31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

22. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er í dag rétt vika liðin, síðan þessi umr. hófst, 1. umr. um það frv., sem hér liggur fyrir. Ég sagði nokkur orð um málið þá. Hæstv. landbrh. gerði síðan nokkrar aths. við það, sem ég hafði um það sagt, og í tilefni af þeim aths. vil ég enn fara nokkrum orðum um þetta mál.

Ég benti á það, að áður en áburðarverksmiðjan tók að verzla sjálf með áburðinn, sem hún framleiðir, — en það hefur hún gert í fyrra og í ár, þ.e.a.s. hún hefur nú þessi síðustu tvö ár selt beint til notenda sína framleiðslu, — þá hefði þurft að breyta lögum verksmiðjunnar. Ráðh. telur, að heimilt hafi verið að fela verksmiðjunni að annast þessa sölu, og hann vitnar í lög um áburðarsölu ríkisins. En það er þýðingarlaust að vitna í þá heimild, sem þar er. Samkvæmt þeirri heimild gat ráðh. að vísu falið einhverju verzlunarfyrirtæki að annast áburðarsöluna, en skv. lögum áburðarverksmiðjunnar er hún ekki verzlunarfyrirtæki. Það er beint fram tekið í lögunum, að annað fyrirtæki skuli selja framleiðsluvörur hennar. Það, sem skortir, er lagaheimild handa áburðarverksmiðjunni til að annast söluna, og það er sú lagaheimild, sem ríkisstj. m.a. vill fá samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir. Meðan sú heimild er ekki fyrir hendi handa áburðarverksmiðjunni, er það ólöglegt, að hún annist slíka verzlun.

Hæstv. ráðh. spyr, hvort menn vilji ekki spara milliliðakostnað. En hefur það verið gert með því að fela áburðarverksmiðjunni söluna á áburðinum, sem hún framleiðir? Engar upplýsingar liggja fyrir um það atriði. Það eitt er kunnugt, að milliliðum hefur ekki fækkað. Það er aðeins áburðarverksmiðjan, sem þarna tekur við þeirri verzlun, sem áburðarsala ríkisins hefur áður haft. Ráðh. sjálfur sagðist ekki geta upplýst, hvað hafi sparazt við þetta.

Það liggur þannig ekki fyrir, að neitt hafi sparazt við þessa ráðstöfun, og eins og ég hef áður bent á, þá tel ég það mjög ólíklegt, að áburðarsalan verði rekin með minni kostnaði en verið hefur nú undanfarið.

Þá er það verzlunin með útlenda áburðinn, sem ráðh. vill koma í hendur áburðarverksmiðjunnar. Hann segir, að stjórn áburðarverksmiðjunnar, verksmiðjustjóri og verkfræðingar verksmiðjunnar hafi gert áætlun um verzlun áburðarverksmiðjunnar með innfluttan áburð, og hann tók fram, að þetta væru mjög færir menn. „Og ég get sagt meira,” sagði hæstv. ráðh., „áætlunin var send ríkisstj.“ Tæpast verður nú sagt, að þetta séu merkilegar fréttir, að ríkisstj. hafi fengið að skoða áætlun, sem hún byggir tillögur sínar á. En þó að mjög færir menn hafi gert áætlunina, þá treysti ráðh. þeim ekki fullkomlega, og því sendi hann áætlun þeirra til annarra, að því er manni skildist til yfirskoðunar, til þess að hafa tvöfalt öryggi, eins og hæstv. ráðh, komst að orði. Það verður fróðlegt fyrir þingnefndina að skoða þessa endurskoðuðu áætlun.

Hæstv. ráðh. telur nauðsynlegt að fela einhverju sérstöku fyrirtæki að flytja inn útlendan áburð, Þetta kom fram í ræðu hans, og líka segir í 1. gr. frv., 2. mgr., að ríkisstj. geti falið áburðarverksmiðjunni að flytja inn tilbúinn áburð. Hvernig stendur á þessu? Ef verzlun með útlendan áburð á að vera frjáls, eins og mér skildist á ræðu hæstv. ráðh, að hann teldi að ætti að vera, þá er engin þörf á því, að ríkisstj. feli sérstökum aðila þann innflutning. Vafalaust munu einhver verzlunarfyrirtæki útvega landsmönnum þessa vöru eins og aðrar, sem kaupa þarf frá útlöndum, án þess að þeim sé sérstaklega falið það af yfirvöldunum. En orðalagið á frvgr. gæti bent til þess, að enn sé það vilji ráðh. að láta áburðarverksmiðjuna hafa einkaleyfi til innflutnings á útlendum áburði, eins og hann hefur lagt til í frv. sínum á tveimur síðustu þingum. Sé hins vegar stefnt að því, að áburðarverksmiðjan hafi möguleika til innflutnings á áburði án þess að hafa einkarétt til þess, þá væri viðkunnanlegra að orða þetta öðruvísi. Þá mætti setja í lög, að áburðarverksmiðjan skuli hafa heimild til að verzla með áburð. Hún gæti þá rekið slíka verzlun í samkeppni við aðra. Að vísu gæti hún komið í veg fyrir eðlilega samkeppni í verzlun með innfluttan áburð, ef hún héldi áfram, eins og hún mun hafa gert s.l. ár, að lækka útlenda áburðinn í verði með því að leggja nokkuð á sína innlendu framleiðslu í því skyni, en ef ég man rétt, hafa komið upplýsingar um, að það hafi verið gert árið sem leið. (EystJ: Það gæti orðið erfitt að keppa við það.) Það gæti orðið erfitt að keppa við verzlun, sem væri þannig rekin, já.

