þings vorið 1949, óhugsuð tiltölulega, meira eða minna undir erlendum þrýstingi og erlendum áhrifum, sú grein e,r eins vandræðaleg og við var að búast, eins og til hennar var stofnað. Og sú eina grein, sem hún takmarkaði að einhverju leyti, er raunverulega 2. gr. Þess vegna byrjaði hún með því, að ríkisstj. sé heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr., allt annað er látið standa, allt annað eins og það leggur sig. Þess vegna er það enginn annar en Alþingi sjálft, sem á þarna að taka af öll tvímæli um, og það á Alþingi ekki að bíða lengur með.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., þar sem mér hefur borizt það til eyrna: Er það svo, að það sé nú þegar verið að undirbúa ráðstafanir til þess að fara að framkvæma þá hluti, sem frv. hans fjallar um, án þess að Alþingi segi sitt síðasta orð um þetta? Er það hugsanlegt annars vegar, að hæstv. ráðh. sé sjálfur með það í undirbúningi, af því að hann hefur nú í tvö ár ekki fengið það fram á Alþingi, sem hann hefur óskað eftir, að gera ráðstafanir án Alþingis til þess að framkvæma þetta? Er það í fyrsta lagi hugsanlegt, að hæstv. ráðh. ætli að sýna Alþingi þá lítilsvirðingu? Þeir áttu þetta til í gamla daga máske, einhverjir höfuðsmenn á Bessastöðum, að gera það, en ég hélt, að það mundi varla geta komið fyrir Alþingi nú á 20. öld. Er það í öðru lagi hugsanlegt, að það sé nú þegar verið að hefja undirbúning að því að láta byggja geymsluhús fyrir áburð þarna inni í Gufunesi, — ég man nú ekki, hvað það heitir í Strompleiknum, en eitt af stærstu geymsluhúsum á Íslandi, leggja grunn að einhverju slíku? Ég veit ekki, hvort það á að vera 30 m breitt og 90 m langt. Er máske hugsanlegt, að það sé byrjað á því nú þegar að leggja þarna grunn að stærsta geymsluhúsi á Íslandi til þess að skipa þarna áburði upp og fara að sekkja hann þar um og annað slíkt? Ég spyr bara, því að maður er orðinn ýmsu vanur upp á síðkastið, og væri gott að fá hugmynd um það. Er máske farið erlendis af hálfu stjórnar áburðarverksmiðjunnar að ræða nú þegar um kaup á erlendum áburði? Ég veit það, að formaður áburðarverksmiðjustjórnar er mjög framtakssamur maður, og það má vel vera, ef honum væri gefið undir fótinn og það af hæstv. ráðh., að hann ætti til að fara að gera eitthvað í slíkum efnum nú þegar. En ég kynni satt að segja ekki við það. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að ljúka ýmsum öðrum málum, sem liggja hjá henni og eru búin að liggja lengi, áður en hún fer að flýta sér út í þetta mál, eitt hneykslismálið til. Og svo vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. svo að segja persónulega: Finnst honum það viðkunnanlegt, að hann sem ráðherra í ríkisstj. Íslands herði svona á aðgerðum í þessu máli að leggja niður áburðarsöluna og flytja hana í hendur áburðarverksmiðjunnar? Hæstv. landbrh. er sjálfur hluthafi í Áburðarverksmiðjunni h/f, þessu rekstrarfélagi hennar. Ég veit, að hann er ekki stór hluthafi, það er enginn stór hluthafi þar, en engu að síður fannst mér óviðkunnanlegt af hæstv. ráðh. sem hluthafa í þessu félagi að gera ráðstafanir til þess að afhenda því fyrirtæki ríkisins. Það er í öðru lagi mjög óviðkunnanlegt af hæstv. ráðh. sem hluthafa í þessu félagi að gefa yfirlýsingar hér á Alþ. sem ráðh., sem landbrh., um skilning á l., sem getur bakað ríkisstj. stórkostlegan skaða og reynzt ríkinu útgjaldadrjúgt seinna meir í málarekstri út af þessum málum. Og það er í þriðja lagi óviðfelldið af hæstv. ráðh., sem sjálfur hefur verið, meðan hann ekki var ráðh., fulltrúi hluthafanna, einkahluthafanna í þessu rekstrarfélagi, — það er óviðkunnanlegt. af honum að gefa svona yfirlýsingar eins og hann hefur gefið hér um eignina að sínu áliti á áburðarverksmiðjunni. Það er óviðkunnanlegt. