23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2821)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Þorvaldur G. Kristjánason:

Herra forseti. Hv. 4. þm.. Reykn. virtist vera nokkuð viðkvæmur fyrir kommúnistadekrinu, og ég tek það ekki illa upp. En ég vil leiðrétta þann misskilning, að ég sagði ekki, að það væri kommúnistadekur að flytja þetta frv., heldur það að hafa þau villandi ummæli um afrek vinstri stjórnarinnar í húsnæðismálunum, sem fram koma í grg., og á því er mikill munur.

Þessi hv. þm., fór eitthvað að tala um þekkingu mína á húsnæðismálum. Við getum alveg látið það liggja á milli hluta, og ég geri mig ánægðan með það, að hv. þdm. dæmi um það fyrir sig. En mér fannst liggja í orðunum, að hann vissi þeim mun betur um þessi mál. Því kom mér það á óvart, þegar hann lagði aukna áherzlu á, að það væri merkasta sporið, sem hefði verið stigið í þessum málum, þegar löggjöfin var sett árið 1957 og stofnað til sjóðmyndunar til íbúðalána. Ég held, að enginn, sem nokkur skil veit á þessum málum, láti sér í alvöru detta slíkt í hug, að það hafi verið nokkur nýjung. Eða hvernig er það, hafa menn algerlega gleymt, þó að ég nefni ekki annað en byggingarsjóð verkamanna, sem er einmitt byggður upp á sjóðagrundvellinum? Ég ætla ekki að ræða frekar um þetta. Ég held, að það sé ljóst, að hvernig sem á þetta mál er litið, var það enginn stórviðburður og enginn merkisviðburður, þó að það væri 1957 breytt nafni á varasjóði almenna veðlánakerfisins, sem stofnaður var 1955. Það verður ákaflega erfitt að færa rök fyrir því, að það hafi markað einhver straumhvörf eða tímamót í þessum málum. Það væri aðeins hægt að hugsa sér þó, að það væri, ef þeir tekjustofnar, sem við var bætt um leið, hefðu verið sérlega veigamiklir. En hv. 4. þm.. Reykn. kom í síðari ræðu sinni aftur inn á þetta atriði og gerði þar raunverulega ekkert annað en staðfesta það, sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu, þ.e.a.s. að hér korn ekkert nýtt til nema ákvæðið um 1 % álag á tekjuskatt, sem lögbundið var með lögunum frá 1957, ekki nýr árlegur tekjustofn, fyrir utan að hluta af stóreignaskattinum var varið til sjóðsins, eins og ég tók fram í minni ræðu. Við hv. 4. þm.. Reykn. erum því algerlega sammála um það, hvað skeði í þessu efni. Ég verð að líta þannig á hans ræðu hér áðan. Hann bendir ekki á neina aðra nýja tekjustofna en þá, sem ég gat um. Og þessir tekjustofnar hafa þýtt ]nað fyrir kerfið, eins og ég gat um áðan, að 1% gjaldið hefur gefið að meðaltali um 5 millj. kr. á ári, en stóreignaskatturinn hefur gefið 9.4 millj. kr. hingað til.

