08.12.1961
Neðri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

54. mál, sjúkrahúslög

Guðlaugur Gíslason:

Hæstv. forseti. Það var aðeins örstutt athugasemd. — Ég sé, að hv. 3. þm.. Sunnl., 1. flm. þessa frv., hefur nokkuð misskilið það samtal, sem við áttum um þetta mál í upphafi þings. Ég lét þá hvergi koma fram, að ég óskaði ekki eftir að vera meðflutningsmaður, heldur benti á, að þeir yrðu að gera sér það ljóst, að með endurtekningu þessa frv, tefðu þeir ekki fyrir málinu eða spilltu fyrir framgangi þess. Ég átti að sjálfsögðu við það, að ef þeir ætluðust til þess, að við biðum eftir samþykki hv. Alþingis fyrir, að það yrði fjórðungssjúkrahús í stað bæjarsjúkrahúss, þá gæti það orðið út af fyrir sig til að tefja málið, eins og nú er komið í ljós. Vestmanneyingar eru reiðubúnir að hefja þessa byggingu þegar í vetur. En það er sýnt, að þetta mál verður ekki afgr. fyrir jól, og óvíst um afgreiðslu þess eftir áramót, þannig að það getur út af fyrir sig orðið til að tefja málið, ef við eigum að bíða eftir því. Ég hef þess vegna í samráði við bæjarstjórn sótt um leyfi fyrir sjúkrahúsbyggingunni sem bæjarsjúkrahúsi á þeim forsendum, að við teljum málið orðið svo aðkallandi, að leyfi til byggingarinnar þurfi að fást nú þegar eða sem allra fyrst. Það getur vel verið, að það breyti engu, það sé aðeins um að ræða skiptingu á framlagi ríkisins, hvort það er meira eða minna, en ég held, að það a.m.k. flýti ekki fyrir afgreiðslu málsins, að þetta frv, liggur hér fyrir, og það var það, sem ég vildi gera flm. ljóst, þegar þeir töluðu við mig um endurtekningu á flutningi þess á þessu þingi.