02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

22. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var vitað fyrr, að hv. 7. þm.. Reykv. hefur sérstaka ást á nefndum og þykir sjaldan of mikið af þeim, enda hafði hann tillögu hér fram að bera um það að stofna nú enn eina nefnd. E.t.v. hefur þessi hv. þm., von um það að fá sæti í n. og hafa það starf með höndum að verðleggja áburð. Það má vel vera, að eftir þær umr., sem hér fara fram um áburðarverksmiðjuna og áburðarsöluna, hafi hann öðlazt nokkra þekkingu til þess að fá sæti í þessari nefnd og verðleggja áburð.

En það er náttúrlega ekki rétt, sem þessi hv. þm.. sagði, að áburðarverksmiðjan réði því sjálf, hvaða verð væri sett á áburðinn. Hv. þm., þarf ekki annað en að fletta upp lögunum, og þar stendur skýrt og greinilega, að það skuli vera bundið við kostnaðarverð, og það þarf að vera endanlega samþykkt af ráðh. Hv. Alþ, kýs meiri hluta stjórnarinnar, 3 menn af 5. Ég held, að hv. Alþ. verði að reyna að velja þá menn í stjórn áburðarverksmiðjunnar, sem það getur treyst, og þar að auki tilnefnir SÍS fjórða manninn, — þá ætti SÍS að geta valið mann, sem það treystir, — og fimmti maðurinn er svo kosinn af öðrum hluthöfum. En það vill svo til, að stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur verið sammála um, hvaða tillögur skyldi gera til landbrh. að undanförnu, öll stjórnin sammála um það. Það hefur komið ein tillaga. SÍS-fulltrúinn hefur ekki skorið sig frá, fulltrúi Framsfl. í stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur ekki skorið sig frá, stjórnin öll hefur verið sammála og gert tölögu um, að verðið skuli miðað við kostnað. Hún hefur verið sammála um það, að áburðarverksmiðjan skuli ekki rekin með tapi, hún skuli vera rekin þannig, að hún geti orðið starfhæf áfram, og stjórn áburðarverksmiðjunnar hefur á þennan hátt ekki aðeins verið að þóknast hagsmunum bændastéttarinnar, því að bændur gera kröfu til þess, að áburðarverksmiðjunni verði haldið í starfhæfu ástandi, heldur hafa þeir gert þetta af skyldu við þjóðfélagið því að þetta er fyrirtæki, sem þjóðin á að meiri hluta til, og þetta er þjóðþrifafyrirtæki, sem er skylt að halda í rekstrarhæfu ástandi og vinna að aukningu á. Ég held, að ef hv. Alþ. er óánægt með þá stj., sem nú er í áburðarverksmiðjunni, væri nær að gera till. um breyt. á 1., þannig að mætti strax endurkjósa, heldur en að fara að skipa nefnd, til þess að einhver hv. þm.., sem kannske vildi fá sæti í slíkri nefnd, gæti komizt þar að.