Hv. 4. þm.. Reykn. sagðist geta fallizt á það með mér, svo langt sem það næði, að undirstaða fjármagnsöflunar til íbúðalána væri aukning sparönnlánanna eða hin frjálsa sparifjáraukning. En hann vildi draga úr þessari skoðun okkar beggja með því að benda á, hver væri árangurinn í tíð núv. ríkisstj. eftir að sparifjársöfnunin hefur aukizt svo sem raun ber vitni um. Í hverju kemur hún fram í sambandi við útlán til íbúðabygginga? spurði hv. þm.. Með því að mér fannst, að honum væri ekki fullkomlega kunnugt um það, ekki a.m.k. nógu nákvæmlega, þá þykir mér rétt að víkja nokkuð að þessu atriði hér á eftir, og með því svara ég að nokkru leyti því, sem hv. 4. landsk. þm.. (HV) sagði í sinni ræðu. En áður vil ég nokkuð víkja að umr. um það, hvað skeði, þegar byggingarsjóður ríkisins var stofnaður með lögum 1957. Við hv. 4. þm. Reykn. virðumst vera sammála um, að það séu aðeins tveir nýir tekjustofnar, sem komi þar til. Hins vegar erum við hv. 4. landsk. þm.. ekki eins sammála, og þess vegna vil ég fara nánar út í það atriði. Og mér finnst fullkomin ástæða til þess, vegna þess að það er furðulegt, að það skuli hafa verið lagt fram af hálfu ríkisstj. eða félmrh., sem fór með þessi mál árið 1957, önnur eins grg, og var lögð fram með frv. til húsnæðismálanna þá, vegna þess að í þeirri grg. er beinlínis skýrt svo óljóst, — mér liggur við að segja villandi frá því, sem er að gerast þar, að það verður ekki hægt að líta á þá grg. öðruvísi en sem frekar auvirðilegt áróðursplagg. Ég held, að það sé mjög ljóst, hvað þarf að gera, til þess að skera úr því, hvor hefur réttara fyrir sér, ég eða hv. 4. landsk. þm.., í sambandi við það, hvað skeði, þegar byggingarsjóðurinn var stofnaður 1957. Og það verður gert með því að bera saman annars vegar 4. og 5. gr. l, nr. 55 frá 1957, um húsnæðismálastjórn og veðlán til íbúðabygginga, og hins vegar 3. gr. l. nr. 42 frá 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl. Ef þessar greinar eru bornar saman, kemur í ljós það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að það eru aðeins tveir nýir tekjustofnar, fyrir utan skyldusparnað, sem ég hef sérstaklega talað um, teknir upp í þessu sambandi. Allt tal í aðra átt er orðaleikur. Og það geta menn séð með því að bera nákvæmlega þessar lagagreinar saman.

En ég vil þá víkja að því, hver hefur orðið árangurinn í tíð núv. ríkisstj. Ég sagði áðan, að þegar farið hefði að gæta áhrifanna af stjórnarstefnu núv. hæstv. ríkisstj., hefði farið að rofa til í sambandi við sölu bankavaxtabréfanna og það svo mikið, að á þessu ári fram til 15. ágúst hafa selzt bankavaxtabréf fyrir 100% hærri upphæð en allt árið 1958. Og hér er um svo mikinn mismun að ræða, að ég held, að menn hljóti að taka eftir því. En þá segir hv. 4. þm.. Reykn.: Hvernig kemur þetta út í útlánunum sjálfum? — Og samkv. því, sem hann sagði, virtist hann ekki sjá, að þetta kæmi þar fram. Þetta er á einhverjum misskilningi eða ónógum upplýsingum að sjálfsögðu byggt, en ég tel rétt, að þetta atriði sé nánar skýrt.

Á árinu 1960 voru afgreidd íbúðalán að upphæð 52.2 millj. kr. En á þessu ári fram til 15. ágúst var búið að afgreiða íbúðalán að upphæð 52.5 millj. kr. Þessa dagana er svo að ljúka, ef því er ekki lokið, að úthluta 20 millj. kr., sem að sjálfsögðu verður afgreitt fyrir næstu áramót, þannig að þetta ár hlýtur að koma út með meiri afgreidd íbúðalán en nokkurt ár í sögu þessara lána. Ég hygg, að þetta sýni svo glögglega sem vera má, að þegar við athugum þessa hlið málanna, þá kemur það einnig í ljós og auðvitað hlaut það að koma í ljós, að um verulega aukningu íbúðalána hefur verið að ræða.

Ég hef e.t.v. ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessi mál. Ræður hv. 4. landsk, þm.. og hv. 4. þm. Reykn. gefa e.t.v. ekki tilefni til þess, nema ef sérstaklega skyldu vera hreystiyrði hv. 4. landsk. þm.. hér í ræðu sinni áðan. Þessi maður taldi sig vera þess umkominn að tala um lélegt ástand húsnæðismálanna í tíð núv. ríkisstj. Ég hefði haldið, að allra sízt hefði einmitt þessi hv. þm. átt að hætta sér út á þá braut að gera nokkurn samanburð á húsnæðismálunum í hans stjórnartíð og í stjórnartíð annarra. Og mér þykir rétt að færa að þessum orðum mínum nokkra stoð, og ég skal vera mjög stuttorður. Ég gæti talað langt mál til þess að sýna fram á réttmæti þessara fullyrðinga minna.

