23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Hannibal Valdimarsson:

Þessar umr. hafa að mínu áliti verið með nokkuð einkennilegum hætti. Efni frv., sem liggur fyrir til umr., er einungis um það að hækka lánsupphæð húsnæðismálastofnunarinnar svo, að lánsupphæðin að verðgildi verði nokkuð álíka og fyrir 5—6 árum. Auðvitað hefði verið eðlilegt, að málsvari ríkisstjórnarflokkanna eða hæstv. félmrh. t.d., sem kom honum til aðstoðar í umr., hefði lýst yfir afstöðu sinni til þessa máls, hvort ríkisstj.flokkarnir féllust á, að það væri ástæða til að breyta þessari krónutölu lánsupphæðanna eða hvort það væri ástæðulaust. (ÞK: Ég sagði, að ég væri sammála.) Og þýðir það þá, að það sé yfirlýsing frá ríkisstjórnarflokkunum um, að þeir samþykki frv.? (ÞK: Það er mín yfirlýsing.) Já, það getur nú verið endasleppt, því að það er ekki víst, að maðurinn verði á þingi, þegar hendurnar verða réttar upp. En ef það þýddi afstöðu flokksins, þá hefði það eitthvert gildi. Það hefur komið fyrir áður hér, að menn hafa talað fyrir hönd skynseminnar, en ekki fyrir hönd flokksins, — einmitt einn flokksbróðir þessa hv. þm.., — og það er kannske þannig, sem þetta er núna og það hafi litla þýðingu. Það liggur þá allt enn á óljósu um það, hvort Sjálfstfl. og Alþfl., þrátt fyrir þessar löngu umr., ætla að vera með þessu frv. eða ekki. Það þýðir hækkun á krónutölu um 100%, en er aðeins lagfæring, til þess að lánsupphæð á íbúð hafi nokkurn veginn sama gildi og fyrir 5–6 árum. og hafa þessir hv. þm.. þó gert heldur lítið úr því, hvaða aðstoð húsbyggjendur hafi fyrir 5–6 árum fengið til sinna mála.

Hv. 1. þm.. Vestf. (ÞK) hefur farið svo öfugt fram á völlinn í þessum umr., að ég get ekki að því gert, að hann minnti mig á lýsingu Vatnsdælu, þar sem Vatnsdals-Ljót fór fram á völlinn heldur ófrýnileg með höfuðið milli fóta og gekk aftur á bak. Og hér var sannarlega líkt að farið. Allt öfugt, ekkert um nútíð eða framtíð, allt saman horfði aftur. Og það, sem hv. þm. færðist í fang, var í raun og veru það að sanna, að húsnæðismálalöggjöfin frá 1957 væri hin ómerkilegasta á allan hátt og aldrei hefði húsnæðismálum verið verr komið í okkar landi en einmitt eftir að hún var sett. Og allur hans málflutningur miðaðist við að sanna þessi öfugmæli. Mér finnst því ekki að furða, þó að manni komi Vatnsdals-Ljót í hug.

En það er kannske nokkurs virði að ganga þá úr skugga um, hvað það var, fara yfir það í heild, sem gerðist með lagasetningunni um húsnæðismál 1957. Og það var þá í fyrsta lagi þetta, eins og hér hefur verið sagt, að byggingarsjóður ríkisins fékk til eignarumráða 118.2 millj. kr. Þetta var hans stofnfé, sem samkvæmt áætlun sérfróðra manna var talið að mundi með ávöxtun vera orðið að 300 millj. kr. í árslok 1966 eða að 10 árum liðnum.

Og þá kemur að því, hvaða árlegar tekjur byggingarsjóðurinn átti að fá, og skal ég fara yfir það nú í heild.

Það var þá í fyrsta lagi, að 1 % álag skyldi lagt á tekjuskatt og eignarskatt með stríðsgróðaskattinum, sem þá var innheimtur, og á tolltekjur ríkisins samkvæmt tollskrá, og var talið, að þessi tekjuliður gæfi 4–5 millj. kr. á ári.

Í öðru lagi voru það svo afborganir og vextir af lánum, sem veitt höfðu verið og veitt verða af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspölandi húsnæði. Tekjurnar af því fé áttu að renna inn í byggingarsjóðinn sem hans árlegu tekjur.

Í þriðja lagi var svo lántökugjald af lánum, sem húsnæðismálastjórnin veitir, svo og vaxtatekjur þeirra lána, en þetta lántökugjald nemur 1% af lánsupphæðinni á hverjum tíma.

