13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

20. mál, efnahagsmál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Hæstv. forseti. Efni þessa frv. er í raun og veru tvíþætt. Það er annars vegar að lækka vexti í það, sem þeir voru, áður en ríkisstj. setti efnahagslöggjöfina í byrjun árs 1960, á hinn bóginn að láta sparifé landsins vera í umferð, í stað þess að loka það að verulegu leyti inni og frysta í bankakerfinu.

Eins og hv. þm.. vita mjög vel, voru þessir tveir höfuðþættir ofnir í samdráttarkeðjuna, annars vegar að setja á okurvexti og á hinn bóginn byrja að draga inn í Seðlabankann hluta af því, sem landsmenn lögðu fyrir í sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, og frysta það þar inni og koma í veg fyrir, að það fé gæti notazt til útlána. Þessar ráðstafanir hafa að dómi okkar flutningsmanna þessa frv. reynzt mjög óheppilegar og gert mikið tjón, verkað í þá átt að draga úr framleiðslunni stórkostlega og þjóðartekjunum þann tíma, sem þær hafa verið í framkvæmd. Vextir þeir, sem framleiðslan hér þarf við að búa, eru hærri en í flestum öðrum löndum og miklu hærri en keppinautar útflytjendanna hér eiga við að búa í sínum löndum. Það má nærri geta, hvaða áhrif þetta hefur á útflutningsframleiðsluna hjá okkur.

Það kveður svo rammt að þessu vaxtaokri hér, að jafnvel eftir lækkunina, sem ríkisstj. neyddist til að framkvæma í byrjun árs 1961 vegna þess, hvað gagnrýnin var sterk og áhrifin háskaleg, að jafnvel eftir þessa lækkun meta sölusamtök hraðfrystihúsanna í sínum rekstraráætlunum eða verðmyndunaráætlunum, að vaxtakostnaðurinn hjá húsunum sé 40—45% af vinnulaununum. Þetta er niðurstaðan af þeim verðreikningum, sem ég hef haft með höndum frá þessum samtökum.

Á þessu sjáum við, hvernig þetta vaxtaokur leikur útflutningsframleiðsluna og hvaða áhrif þetta hlýtur að hafa á fiskverðið og rekstur sjávarútvegsins. Að vísu kemur vaxtabyrðin í sjávarútveginum mjög fram hjá vinnslustöðvunum, vegna þess að bátar selja yfirleitt fiskvinnslustöðvunum fiskinn strax upp úr sjónum. En þetta er eigi að síður nokkuð glöggt dæmi og sést, í hvert öngþveiti þessum málum er stýrt með þessu móti.

Talsvert mikið af því lánsfé, sem er í sjávarútveginum og landbúnaðinum, er frá Seðlabankanum komið með endurkaupum á víxlum frá þessum atvinnugreinum, endurkaupum, sem Seðlabankinn hefur með höndum. Og það var siðvenja hér áður, að Seðlabankinn tók ekki nema 5–51/2 % í vexti af þessum endurkaupavíxlum. En þeir, sem stóðu fyrir viðreisninni, skelltu þessum vöxtum upp í 9–91/2 %, en neyddust raunar síðar, eftir tæpt ár, til að lækka þá ofan í 7–71/2 %, sem þeir eru núna. Hér er um hreina skattlagningu á útflutningsatvinnuvegina að ræða, atveg hreina skattlagningu að ræða, því að þetta fjármagn, sem Seðlabankinn setur í umferð með þessu móti, kostar bankann vitaskuld sáralítið. Hér er því um hreina skattlagningu að ræða á þessa starfsemi, sem mál er að linni. Virðist vera alveg nægilegt, að framleiðslan greiði fyrir þessi lán 5–51/2 %, eins og var áður.