Hv. þm.. talaði um, að það hefði verið talað óvirðulegum orðum um dr. Björn Jóhannesson, sleggjudómur um fræðimann. Allir hv. þingmenn, nema þessi eini hv. þm., sem hlustuðu á það, sem ég sagði hér, þegar þetta mál var til umr., munu ekki geta tekið undir þessa fullyrðingu þm., vegna þess að ég kvað ekki upp neinn sleggjudóm um fræðimennsku dr. Björns. Ég sagði miklu frekar, að þessi maður væri fræðimaður hvað jarðvegsrannsóknir snertir og ég væri fús til þess að leita til hans, ef mig vantaði vitneskju um, hvaða áburðartegundir skyldi bera á. En að hann sé fræðimaður á viðskiptasviði, því neitaði ég alveg og því neita ég enn, og þess vegna mundi ég ekki, ef ég þyrfti með, leita ráða hjá honum á því sviði. Ég hygg, að margir af þeim, sem eiga sæti í stjórn áburðarverksmiðjunnar, séu miklu fróðari dr. Birni á því sviði, og ég álít, að hann hafi gengið út fyrir sinn verkahring, þegar hann skrifaði hina frægu grein í Tímann, og fullyrðingar hans um það, að áburðarverksmiðjan skuli endilega flytja inn lausan áburð, ósekkjaðan, hvort sem það borgi sig eða ekki, eru vitanlega ekki svaraverðar. Áburðurinn verður því aðeins fluttur ósekkjaður til landsins, að það borgi sig. Það er reikningsdæmi: Hversu mikið verður áburðurinn ódýrari með því að kaupa hann ósekkjaður? Hversu mikið verður fraktin ódýrari með því að flytja hann ósekkjaðan? Þetta er reikningsdæmi, og ég hygg, að hv. 7. þm.. Reykv. og við báðir, ef við leggjum saman, gætum reiknað út, hvort það borgar sig að flytja inn ósekkjaðan áburð eða sekkjaðan. En þá verðum við fyrst að vita, hver er munur á innkaupsverði á ósekkjuðum áburði og sekkjuðum, við verðum að vita, hver er munurinn á fraktinni að flytja hann ósekkjaðan eða sekkjaðan, og við verðum að vita, hvað kostar að sekkja hann hér. Og við verðum þá vitanlega líka að taka með í reikninginn, hvað það kostar að flytja hann úr Gufunesi og út á hinar ýmsu hafnir kringum landið. Það eru þarna einar tvær eða þrjár óþekktar í þessu dæmi, en ég hygg, að ef við legðum saman, mundum við finna þær. Og stjórn áburðarverksmiðjunnar vitanlega flytur áburðinn inn í því ásigkomulagi, sem borgar sig. Það þýðir ekkert að halda því fram, að stjórar áhurðarverksmiðjunnar, verksmiðjustjóri, framkvæmdastjóri og verkfræðingar verksmiðjunnar geti ekki reiknað svona einfalt dæmi. En það komu ekki fram í grein dr. Björns neinir útreikningar, heldur aðeins fullyrðingar um, að það ætti að flytja inn lausan áburð og það borgaði sig ekki. Er þetta einhver fræðimennska? Er þetta eitthvað, sem á að taka tillit til? Ég segi, að þegar menn ganga út fyrir sína fræðimennsku og fara að skrifa um það, sem þeir hafa ekki þekkingu á, þá hafa þeir menn minnkað sjálfa sig, og mér þykir það leitt, að dr. Björn gerði það með þessum skrifum sínum.

Hv. þm.. talaði um, að hér hafi verið brotin lög, mér þykir það leitt, ef hv. þm.. hefur ekki flett upp í lögunum, áður en hann viðhafði þessa fullyrðingu. Hann tekur undir með flokksbróður sinum og talar um, að það sé óheimilt að fela öðru fyrirtæki en verzlunarfyrirtæki að annast rekstur áburðarsölunnar. En ef hv. þm.. hefur gleymt að lesa lögin, áður en hann fór að tala um lögin, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp 4. gr. laga um verzlun með tilbúinn áburð, en 4, gr. hljóðar svo:

„Heimilt er ríkisstjórninni að fela Sambandi íslenzkra samvinnufélaga eða öðrum aðila,“ ekki verzlunarfyrirtæki, heldur aðila, — „er henta þykir, rekstur áburðarsölu ríkisins og leggja fram eða ábyrgjast fé, sem til þess þarf.”

„Eða öðrum aðila, er henta þykir: “ Þetta veit ég að er alveg ljóst, þegar menn hafa lesið þessa grein, og ég ætla, að hv. 7. þm.. Reykv. sé einnig í þeirra tölu, — þegar þeir hafa lesið þessa grein, hætta þeir að tala um lögbrot í þessu efni. En tali menn um, að það sé verið að brjóta einhver lög, sem þeir hafa ekki lesið, þá er það of mikil fljótfærni af einum þm.. Það er of mikil fljótfærni. En það er sjálfsagt að fyrirgefa þetta, ef það er gert af gáleysi, en ef þetta er gert af ásetningi, þá er það verra.