Í fjórða lagi kemur til árlegra tekna byggingarsjóðsins höfuðstóll og vaxtafé, sem fallið er í gjalddaga, ef þess er ekki vitjað innan 20 ára. En það skal játað, að litlar líkur voru til, að sá póstur gæfi neitt verulegt fé og e.t.v. ekkert.

Samhvæmt 4. gr. er svo gert ráð fyrir, að áfram starfi undir stjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbankans veðlánakerfi til íbúðabygginga, og var það byggt á tögunum frá 1955. Veðdeild Landsbankans var heimilað samkv. þessari löggjöf að gefa út bankavaxtabréf í þessu skyni, og mega þau nema allt að 100 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. Þessi vaxtabréf skulu vera þannig, að annar hlutinn, A-flokkur, verði með föstum afborgunum og vöxtum, vextirnir 7%, en lánstími þeirra allt að 25 ár. Nú er búið að gera eina breytingu þarna á, og það er að hækka vextina úr 7% í 8%, og hafði maður þó heldur samvizkubit af því, að vaxtafóturinn væri þarna fullhátt settur. En hann var eins og í löggjöfinni frá 1955. Hinn hlutinn, B-flokkur, má vera allt að 50 millj. kr. á ári og skal vera með vísitölukjörum, þannig að afborganir og greiðsla afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta voru ákvæði, sem voru mjög svipuð ákvæðum laganna um hið almenna veðlánakerfi frá 1955 og var haldið áfram í löggjöfinni. Það skal tekið skýrt fram, að þessi liður með vaxtabréfasöluna var ekki nýmæli í lögunum.

Í framsöguræðu minni, þegar ég lagði frv. fyrir á sínum tíma, gat ég þess enn fremur, sem nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta, og sagði þá:

„Til þess nú að glöggva sig betur á því, hvaða fjármagn á nú að fara til húsnæðismálanna, móts við það, sem áður fór til sömu verkefna, er rétt að minna á það til viðbótar, að framlag til verkamannabústaða hefur nú verið tvöfaldað, er nú rétt við 4 millj., en var áður innan við 2. Komi sama framlag frá sveitarfélögunum, eins og lögin um verkamannabústaði gera ráð fyrir, þá gæti sú byggingarstarfsemi, sem fram færi fyrir þetta fé, numið 8 millj. kr. Auk þess útvegar svo ríkissjóður aðrar 8 millj. kr. á þessu ári til byggingar verkamannabústaða, og hefur það fé þegar verið tryggt. Til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, sem nú er á fjárlögum 4 millj. kr., eru nú 5 millj. í þessu skyni af fjárveitingu fyrri ára liggjandi fyrir. Þetta fé verður því aðeins greitt af hendi samkvæmt lagaákvæðum, að sveitarfélögin leggi fram jafnmikið fé á móti, og verður því unnt að verja allt að 18 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, ef sveitar- og bæjarfélög leggja mótframlög á móti því fé, sem nú er til á þessa árs fjárlögum ásamt með geymslufé. Það er margfalt hærri upphæð en nokkru sinni áður hefur verið lögð fram í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði á einu ári. Ef þessar tölur eru hins vegar teknar án mótframlaga bæjanna, er hér samt um að ræða 33 millj. kr. af nýju fé á árinu 1957 til húsnæðismála.“

Þá er það þriðji kaflinn, um skyldusparnaðinn. Ég skal aðeins endurtaka það, sem ég áðan sagði, að það var áætlun gerð af hagstofunni um, að tekjurnar gætu orðið 15–16 millj. kr. á ári af þeim lið, og hæstv. félmrh., sem hér talaði áðan, staðfesti, að áætlunin hefði fyrstu árin fyllilega staðizt. Það vissi ég líka vel og fullyrti það hér áðan, því að fyrstu árin hefða tekjurnar orðið ekki 15–16 millj., heldur 20 millj. kr. á ári, sagði einmitt Emil Jónsson, hæstv. félmrh. Hitt var svo ekki torskilið, að þegar lánstími unga fólksins á sparnaðarfénu væri útrunninn, kæmi að gjalddaga og þá þyrfti að gera nýjar ráðstafanir til þess að afla byggingarsjóði ríkisins tekna í staðinn fyrir þennan tekjustofn, sem ríkið yrði þá að fara að skila aftur.

Með lögunum frá 1957 var þannig gerð veruleg breyting um nýja tekjuöflun til byggingarmálanna og aukin fjárframlög, bæði til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og til verkamannabústaða, og veit ég ekki til, að ráðstafanir hafi verið gerðar í því skyni síðar þrátt fyrir aukna dýrtíð.