Þá voru vextir hækkaðir mjög á útlánum viðskiptastofnana og innlánsvextir um leið. Það var sagt, að þetta ætti að þjóna tvenns konar tilgangi, draga úr útlánum, draga úr eftirspurn eftir lánum og vera til hagsbóta fyrir sparifjáreigendur. En hvorugt hefur orðið. Eftirspurn eftir útlánum hefur vafalaust verið meiri en nokkru sinni fyrr, síðan þetta nýja kerfi var sett á fót, að ekki sé meira sagt, a.m.k. ekki minni. Og það er af því, hvernig þjarmað hefur verið að atvinnurekstrinum og mönnum yfir höfuð. Menn hafa verið að reyna í ofboði að útvega sér lán til þess að komast hjá því að missa eignir sínar og að rekstur þeirra strandaði:

Varðandi hagsbætur sparifjáreigenda af hinum hækkuðu vöxtum og þeirri pólitík er það að segja, að pólitík hinna háu vaxta hefur m.a. orðið til þess að skrúfa upp dýrtíðina í landinu, og hefur endahnúturinn verið rekinn á þessa pólitík með því að fella gengi peninganna í annað sinn á 16 mánuðum. Ekki aðeins allur ávinningur, sem sparifjáreigendur gátu hugsað sér af þessari stefnu, hefur orðið að engu, heldur hefur þessi stefna leitt til stórfelldara tjóns fyrir sparifjáreigendur en nokkurn gat órað fyrir að kæmi til mála, þegar á þessu var byrjað. Þetta hefur farið verr en menn vildu spá fyrir fram. Það er ekkert vafamál, að fyrir sparifjáreigendur mundi borga sig miklu betur, að það yrði tekin upp sú pólitík að reyna með öllu hugsanlegu móti að halda jafnvægi í verðlagsmálunum með því að ýta undir aukningu framleiðslunnar, fyrst og fremst með hóflegri vaxtapólitík. En þessi okurvaxtastefna með öðru fleira verður til þess að draga úr framleiðslunni og þar með ýta undir dýrtíðaraukningu og gengislækkanir, sem engum verða að jafnmiklu tjóni og sparifjáreigendum.

Ríkisstj. mun að vísu hafa séð missmíði á þessari vaxtapólitík og slakaði þess vegna til ársbyrjun 1961. Það var látið heita svo, að það væri gert vegna þess, að eitthvað hefði lagazt, þannig að það væri fremur hægt að koma því við en hefði verið áður. En það var auðvitað ekkert nema fyrirsláttur, því að allt stóð þá verr en nokkru sinni fyrr. En lækkun vaxtanna þá kom aðeins vegna þess, að ríkisstj. sá, að hún hefði gert herfilega vitleysu með því að taka upp þessa okurvaxtapólitík, enn fremur vegna þess, að andúð manna í landinu var mjög sterk gegn þessu og augljóst það tjón, sem bæði framleiðendur og almenningur urðu fyrir vegna þessarar stefnu.

Ég hef nú rætt hér um áhrif þessarar stefnu á framleiðsluna í landinu. En það mætti einnig margt um það segja, hvernig þessi okurvaxtapólitík kemur út fyrir almenning, eins og t.d. þá, sem þurfa að byggja sér þak yfir höfuðíð og gera aðrar framkvæmdir. Hvaða vitglóra er í því, eins og uppihaflega var til ætlazt, að þetta fólk borgaði 11–12% vexti af almennum, venjulegum lánum? Þá er einnig þess að geta, að þegar okurvaxtapólitíkin var tekin upp, var breytt öllum lánskjörum hjá stofnlánasjóðum, bæði fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn, stórhækkaðir vextirnir og stytt lánin um leið. Þannig var allt gert til þess að setja fótinn fyrir, að þar gæti haldið áfram jafnör uppbygging og verið hafði. Þetta á eftir að koma mönnum stórkostlega í koll, áður en langt um liður, að þannig hefur með þessari nýju lána- og vaxtapólitík verið settur fóturinn fyrir eðlilega uppbyggingu, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, iðnaði og öðrum greinum. En í þessu frv. er það einn liðurinn að færa vextina og lánstímann í fjárfestingarlánasjóðum landsmanna yfir höfuð í sama horf og þeir voru áður.

