23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Það var alveg sérstaklega eitt atriði, sem fram hefur komið í þessum umr., sem mér fannst vera sett fram á þann hátt, að það væri full ástæða til þess að vekja athygli á því, hve villandi það er. Það kom mjög fram í ræðu hjá hv. 1. þm.. Vestf. (ÞK) og nú aftur í ræðu hæstv. félmrh., að úthlutun íbúðalána hefði verið í krónutali nokkru hærri árin 1960 og 1961 en hefði verið á árunum á undan, og jafnvel látið sérstaklega orð liggja að því, að búast mætti við því, að á þessu ári væri raunverulega um talsverða hækkun að ræða frá því, sem verið hefur. En það vantar allmikið í þessa lýsingu, til þess að hún gefi rétta mynd af því, sem raunverulega hefur verið að gerast. Vildu ekki þessir ræðumenn og þá alveg sérstaklega hæstv. ráðh. skýra frá því, hvað mikill hluti af útlánum á vegum húsnæðismátastjórnar árin 1960 og 1961 eru fjármunir þess eðlis, að það voru víxlalán í bönkum landsins, sem var breytt yfir í föst lán á vegum húsnæðismálastjórnar, en húsbyggjendur í landinu voru búnir að fá til sinna bygginga fyrir löngu, voru búnir að fá til sinna bygginga árið 1959 og jafnvel 1958, og nú var þessum lánum aðeins breytt í formleg lán? Hér var sannarlega ekki um lánaaukningu að ræða, heldur aðeins var hér um lánabreytingu að ræða. Það væri mjög fróðlegt að fá það upp gefið hér, hvað mikið af þessum lánum á þessum tveimur árum var þessa eðlis. En húsbyggjendur hafa sannarlega fundið, að það jukust ekki mikið lánin þeirra þrátt fyrir þessa lánabreytingu, því að svo hafði það verið í hönkum landsins allajafna, að menn höfðu fengið þar talsvert mikil lán. Hið sanna er, að þegar tillit er tekið til þessa, eru hin raunverulegu lán, sem húsnæðismálakerfið veitir úr sinum eigin sjóðum, miklum mun lægri en áður hafði verið á hverju ári. Ég vil alveg sérstaklega fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann gefi upplýsingar um það, hve miklu þessar fjárhæðir nema, því að annars er þessi samanburður vitanlega alrangur, því að það, sem máli skiptir í þessum efnum, er, hvað húsbyggjendur í landinu hafa fengið mikið af lánum til þess að ráða við sinn húsbyggingarkostnað á hverju ári.

