23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Flm. (Jón Skaftason):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 75 að flytja ásamt 6 öðrum hv. þm.. Framsfl. frv. til laga um breyt. á l. nr. 42 frá 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. gr. Stafliður d. í 1. mgr. 6. gr. laganna orðist svo:

Lánsupphæðin má nema allt að 2/3 hlutum verðmætis íbúðar samkvæmt mati trúnaðarmanna veðdeildar Landsbankans, þó ekki meira en 200 þús. kr. út á hverja íbúð. Ef fleiri íbúðir eru í sama húsi, má lána út á hverja íbúð fyrir sig. Þó skal engum einstaklingi veitt lán nema út á eina íbúð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi:

Það er almennt talin rétt stefna hér á landi, að ríkisvaldið stuðli að því, að sem flestir einstaklingar geti búið í eigin húsnæði. Þrátt fyrir almennt fylgi við þessa stefnu hefur hv. Alþ. og hæstv. ríkisstjórnir aldrei hingað til gert þær ráðstafanir, er nægi til þess að koma á fót það fjársterku veðlánakerfi til húsabygginga, sem fært væri um að gegna því hlutverki að lána verulegan hluta af kostnaðarverði húsa, t.d. 75% af byggingarkostnaðinum. Reynslan, sem fengizt hefur í þessum málum, síðan hið almenna veðlánakerfi tók til starfa þann 2. nóv. 1955, sannar þetta mætavel. Hjá húsnæðismálastofnun ríkisins munu nú leggja fast að 2000 lánsumsóknir um lán til íbúðabygginga, lán, sem annaðhvort enga afgreiðslu hafa fengið eða þá mjög óverulega hefur verið lánað út á. Og þó mega hámarkslán samkvæmt l. nr. 42 frá 1957 ekki nema hærri fjárhæð en 100 þús. kr., sem vart verður talið nema meira en ca. 18% af verðmæti vísitöluhússins, eins og það var útreiknað fyrir síðustu gengisfellingu, en þá var verðmæti þess talið nema um 526 þús. kr., ef ég man rétt.

Efni þessa frv., sem ég er nú að mæla fyrir, gengur út á það, að hámarksupphæð lána úr byggingarsjóði ríkisins verði hækkuð úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. Ég vil strax taka það fram, að tilgangur flm. þessa frv. er ekki sá, að af hækkun hámarkslánanna leiði það, að færri einstaklingar geti notið lána úr byggingarsjóðnum en áður hefur verið, enda höfum við undirstrikað það mjög greinilega í grg. þeirri, sem fylgir frv. Okkur er fyllilega ljóst, m.a. af þeirri reynslu, sem fengizt hefur á þeim rúmum 5 árum, síðan hið almenna veðlánakerfi tók til starfa, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að til lækkunar á þeim fjölda, sem lán getur fengið úr byggingarsjóðnum, geti komið. Ég nefndi hér áðan, að fast að 2000 umsóknir lægju nú óafgreiddar eða mjög óverulega afgreiddar hjá húsnæðismálastjórninni. Ég hygg, að til þess að vinna þann hala upp, miðað við, að hægt væri að veita um 100 þús. kr. lán út á hverja þessara umsókna, þyrfti a.m.k. um 130 millj. kr. Og það er svo fjarri því, að þeir tekjustofnar, sem byggingarsjóðurinn nú hefur lögum samkvæmt, nægi á nokkurn hátt til þess að sinna því verkefni. Hækkun hámarkslána frá byggingarsjóðnum um helming er í fyllsta máta sanngirnismál. Sú hækkun gerir tæpast meira en að vega upp á móti þeirri hækkun, sem hefur orðið á byggingarkostnaði frá árinu 1955, þegar hámark þetta var ákveðið. Ef einnig er tekið tillit til þeirra vaxtahækkana, sem orðið hafa á lánum byggingarsjóðsins svo og á almennum lánum í landinu á þessum tíma, þá gefur það að sjálfsögðu auga leið, að þessi helmingshækkun nægir ekki til þess, að 200 þús. kr. lán nú geri meira en 100 þús. kr. lán gerði á árinu 1955. Ég hygg því, að það þurfi ekki að deila um það hér í hv. deild, að jafnvel þótt frv. þetta yrði samþykkt, þá nytu húsbyggjendur ekki meiri lánsaðstoðar frá byggingarsjóðnum eftir samþykkt frv. heldur en þeir nutu á árinu 1955, þegar hámarkslánin námu 100 þús. kr. Ég vil rökstyðja þetta nokkru frekar.