Ég ætla, að menn hljóti að vera búnir að fá reynslu fyrir því, að engin íslenzk framleiðsla getur í raun og veru borið þessa okurvexti og að það muni vera öllum fyrir beztu að breyta um stefnu í því efni.

Þegar hin nýja efnahagspólitík var tekin upp, var það einn liðurinn, eins og ég gat um í upphafi þessara orða, að láta Seðlabankann draga inn til sín hluta af sparifjáraukningunni og einnig hluta af því, sem safnaðist í innlánsdeildir kaupfélaga. Það var sagt, að þetta ætti að gera til þess að draga úr verðbólguþróuninni. Fram að þeim tíma höfðu víst allir verið sammála um, að það væri mjög þýðingarmikið fyrir þjóðarbúskapinn, að spariféð væri í umferð. Menn höfðu mjög mikið talað um það og gert sér grein fyrir því, að það safnaðist litið sparifé í landinu, það þyrfti að vaxa, ekki til þess að það væri lokað inni og lagt dautt í efnahagskerfinu, heldur til þess að hægt væri að lána spariféð út aftur og láta það vera í umferð í framleiðslu og framkvæmdum. En það virðist vera eitt trúaratriði þeirra, sem standa fyrir þessari stefnu, að það sé verðbólguaukandi og þjóðhættulegt, að spariféð fái þannig að vera í umferð. Og þeir tala um útlán á sparifénu aftur til fyrirtækja og einstaklinga eins og þar væri að ræða um ábyrgðarlausa lánapótitík, eins og verið væri að búa til peninga, sem mundu valda því, að allur þjóðarbúskapurinn færi úr skorðum og afkoma landsins út á við yrði með öllu óbærileg.

Þetta eru harla nýstárlegar kenningar og furðulegar og eiga auðvitað ekkert skylt við veruleikann, því að vafalaust er það eitt undirstöðuatriði í þjóðfélagi, þar sem óunnin verkefni bíða alls staðar og alls staðar er fólk, sem vill ráðast í nýjar arðgæfar framkvæmdir, — í slíku þjóðfélagi er það undirstöðuatriði, til þess að framleiðslulífið geti gengið með eðlilegu fjöri, að það fjármagn, sem safnast á heilbrigðan hátt í sparifjáraukningu og lagt er fyrir í landinu, sé haft í umferð, lánað út þeim, sem vilja standa fyrir framkvæmdum og framleiðslu. Þetta er hvorki meira né minna en lífsskilyrði og ein helzta undirstaða þess, að íslenzkt þjóðfélag geti orðið byggt upp með hæfilegum krafti.

Við leggjum því til, að heimildin til þess að draga spariféð inn í Seðlabankann og frysta það þar inni sé gersamlega numin úr lögum, því að hún hefur verið misnotuð á herfilegan hátt nú undanfarin misseri. Í júnímánuði í vor fékk ég upplýsingar um þessi mál, og þá mun hafa verið búið að frysta inni um 150 millj. kr. af sparifénu í Seðlabankanum. Og þar að auki höfðu bankarnir, það sem kallað er, bætt aðstöðu sína eitthvað við Seðlabankann. Því fór því alls fjarri, að þetta fjármagn hefði farið til útlána. Það hafði verið dregið inn gersamlega og lagt dautt og meira til, því að aðstaða lánsstofnana hafði þar að auki batnað gagnvart Seðlabankanum.

Til viðbótar þeim lánasamdrætti, sem felst í þeirri nýstárlegu pólitík að loka spariféð inni og leggja það dautt í kerfið, var fundin upp sú aðferð að lána minna út á afurðir landsmanna í rekstrarlán en áður hafði verið gert. Þetta var framkvæmt þannig, að þrátt fyrir gengislækkunina fyrri og mikla verðhækkun á útflutningsvörum, sem af henni hlaut að stafa, var tekin upp sú stefna að lána sömu krónutölu út á magn afurðanna og áður. Því var slegið föstu, að það hefðu verið verðbólguútlán að lána út á afurðirnar eins og gert hafði verið, og byrjað að draga inn á þennan hátt.