Ég kem þá aftur að því, sem ég gerði fyrst og fremst að umtalsefni 24. þ.m., þegar umr. um þetta frv. hófst hér í d. Það var sú ákvörðun verksmiðjustjórnarinnar að reikna hærra fyrningarsjóðsgjald en ákveðið er í lögum og bæta þeirri hækkun við söluverð áburðarins. Verksmiðjustjórnin byrjaði á þessu 1959 og hefur haldið því síðan. Eins og ég gerði grein fyrir, eru það orðnar margar milljónir króna, sem verksmiðjan hefur tekið af bændum á þennan hátt með hærra áburðarverði en ákveðið er í lögum.

Hæstv. ráðh. sagði, að verksmiðjustjórnin hefði ekki gert þetta að óathuguðu máli, hún hefði fengið lögfræðing sinn til að íhuga þetta og láta uppi álit sitt, og fleiri lögfræðinga hefði hún fengið til að skoða málið, og þm.. ættu að taka til greina það, sem lögfróðir menn segja, sagði ráðh. Þetta virðist fljótt á litið nokkuð álitleg lífsregla, sem ráðh. er að benda okkur á að fylgja. En þegar betur er að gáð, kemur fljótt í ljós einn stórgalli á ráðleggingu ráðh. Hann er sá, að þeir lögfróðu eru oft ósammála, og þá getur stundum verið vandasamt að finna, hver þeirra hefur réttast að mæla. Í þessu máli liggur það fyrir, að hæstv. landbrh. telur sjálfur ekki öruggt að byggja á áliti lögfræðinga áburðarverksmiðjunnar. Hann hefur á tveim síðustu þingum og í þriðja sinn á þessu þingi lagt fram frv. um breyt. á l. um áburðarverksmiðjuna. Í frv. er m.a. lagt til, að ákvæðum laganna um fyrningarsjóðsgjald verði breytt. Með þeirri fyrirhuguðu lagabreytingu er stefnt að því að gera verksmiðjustjórninni mögulegt að reikna fyrningarsjóðsgjaldið í framtíðinni á sama hátt og hún hefur gert síðan 1959, en ef það væri rétt, sem lögfræðingur verksmiðjunnar hefur haldið fram, að þetta hafi verið löglegt, þá gæti verksmiðjustjórnin haldið því áfram, án þess að nokkur lagabreyting væri gerð. Tillöguflutningur ríkisstj. um þetta efni sýnir því glöggt, að hún sjálf treysti ekki því lögfræðingaáliti, sem hæstv. landbrh. er hér að vitna til.

Um þetta mál sagði ráðh. enn fremur, að allir þeir fimm menn, sem sæti eiga í stjórn áburðarverksmiðjunnar, hefðu verið sammála um hækkunina á fyrningarsjóðsgjaldinu og áburðarverðinu. En þær byrðar, sem lagðar hafa verið á bændur með of háu áburðarverði síðustu árin, eru þeim ekkert léttbærari fyrir það, þó að allir stjórnarnefndarmennirnir í áburðarverksmiðjunni hafi verið sammála um að hækka verðið.

Þegar hér var komið ræðu ráðh. á þriðjudaginn var, var hann kominn í þann ham, að hann fór að tala ljótt. Hann sagði, að ég væri með lymskulega tilraun til að blekkja menn, lágkúrulegan hugsunarhátt o.s.frv. Ég hef ekki farið með neinar blekkingar. Ég hef vitnað í lögin um áburðarverksmiðjuna. En úr því að hæstv. ráðh. telur rétt og sæmilegt að hafa svona orðbragð, þá verður það víst svo að vera. Ekkert skaðar það mig og ekki heldur það mál, sem ég er að flytja. Það kemur stundum fyrir, að menn nota ljót orð, þegar rökin skortir. Sú hefur líklega verið ástæðan hjá hæstv. ráðh. í þetta sinn.

Ég vil að lokum ítreka það, að ég tel, að áburðarverksmiðjan eigi að endurgreiða viðskiptamönnum sínum það, sem hún hefur tekið af þeim síðan 1959 með of háu áburðarverði. Samtals er þetta orðið mikið fé.