En það var margt fleira í þessum umr., sem hér hefur komið fram, einkum hjá hv. 1. þm.. Vestf., sem ég tel svo rangt og villandi, að alveg furðu gegnir í málflutningi. Hann hefur gert það í málflutningi sínum að sérstöku atriði að bera saman stjórn húsnæðismálanna og hinn opinbera stuðning við þau á tímum vinstri stjórnarinnar og á tímum núv. ríkisstj. Og hann hefur jafnvel farið í slíkan útreikning að reikna það út, að meðaltalslán, sem veitt hafi verið árin 1955 og 1955, hafi verið hærri en meðaltalslán, sem veitt voru aftur á árunum 1957, 1958 og síðar. Þó hafa þessi meðaltalslán enn verið að minnka — hann gat þess auðvitað ekki — í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Auðvitað segja þessi meðaltalslán ekkert um stuðning hins opinbera í sjálfu sér við húsbyggjendur í landinu. Það er vitanlega heildarlánveitingin, sem hér gildir, og svo annar aðbúnaður að húsbyggjendum í landinu í sambandi bæði við verðtagsmál, lánakjör og vaxtakjör almennt og annað þess háttar. En þetta kemur einna bezt fram í opinberum skýrslum, sem liggja fyrir um það, hvernig húsbyggjendur í landinu hafa brugðið við á hverjum tíma, hvað þeir hafa treyst sér til að leggja út í byggingar, hvað þeir hafa komizt áfram í byggingarmálum? Samkvæmt skýrslu Landsbankans, birtri í Fjármálatíðindum, sem ég hef hér við höndina, kemur í ljós, að á þessum dýrðarárum, 1955 og 1956, — sem er nú auðvitað ekki nema að hálfu leyti síðara árið, það er a.m.k. talið hálft árið til vinstri stjórnarinnar, ef á að reyna að halla eitthvað á árið, en stundum vilt nú fyrrv. ríkisstj. telja allt árið til sín, ef eitthvað er loflegt við það ár, — en hvernig var þá háttað um byggingar landsmanna? Árið 1955 er talið, að byggðar hafi verið í Reykjavík 564 íbúðir. Og árið 1956, þegar stóraukinn stuðningur frá hálfu vinstri stjórnarinnar kom við húsbyggjendur með stórauknum lánum í árslokin 1956 og ársbyrjun 1957, þá urðu byggingar 706. En svo kom vinstri stjórnin, og þá urðu byggingar í Reykjavík ekki 564, eins og þær voru árið 1955, heldur 935 og hafa aldrei orðið eins margar nokkurn tíma. Og árið á eftir, hitt ár vinstri stjórnarinnar, voru þær 845, en árið 1959 740, og síðan hafa þær farið fallandi. Það hefur aldrei verið byggt eins mikið af íbúðum í okkar landi og á árunum, sem vinstri stjórnin sat að völdum. Það votta opinberar skýrslur, og um það er ekki hægt að þrátta, og gildir það nákvæmlega sama um byggingar í Reykjavík og úti á landi. Þessar tölur ætti hv. þm.. að festa sér í minni, þegar hann ræðir þessi mál.

Hv. 1. þm.. Vestf. vildi gera lítið úr því, sem gert var í þessum málum varðandi aðstoð ríkisins við húsbyggjendur með lögunum um húsnæðismálastjórn 1957. En hann hefur hlaupið yfir eitt meginatriðið, sem þar var lögfest. Þar var lögfest, eins og hér hefur verið minnzt á af öðrum í þessum umr., að húsnæðismálastjórnin skyldi fá til eignar sjóði, sem nema 118 millj. kr. Ég skil það, að hv. þm.. vill sem allra minnst tala um þennan stofnsjóð, vegna þess að hans flokkur hefur tekið til baka meginhlutann af þessu og gefið ríkismönnunum í landinu. Hann hefur tekið féð frá húsnæðismálastjórn og er nú að afhenda stórgróðamönnunum í landinn þetta. Það er eðlilegt, að hann vilji ekki tala um slíkar aðgerðir. En einmitt eitt það dýrmætasta, sem var verið að leggja grundvöll að með húsnæðismálalöggjöfinni 1957, var það að veita íbúðasjóði ríkisins þær eignir, sem gætu gefið af sér tekjur á komandi árum. Gamla veðlánakerfið var byggt upp á því, að það gat í rauninni aldrei gert neitt annað en tekið einhvers staðar eitthvað að láni og framlánað það til annarra. Það var í rauninni alltaf jafnfátækt. En með lögunum um húsnæðismálastjórn, sem sett voru 1957, var verið að leggja grundvöll að því, að húsnæðislánakerfið gæti fengið allverulegar árlegar tekjur, og vitanlega hefur komið sér vel fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að hafa þær tekjur, m.a. til þess að lána út. En það sjá svo allir menn, að hefði þeim lögum verið framfylgt og lögunum um stóreignaskatt, stóreignaskatturinn innheimtur af stórgróðamönnunum í landinu, eins og lög stóðu til, þá hefði verið hægt að veita miklum mun meiri lán úr húsnæðislánakerfinu en gert hefur verið. En það er auðvitað fyrst og fremst Sjálfstfl. að kenna og núv. hæstv. ríkisstj., að það hefur ekki verið gert.