Þar að auki var svo ákveðið, sem sérstakt vinarbragð í garð landbúnaðarins, að ekki mætti hækka í krónutölu í Seðlabankanum, sem er nú eins konar afgreiðsluskrifstofa fyrir stjórnarráðið, sú fjárhæð, sem lánuð væri samanlagt út á landbúnaðarafurðir, hversu mikið sem landbúnaðarframleiðslan ykist. Þetta var vinarkveðja aukalega til landbúnaðarins frá ríkisstj. og sýnir ofur lítið, hvernig ríkisstj. metur landbúnaðinn sem þátt í efnahags- og framleiðslulífinu, og sýnir líka áhugann á því, — eða hitt þó heldur, — að landbúnaðarframleiðslan vaxi. Það var sem sé sérstaklega ákveðið, að það mætti ekki lána einni krónu meira í heild út á landbúnaðarafurðir en áður þrátt fyrir hinar gífurlegu verðhækkanir og hversu mikil sem aukningin á landbúnaðarframleiðslunni kynni að verða. Það skyldi undir öllum kringumstæðum vera slegið þar slagbrandi kirfilega fyrir. Slík óhæfa yrði ekki studd af bankakerfinu, að landbúnaðarframleiðslan ykist.

Þessi samdráttur, sem á þennan hátt var innleiddur í lánakerfinu, með því að minnka þannig raunverulega stórkostlega lánin út á afurðirnar, nemur stórfé til viðbótar því sparifé, sem beinlínis er lokað inni. Lánasamdrátturinn í heild nemur því mörg hundruð millj. kr., enda afleiðingarnar af honum þannig fyrir framleiðsluna og fyrirtækin mörg í landinu, að þau hafa orðið fyrir stórtjóni og miklu framleiðslutapi vegna þessa fruntalega samdráttar, sem framkvæmdur hefur verið á þessa lund í bankakerfínu.

Ég veit ekki, hve mikið hefur bætzt við hið dauðadæmda sparifé síðan í maí eða júní s.l. vor, en ég efast ekki um, að það hefur drjúgum bætzt við það síðan. Og í hvert skipti, sem út kemur hefti af tíðindum Seðlabankans, þar sem skrifar einn aðalráðunautur ríkisstj. um þessi mál, er verið að gorta af því, að alltaf gangi betur og betur að draga saman lánastarfsemina og loka inni spariféð. Er það talinn alveg sérstakur vottur um, hvað allt sé heilbrigt og á góðri leið.

Þessar aðfarir eru viðhafðar til þess að skapa lánsfjárskort, — ég segi: beinlínis skapa, því að ég sé ekki, að hægt sé með nokkrum skynsamlegum rökum að halda því fram, að það séu verðbólguútlán að lána út það, sem lagt er inn í bankana. Jafnhliða því, sem svona. er unnið að samdrættinum, er mönnum svo daglega, eins og gefur að skilja, bæði þeim, sem haf;a framleiðslu með höndum, reyna að koma sér upp íbúðum t.d. eða bara reyna að bjarga sér einhvern veginn undan dýrtíðarófreskjunni og hagræða málum sínum, neitað um lán og sagt, að peningarnir séu ekki til. Það er sagt, að peningarnir séu ekki til, eftir að búið er að gera þessar ráðstafanir, sem ég hef verið að lýsa. Menn fá þessi svör: Það sé því miður ekki hægt, peningarnir séu ekki til.

Og hvers vegna eru svo öll þessi ósköp gerð? Jú, það er sagt, að þetta sé gert til þess að styrkja gjaldeyrisstöðuna, því að þessi samdráttur verði að koma. Hann hjálpi til að minnka kaupgetuna og draga úr fjárfestingunni. Þess vegna sé verið að reka þessa pólitík, dæma verulegan hluta af sparnaðinum til dauða. Það verði að reka þessa pólitík til að bjarga gjaldeyrisstöðunni út á við.