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Álítur hann það viðfelldið, að hann sem hluthafi og fyrrum fulltrúi hlutihafanna í stjórn áburðarverksmiðjunnar sé að gefa svona yfirlýsingar hér á Alþ., eins og hann hefur gefið nú um eignina á verksmiðjunni, í staðinn fyrir að segja við Alþingi: Ég vil, að Alþ. útkljái þetta mál. Ég vil, að þetta sé ekki borið fram á Alþ. nú í áttunda eða tíunda sinn og það sé alltaf óútkljáð. Ég vil ekki standa í þessu svona. Ég krefst þess, að Alþ, segi af eða á í þessu máli, — mundi a.m.k. í hans sporum álíta það viðfelldnara fyrir hann að láta Alþ. bera ábyrgðina í þessum efnum. Ef meiri hl. Alþingis vill gefa áburðarverksmiðjuna, þá hann um það, þá látum meiri hl. Alþ. segja af eða á í þessu máti. Það mundi a.m.k. vafalaust hægt að halda áfram í sömu fótsporin og efla einkaframtakið í landinu með því að gefa því Landsbankann næst, bæta bara h/f við, útdeila hlutabréfum o.s.frv. En ég mundi í sporum hæstv. ráðh. álíta, að það væri viðkunnanlegra fyrir hann, að Alþ, tæki ákvörðun um þetta. Ég mundi í hans sporum vilja segja: Ég skora á Alþingi að afgreiða nú þessi mál, þannig að það sýni sinn vilja, en liggi ekki á hæði hans málum og mínu máli og afgreiði hvorugt.

Áburðarverksmiðjan er ótvíræð eign ríkisins, á meðan 3. gr. ekki verður breytt. Allt það, sem gert hefur verið og stefnt hefur að því að reyna að túlka 13. gr. þannig, að áburðarverksmiðjan væri eign hlutafélagsins, það eru eingöngu orð nokkurra ráðh., sem fallið hafa hér á Alþ.., sem fyrir því eru, ekkert annað. Og þau orð álít ég ekki hafa stoð í lögum. En þau orð, þegar þau falla af hálfu ráðh., sem hafa með þetta að gera, þá nálgast þau það að reyna að hjálpa til þess, að það væri e.t.v. seinna meir hægt að ná þessu fyrirtæki úr höndum ríkisins, og þá mundi það raunverulega vera eins og verið væri að stela úr sjálfs sín hendi því, sem mönnum hefur verið trúað fyrir, þegar menn mæla svona ógætilega. Ég vit minna hæstv. ráðh. á, að það er langt frá því, að t.d. Alþb. eða Alþfl. séu einu aðilarnir í landinu, sem eru þessarar skoðunar. Þessi skoðun nær langt inn í Sjálfstfl. líka. Einn af heim fulltrúum, sem var á flokksþingi Sjálfstfl. núna, kom til mín eftir þá ræðu, sem ég hélt hér seinast, þegar við vorum að ræða þetta mál, til þess að þakka mér fyrir þá ræðu og segja, að hann væri á sömu skoðun. Það hafi verið gerð samþykkt einmitt þar sem hann var fundarstjóri, í stjórn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga, 19. apríl 1960, þar sem m.a. var samþykkt samhljóða eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur Búnaðarsambandsins lýsir sig mótfallinn frumvarpi því, sem nú liggur fyrir Alþingi, þess efnis að leggja áburðareinkasölu ríkisins niður. Telur fundurinn, að sú breyting á sölufyrirkomulagi tilbúins áburðar, sem nú er fyrirhuguð, mundi sízt verða til bóta fyrir bændur, enda nýtur áburðarsala ríkisins óskoraðs trausts fyrir góða þjónustu og hagkvæman rekstur. Verði hins vegar breyting gerð á sölufyrirkomulagi tilbúins áburðar, skorar fundurinn n Alþingi að taka Áburðarverksmiðjuna h/f eignarnámi og þjóðnýta alla áburðarvinnslu í landinu.“

