08.12.1961
Neðri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

54. mál, sjúkrahúslög

Guðlaugur Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég er mjög sammála hv. 1. flm. þessa frv. um þörf þess, að byggt verði nýtt sjúkrahús í Vestmannaeyjum. Hann gat þess í sinni framsöguræðu, hv. 1, flm., að ég hefði helzt úr lestinni við flutning þessa frv., frá því að það var flutt hér á síðasta þingi, og sagðist hann ekki vita ástæðuna fyrir því. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að þegar hann tjáði mér, að þeir hefðu hug á að flytja þetta frv. aftur, þá benti ég á, að þeir yrðu að gera sér ljóst, að þetta mál væri heima í héraði talið svo aðkallandi, að þeir með flutningi þessa frv. tefðu ekki fyrir eðlilegum framgangi þess. Eftir það var ekki á það minnzt við mig, að ég yrði meðflm., og er það ástæðan fyrir því, að ég er ekki á þessu þskj., en hefði að sjálfsögðu orðið það eins og í fyrra, hefði mér verið boðið upp á það.

Annars er um flutning þessa frv., fyrst farið er að ræða það á þessum grundvelli, rétt að láta það koma fram, að ég tel, að það sé kannske mjög góð sönnun fyrir afstöðu þeirra manna, sem stóðu að kjördæmabreytingunni á sínum tíma. Við héldum því fram þá, að hin ýmsu byggðarlög mundu fá betri stuðning fleiri þingmanna, ef kjördæmin yrðu stækkuð, og ég tel, að þetta frv. sanni það, að við höfum þar mjög á réttu að standa. Ég geri ekki ráð fyrir, að hvorki 1. né 2. flm. þessa frv. hefðu komið fram með það, hefði ekki kjördæmaskipunin verið komin á, og er ekkert við því að segja og hefði ekki verið hægt að ætlast til þess af þeim, þar sem þetta hefði þá ekki verið þeirra sérstaka áhugamál, svo að í þessu tilfelli hefur a.m.k. greinilega komið í ljós, að með kjördæmabreytingunni hefur þarna verið unnið gott verk.

Ég tel, að ég sé kannske kunnugastur þessu máli frá upphafi, og tel því rétt að gera grein fyrir því, eins og það liggur fyrir.

Það munu vera um 5 ár síðan fyrst var farið að tala um það í alvöru heima í héraði, að nauðsyn væri á því að byggja nýtt sjúkrahús í stað þess, sem nú er. Til þess, að við förum ekki í að breyta því sjúkrahúsi, sem nú er, liggja þær ástæður helzt, að það er þannig byggt og þannig staðsett, að því verður ekki að áliti sérfróðra manna komið við með góðu móti og ekki nema með ærnum kostnaði. Í árslok 1956 yfirtók bæjarsjóður Vestmannaeyja kvikmyndahúsrekstur þann, sem þá var á staðnum og var sá eini, sem var í gangi. Samhliða veitti þáv. menntmrh. kaupstaðnum heimild til undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts, og hefur því frá þeim tíma verið safnað í sjóð, og er réttilega sagt af flm., að sá sjóður er handbær og hefur verið lagður til hliðar úr bæjarrekstrinum og ætlaður sem undirstaða undir byggingu þessa mannvirkis. Einnig hefur á þessu tímabili af ýmsum félagasamtökum verið safnað fé, ýmist afhent sjóðnum eða það liggur í sérsjóði hjá þeim, og er ætlunin að nota það, þegar hafizt verður handa um bygginguna, og er mér ekki kunnugt um, hve mikið það er orðið samtals, en það mun vera allverulegt. Ég skal geta þess hér, að í vörzlu bæjarsjóðs eru ekki 800 þús. til 1 millj. kr., eins og fram kemur í frv. og fram kom hjá hv. frsm., heldur 1200—1400 þús. kr., þannig að fjárhagsaðstæður til að hefjast handa um byggingu eru betri en frv. gerir ráð fyrir,

En það er annað í þessu máli, sem ég get ekki fyllilega gert mér grein fyrir í sambandi við flutning þessa frv., en það er það, að allur undirbúningur að málinu er nú í dag kominn á lokastig. Fjármunum hefur verið safnað nægilega til þess, að það sé eðlilegt að hefja framkvæmdir þegar á næsta ári, teikningum er verið að ljúka, og sótt hefur verið um leyfi ráðuneytisins fyrir nokkru til að hefja bygginguna. Mér er ekki ljóst, hvað flm. ætlast til nú af okkur heima í héraði, hvort við eigum að bíða með frekari undirbúning, bíða með að knýja á að fá leyfi ráðuneytisins til þess að byrja eða halda áfram á þeirri braut, sem við nú erum. Það er þetta, sem mér finnst ekki liggja ljóst fyrir, og það er þetta, sem ég benti flm. á, að þeir mættu ekki gera neitt til þess að tefja fyrir málinu, þannig að það yrði hægt að hefjast handa þegar í vor, því að það er orðið aðkallandi og alveg nauðsynlegt, að þær framkvæmdir hefjist. Þessari byggingu verður ekki lokið nema á nokkrum árum, en málið hins vegar heima í héraði að okkar áliti komið á það stig, að það verði ekki lengur við unað, að ekki verði gerðar á því einhverjar úrbætur.

Það er réttilega tekið fram af frsm., að sjúkrahúsið, sem nú er, er orðið 34 ára gamalt. Og þó að það hafi fram að þessu haft nægilegt rúm fyrir sjúklinga eða nægilegt legurúmapláss verið þar og þó að það hafi á þeim tíma verið fullkomið, eftir því sem þá var talið eðlilegt, þá er það nú orðið mjög úrelt og ekki lengur viðunandi. Öll aðstaða fyrir lækna og starfslið í heild er þar engin, og það er fyrst og fremst kannske það, sem knýr á, að það verði að gera úrbætur, frekar en beint að það sé hægt að halda því fram, að legurúm í því húsi séu ekki nægileg.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál, en aðeins að lokum ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að málið er komið á það stig, að undirbúningi öllum er lokið og framkvæmdir verða að áliti okkar heima í héraði að hefjast þegar á næsta vori.