Hv. 1. þm.. Vestf. gerir lítið úr skyldusparnaði. Um það er þó ekkert að deila, að í gegnum skyldusparnaðinn hefur húsnæðislánakerfið fengið til umráða nokkra tugi millj. kr., og þó að það þurfi að greiða út þetta fé aftur til þeirra, sem náð hafa þeim aldri, að þeir eiga kröfu á fénu aftur til baka, þá vitanlega rennur mjög mikið af þessu fé síðar meir til þess að aðstoða þessa menn við byggingar, eins og gert var ráð fyrir með uppbyggingu þessara reglna.

Nei, það, sem riðið hefur baggamuninn, að nú standa þessi mál miklu erfiðari viðureignar fyrir húsbyggjendur en nokkru sinni áður, er það, að þau lán, sem nú eru veitt af húsnæðismálastjórn. eru minna virði í hlutfalli við byggingarkostnaðinn en þau hafa nokkurn tíma áður verið. Það er það, sem gerir stöðu húsbyggjenda nú verri en hún hefur nokkurn tíma áður verið. Byggingarkostnaðurinn hefur hækkað hrikalega mikið, og hann hefur raunverulega hækkað miklu meira en þær tölur gefa til kynna, sem hv. 1. þm.. Vestf. vitnaði hér í. Þar er aðeins verið að ræða um hinn beina byggingarkostnað, en vitanlega standa þessi mál þannig, að stórhækkaðir vextir leggjast umfram þetta ofan á húsbyggjendur sem mjög aukin útgjöld. En þeir verða að standa í byggingunum venjulega í nokkur ár, og hinir háu vextir, sem við búum við nú, vitanlega leggjast þarna ofan á. En núv. hæstv. ríkisstj. hefur einmitt gert það, að hún hefur stórhækkað hinn almenna byggingarkostnað og auk þess hefur hún hækkað vextina stórkostlega. Og hún meira að segja gerði þá ráðstöfun, að hún hækkaði vextina af íbúðalánunum, og nú standa ýmsir enn þá eftir með lán frá húsnæðismálastjórn og verða að borga af þeim hærri vexti en maður þarf að borga af almennum víxlum í landinu. Þetta eru vitanlega alger ókjör, en þetta hefur verið gert, og svona er þetta. Það er því vitanlega ekkert um það að villast, að málin standa þannig, að þeir, sem eru að reyna að byggja yfir sig, eiga nú í meiri vanda en þeir hafa nokkurn tíma áður átt.

Það er að mínum dómi alger misskilningur hjá hv. 1. þm.. Vestf. að halda því fram, að vandi húsnæðismálanna í okkar landi verði leystur, aðeins ef um nægilega mikinn sparnað er að ræða í þjóðfélaginu eða það safnist fyrir nægilega mikið af sparifé. Reynslan hefur nú sýnt, að það tryggir ekki á nokkurn hátt, að þetta sparifé verði handbært fé fyrir þá, sem standa í húsbyggingum. Ég veit ekki annað betur en það hafi komið skýrt fram hjá bönkum landsins, að þó að þeir fengju nú nokkuð aukið sparifé, þá væru þeir ekki tilbúnir til þess að hækka kaup sín á bankavaxtabréfum hjá íbúðalánakerfinu.

Nei, það leysir vitanlega ekki vandann, þó að um nokkurn frjálsan sparnað væri að ræða í landinu. Það eitt, sem getur leyst vandann í þessum efnum er að byggja upp þannig íbúðalánasjóð, að hann ráði yfir svo miklum fjármunum, að hann geti veitt lán, sem einhverju verulegu nemur af byggingarkostnaðinum. Því er það eitt aðalatriði málsins að byggja upp öflugan byggingarsjóð, sem getur veitt lán. Að skilja sjóðinn eftir fjárvana og láta hann ganga til banka eða annarra aðila og reyna að slá lán frá ári til árs, sem hann framlánar, það vitanlega skilur sjóðinn alltaf eftir í vanda, og það er hætt við því, að hlutur húsbyggjenda verði allknappur, á meðan slíkt ástand er.

Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, að það er fjarri því, að þessi frjálsi sparnaður nemi nokkuð stærri hlut í sambandi við þá fjármuni, sem íbúðalánakerfið hefur ráð yfir, en ýmsir aðrir aðilar. T.d. má benda á það, að atvinnuleysistryggingasjóður hefur tekið stóran þátt í því að lána íbúðalánakerfinu, svo að það geti aftur framlánað til húsbyggjenda í landinu. Það fer hins vegar heldur lítið fyrir skilningi hjá flokki hv. þm.. á uppbyggingu þess sjóðs. Og ég vil ætla það, að hann eigi heldur litið af því að hafa komið þeim sjóði á laggirnar. En hann hefur þó reynzt ein drýgsta stoðin fyrir húsnæðislánakerfið.

Ég vil líka minnast á byggingarkostnaðinn, sem hv. 1. þm.. Vestf. hefur hér talað um að hafi hækkað um 26% frá 1958 til 1961, en ef samskonar reikningar eru lagðir til grundvallar, þá hefur byggingarkostnaðurinn ekki hækkað um 30%, eins og hv. þm., sagði, frá árinu 1956 til 1958. Sannleikurinn er sá, að sú hækkun, sem nemur um 14–15% og varð árið 1958, varð ekki fyrr en seinni part sumars eða eftir að efnahagslögin í lok maí árið 1958 voru samþykkt. Þar var því aðeins um að ræða hækkun á byggingarvörum seinni hluta árs og kaupi síðast á árinu 1958 eða síðast á tímabili vinstri stjórnarinnar. Hinn hlutann af tímabili vinstri stjórnarinnar, hálft árið 1956, allt árið 1957 og hálft árið 1958, var ekki um verðlagsbreytingar að ræða í þessum efnum. (ÞK: Ef hv. þm.. leggur til grundvallar vísitölu byggingarkostnaðar í báðum tilfellum, þá er það einfalt reikningsdæmi og hann kemst að sömu niðurstöðu og ég.) Ég veit það, að verðlagsbreyting varð ekki á þessu tveggja ára tímaböl, sem vinstri stjórnin sat við völd, – frá miðju árinu 1956 til miðs ársins 1958, — þá varð ekki um neina verulega verðlagsbreytingu að ræða í þessum efnum, og því getur hv. þm.. ekki breytt. Það var aðeins þegar efnahagslögin voru samþ. í lok maímánaðar 1958, þá varð um nokkra hækkun á byggingarefni að ræða, en ekki fyrr en þá, og alls ekki þessa, sem hv. þm.. hefur fullyrt hér um. En hitt ætla ég hins vegar að liggi hér alveg ljóst fyrir, að afleiðingarnar af stefnu núv. hæstv, ríkisstj, í þessum efnum hafa komið fram í þessu, að byggingar hafa dregizt verulega saman og að lánin, sem nú eru veitt, eru minni hluti af byggingarkostnaðinum en þau hafa nokkurn tíma áður verið. Það gerir vitanlega gífurleg hækkun á byggingarkostnaði og mikil hækkun á vöxtum. Það er þetta, sem ræður hér úrslitum.

Ég vildi láta þessi atriði koma hér fram í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt, en skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. En ég vildi mjög mælast til þess, að hæstv. ráðh. sæi sér fært að upplýsa það, hve mikill hluti af lánveitingum húsnæðismálastjórnar 1960 og 1961 var þess eðlis, að verið var að breyta gömlum bankalánum, sem húsbyggjendur höfðu, og nú voru aðeins færð yfir til húsnæðismálastjórnar.