Þarna gætir auðsjáanlega þess misskilnings, sem einmitt hæstv. ráðh. og hans menn hafa verið að koma inn á, að það sé verið að berjast um það að gera áburðarverksmiðjuna að ríkiseign, taka hana eignarnámi. Því fer fjarri. Hún er ríkiseign, og það þarf bara að slá því föstu, að þrátt fyrir öll klaufaleg ummæli vissra landbrh. sé hún það. Í 13. gr. stendur alveg greinilega, þar sem ákveðið er að safna til þessa hlutafjár: „Ef slík framlög nema minnst 4 millj. kr., leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“ Það þýðir m.ö.o., að reksturinn á verksmiðjunni er hlutafélagsins. Það eru mörg dæmi um þessa hluti. Hæstv. ráðh. þyrfti ekki að athuga nema eitt af þeim gömlu, stóru fyrirtækjum hér í Reykjavík, Völund, til þess að sjá þessa skiptingu, lóðirnar, sjálf verksmiðjan, sérstakt hlutafélag, reksturinn eitt hlutafélag. Þarna er um að ræða hluti, sem eru svo fjarri lagi, þegar athugaðir eru peningarnir, sem þarna eiga hlut að máli, að engum hefði nokkurn tíma dottið þetta í hug, ef þetta hefði ekki af tilviljun álpazt út úr einum hæstv. landbrh., að fyrir 4 millj. kr. hlutafé gætu nokkrir menn og nokkur samtök í landinu öðlazt eignarrétt á því, sem nú mundi vera ca. 140 millj. kr. virði. Hverjum hefði dottið það í hug, að Alþingi ætlaðist til slíks?

Hæstv. ráðh. blandaði svo að síðustu inn í þessi mál tali um gengisskráninguna og alla vitleysuna, sem ríkisstj. hefði gert sem afleiðingu verkfallanna. Ég skal nú ekki fara að ræða þau mál við hann undir þessum lið. Það gefst tilefni til þess, þegar sjálf gengisskráningin og tili þessi hringavitleysa og lögbrot og stjórnarskrárbrot ríkisstj. koma til umr. En við skulum nú láta okkur alveg nægja að halda okkur við sjálfa þá vitleysu, sem hæstv. ráðh. leggur til að hérna sé gerð, að leggja niður áburðarsöluna og að staðfesta lögbrotin í sambandi við fyrningarsjóðina, og þá röngu yfirlýsingu hans um, að áburðarverksmiðjan væri eign hluthafanna. Það, sem verður að taka af öll tvímæli um á þessu þingi, er, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins, og leysa hluthafana út með sanngjörnu og heiðarlegu móti, þannig að það sé ekki verið að ala neinar tálvonir hjá þeim um, að þeir séu að eignast þarna stórfé með ódýru móti, og koma þannig í veg fyrir, að ráðherrar í ríkisstj. Íslands séu með vanhugsuðum yfirlýsingum á Alþingi að reyna að ráðstafa úr eigu ríkisins stærstu og verðmætustu stóriðjufyrirtækjum þjóðarinnar. Þetta eru hlutir, sem geta ekki gengið, og ég álít það vera alveg óhjákvæmilegt, að svona verði þetta mál ekki lengur látið standa, það verði tekin endanleg afstaða hér á Alþingi, bæði gagnvart því frv., sem hæstv. ráðh. nú flytur, og nú frv., sem ég flyt og seinna verður hér til umr., að fjhn. gangi þannig frá þessum málum, að málin sofni nú ekki lengur þar, heldur verði afgreidd og alveg höggvið á hnútinn í þessum efnum. En eins vil ég sem sé mælast til um leið, og það er, að það verði ekki farið að koma aftan að þinginu, að það verði farið með einhverjum stjórnarráðstöfunum að leysa þessi mál, þegar Alþingi er tvisvar sínnum búið að neita því að verða við þeim kröfum, sem ríkisstj. hefur sett fram.