14.11.1961
Neðri deild: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

32. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. þm. er þetta frv. kunnugt, svo að ég þarf ekki að hafa sérstaklega mörg orð um það. Það hefur verið flutt hér áður, og ég vona, að það fari nú að koma að því, að það verði flutt hér í síðasta sinn. Það gengur í stuttu máli út á það að taka af öll tvímæli um, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins, sjálfseignarstofnun, eins og stendur í 3. gr. l. um áburðarverksmiðju, og að láta þess vegna falla burt 13. gr. frv., þar sem tekið er fram, að áburðarverksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, en sú grein hefur orðið til að villa ýmsa, þannig að þeir hafa haldið, að áburðarverksmiðjan væri eign þessa hlutafélags. Með samþykkt þessa frv, væru tekin af öll tvímæli um þetta.

Áburðarverksmiðjan er nú 350 millj, kr. virði. Áburðarverksmiðjan hefur samkv. ársreikningunum 1960 í sínum fyrningarsjóðum 65 millj. kr. og í varasjóði 7 millj. kr., þannig að það er raunverulega búið að leggja þarna til hliðar um 72 millj. kr., frá því að hún tók til starfa.

Áburðarverksmiðjan hefur á ári gróða, sem er um 11 millj. kr., eftir að hafa greitt 5 millj kr. í vinnulaun og eftir að hafa greitt um 6 millj. kr. í vexti, þannig að áburðarverksmiðjan er með beztu fyrirtækjum fjárhagslega séð, sem rekin eru á landinu. Ég vil þess vegna vona, að hv. alþm., sem eiga m.a. að sjá um það að standa vörð um eigur ríkisins, að láta ekki óhlutvanda menn ræna þeim, — að þeir skilji, að það dugir nú ekki lengur að láta þetta mál standa svo, að það orki nokkurra tvímæla, að þetta mikla fyrirtæki sé eign ríkisins.

Í 3. gr. þessa frv. er ákvæði um, að ríkinu skuli skylt að innleysa hlutabréf þeirra aðila, sem eiga hlutabréf í rekstrarfyrirtækinu Áburðarverksmiðjan h/f, á nafnverði, en ef hluthafar krefjast meira, skuli samkv. ákvæðum þar um þingnefnd hafa þá heimild af hálfu Alþingis að greiða þeim meira. Eins og ég hef tekið fram áður, álít ég rétt, að það sé gert vel við þá hluthafa, sem þarna eru í, því að þeir hafa að nokkru leyti með óvarkárnum yfirlýsingum ráðherra 5 undanförnum 10 árum verið nokkuð blekktir um, hvaða vald eða eign þeir öðluðust með því að kaupa þessi hlutabréf í upphafi. Hins vegar sér hver maður, að þótt hluthafar hafi einu sinni keypt hlutabréf í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f fyrir 4 millj. kr., þá gefur það þeim engan eignarrétt í 350 millj. kr. fyrirtæki ríkisins, sem samkv. lögunum, 3. gr. þeirra, er sjálfseignarstofnun.

Ég vil leyfa mér að vona, að þetta frv. verði nú afgreitt frá þinginu. Það er beinlínis hættulegt, ef þetta mál dregst lengur. Það er búið að dragast allt of lengi. Og ég er hræddur um, að ef ekki verður farið að afgreiða þetta mál, þá fari svo, að það takist að ræna þessu mikla fyrirtæki úr eigu ríkisins. Ég veit að vísu, að sú stefna er uppi nú, svo að segja stefna rándýranna, að hrifsa til sín það, sem hægt er í þjóðfélaginu, og svífast einskis. En ég álít, að okkur, sem sitjum hér á Alþingi, beri að reyna að verja eigur ríkisins fyrir slíku rándýrseðli. Ég álít, að það eigi að berjast gegn þeirri stefnu rándýranna að reyna að breyta Íslandi nokkurs konar frumskóg gróðans, þar sem hver og einn rífi til sín það, sem hann getur. Og ég vil a.m.k. og hef reynt á undanförnum árum að leggja mitt fram til þess, að þetta mesta fyrirtæki íslenzku þjóðarinnar sé ekki rifið þannig til nokkurra örfárra manna, sem hafa ekkert til þess unnið að eignast það.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.