Áður en þessi hv. þm. tók við yfirstjórn þessara mála, var hann manna fremstur í flokki að deila á það, að lánsupphæðirnar, sem veittar voru til íbúðalána, væru of lágar. Hann var fremstur í flokki að deila á lánskjörin, að þau væru slæm, ekki nógu góð. Og hvernig kemur það út, ef við berum svo saman þessi atriði? Hvernig var um þessi mál háttað, þegar hv. þm.. var að deila á ástand þessara mála, og hver var árangurinn, þegar hann fór með æðstu stjórn þessara mála? Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á, að fyrir hans tíð var upphæð lána, sem veitt voru frá almenna veðlánakerfinu, að meðaltali um 55 þús. Þetta er á árinu 1955. Það er 2 eða 3 þús. lægra að meðaltal 1956. En strax er áhrifanna fer að gæta af hans yfirstjórn á þessum málum, er þetta meðaltal komið niður í 35 þús. kr., á árinu 1957. Ég benti á lánskjörin. Það var sérstakt ádeiluefni hjá þessum hv. þm.., áður en hann tók við stjórn þessara mála, að 2/7 af lánum almenna veðlánakerfisins voru svokölluð vísitölulán. Það var bent á, að þau væru óhagkvæmari og það þyrfti helzt að afnema þau. Hvað skeði, eftir að þessi hv. þm.. tók við yfirstjórn þessara mála? Þá var þessu breytt á þann veg, að lántakendur voru skyldaðir til þess að taka við lánum sínum þannig, að 50% af upphæðinni voru með vísitölukjörum. En um leið og þetta skeður, um leið og lánsupphæðirnar lækka í stjórnartíð þessa hv. þm., um leið og lánskjörin versna, þá skeður það, að byggingarkostnaðurinn hækkar. Á þessum tíma hækkaði byggingarkostnaðurinn um 30%. Þetta skeður á sama tíma sem lánin lækka í framkvæmd og lánskjörin versna. (HV: Hvað mundi það vera í dag?) Hvað mundi það vera í dag? segir hv. þm.. Ég vil minna hv. þm. á það, að byggingarkostnaðurinn í tíð núv. ríkisstj. hefur ekki hækkað um 30%, hann hefur hækkað um 26%. (Gripið fram í: Þetta er nú dálítið skrýtinn reikningur.) Þessi reikningur er venjulegur prósentureikningur, byggður á þeim upplýsingum, sem hv. flm. gefa í þeirri grg., sem liggur hér, (Gripið fram í: Hvað eru þá vextirnir?) Það er reiknað beint út frá þeim upplýsingum, sem hv. flm. gefa. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm.. að gera svo vel að hafa ekki samtal.) Og það er hér verið að víkja að því, hvað hafi verið lánað út úr almenna veðlánakerfinu á hverjum tíma. Við skulum að gefnu tilefni athuga það nánar. Þegar það er athugað, þá kemur í ljós, að á því tímabili, sem almenna veðlánakerfið var starfrækt fyrir tíð vinstri stjórnarinnar, 1955–1956, eða í átta mánuði, var samtals veitt úr kerfinu 69.5 millj. kr. En á þeim tíma, sem vinstri stjórnin var við völd í 21/2 ár, var veitt úr þessu sama kerfi 116 millj. kr. Og hvað sýnir þetta? Það sýnir það, að í tíð ríkisstj. Ólafs Thors var veitt að meðaltali á mánuði 8.7 millj. kr. úr kerfinu, en í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar merkust spor voru stigin að dómi framsóknarmanna, þegar hv. 4. landsk. fór með yfirstjórn þessara mála, þá var veitt 3.9 millj. kr. að meðaltali á mánuði. Eins og ég sagði áðan, ég ætla ekki að vera langorður, því að ræður hv. 4. landsk. og hv. 4. þm.. Reykn. gáfu ekki sérstakt tilefni til þess, en það mætti halda áfram að benda á frammistöðu hv. 4. landsk. þm.. í þessum málum. Það mætti halda áfram að gera slíkt. Ég held því, að hann sé ekki sérstaklega til þess kjörinn að deila á núv. hæstv. ríkisstj, fyrir frammistöðu hennar í þessum málum.