23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr. og bjó mig þess vegna ekkert undir það að geta gefið upplýsingar, sem ég kannske kynni að hafa getað gefið, ef ég hefði verið undir það búinn. En þó eru það nokkur atriði eða a.m.k. tvö í sambandi við þetta mál, sem ég vildi láta koma hér fram.

Þegar gerður er samanburður, eins og gerður er í grg. hv. flm., um afgreidd lán á ári, þá koma ekki í þessum samanburði fyrir síðustu árin öll kurl til grafar. Því er t.d. haldið fram, að á árinu 1960 hafi verið veittar 52.1 millj. kr. til þessara íbúðalána. En raunverulega voru fyrir hendi á því ári til útlána rúmar 70 millj., en nokkrum hluta af þeirri upphæð var ekki úthlutað fyrr en eftir áramótin og kemur því ekki með í veitt útlán á árinu 1960. En náttúrlega kemur það fram í hækkaðri upphæð á árinu 1961, enda er hún, eins og hér hefur margkomið fram, orðin, þó að ekki sé allt árið og ekki nálægt því, hærri á þessu ári en hún er talin í þessari upptalningu á árinu 1960. Það rétta er, að bæði árin 1960 og 1961 tókst að fá til útlána, — eða ég vil vænta þess, að það verði eins á þessu ári og var í fyrra, — 25 millj. kr. sölu í bankavaxtabréfum, sem ekki var fyrir hendi áður, og gerði það náttúrlega húsnæðismálasjóði miklu auðveldara fyrir um útlán en áður. En þar á móti kemur, og því er ekki að leyna, að tekjustofnarnir gömlu sumir hafa brugðizt alveg hrapallega, þannig að skyldusparnaðartekjurnar, sem koma til útlána nú, eru ekki orðnar nema brot af því, sem þær voru í upphafi. Endurgreiðslurnar í skyldusparnaðarkerfinu eru orðnar svo miklar, að tekjurnar, sem komu af því í upphafi og voru að ég ætla nokkuð verulega yfir 20 millj. kr., eru nú komnar niður í 5—6 millj. Það gerir það að verkum, að gömlu tekjustofnarnir hafa ekki getað staðið sig eins vel og þeir gerðu áður. En á móti því hefur aftur verið fengin, eins og hér kom fram hjá hv. 1. þm.. Vestf. (ÞK), mjög veruleg aukning í sölu bankavaxtabréfanna, sem hefur gert það að verkum, að til ráðstöfunar á árunum 1960 og 1961 eru. raunverulega ekki 52 millj., eins og talið er í grg. og mér finnst svolítið villandi, heldur raunverulega 70 millj. kr. bæði árin, þó að úthlutuninni fyrir árið 1960 hafi lítið eitt seinkað, þannig að nokkuð af henni hafi færzt yfir á 1961. En eins og ég segi, ef úthlutun allrar upphæðarinnar, sem er til ráðstöfunar 1961, verður lokið fyrir áramót, þá á upphæðin 1961 að verða þeim mun hærri. Þetta þýðir, að ef borið er saman það fé, sem hefur verið til úthlutunar á árunum 1957 og 1958 og á árunum 1960 og 1961, þá hefur þetta hækkað um yfir 50% í heildinni.

Það er gerð tilraun til þess í grg. líka að gefa skýrstu um það, hvað byggingarkostnaðurinn — á teningsmetra er það víst — hefur hækkað á árabilinu frá 1957 til ársins 1961, og það er talið; að hann hafi hækkað úr 1079 kr. á árinu 1957 og upp í 1418 kr. á árinu 1961, og skal ég ekkert segja um þessar tölur annað en það, að ég les þær aðeins hér í grg. og hef ekki haft neina aðstöðu til þess að sannprófa þær. En ef þessar tölur eru réttar, þá hefur hækkun byggingarkostnaðar frá 1957 og til 1961 numið um 32%, og lætur nærri, eins og hér var sagt áðan, að hækkunin í tíð núv. ríkisstj. hafi verið nm 26%. Það er að vísu mikil hækkun, en hækkun hefur komið fyrir áður, og ég vil segja, ekki ósvipuð þessari. En samtímis því sem byggingarkostnaðurinn hefur hækkað á þessu fjögurra eða fimm ára tímabili, frá 1957 til 1961, um 32%, þá hefur féð, sem til ráðstöfunar hefur verið til útlána, hækkað — ekki um 32%, heldur um 50% rúm, þannig að það er þó a.m.k. nokkru meira en byggingarkostnaðaraukningunni hefur numið.

Það hefur verið sagt, að fjöldi umsókna sé mikill. Ég hef ekki heldur tölur um það hér, en ég held, að ég geti fullyrt, að þessum umsóknum hafi fækkað frá því, sem áður var, þannig að þær séu nú ekki fyrir hendi eins miklar og þær voru áður. Þannig hefur gengið á umsóknirnar, og verði hægt að halda áfram að auka fé til þessarar starfsemi, er stefnt að því marki, sem auðvitað á að stefna að, að það verði hægt að veita lán í þessu skyni nokkurn veginn jafnskjótt og umsóknir um þau berast.

Ég er ekki að halda því fram, að hér hafi verið ráðin endanleg bót á með þeim aðgerðum, sem gerðar hafa verið, langt í frá. Það er enn mikið ógert. En ég vil fullyrða, að það sé rangt, sem hér var sagt áðan, að það hafi aldrei verið eins illa komið þessum málum og nú er. Sú fullyrðing fellur áreiðanlega um sjálfa sig.

Annars er það út af fyrir sig ákaflega æskilegt, að haldið sé áfram að auka það fé, sem til ráðstöfunar er í þessu skyni, og ég vil vona, að það verði hægt að sinna þeim málum áfram, eins og gert hefur verið tvö síðustu árin. En hvað fljótt tekst að ná þar á enda, skal ég ekkert fullyrða um, og verður kannske aldrei náð. En þar kemur fyrst og fremst til, hvaða möguleikar eru í landinu til þess að leggja fram fé í þessu skyni. Það er eins og allir vita, að við erum í ákaflegri fjárþröng. Við eigum ekki ráð á nema litlum hluta af þeim fjármunum, sem við þurfum að nota, og hvort féð er þá notað í þetta eða í aðrar nauðsynlegar og aðkallandi framkvæmdir, verður að vera mat Alþingis og ríkisstj. á hverjum tíma. Það er náttúrlega öllum ljóst, að þó að þörfin sé fyrir hendi að gera þetta og hitt, þá eru ekki alltaf möguleikar til framkvæmdanna fyrir hendi. Möguleikarnir og þarfirnar standast ekki alltaf á, því miður.