Hv. þm.. talaði um, að hér sé verið að leika skrípaleik. Í hverju liggur þessi skrípaleikur? Liggur hann í því, að það er farið að lögum, að einu fyrirtæki er falinn rekstur Áburðarsölu ríkisins samkv. lögum? Er það skrípaleikur? Getur nokkur skrípaleikur legið á bak við það að gera áburðarverzlunina ódýrari og einfaldari en áður hefur verið?. Er einhverjum gert tjón með því? Er það einhver skaði, þótt bændur fái áburðinn 100 kr. lægri hvert tonn á næsta vori en annars hefði verið, ef óbreytt ástand hefði ríkt? Hv. 7. þm.. Reykv. mun e.t.v. segja, að bændur hafi ekki óskað eftir því. Ég er alveg sannfærður um, að þeir fagna því. Þeir hafa hins vegar kannske ekki verið búnir að átta sig á því, sem ekki var von, að þessi möguleiki væri fyrir hendi. En hann er fyrir hendi, og þess vegna er skylt að nota hann, og þess vegna er enginn skrípaleikur hér leikinn, þótt þessi stjórnarathöfn hafi verið gerð, enda þótt frv. það, sem hér liggur fyrir og er til umr., hafi verið lagt fram, því að frv. fer ekki fram á heimild til þess að ráðstafa áburðareinkasölunni, frv. fer fram á það, að áburðareinkasalan verði lögð niður, og hún verður ekki lögð niður, nema lögunum verði breytt, og það er Alþingi eitt, sem getur það. Þess vegna er frv. lagt fram.

Nú segir hv. þm.., að þetta frv. sé lagt fram í þriðja sinn. Það er rétt. Það hefur verið tvisvar lagt fram áður, en þó ekki í því formi, sem það nú er. Nú hefur 1. gr. frv. verið breytt þannig, að það er ekki gert ráð fyrir því með lögunum, að áburðarverksmiðjan ein geti flutt inn áburð, heldur er gert ráð fyrir því samkv. 2. mgr. 1. gr., að ríkisstj. geti falið áburðarverksmiðjunni að flytja inn áburð, m.ö.o. aðila, sem tryggir það, að nægur áburður sé fyrir hendi. En þrátt fyrir þetta geta aðrir flutt inn áburð, ef þeir treysta sér til að gera það á eins hagkvæman hátt og áburðarverksmiðjan. Það er þessi breyting, sem hefur verið gerð á frv. frá því í fyrra, og það er enginn vafi á því, að mörgum þm., finnst það vera betra í þessu formi en það var, enda kom það hreinlega fram í hv. fjhn., sem fjallaði um málið á síðasta þingi. Það má þess vegna ætla, að frv. hafi nú í þessu formi mun meira fylgi en það áður hafði.

Hv. þm.. var að tala um, að það væri verið að skapa áburðarverksmiðjunni alveg sérstaka aðstöðu til einokunar. Þetta er ekki rétt. En það skal viðurkennt, að áburðarverksmiðjan hefur sérstaka aðstöðu. Hún hefur þá aðstöðu að geta gert þetta á ódýrari og hagkvæmari hátt en annar aðili, og það held ég að við verðum að fullyrða, þangað til á annað reynir. En það væri ekki nema gott, að það reynist svo, að það væri hægt að gera það á enn hagkvæmari hátt, því að hverjir njóta þess nema þá bændurnir, að áburðurinn verði ódýr? Og það má þó segja, að það njóti þess fleiri. Það njóta þess allir landsmenn, ef áburðarverðið getur lækkað, vegna þess að áburðarverðið fer inn í verðlag landbúnaðarvara. Það er þess vegna hagmunamál að tryggja það, að áburðarverðið geti á hverjum tíma orðið sem lægst.