En það hefur víst aldrei hvarflað að þeim mönnum, sem fyrir þessu standa, að þessar ráðstafanir allar hljóta að draga stórkostlega úr framleiðslunni. Mönnum er alveg umvörpum neitað um lán til þess að innleiða ýmsar tækninýjungar, sem mundu kasta af sér með aukinni framleiðni og auknum tekjum á stuttum tíma margföldu því fé, sem væri látið út úr hinum dauðu sjóðum til þess að koma þeim á. Mönnum er neitað um nýtízkutæki til þess að bæta aðstöðu sína á síldveiðum og í iðnaði. Og þannig mætti endalaust telja, hvernig þessi pólitík, sem á að vera, að því er sagt er, til þess að styrkja stöðu landsins út á við, — hvernig hún grefur undan eðlilegum framförum og skrúfar landið og þjóðina niður, í stað þess, að ef skynsamlega væri á þessum málum haldið, án þess að út í nokkurn glannaskap væri farið, — ég er ekki að mæla með því, að það sé farið út í neinn glannaskap í útlánapólitíkinni eða lána út peningamagn, sem ekkert er á bak við, ég hef aldrei verið talsmaður þess, — ef skynsamlega væri að farið og sá sparnaður, sem raunverulega verður með þjóðinni, væri hyggilega notaður til þess að ýta undir aukna framleiðni og aukna framleiðslu og aukið eðlilegt starf til þess að auka tekjurnar, þá mætti búast við miklu betri árangri í heild í þjóðarbúskapnum.

Tökum dæmi um heimili, sem væri í vanda með að ráða fram úr vandamálum sínum. Auðvitað væri um tvennt að velja, ef það hefði dálítil peningaráð. Önnur aðferðin væri sú að nota þetta fé til að kaupa aukinn bústofn eða kaupa bát eða kaupa ný tæki á bát eða ný tæki til iðnaðar, sem allt væri til að auka framleiðsluna. Hin aðferðin væri sú að leggja þessa peninga í frystihólf ríkisstj. í Seðlabankanum, — eða þá bara frystihólf, sem menn kæmu sér upp heima hjá sér, en það væri alveg sambærilegt við þessa stefnu, sem ríkisstj. rekur, að þetta heimili kæmi sér upp einhverju hólfi og þar væru þessir peningar látnir. Ég sé, að menn kíma að þessu, En þetta er nú þrátt fyrir það ekkert broslegt, því að þetta er það, sem nú er verið að gera með því að loka inni hluta af sparifénu.

Það eru alls staðar möguleikarnir, og það er alls staðar fólk, sem þarf á þessu fjármagni að halda til þess að auka tekjur sínar og þjóðarbúsins um leið. En ríkisstj. segir: Nei, það má ekki, það eyðileggur gjaldeyrisstöðuna út á við að lána út allt spariféð, og það er fundið upp þetta nýja læknislyf að leggja peningana í staðinn í frystihólfið. Og það er alveg hliðstætt því, að heimili, sem ætti um tvennt að velja, tæki upp á því að leggja peninga í kæliskápinn, í stað þess að reyna að notfæra þá til að rífa sig út úr erfiðleikunum með aukinni framleiðslu og auknu starfi, eins og íslenzka þjóðin hefur ævinlega gert á undanförnum áratugum og nærri því hvert einasta heimili í landinu, þangað til þetta nýja „patent“ var fundið upp.

Það mætti nær endalaust færa til dæmi um, hvað þetta er áheppileg stefna og hversu hörmulega þetta kemur niður. Ég vil ekki fara lengra út í það að sinni.

Ég vil að lokum aðeins rifja upp, að með þessu frv. er lagt til að færa vextina í það, sem þeir voru fyrir viðreisnina, að heimildin til þess að taka sparifé úr umferð og fé innlánsdeildanna verði numin úr lögum og að vextir og lánstími á fjárfestingarlánum til ræktunar, bátakaupa og þvílíks lækki og færist í það, sem þeir voru fyrir viðreisnarráðstafanirnar.