Hér hélt hæstv. ráðh., þegar hann kom hv. 1. þm.. Vestf. til aðstoðar, því fram, að upphæðirnar, sem nú væru lánaðar í gegnum byggingarsjóð ríkisins, húsnæðismálastofnunina, næmu allt að 70 millj. kr. á árunum 1960 og 1961. En það var sannarlega ástæða til þess að spyrja um það, sem hv. þm.. Lúðvík Jósefsson sagði hér áðan, 4. þm.. Austf., hvað mikið af því fé séu víxlar, sem búið var að lána einstaklingum í sparisjóðum og bönkum úti um land og þetta fólk þurfti að fá umfram 100 þús. kr. upphæðina hjá húsnæðismálastofnuninni, en tekst nú, að mér skilst, af þeirri 100 þús. kr. upphæð, sem þeir geta fengið til húsnæðismála. Það eru engin ný lán, það er breyting á lánum. Ég játa, að það er til hagræðis að fá breytt víxillánunum í sparisjóðum og bönkum í lán til lengri tíma, en það þrengir möguleikana til lána hjá húsnæðismálastofnuninni að öðru leyti og er þannig að því leyti bjarnargreiði.

En ég spyr: Hvað á þessi þagmælska að þýða? Því koma ekki hæstv. félmrh. og aðrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna fram með upplýsingar um það, hvaða nýir tekjustofnar hafa verið lagðir til húsnæðismálastofnun ríkisins og byggingarsjóði ríkisins á síðustu 2–3 árum, sem núverandi stjórnarflokkar hafa farið með völd? Hvers vegna þegja þeir um þetta? Hvaða nýtt fé hefur verið lagt fram? Það er allt of mikil þagmælska eftir langar umr, að þegja um þetta. En ég slæ því föstu, að ef andi þessa frv. nær samþykki, sem er sá, að hámarksupphæðir lána hjá húsnæðismálastofnun ríkisins verði með sama verðgildi og fyrir 5–6 árum, en þá var upphæðin 100 þús. kr. og þyrfti því nú að verða eigi minni en 200 þús. kr., — og sjá allir, að það er frekar of lágt en of hátt, en í samræmi við þær heildartekjur, sem húsnæðismálastofnuninni voru hins vegar tryggðar með húsnæðismálalöggjöfinni 1957, sem voru um 40–44 millj. kr. á ári, — þá þyrfti húsnæðismálastofnunin nú að hafa 80–88 millj. kr. Hefur hún það? Hefur henni verið tryggt það? Ef henni hefur ekki verið tryggt það, þá er hún verr fær til þess að gegna hlutverki sínu nú en áður var. Og það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það. Henni hefur ekki verið séð fyrir slíku fé, að hún hafi nú 80—88 millj. kr. til umráða, og hún hefur haldið sér við það þrátt fyrir tvennar gengislækkanir og sívaxandi dýrtíð og aukningu byggingarkostnaðar, að þá hefur húsbyggjandinn enn þá orðið að sætta sig við að fá 100 þús. kr. upphæð til byggingar sinnar íbúðar, sem kostar nú eigi undir 500 þús. kr., meðalíbúð. Og þessi aðstoð hefur farið síminnkandi. Þess vegna held ég, að það sé rangt hjá hæstv. ráðh., þegar hann sagði, að fullyrðing mín um það, að húsnæðismálin hefðu aldrei í meira efni komizt en nú og hefðu aldrei staðið verr, félli um sig sjálfa. Ég held, að hún standi þrátt fyrir fullyrðingu ráðh. Húsbyggjandinn á Íslandi hefur aldrei átt í eins miklum örðugleikum og nú, og það kemur fram í því, að færri og færri geta ráðizt í að byggja yfir sig, og er það alveg augljóst mál, þegar á það er litið, að hann fær nú aðeins þá sömu krónutölu og hann átti kost á fyrir 5–6 árum, en byggingarkostnaðurinn hefur stórkostlega aukizt. Vanefni húsnæðismálastofnunarinnar sjálfrar eru svo augljós af þessum staðreyndum, að það hefur dregið úr byggingum, en þrátt fyrir fækkun umsókna liggja nú fyrir um 2000 umsóknir óafgreiddar, og upphæðin er, eins og ég sagði fyrr í umr. í dag, aðeins hálf eða knapplega hálf að verðgildi á við það, sem lánsupphæðin var fyrir 5–6 árum. Hér er því úr ærnu að bæta fyrir hæstv. ríkisstjórnarflokka, ef þeir ætla að tefla mönnum sínum fram til þess að gorta af því, sem þeir hefðu gert fyrir húsnæðismálin í landinu.