02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

125. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er í nánu sambandi við það frv., sem var til umr. hér næst á undan og var lagt fram af þáv. hæstv. heilbrmrh., Jóhanni Hafstein, fyrir jólin, og gat hann í ræðu sinni hér áðan um aðalefni þess, en það er, að nú verði læknum heimilt að taka gjald fyrir viðtöl og vitjanir einnig á 2. verðlagssvæði, en það var áður einungis á 1. verðlagssvæði, og auk þess er numin úr lögum sú lögákvörðun gjaldsins — 5 eða 10 kr. — sem hingað til hefur gilt, en ætlazt til, að um þetta verði sett ákvæði í reglugerð eða gjaldskrá héraðslækna. Það sýnist vera eðlilegt, að sams konar reglur gildi um þetta hvarvetna, og nokkur tekjuauki mundi verða af þessu fyrir þá lækna, sem áður hafa ekki notið þessara hlunninda, svo að að því leyti stuðlar það, svo langt sem það nær, að lausn þess vandamáls, sem við höfum verið að ræða um. Að öðru leyti er sjálfsagt, að þetta mál verði athugað í sambandi við fyrra frv. og málið í heild, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.