1 júní 1955 var húsbyggingarvísitalan umreiknuð eftir heim reglum, sem nú gilda um útreikning hennar. Þá var hún 93 stig, og byggingarkostnaður á hvern rúmmetra var þá um 850 kr. Hinn 1. okt. s.l. var húsbyggingarvísitalan hins vegar komin upp í 168 stig, eða hafði hækkað frá 1955 um 75 stig eftir hinum nýja grundvelli. Byggingarkostnaður á rúmmetra 1961, hinn 1. okt., var 1562 kr., eða hafði hækkað frá árinu 1955 um 712 kr.

Viðvíkjandi vöxtum af lánum frá byggingarsjóðnum vil ég taka þetta fram: Árið 1955 voru vextir af A-lánum um 7% og lánstími þeirra 25 ár. Af B-lánum voru vextir 51/2 % og lánstími 15 ár. Árið 1961 eru vextir hins vegar af A-lánum komnir upp í 8% og lánstími er óbreyttur, 25 ár, en af B-lánum voru vextir og lánstími óbreyttir frá því, sem áður hafði verið.

Þegar á þetta er litið, er alveg ljóst, að tvöföldun hámarkslána byggingarsjóðs ríkisins gerir ekki meira en halda við svipuðu hlutfalli milli lána byggingarsjóðsins og byggingarkostnaðarins og ákveðið var með löggjöfinni frá 1955. Þó er það hlutfall í sjálfu sér allt of lágt, og má benda á það, að á Norðurlöndum hafa starfað um fjölda ára öflug veðlánakerfi til húsbygginga, og hafa þau lánað húsbyggjendum allt að 90% af byggingarverði húsa til langs tíma og með mjög lágum vöxtum. Að sjálfsögðu verðum við Íslendingar að keppa að því að byggja hér upp veðlánakerfi, sem getur þjónað hagsmunum húsbyggjenda á svipaðan hátt og þau veðlánakerfi gera, sem nú eru fyrir hendi á Norðurlöndum.

Í grg. með frv. þessu höfum við flm. gefið upplýsingar um lán, sem afgreidd hafa verið úr byggingarsjóði ríkisins frá árinu 1957 til ársins 1961. Ég þarf ekki að rekja þær tölur, en vísa aðeins til þeirra, eins og þær koma fram í grg. En það er augljóst mál, að útlán úr sjóðnum hafa hvergi nærri fylgt þeirri hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði á þessum árum, þótt ekkert tillit sé tekið til þeirrar fólksfjölgunar í landinu og þar af leiðandi auknu eftirspurnar eftir lánum, sem orðið hefur á þessum árum.

Við flutningsmenn þessa frv. gerum ekki í frumvarpsgreinunum tillögur um, að lögfestar séu sérstakar tekjuöflunarleiðir, en bendum hins vegar í niðurlagi grg. á 4 atriði, sem við teljum að eðlilegt sé, að ríkisstj. og sá þingmeirihluti, sem hún styðst við, taki til athugunar, ef frv. þetta næði samþykki. Ég tel þetta eðlileg vinnubrögð, því að það er ljóst, að hæstv. ríkisstj. á að ýmsu leyti miklu betra með að ákvarða, hvar þær auknu tekjur skuli teknar til sjóðsins, er leiða mundi af samþykkt þessa frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þetta að sinni. Með því fylgir nokkuð löng grg., og er þar komið inn á, að mínu áliti, þau helztu atriði, sem hér skipta máli.

Ég legg því til, hæstv. forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.