Hv. þm.. talaði um, að það sannaði, að ég teldi heimildina fyrir auknum afskriftum vafasama, að það væri farið fram á að breyta þessari heimild samkv. 2. gr. frv. Það sannar það ekki. Hitt er annað mál, að þetta er þriðja þingið, sem hv. þm.. úr stjórnarandstöðunni leyfa sér að fullyrða, að lögin hafi verið brotin. Lögfróðir menn skilja lögin eins og þau eru nú, að það sé heimilt að afskrifa samkv. endurnýjunarverði. En hér í hv. Alþ. eru menn, sem koma með fullyrðingar, sem stangast á við fullyrðingar hinna lögfróðu manna. Og það er til þess að hv. 7. þm.. Reykv. og hv. 1. þm.. Norðurl. v. skilji, hvað í l. felst, að ger;a þetta orðalag skýrara og tvímælalaust, og ég ætla, að það sé öllum fyrir beztu, að orðalag hverrar lagagreinar sé þannig, að það sé auðveldast að skilja það, einnig fyrir þá, sem eru ekki lögfróðir. Það er þess vegna, sem er eðlilegast, að um leið og þetta frv. er lagt fram, þá verði þetta lagaákvæði gert skýrara.

Hv. 7. þm.. Reykv., enda þótt hann segði hér marga furðulega hluti, sem gaman er að geyma á spjöldum þingtíðindanna, þá gekk hann þó ekki eins langt að einu leyti og flokksbróðir hans, hv. 1. þm.. Norðurl. v. Ég vænti, að hv. þm.. hafi nú tekið eftir, hvernig hann rökstuddi sitt mál, hvernig hans fullyrðing var. Hann sagði: Þessi lögbrot byrjuðu 1959, þegar Alþýðuflokksráðherra var landbrh., þá notaði stjórn áburðarverksmiðjunnar tækifærið til þess að brjóta lögin. — Öll stjórnin, einnig fulltrúi SÍS, einnig fulltrúi Framsfl., kosinn af Alþingi. En það var þá, sem var alveg sérstakt tækifæri til þess að brjóta lögin. Hvers vegna? Það var vegna þess, að það var bæjarfógeti landbrh. Það var líklegast, að hann væri fúsari en ólöglærður maður, fyrirrennari hans, til þess að brjóta lögin. Hafa nú ekki hv. þingmenn tekið eftir, hve mikill ósómi er að baki þessum fullyrðingum og hvað mikil rakaleysa þetta er, að einmitt vegna þess að það var bæjarfógeti, reyndur maður á þessu sviði, þá vildi stjórn áburðarverksmiðjunnar nota tækifærið loksins til þess að brjóta lögin, ekki meðan það var ólögfróður maður í ráðherrastól, heldur bara í þetta eina skipti, sem lögfróður maður kom? (Gripið fram í.) Þetta er það, sem menn hljóta að taka eftir, því að það hefur oft verið, sem ólögfróður maður hefur verið landbrh. og þá ekki síður frá Framsfl. en öðrum. En þetta er bara dæmi um það, hvernig fullyrðingar koma hér fram, sem stangast alveg á við heilbrigða skynsemi.

Ég tel ekki ástæðu til að svara fleira af því, sem þessir hv. þm.. sögðu. Fullyrðingar þeirra stangast á við staðreyndir algerlega. Þeir tala um lögbrot, og ég vænti þess, að þeir hafi gert það í gáteysi, áður en þeir lásu lagagreinina, því að lagagreinin er skýr. Hér er ekki um nein lögbrot að ræða. Þeir tala um, að lögin hafi verið brotin í sambandi við afskriftir áburðarverksmiðjunnar. Það er einnig út í bláinn, vegna þess að það stangast algerlega á við staðreyndir og margendurtekna úrskurði hinna færustu manna. Og ég verð að segja, að það er ótrúlegt, hvers vegna þessir hv. þm.. sækja þetta mál af svo miklu ofurkappi sem þeir hafa gert. Þeir vita báðir, þessir menn, að með því að breyta þessari skipan með áburðarinnflutninginn, leiðir það til þess að lækka áburðarverðið. Þeir vita, að bændur njóta þess, og þeir vita, að allir landsmenn njóta þess. Samt er haldið áfram að þræta og fullyrða án þess að hafa nokkur frambærileg rök. Það er óskiljanlegt, þegar greindir menn haga sér á þann veg.